MyPolar

Beggja skauta byr

Author: Fiffi

  • 9. Eðlilegt ástand

    Það voru einkum þrjár ástæður fyrir því að ég hlustaði á Mig vinkonu mína tala um sína reynslu af geðhvörfum. Í fyrsta lagi vildi ég sýna henni stuðning, í öðru lagi vildi ég sýna nemendum hennar sem ég var að vinna með á þessum tíma að það væri mikilvægt að tala um geðheilbrigði – og svo vissi ég sem var, að ég hefði lifað við slæma geðheilsu síðan snemma á unglingsárum. Þarna hafði ég þegar verið hjá sálfræðingi í tæp tvö ár til að reyna að takast á við hana, en ekki að eigin frumkvæði. Ég var vanur að lifa á þennan hátt og hélt bara að svona væri lífið, að fljúga eftir gölluðum mælum – feta kræklótta stigu. En um marga ára skeið hafði fyrrverandi eiginkona mín nefnt við mig að ég ætti nú sennilega að ræða við einhvern. Að endingu fór hegðun mín út fyrir öll þolmörk svo mér var beinlínis gert að leita mér hjálpar. Það var á einhverjum erfiðasta tíma lífs míns og eitt það erfiðasta sem ég hef gert um ævina – en jafnframt það besta sem hefur hent mig.

    Nú færi ég mig úr því að tala um hugmyndafræði; það hvernig ég þurfti að nálgast hugmyndir mínar um lífið á nýjan hátt til að koma hausnum í nýjan gír til að takast á við það sem hafði fylgt mér alla ævi, og tala um það sem hann þurftir að takast á við. Mína eigin reynslu af lífinu með einkennum sem hafa kastað mér til og frá; veitt mér orku, hugmyndaauðgi, áræðni og ýmislegt jákvætt – en sömuleiðis kostað mig gleði, gæðastundir, fjármuni og hamingjuna, oftar en einu sinni. Sum þessara einkenna eru fyrirferðarmeiri en önnur, sum eru mér erfiðari en önnur, sum hafa meiri áhrif á umhverfi mitt og fólkið í kring um mig en önnur og þar fram eftir götunum. Eftirleiðis verða þessi skrif mín persónulegri og sennilega eins berskjölduð og þau geta orðið. Eins og ég treysti mér til allavega. Ekki bara í þessari færslu, heldur öll skrif héðan í frá. Ég er sannarlega til í að ræða þetta allt saman í persónu og þykir það orðið lítið mál – svo ekki vera feimin við að nálgast mig eða ræða við mig, eins og nokkur hafa þegar gert. Til þess er leikurinn beinlínis gerður. En ég bið um nærgætni og virðingu, kannski einmitt helst þegar ég er ekki hluti af samtalinu. Athugið að ég mun ræða um erfið málefni. Í þessari færslu ræði ég sjálfsvígshugsanir, svo nálgist skrifin af varkárni héðan af. Kannski eru þetta viðfangsefni sem þú veist að hafa áhrif á þig, kannski veistu ekki að þau munu hafa áhrif á þig fyrr en að lestrinum loknum.

    Mér var ungum ljóst að ég glímdi við þunglyndi. Það gerði fyrst vart við sig þegar ég var um þrettán ára aldur. Ég hafði farið í stóra og mikla aðgerð á baki vegna hryggskekkju, þar sem bakið á mér var rist upp, hryggurinn réttur af og tveir málmteinar skrúfaðir fastir við hann til að halda honum beinum. Ég man ekki hvort aðgerðin tók sex klukkustundir og ég óx um fjóra sentimetra, eða hvort hún tók fjóra tíma og ég óx um sex sentimetra – en ég gleymi því aldrei þegar ég stóð upp, degi eða tveimur seinna, að munurinn var augljós. Ég var óneitanlega hávaxnari. Eftir aðgerðina lá ég á barnaspítala Hringsins í tvær vikur svo hægt væri að fylgjast með mér og veita mér endurhæfingu. Ég þurfti að glíma við ýmislegt sem ég reiknaði ekki með. Í nokkra mánuði á eftir gat ég til dæmis ekki hnerrað. Líkaminn fór af stað, dró djúpt andann, en hætti alltaf við á seinustu stundu. Þegar líkaminn loksins treysti sér aftur til þess að hnerra skildi ég afhverju hann beið svona lengi. Við hnerra þenst brjóstholið hægt út og herpist svo hratt saman til að þrýsta loftinu út úr líkamanum. Þetta tók í alla vöðva og alla nýja íhluti, og var eitt það sársaukafyllsta sem ég hef upplifað. En ákvörðunin var ekki meðvituð – líkaminn tók hana af sjálfsdáðum svo ég einfaldlega gat ekki hnerrað þó ég reyndi. Skýrt dæmi um hvernig sum virkni er ekki beinlínis á manns eigin höndum.

    Almennt er litið á það sem svo að geðhvörf geri vart við sig um 25 ára aldur, en þó allt niður í 15 og upp í 50. Mögulega fyrr – einkum ef einstaklingur upplifir áfall eða mikið inngrip í lífinu. En þá eru batahorfur taldar síðri.

    Á spítalanum var ég þátttakandi í tilraun þar sem sjúklingar fengu tækifæri til að verkjastilla sjálfa sig. Ég var tengdur við morfíndælu og hafði hjá mér hnapp sem skammtaði mér morfín þegar ég þrýsti á hann. Þetta var þó ekki opinn bar; dælan takmarkaði magnið hverju sinni og lágmarks tími þurfti að líða á milli skammta, svo ég gat ekki skammtað mér endalaust sama hversu oft ég þrýsti á hnappinn. Hluti af tilrauninni var einmitt að fylgjast með því hversu oft sjúklingur biður um verkjastillingu, til að meta ástand hans. Það er nefnilega auðveldara að ýta á takka en að biðja manneskju um verkjastillingu. Þá þarf maður að viðurkenna fyrir einhverjum að manni líði illa. Hugsa ég. En ég var logandi hræddur við þessa dælu. Ég hafði heyrt um morfín úr skáldsögum og sjónvarpsþáttum, vissi að það væri mjög ávanabindandi og lægi beina leið til glötunar. Enda kom á daginn að ég skammtaði mér mun minna morfín en læknar og hjúkrunarfræðingar höfðu gert ráð fyrir. En mér varð líka flökurt af því, svo kannski spilaði það inn í. Ofan í morfínið fékk ég samt ýmsa aðra verkjastillandi kokteila í töfluformi. Ég á skýra minningu um að liggja í sjúkrarúminu, upplifa mikla sælu og finnast ég svífa.

    Eftir sjúkrahúsleguna lá leiðin heim til Ísafjarðar. Ég átti að halda mig heima við í sex vikur til viðbótar, áður en ég færi aftur í skólann. Það hefur þá verið undir lok janúar, ef mér reiknast rétt til. Fljótlega upp úr þessu öllu fór að bera á mikilli vanlíðan hjá mér. Mér finnst samt eins og hún hafi verið þarna áður. Kannski var ég bara önugt barn. Erfiður. Ég man allavega að ég var frekar fúll og kaldhæðinn á spítalanum, eins og mátti búast við af mér á þeim tíma. Kannski ekki skrítið svona snemma á unglingsárunum, en það var eitthvað þarna á undan. Ég átti félagslega erfitt uppdráttar í skóla. Tala gjarnan um að ég hafi orðið fyrir einelti en við þessi skrif átta ég mig á öðru. Ég upplifði bæði vináttu og mótlæti á víxl frá sama fólkinu. Fólk sem voru vinir mínir en líka einhvernveginn andstæðingar. Oft var mjög gaman – en oft fékk ég að finna fyrir því. Sem ruglar mögulega meira í manni. Kannski var þetta samt ekki einelti, heldur bara hegðun barna. Leið til að tjá gremju eða ögra. Kannski tók ég þessu bara einstaklega illa af því að mælarnir mínir voru vanstilltir og ég var fastur á stígum sem hentuðu ekki aðstæðum. Hefði getað svarað öðruvísi eða tekið þessu með ró. Kannski átti ég þátt í að búa til þessar aðstæður. Hvað sem því leið fannst mér ég ekki alltaf eiga samleið með jafnöldrum mínum. Fannst ég einangraður. Utangarðs. Þetta snarsnerist við á unglingsárunum en upplifun mín frá því sem áður var sat eftir. Stíganir voru troðnir svo ég sá heiminn oft í þessu samhengi. Að ég væri velkominn en á sama tíma óvelkominn. Skemmtilegur en óþolandi. Félagsskapur – eða vinur – Schrödingers. Enn í dag eimir af þessu ef þannig blæs; óöryggi í samskiptum við mitt nánasta fólk, viðbúinn því að vera útskúfað. Hafnað. Þessir félagslegu þættir fannst mér vera ein ástæða fyrir vanlíðan minni. Önnur ástæða fyrir þessum drunga var auðvitað aðgerðin. Já eða öllu heldur öll verkjalyfin. Ég dró þá ályktun, þrettán ára gamall, að ég væri í fráhvörfum. Og með þessar ástæður var hægt að stemma vanlíðanina af. Hún átti sér skýringar og myndi því sennilegra lagast eftir því sem aðstæður myndu breytast. Hún var því eðlileg. Svona væri lífið bara.

    En hún lagaðist ekkert. Hún var alltumlykjandi. Mér leið líkamlega illa og einangraði mig. Grét sárt og mikið. Eftir því sem leið á vorið var ég aðframkominn og dag nokkurn þegar ég kom heim úr skóla ákvað ég að þessu yrði að ljúka. Æskuheimili mitt er á þriðju hæð í blokk svo það lá beinast við. Ég sótti eldhúskoll, setti hann niður upp við svalahandriðið og steig upp á hann. Þar stóð ég um stund, svo sár og aumur, ímyndaði mér að lenda á stéttinni fyrir neðan. Velti því fyrir mér hvort það dygði til. En að lokum varð eitthvað til þess að ég kom niður af kollinum aftur. Þetta ástand, þessi upplifun, hafði mikil áhrif á mig og í dæmigerðu unglingarifrildi við móður mína slengdi ég því framan í hana að ég vildi enda líf mitt. Sem hendi væri veifað var ég sendur í minn fyrsta sálfræðitíma. Sálfræðingurinn var skólasálfræðingur Grunnskólans á Ísafirði og mamma fylgdi mér, allavega í fyrsta tímann. Í þessum tíma lærði ég nokkuð sem ég hafði ekki vitað áður, en hálfbróðir mömmu hafði svipt sig lífi sex árum áður svo ekki aðeins hafði hún miklar áhyggjur af mér, heldur hafði einnig upplifað áfall af þessum meiði. Ég man ekki hvað tímarnir urðu margir, en mér fannst þeir ekki gagnlegir. Kannski var ég ekki móttækilegur fyrir meðferð á þessum tíma, hvort sem er sökum aldurs eða ástands, eða kannski náðum við sálfræðingurinn bara ekki saman. Sálfræðingar eru eins og elskhugar. Suma smellur maður saman við – en stundum væri betur heima setið.

    Þegar leið á unglingsárin hélt sársaukinn áfram. Þá tengdi ég hann einmitt aldursskeiðinu. Hormónasveiflunum sem við höfðum verið vöruð við í kynfræðslu í sjötta bekk. Aftur mátti stemma hann af. Eflaust tengjum við flest við angist frá þeim tíma sem var svo eðlileg um stundarsakir, en mörgu okkar fjarlæg minning í dag. Getum hlegið að. Svo aftur var þetta eðlilegt ástand og myndi líða hjá. En áfram hélt það. Á þrítugsaldrinum, í bakkalár- og meistarnámi, og sjálfstætt starfandi eftir það, hélt ég áfram að sveiflast. Ég reyndi að halda sjó en vanlíðanin spanaðist reglulega upp í mér þangað til ég gat ekki meir. Mjög títt endaði ég hágrátandi á eldhúsgólfinu heima hjá mér, sannfærður um gagnsleysi mitt, hvað ég væri mikill ónytjungur, hvað öllum væri illa við mig. Eða öllu heldur – sama um mig. Eðlilega. Hvernig ég myndi aldrei áorka neinu í lífinu, hvað ég hataði sjálfan mig. Hvað ég vildi ekki lifa. Hver einasta fruma í líkamanum var þanin og kramin á sama tíma. Sársaukinn tilfinnanlegur um allan líkamann. Ef einhverjir stígar voru malbikaðir í mínu landi urðu það þeir og það hefur kostað óhemju vinnu að rífa þá. Á þessu tímabili var ég hættur að hugsa um ástæður fyrir líðaninni. Bara orðinn vanur henni. Þetta ástand gat varað undir klukkustund, en vanalega í nokkrar. Að því loknu stóð ég upp aftur og leið eins og ekkert hefði í skorist. Dustaði af mér rykið, þurrkaði augun og horið og hélt brattur áfram með lífið. Eftir sat fyrrverandi eiginkona mín, eflaust úrvinda af tilfinningalegu álagi. Ofhleðslu. Ef ekki í losti. Alltaf hvatti hún mig af einlægni og umhyggju til að leita mér hjálpar. Alltaf svaraði ég því til að þetta væri allt í lagi. Mér liði betur núna og þetta myndi sennilega ekkert gerast aftur. Sem ég endurtók – aftur og aftur.

    Ég man ekki hversu langan aðdraganda fyrstu sjálfsvígshugsanir mínar höfðu en allar götur síðan hef ég upplifað þær títt, en þó mis alvarlegar. Þar til nýlega allavega, því þær eru að mestu liðnar hjá – að því er virðist. Er á meðan er. Eins og með annað fannst mér þær bara eðlilegur hluti af lífinu. Þær voru gjarnan tengdar hæð, rétt eins og þessi fyrsta tilraun. Fyrsta atrenna. Eftir skóla var ég stundum samferða mömmu heim úr vinnunni, þegar hún starfaði í mötuneyti Stjórnsýsluhússins á Ísafirði. Mötuneytið er á fjórðu hæð hússins en í gegnum húsið er stórt op á milli hæða til að hleypa dagsbirtunni um allt hús. Á jarðhæð stendur stór gosbrunnur í formi skúlptúrs úr steini og teygir sig allavega vel upp á aðra hæð. Hæsti hluti hans er í laginu eins og ílangur þríhyrningur. Risastór hurðarstoppari upp á rönd. Ógjarnan stóð ég við handrið þessa ops á meðan ég beið eftir mömmu og gat mér til um árangurinn af því að henda mér fram yfir það og lenda á bakinu á gosbrunninum. Með stálið í bakinu. Ég hef staðið á öðrum svölum um ævina og hugsað um að ljúka þessu lífi. Sviðsturnar leikhúsa eru á bilinu 15-30 metra háir og inni í þeim ýmiskonar tæknihæðir með handriði. Af og til fer hugurinn með mig út á ystu nöf og þá grípur um mig tilfinning sem ég þarf að fjarlægjast. En tilfinningin sér líka um það sjálf. Einhverskonar þversögn sem ég kann ekki að skýra. Eitt sárasta skiptið var í Mílanó, á tískuviku, þar sem ég gisti á fimmtu hæð í fjölbýlishúsi og átti einstaklega erfitt um langt skeið. Aftur fann ég mig standandi úti á svölum, upp við handriðið, horfandi niður. Samt langar mig alveg gífurlega í teygjustökk, fallhlífastökk, svifflug og þess háttar – án þess að hugsa mér neitt illt. Bara af spenningi og forvitni. Ég hef einnig ímyndað mér bílslys – einkum þegar ég er við stýrið, velt því fyrir mér að beita eggvopni og víða erlendis er í raun ósköp lítið mál að henda sér fyrir lest eða jarðlest. Tekur í raun aðeins eitt skref á réttum tíma. Kannski er það af sama meiði og að henda sér fram af svölum eða úr annarri hæð. Þetta voru hugsanir og tilfinningar sem ég bar með mér hvert sem ég fór, í handfarangri.

    Þegar ég hugsa um það getur eiginlega ekki verið að ég hafi ekki upplifað vanlíðan lengi. Það er mjög ólíklegt að ég fari beint í sjálfsvígsham fáeinum mánuðum eftir að ég merki þunglyndi. Og þó, kannski er það bara einmtitt meinið. Kannski var það einmitt svona svart og sogaði mig hratt niður. En þunglyndi mitt hefur birst á fleiri vegu. Ég hef upplifað doða, æsing, örgvæntingu. Man eftir að vera á leið heim úr skóla eða vinnu í London en lagt leið mína um skranverslun og reynt að sannfæra mig um að kaupa eitthvað. Þar stóð ég svo bara, dofinn. Ég veit ekki hversu lengi – mögulega upp undir klukkutíma, starandi í einhverjar hillur. Á sama tíma hef ég setið í bíl fyrir utan heimili mitt og veigrað mér við því að stíga út úr honum. Áræðni og ákveðni ég gat bara ekki afborið veröldina. Kannski taldi ég mér trú um að orsök vanlíðunarinnar væri innan veggja heimilisins, þegar hún var í raun aðeins innra með mér. Ég man líka eftir að hafa sett hljóðan eftir rifrildi við fyrrverandi eiginkonu mína. Ekki þannig að ég ætlaði að beita þögninni sem valdatæki – hljóðri meðferð (e. silent treatement). Ég kom einfaldlega ekki upp orði í nokkra daga.

    Sumarið sem ég hlaut greininguna varði ég miklum tíma með bróður mínum og fjölskyldu hans. Þau gáfu mér mikið rými til að ræða og vinna úr lífi mínu í nýju ljósi, svo úr varð að við ræddum sennilega allt sem hægt var að ræða. Meðal þess var arfgengni geðhvarfa, en við bræðurnir erum gjörólíkir. Hann er mun rólyndari en ég, yfirleitt í miklu tilfinningalegu jafnvægi og hugsar nokkuð skýrt. Það eru mun meiri læti í mér, ég glími við meiri tilfinningasveiflur, er fyrirferðarmeiri og að mér sækja hugsanir úr öllum áttum í einu. Hann tekur eftir föðurfjölskyldu okkar, ég eftir móðurfjölskyldunni. Skýrt og greinilega. Það var samt ekki eins og ég slengdi öllu gallerýinu framan í þau – ég þurfti að vinna upp kjark. Að endingu gat ég talað um sjálfsvígshugsanir mínar. Mig minnir að ég hafi haft að því smá aðdraganda og lauk frásögninni á því að segja að ég hefði glímt við sjálfsvígshugsanir mestan hluta ævinnar, þarna sirka 37 ára gamall. Viðbrögðum hans gleymi ég aldrei. Hvorki fyrr né síðar hef ég séð nokkra aðra manneskju missa andlitið eins stórfenglega. Þessar fregnir fengu augljóslega á hanna og í örstutt augnablik sat hann svona líka opinmynntur og með augun glennt. Hann er ekki smávaxinn maður, yfir tveir metrar á hæð, en þetta stóra, góðlega andlit varð allavega tveimur númerum stærra. Hakan náði langleiðina niður á gólf. „Ha!? Hefurðu upplifað sjálfsvígshugsanir?“ sagði hann áhyggjufullur. Samstundis sýndi ég eiginlega nákvæmlega sömu viðbrögð: „Ha!? Hefur þú ekki upplifað sjálfsvígshugsanir?“ Svo eðlilegar þykja mér þær að ég á erfitt með að ímynda mér að þær sæki ekki á flest fólk nokkuð reglulega.

    Í færslunni um greiningarferlið mitt talaði ég um skilyrðin sem þarf að uppfylla til að hljóta greiningu. Skilyrði sem mér fannst ég ekki uppfylla, sérstaklega ekki tímamörk. Ólíkt því hvernig þunglyndi er gjarnan lýst hef ég aldrei misst dag úr vinnu, alltaf komist fram úr rúminu, sjaldan misst matarlyst, verið sljór, áhugalaus eða upplifað önnur einkenni þunglyndis í að minnsta kosti tvær vikur samfleytt. Yfirleitt upplifi ég þessi einkenni í snörpum, skörpum dýfum. Þegar ég les aftur yfir listann og hef leitt hugann betur að ferlinu sé ég að ég hef kannski horft fram hjá ákveðnum atriðum, eða hef ekki áttað mig á samhenginu. Ekki skilið að ákveðin hegðun hefur verið tengd geðheilsu minni – heldur bara fundist hún eðlileg. Segin saga. Ég átta mig einnig á því að nálgun mín á geðrænt sjálfsmat mitt var mögulega gölluð. Fyrir utan að ég vildi náttúrulega stíga á pall í öllum keppnisgreinum – þó að skýrt sé tekið fram að aðeins þurfi að mæta hluta greiningarviðmiðanna – var ég að reyna að greina þunglyndi annarsvegar og oflæti hinsvegar. Þessu ætlaði ég svo að púsla svo saman í geðhvörf. En þunglyndi birtist mögulega aðeins öðruvísi í fólki með tvískautaröskun en fólki sem glímir eingöngu við þunglyndi og því þarf að lesa greiningarviðmið bipolar frekar en aðskildra atriða. Svo má ekki gleyma blönduðum lotum (e. mixed episodes), síkvikum sveiflum (e. rapid cycling) eða hringhygli (e. cyclothemia). Reyndar kalla greiningarviðmið geðhvarfa eftir sömu greiningarviðmiðum þunglyndis sýnist mér. En svo er þetta aftur persónubundið. Hvílíka völundarhúsið.

    Ég fer oft með fólki í leikhús sem hefur ekki formlega leikhúsmenntun að baki. Þegar ég spyr þau að sýningu lokinni hvað þeim fannst rekja þau skoðanir sínar fyrir mér en af einhverskonar óöryggi klykkja gjarnan út með orðunum „en ég er svosem ekki sérfræðingur.“ Svar mitt við því er alltaf „já en þú ert áhorfandi og átt ekki að þurfa að vera sérfræðingur.“ Samt finnst mér ég þurfa að vera hafa allt á hreinu til jafns við langskólagengna fagaðila til að eiga rétt á heilbrigðisþjónustu. Dirfast að ónáða þessa lærðu meistara. Mögulega vegna þeirra viðbragða sem ég hef fengið frá fagfólki og lýsi í fyrri færslum. Og þó er það öllu alvarlegra ástand en hvernig léleg uppfærsla á lélegum söngleik lagðist í einn tiltekinn áhorfanda.

    Ég las mér til um möguleg veikindi mín til að hafa einhverja stoð fyrir grun mínum. Til að geta leitað mér hjálpar á vandvirkan hátt. En eftir því sem vitneskja mín um geðhvörf óx jókst einmitt efi minn um að ég væri gjaldgengur í klúbbinn, eins og ég hef áður sagt. Einhverskonar Dunning-Kruger loddaraheilkenni. Ég skoðaði þessi einkenni sem ég hef talið upp og mátaði mig við þau. Í upphafi fannst mér margt ekki eiga við og það tók mig nokkurn tíma að átta mig á hvernig sértækari einkenni taka á sig mynd þó að einkennum sé lýst á frekar almennan hátt. Stutt frásögn sem hjálpaði mér að átta mig á því var ung kona sem sagði frá bróður sínum. Hann var afburða námsmaður, fyrirliði í íþróttaliði í skólans, vinamargur, hjálpsamur, leiðtogi og sífellt glaður. Fyrirmynd. Samt fyrirfór hann sér. Hann þjáðist augljóslega án þess að hafa sýnt þess hefðbundin merki. Hvort sem frásögnin er sönn eða ekki tengi ég við hana. Þetta varð mér áminning í hvert skipti sem ég efaðist um gildi upplifana minna og er það enn í dag.

    Hér fyrir neðan eru greiningarviðmið DSM-5 fyrir alvarlegu þunglyndi, eftir því sem ég best fæ séð og viðvaningslega þýtt. Þessi upptalning er ekki mikilvæg frásögninni. Þið getið skimað yfir þessa hana eða jafnvel skautað fram hjá. En ég læt hana fljóta með í heild sinni fyrir þau sem hún gæti gagnast.

    • Fimm (eða fleiri) af eftirfarandi einkennum hafa verið til staðar á sama tveggja vikna tímabili og tákna breytingu frá fyrri virkni; að minnsta kosti eitt af einkennunum er annað hvort (1) depurð eða (2) áhugaleysi eða ánægjuleysi. Athugið: Ekki skal telja með einkenni sem greinilega má rekja til annars sjúkdóms.
      • Þunglyndur stærstan hluta dagsins, næstum alla daga samkvæmt huglægri umsögn (t.d. líður illa, er tómur, vonlaus) eða athugasemdum annarra (t.d. grátandi eða virðist gráta)
      • Marktækt minnkaður áhugi eða ánægja af öllum, eða næstum öllum athöfnum stærstan hluta dagsins, næstum alla daga (samkvæmt huglægri frásögn eða athugun)
      • Marktækt þyngdartap eða þyngdaraukning (breyting um meira en 5% af líkamsþyngd á mánuði), eða minnkuð eða aukin matarlyst næstum alla daga
      • Svefnleysi eða of mikill svefn næstum alla daga
      • Hughreyfilegur æsingur eða hughreyfiþroskahefti (e. psychomotor agitation or retardation) næstum alla daga (sem aðrir sjá, ekki aðeins huglægar tilfinningar um eirðarleysi eða að viðkomandi sé hægur)
      • Þreyta eða orkutap næstum alla daga
      • Tilfinningar um vera einskis virði eða óhófleg eða óviðeigandi sektarkennd (sem getur verið ranghugmynd) næstum alla daga (ekki bara sjálfsávítur eða sektarkennd vegna veikinda).
      • Minnkuð geta til að hugsa eða einbeita sér, eða óákveðni, næstum daglega (annað hvort samkvæmt huglægri frásögn eða eins og aðrir hafa séð)
      • Endurteknar hugsanir um dauðann (ekki bara ótti við að deyja), endurteknar sjálfsvígshugsanir án áætluna, sjálfsvígstilraun eða áætlun um sjálfsvíg.
    • Einkennin valda klínískt marktækri vanlíðan eða skerðingu á félagslegri, atvinnutengdri eða annarri mikilvægri virkni.
    • Lotuna má ekki rekja til lífeðlisfræðilegra áhrifa lyfja eða vímuefna, eða annarra heilsutengdra orsaka.
    • Þunglyndislotan er ekki betur útskýrð með geðklofa, geðhvarfaklofa (e. schitzoaffective disorder), geðklofalíkri röskun eða öðru tilgreindu og ótilgreindu geðklofarófi, og öðrum geðrofssjúkdómum.
    • Manía eða hýpómanía hafa aldrei átt sér stað (þó ekki ef einkenni sem líkjast þeim stafa af notkun ávanabindandi efna eða má rekja til áhrifa af völdum annarra veikinda).

    Ég vona að ég fari rétt með. Þetta er umfangsmikið og tyrft mál. Hughreyfiþroskahefti? Kannski á maður að segja hömlun. Íðorðabankinn hjálpar aðeins að vissu marki. Þessi listi er langur og flókinn, og á sínum myrkustu stundum er maður ekki best í stakk búinn til að fara í kalt og hlutlaust mat á lífinu. Maður er bara að hugsa um að lifa af. Svo hjálpar auðvitað ekki að flestar upplýsingar eru settar fram sem gátlisti. Það er vissulega aðgengilegt form upplýsinga, en aftur eins og kröfur sem þarf að uppfylla. Kannski finnst mér það vegna þess að ég hef lengi verið ferladrifinn – mjög hrifinn af skilvirkni, framvindu og hönnuðum ferlum sem leiða til árangurs. Að hluta til hugsa ég að það megi rekja til skólakerfisins. Ég þarf að hoppa í gegnum eina gjörð til að komast á næsta stig. Þar tekur við önnur gjörð og svoleiðis er það í fjórtán ár, að minnsta kosti, fyrir þau okkar sem hófu grunnskólagöngu sex ára og fóru beint í fjögurra ára menntaskólanám á sínum tíma. Svo heldur þetta vissulega áfram á öðrum skólastigum. Til að allt gangi sem best er öruggast að mæta sem flestum skilyrðum. Það er skilgreindasta leiðin til að halda áfram í gegnum lífið. Eða kannski skilyrtasta. Þannig hlýtur maður einnig mesta viðurkenningu. Valíderingu. Hitt er kannski líklegra, að skilgreindir ferlar, reglur, fastmótaðar hefðir og skýr mörk séu mér öruggt skjól. Að það sé stuðningsnet sem ég þurfti á að halda þegar tilfinningarnar og skynjun á umhverfi mínu er öfgafull og síbreytileg. Hækjur til að styðja sig við. Mastur til að binda sig við á meðan skútan velkist um eins og korktappi í stormi og ólgusjó.

    Síðasliðinn vetur leitaði ég til Píeta samtakanna í fyrsta skipti, í kjölfar eins af erfiðustu tímabilum lífs míns. Ég fjalla nánar um þetta tímabil í öðrum pistli, en þetta var áhugaverð framvinda. Ég hef lengi tekið virkan þátt í ýmsum árveknisátökum um bætta geðheilsu, einkum á samfélagsmiðlum. Ég deili færslum og sögum frá öðrum notendum, hvort sem það eru fagaðilar, samtök eða einstaklingar sem vilja bæta hana. Viljað leggja mín lóð á vogarskálarnar. Haustin eru nokkuð þétt pökkuð, einkum með þeim tveimur stærstu: Alþjóðadegi sjálfsvígsforvarna (e. World Suicide Prevention Day – WSPD) 10. september í ár og Alþjóða geðheilbrigðisdeginum (w. World Mental Health Day – WMHD) 10. október í ár. Í gegnum WSPD deildi ég færslum á instagram og facebook sögunum mínum, enda raunverulega annt um málefnið. Á sama tíma skalf ég af vanlíðan og ef ég var ekki grátandi þá barðist ég við að halda aftur af tárunum. Allan heila daginn. Ég deildi færslum erlendis frá með símanúmerum, netföngum og tenglum þeirra landa – og tók svo saman ýmiskonar úrræði og símanúmer á Íslandi í eina færsluna. Það var ekki fyrr en daginn eftir, þegar ég var enn í hnút, að ég áttaði mig á því að ég ætti kannski að fara að eigin ráðum. Mér sem er svo annt um að opna umræðuna og koma úrræðum á framfæri fyrir annað fólk flaug ekki einu sinni í hug að ég ætti sjálfur að hafa samband. Sennilega, eins og ég held áfram að klifa á, því mér fannst þetta bara eðlilegt ástand. Þetta væri ekki gilt (e. valid). Myndi líða hjá.

    Umhyggjan frá starfsfólki samtakanna var ljós um leið og svarað var í símann. Ég hef sjaldan átt eins hlý og nærgætin samtöl eins og við þetta fólk, hvort sem var í símann eða í persónu. Ég óskaði eftir aðstoð og eftir innihalds- og stuðningsríkt samtal var mér sagt að haft yrði samband eins fljótt og auðið er. Einhverju síðan þurfti ég reyndar að ganga á eftir þeim, en mér finnst það helst til marks um þörfina á þjónustunni og hversu takmarkað er hægt að veita hana þrátt fyrir allan vilja þeirra sem það gera. Ég fékk að endingu boð í einstaklingsviðtal, um einum og hálfum mánuði eftir að ég hringdi fyrst. Ég vissi að ég yrði að bíða en vitneskjan um að ég fengi viðtal hélt mér gangandi. Þegar í viðtalið var komið fannst mér ég enn einu sinni þurfa að sanna mig. Mæta kröfum. Sýna ferilsskrána. Að mér liði nógu illa, væri nógu illt og væri nógu mikil alvara með að vilja binda enda á líf mitt til þess að það væri hægt að bjóða mér aðstoð – ekki síst því samkeppnin er hörð á svona mettuðum markaði. Aftur var mér svo boðið í einstaklingsviðtal, tveimur vikum seinna og að því loknu var mér boðið í svokallaða DAM (e. DBT – dialectical behavioural therapy) hópmeðferð. Þarna hafði ég verið í einstaklingsmeðferð í fjölda ára og hafði svosem vitneskju um hópmeðferðir en samt óaði mér við tilhugsuninni. Að sitja í hópi ókunnugra og deila því sem ég hafði varla getað sagt nokkurri lifandi manneskju frá í gegnum ævina. Hugmyndin er þó einmitt sú – að segja frá, að mynda samfélag sem deilir hugsunum sem maður hélt að maður sæti einn uppi með.

    Meðferðin reyndist mér mikið gæfuspor og hópurinn var dásamlegur. Eflaust hjálpaði mér að hafa verið í gagnlegri sálfræðimeðferð, á lyfjum og vinna gagngert í mínum málum. En það ætti þó ekki að þurfa svo ekki láta það stoppa þig í að hafa samband. Hvert okkar hafði auðvitað sína sögu að segja og við vorum ótrúlega dugleg að styðja við hvert annað með opnum huga og gæsku að leiðarljósi. Við vorum á öllum aldri og mörg búin að reyna ýmislegt til að takast á við hugsanir okkar. Sum okkar deildu gömlum hugmyndum og aðrar nýjar urðu til. Við hittumst vikulega, tvo tíma í senn, fyrst í húsnæði Píeta samtakanna en þegar leið á reyndust þau illa farin af myglu og óheilnæm – eins og augljóslega hafði verið lögð mikil natni við að gera þau falleg og hlý til móttöku fólks á sínum erfiðustu stundum. Ég tek þetta og biðina fram til þess að þörf samtakanna á fjárstuðningi sé ljós. Þau eru algjörlega ofhlaðin. Eins og fólkið sem þarf á þjónustu þeirra að halda. Á vefsíðu Píeta má finna leiðir til að styrkja samtökin eða versla af þeim. Þú gætir gert margt vitlausara við peninginn þinn.

    Eitt dæmi um það sem ég lærði hjá Píeta samtökunum var um flótta eða árásarviðbrögð (e. fight or flight response). Ekki svo að skilja að ég hafi ekki vitað um þau. Hugmyndafræðilega hef ég lengi vitað um fight, flight, freeze or fawn – eða árásarviðbrögð, flóttaviðbrögð, frostviðbrögð eða – hin nýjustu – þóknunarviðbrögð – það að vilja þóknast í öllum aðstæðum til að lægja öldurnar. Stöðva áreitið með meðvirkni. Þetta eru fjögur helstu viðbrögð einstaklinga við streitu og áreiti og koma fram þegar líkaminn skynjar ógn eða hættu, hvers eðlis sem hún er. Oft held ég að mælarnir séy vanstillitir – að það sé í raun ekki hættuástand þó að mér líði þannig. Ég hafði bara aldrei mátað mig við þessi viðbrögð. Þegar ég var yngri hugsa ég að ég hafi miklu oftar beitt árásarviðbrögðum, en í seinni tíð frýs ég mun oftar en ég hefði reiknað með. En þetta er ekki blátt áfram. Mismunandi aðstæður geta kallað á mismunandi viðbrögð hjá manni sjálfum og þau eru jafnvel mismunandi eftir því hver á í hlut. Enn frekar ruglar mig að ég stend mjög fast á fótunum í mínu starfi. Get svarað flóknum og erfiðum spurningum án mikillar umhugsunar, hvort sem þær eru listrænar eða tæknilegar. Ég bregst hratt og af festu við áskorunum. Rökræði við leikstjóra og meðhönnuði um dramatúrgíu undir tímapressu, útskýri erfiðar en nauðsynlegar breytingar fyrir tækniteyminu eða sný teymi arkitekta og rafmagnsverkfræðinga á sveif með mér við hönnun stórra leikhúsa. Og það án þess að vera aggressívur – jafnvel bara með sjarma og glettni. En frostviðbrögðin koma fram í mínum allra nánustu samböndum, sem má sennilega telja á fingrum annarrar handar. Svo hef ég ekki litið á viðbrögð mín sem frost, heldur sem rými sem ég vil gefa fólki til að segja sína skoðun. Rými sem ég þarf að taka mér til að melta samtalið. Viljað svara af nærgætni. En það virðist kannski vera áhugaleysi. Uppgjöf. Jafnvel útspil. Af því fjölmarga sem ég tek með mér úr þessu ferli með Píeta samtökunum er þessi skilningur á streituviðbrögðum líkamans eitt það dýrmætasta.

    Í gegnum tíðina hef ég gjarnan heyrt fólk tala óvarlega um sjálfsvíg, sjálfsvígstilraunir og fólk með sjálfsvígshugsanir. Sum segja að það sé eigingjarnt að binda endi á líf sitt og skilja aðstandendur eftir með sorg í hjarta og að þau sem geri tilraunir til sjálfsvígs séu „bara að kalla á hjálp.“ Það ætti samt að vera dagljóst að ekkert leikur sér að eldinum á þennan hátt, í hálfkæringi. Slíkt er í besta falli skilningsleysi en í versta falli fyrirlitning. Fólk á þessum stað í lífinu sér ekki út úr myrkrinu og telur sig ekki eiga annarra kosta völ. Í raun eru sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir mjög skiljanleg viðbrögð, ef út í það er farið. Líkaminn gerir jú hvað sem þarf til að koma sér undan óþægindum og sársauka. Ef þig klæjar, þá klórarðu þér yfirleitt án umhugsunar. Það tekur örstutt augnablik. Ef þú brennir þig á höndinni eða rekur tærnar eða höfuðið í kippirðu þeim að þér, aftur án umhugsunar. Hlúir að þeim. Höndina flýtirðu þér að setja í kalt vatn. Tekur um tærnar eða höfuðið. Nuddar eða strýkur, eins og til að dreifa sársaukanum. Dæsir eða jafnvel bölvar. Allt til að miðla sársaukanum og vernda líkamann. En hvað gerir hann þegar það er ekki hægt að klóra þessar tilfinningar í burtu, eða kippa að sér útlimum? Þegar maður er gegndrepa af sársauka, hvernig hann svosem birtist? Kannski sér líkaminn bara eina leið út – þegar allar taugar eru þandar út fyrir mörk sín er eina ráðið mögulega að binda endi á allar tilfinningar. En kannski koma upp villuboð við þessar aðstæður. Líkaminn er gerður til að lifa sem lengst af og þar sem hann vill verja sig með því að binda endi á líf sitt, vill hann líka verja sig gegn því að deyja. Í sumum tilvikum allavega. Í öðrum ber sársaukinn fólk ofurliði.

    Eftir að hafa fundist sjálfvígshugsanir ósköp eðlilegur hluti lífsins, eins og ég hef margoft sagt – og tekið gagnrýninni hikstalaust, því auðvitað er ég sjálfselskur og hef rangt fyrir mér – þá lít ég þetta sjónarhorn nú öðrum augum. Fólk sem líður þessar vítiskvalir og lifir engu að síður af eru hetjur. Það krefst ógurlegra krafta að berjast við sjálfsvígshugsanir og í þessu ástandi er fólki yfirleitt ekki sjálfrátt. Ekki ganga út frá því að það hafi ekki hugsað um allar hliðar málsins á einhverri stundu – sennilega hefur það ofhugsað þær – en á sama tíma geti ekki afborið neina hugsun þegar það er sem rist upp af sársauka. Ég man allavega ekki til þess að ég hafi nokkurntíma hugsað rökrétt í þessu ástandi, vegið eða metið kosti og galla. Aðeins viljað hætta að þjást.

    Ef þú eða eitthvert sem þú þekkir upplifir sjálfsvígshugsanir skal tafarlaust leita hjálpar. Þetta er mjög mikilvægt og á að vera óumsemjanlegt. Þetta eru hugsanir sem einstaklingurinn ræður ekki við og ekki hugmyndir sem á að veita hæfilegt rými eins og stjórnmálaskoðunum eða smekk. Þær þarf að grípa umsvifalaust. Mér var einu sinni sagt að leita mér hjálpar ef ég upplifði sjálfsvígshugsanir, en mér fannst þær auðvitað svo eðlilegar að ég eiginlega tók ekki mark á þessum ráðum. Ekki viljandi, heldur bara meðtók þau ekki. Kom þau ekki í hug á ögurstundu. Hugsaðu þig aftur um – og einu sinni enn – ef það ert þú sjálft sem upplifir þær og þú mögulega getur. Ekki hika ef þú heyrir af þeim frá öðrum. Það að leita sér hjálpar er ekki skömmustulegt. Líttu frekar á það sem að kveikja á vasaljósi þegar rafmagnið fer.

    Athugið að eftirfarandi upplýsingar eru eins réttar og framast er unnt þegar þessi færsla er birt. Ef upplýsingum er ábótavant skal haft samband við neyðarlínu.

    • Neyðarlínan – sími 112. Allar upplýsingar segja að í neyðartilvikum eigi að hringja í neyðarlínu, en ég á erfitt með að átta mig á hvenær sjálfsvígshætta er ekki neyðartilvik. Að mínu viti ætti það alltaf og undantekningalaust að vera fyrsta viðbragð. Þetta er lífsspursmál. Viðkomandi er fast í brennandi húsi – ekki að fást við smá skeinu sem jafnar sig.
    • Bráðamóttaka geðþjónustu Landspítala við Hringbraut – sími 543 1000
      • Bráðamóttaka geðþjónustu er staðsett á fyrstu hæð í geðdeildarbyggingunni við Hringbraut og er opin kl. 12:00-19:00 virka daga og kl. 13:00-17:00 á frídögum. Utan þess tíma er hún staðsett á bráðamóttökunni í Fossvogi.
      • Bráðamóttaka barna- og unglingageðdeildar (BUGl) – Ekki er opin bráðamóttaka á BUGL heldur þarf alltaf að hringja í afgreiðslu í síma 543 4300 milli kl. 08:00 og 16:00 virka daga. Utan dagvinnutíma er bent á bráðamóttöku barna á Barnaspítala Hringsins og bráðamóttökuna í Fossvogi. Bráðateymi BUGL er staðsett við Dalbraut 12, 105 Reykjavík. Gengið er inn frá bílastæði Dalbrautarmegin.
      • Almenn bráðamótttaka í Fossvogi er opin allan sólarhringinn
      • Almenn bráðamóttaka barna er á jarðhæð Barnaspítala Hringsins, opin allan sólarhringinn
    • Bráðamóttaka geðsviðs Sjúkrahússins á Akureyri – sími 463 0202
      • Sími alla virka daga frá kl. 8 til 12 – 463 0202. Legudeild geðdeildar SAk veitir sólarhrings- og dagþjónustu. Í forgangi eru bráðveikir sjúklingar með geðrofseinkenni og í sjálfsvígshættu. Legudeild – gengið er inn um inngang B.
    • Hjálparsími Rauði krossins 1717 – sími 1717 (opið allan sólarhringinn)
    • Netspjall 1717.is (opið allan sólarhringinn)
    • Píeta samtökin – sími 552 2218 (opið allan sólarhringinn)
    • Bergið headspace – fyrir ungt fólk að 25 ára aldri (opið 09:00-17:00 nema á frídögum. Nánari upplýsingar á heimasíðu.)
    • Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins – sími 1700 (opið allan sólarhringinn)
    • Netspjall Heilsuveru (opið 08:00-22:00)
    • Sorgarmiðstöð – fyrir þau sem misst hafa ástvin (opið fyrir skrifstofusíma þriðjudaga og fimmtudaga 09:00-12:00, nema yfir frídaga. Nánari upplýsingar á vefsíðu.)
    • Heilsugæslustöðvar um allt land

    Það er góðra gjalda vert að geta leitað sér hjálpar á elleftu stundu, en ég hvet þau sem glíma við erfið og óstjórnleg geðbrigði, sem og aðstandendur þeirra, að leggja áherslu á forvarnir. Einhverntíma þegar þú ert í jafnvægi skaltu vera heiðarlegt við sjálft þig og eiga samtal við eitthvert sem þú treystir. Segðu frá því að þú glímir öðru hvoru við sjálfsvígshugsanir og að þú viljir fá stuðning þegar óviðrið geisar. Ekki dramatísk viðbrögð, heldur yfirveguð. Það gerir það miklu einfaldara að fást við þær þegar þær bresta á. Bara eins og að segja frá því að þú gætir fengið svo slæmt asthmakast að þú getir ekki tjáð þig – en þá vantar þig helst bláa pústið og nærð kannski að benda á hvar þú geymir það. Þú vilt ekki þurfa að hringja í slökkviliðið og bíða eftir þeim á meðan húsið þitt brennur. Þú vilt að húsið sé byggt úr eldtefjandi efnum, setja upp reykskynjara, hafa slökkvitæki og eldvarnarteppi við höndina. Geta tekist á við staðbundinn eld áður en hann breiðir úr sér og gleypir allt í sínum vegi. Ég veit samt að það er ekki auðvelt og ekki eitthvað sem fólk á að áfellast sig fyrir – það getur verið ógvænlegt að slökkva eld þó lítill sé. En förum saman á eldvarnarnámskeið. Skyndihjálparnámsekið. Ef þú vilt máttu hafa samband við mig og æfa samtalið með mér áður en þú talar við fólkið þitt. Kannski þarftu að byrja á einum vin áður en þú talar við annan og vinna þig þannig að þínu nánasta fólki. Það þurfti ég allavega. Þannig öðlastu líka smám saman yfirráð yfir þínum veruleika – þinni sögu – svo að það verður auðveldara að eiga við.

    Í öllu falli hef ég lært að góðu stundir lífsins eru meira virði en flótti frá þeim sársaukafullu og vona að hvert ykkar sem kljáist við viðlíka hugsanir komist á sama stað, hversu löng og ströng sem sú leið er. Hún er margfaldlega þess virði og mun auðveldari en þig gæti grunað ef þú færð með þér meðreiðarsveina.

  • 8. Landgræðslan

    Það erfiðasta við að tileinka sér nýja þekkingu er ekki að tileinka sér nýja þekkingu.

    Ég las nýlega yfir seinustu færslu og hugsaði með mér að þetta væru nú kannski frekar almennar hugleiðingar sem ég setti þar fram. Einfaldar viðlíkingar sem flest fólk gæti búið sér til og sett í samhengi. En við upphaf þessa ferðalags var mér hreinlega um megn að ná utan um tilfinningalíf mitt. Ég man ekki nákvæmlega hvernig það er orðað, en í samnefndu öndvegisriti síðdramatísks leikhúss (e. post dramatic theatre) talar höfundurinn, Hans-Thies Lehman, um það hvernig mannshugurinn nær aðeins utan um hugmyndir og hugtök að vissu marki. Séu þær yfirgengilegar að stærð er fólki illmögulegt að ná utan um þær. Mig minnir að hann taki dæmi um dýr af ímyndaðri stærð – hundruði metra að lengd. Stórar tölur eru annað dæmi um þetta flest fólk hefur ekki auðveldlega tilfinningu fyrir muninum á einni milljón og einum milljarði. Til að setja það í samhengi eru milljón sekúndur um ellefu og hálfur dagur, á meðan milljarður sekúndna eru 31,7 ár.

    Svona leið mér með tilfinningar mínar. Þær voru stærri og meiri en ég gat skilið og þær ráðskuðust með mig. Ég var beinlínis farinn að sjá þær fyrir mér utan við líkama minn og leit á sem svo að sálin væri hreinlega af einhverjum öðrum meiði en líkamlegum. Einhverskonar óræð orka. Og þó held ég að ég sé nú ekkert ofboðslega illa að mér. Einu sinni var mér bent á að þetta gæti verið hættuleg hugsun; að án þess að gera mér grein fyrir því liti ég á það sem svo að ég væri ekki ábyrgur fyrir þeim. Það vel athugað og hefur gefið mér margt að hugsa um, en að sama skapi held ég og vona að ég hafi reynt að halda eins fast utan um þær og ég gat. Svo þessar viðlíkingar hafa verið mér nauðsynlegar. Þær hafa verið lítil skref til að venja mig við nýjar hugmyndir og hafa með tímanum gert mér fært að takast á við aðrar, stærri, flóknari og enn nytsamari hugmyndir. Þær eru grunnurinn að bættri líðan minni, þó ég hugsi kannski ekki mikið um þær nú til dags.

    Svo áttaði ég mig á því að það eru aðrar ástæður fyrir því að ég tala almennt. Annars vegar er ég að undirbyggja stærra samhengi, leiða frásögnina þaðan sem hún hófst og þangað sem hún er komin. Hinsvegar er það einmitt hvert frásögnin mun fara. Ég vil vera opinskár í þessari frásögn en það er ekki auðvelt að tala um það sem hefur valdið manni svona miklum erfiðleikum og svona miklum sársauka. Ég er að taka tillhlaup. Safna kjarki. Hreinskilni með atrennu.

    Stundum getur verið best að koma sér beint að efninu – en sum ferðalög eru löng og í því felst ávöxturinn sem þau bera.


    Eitt af því sem ég lærði um, snemma í þessu ferli, eru taugabrautir (e. neural pathways). Í grunninn eru þær líffræðilegt ferli þess hvernig líkaminn tengir saman taugar í heilanum til að auðvelda gagnaflutning um hann eftir þeim leiðum sem við kjósum að þjálfa. Í leikhúsbransanum myndi tæknifólk sennilega kalla þetta patch – það hvernig rafmagns- og gagnalagnir (harðvíraðar og stafrænar) liggja á milli tækja í leikhúsinu, eftir flóknum en um leið gífurlega sérsníðanlegum leiðum (eftir þörfum) til að tengja saman ólík kerfi (ljós, hljóð, mynd, svið o.þ.h.) með fjölmörgum ólíkum gagnasamskiptareglum og þjóna verkefnum í eins víðu samhengi og kostur er. Taugabrautir eru í raun grunnurinn því hvernig við lærum og munum. Hvernig við búum til rökrásir, ef fólk er á rafeindafræðilegum nótum. Þessi nálgun er mjög rökræn og líffræðileg, þvert á það hvernig ég lýsi fyrri hugmyndum mínum hér að ofan. Ég man ekki hvað varð til þess að lærdómur um taugabrautir urðu hluti af þessu ferli, en það skipti sköpum. Það hjálpaði gríðarlega að skilja hvernig tilfinningar og skynjun ferðast um líkamann og losa mig undan þessari hugmynd að þær væru utanaðkomandi, sem rímar nokkurnveginn við að sem ég hef áður sagt um leið mína að hugleiðslu. Ég held ég hafi áður sagt að hafi átt erfitt með að bera saman núverandi hugmyndir um lífið og þær sem ég bý að núna, eftir þessa miklu sjálfsvinnu. E það er einmitt tilfellið hér svo það er ljóst að vinnan hefur borið árangur. Ég á mjög erfitt með að sætta þessi ólíku viðhorf og finnst mjög skrítið að ég hafi hugsað svona. En svona er þetta víst – æfingin skapar meistarann. Eftir ýmiskonar lestur og samtöl við sálfræðinginn minn og geðlækninn minn – og mikil heilabrot – náði ég smám saman utan um þessa nálgun. Rétt eins og það að þjálfa vöðva líkamans breytir uppbyggingu þeirra breytist samsetning taugabrauta í heilanum beinlínis eftir því sem heilanum er beitt. Ætli ég hafi ekki einmitt staðið í umfangsmiklum skipulagsbreytingum á taugabrautum á þessum tíma?

    Til varð enn ein viðlíkingin sem hjálpaði mér að átta mig. Hugsaðu þér víðfeðmt og nokkuð slétt landslag, gróið svo langt sem augað eygir. Þetta er algjörlega ósnert land. Á því eru engin merki um mannaferðir og um það liggja ekki vegir, stígar eða slóðar. Þú þarf að leggja leið þína í gegnum þetta landslag en þú þekkir það ekki og veist ekki hvaða leið er best að fara til að komast á áfangastað. Í raun veistu heldur ekki hver áfangastaðurinn er. Þú arkar af stað – kannski af áræðni, kannski af varfærni – og að endingu kemstu á leiðarenda. Kannski fórstu beint af augum, kannski fórstu óþarfa krókaleið. Á bakaleiðinni fetarðu mögulega í sömu för eða prófar kannski aðra leið. Kannski af ævintýragirni – kannski því þú ratar ekki sömu leið til baka. Þeim mun oftar sem þú ferð um landið lærirðu að þekkja það og finnur að endingu leið sem hentar þér. Sneiðir hjá fyrirstöðum, finnur kannski náttúruleg för og svo framvegis. Eftir fyrstu ferðina er varla að sjá merki um umferð en því oftar sem sama leiðin er gengin treðst niður slóði. Gróðurinn tætist smám saman upp og jarðvegurinn þéttist svo með tímanum grær ekkert þar því ekkert nær að skjóta þar rótum. Til þess þarf jarðvegurinn að vera lausari í sér. Það myndast stígur.

    Þeim mun oftar sem sama leiðin er farin, þeim mun greiðfærari verður hún og augljósari. Þetta landslag er hugurinn. Það sem við iðkum verður beinlínis að stíg í huga okkar. Eðli málsins samkvæmt myndast fyrstu stígarnir í æsku. Í fyrsta lagi er landslagið ósnert, í öðru lagi er heilinn hvað deigastur á þeim tíma, einkum framheilinn, en sömuleiðis skilja fyrstu skrefin jafnan eftir sig dýpstu sporin. Kannski af þessum ástæðum. Þegar mótun heilans er lokið, við um tuttugu og fimm ára aldur, kemur svo oft á daginn að stígarnir sem barnið lagði eru ekki endilega hentugustu leiðirnar fyrir hinn fullorðna einstakling – ekki síst því hinn fullorðni einstaklingur hefur líkamlega og andlega færni umfram barnið. Kannski voru stígarnir mótaðir við beina kennslu, kannski í leik, kannski í gleði eða kannski af ótta við eitthvað sem viðkomandi ímyndaði sér – nú eða upplifði. Sem gefur að skilja eru elstu stígarnir þeir þéttustu og fjölförnustu. Við þekkjum þá best og eftir atvikum veljum við þá í flestum tilfellum langoftast. En við ferðumst auðvitað ekki ein um þetta land. Til að byrja með – og lengi framanaf – erum við í fylgd fullorðinna. Þau leiða okkur um og passa upp á okkur hvað þau best geta. Þekkja þetta tiltekna land ekki að ráði, en hafa ferðast um önnur lönd og geta bent okkur á ýmislegt (mis)gagnlegt. Seinna meir erum við meðal annars í fylgd með vinum, öðrum fjölskyldumeðlimum og vinnufélögum. Það er ekki að ástæðulausu sem það er kallað samferðafólk. Lífið er hópferð og við deilum þessum stígum saman. Í mörgum tilfellum er auðveldara að fylgja hópnum. Því fylgir minna vesen, minni mótstaða og svo er hópurinn kannski með áætlun sem leyfir ekki útúrdúra eða krókaleiðir. Einhver fara sínar eigin leiðir. en það kostar úthald, þor og þrautsegju – enda mætir það oft ýmiskonar mótstöðu. Oftast er það þó vel þess virði.

    Einn af mikilvægustu lífsbjargareiginlegum manneskjunnar er einmitt að læra með því að herma eftir öðru fólki, einkum á unga aldri. Tiltölulega nýlega (uppúr 1980/1990, þó við dræmar undirtektir vísindasamfélagsins þangað til snemma 2000) hafa kennsl verið borin á sérstakar taugafrumur sem hafa með þessa færni að gera, sk. spegiltaugafrumur (e. mirror neurons, eigin þýðing – https://en.wikipedia.org/wiki/Mirror_neuron). Þessi eiginleiki er sérstaklega mikilvæg þegar kemur að ýmiskonar grunnfærni, sérstaklega máltöku og þar með samskiptum og tjáningu. Undir það fellur einnig hvernig við orðum hugsanir fyrir okkur sjálfum og þar af leiðandi hvernig við leggjum okkar stíga og á hvaða forsendum. Það læra börn sem fyrir þeim er haft. En það sem við öpum upp eftir öðrum er ekkert víst að henti okkur sjálfum. Eins er allt eins líklegt að fólkið sem við hermum eftir – einkum foreldrar og forráðafólk – hafi sína þekkingu af því að herma eftir sínu forráðafólki. Ég nefndi að fullorðið fólk reynis að passa upp á börn hvað best það getur, en það þýðir ekki að það sé alltaf svo gott. Fólk hefur aðeins úr því veganesti að spila sem það hefur fengið. Þetta er samt ekki allt svo galið. Sumt er í raun mjög nytsamlegt. Ýmislegt má kalla fjölskylduvenjur eða hefðir. Annað er „eins og við höfum alltaf gert í þessari fjölskyldu.“ Það er í grunninn ekkert að því – en það er heldur ekki heilbrigt að fylgja tilteknu hegðunarmynstri án þess að rýna í það. Ef það er góðra gjalda verð ætti það að standast skoðun – sem er þó auðvitað huglæg. Þannig, kynslóð fram af kynslóð, hafa óhentugar brautir myndast, ásamt hentugum, í hugum alls fólks. Við sitjum að einhverju leyti föst í gömlum förum án þess að hafa fengið miklu um þau ráðið. Það tekur tíma og töluverða endurspeglun að átta sig á því hvað hentar ekki og svo kostar gífurlega vinnu við að finna útúr því hvað það er sem okkur sjálf langar svo til að gera.

    Hér er ég kannski farinn að tala um það sem ég myndi kalla sálrænt, í stað þess sem er geðrænt. Öll höfum við sálarlíf og til einföldunar mætti segja að við höfum mögulega öll sömu forsendur til þess. Geðheilsan er svo kannski mismunandi í grunninn. Það má kannski líkja því við að ganga upprétt. Langstærstur hluti mannkyns hefur færni til að ganga á fótunum – en alls ekki við öll. Það geta verið undirliggjandi ástæður eins og erfðafrávik, sem veldur lömun, vanþroska í fótum eða öðru. Það getur líka verið að fæturnir virki fullkomlega, en annarskonar frávik valda því að þeir nýtast ekki sem skyldi. Sum okkar geta aldrei gengið á meðan önnur geta það, þó með talsvert meiri fyrirhöfn en þau sem fæðast án fyrirstöðu. Eins geta slys átt sér stað, sem hamla göngu tímabundið eða til frambúðar, óviðbúið. Á vaxtarskeiði ungmenna getur verið erfitt að kunna fótum sínum forráð þar sem líkaminn lengist hratt og títt – og ójafnt. Á sama tíma lífsins eiga sér einnig stað breytingar í heilaþroska, hormónabúskap og öðru sem hefur mikil áhrif á geðslagið. Nú, ef að manneskja með einhverskonar hreyfihömlun fær stuðning, þjálfun og stoðtæki getur vel verið að hún geti gengið með mun minni fyrirhöfn en fólk með samskonar hreyfihömlun sem nýtur ekki stuðnings. Eins getur vanræksla orðið til þess að börn þroskist ekki eins og það hefði annars burði til. Á sama hátt getur gott sálrænt atlæti haft uppbyggileg áhrif á geðheilsu – og öfugt. Þetta er mikil jafnvægislist en það er hætt við að fólk hugsi ekki út í það. Geri það besta sem þau geta, en aðeins á þeim grunni sem það er reist.

    Mismunandi aðstæður hafa svo áhrif á stígana. Þegar rignir blotnar jarðvegurinn svo sumur gróður hefur minni festu og tætist við minni fyrirhöfn. Blautur jarðvegur fyrirliggjandi stíga þéttist líka meira en þurr, augljós fótspor eða hjólför myndast en drullan getur verið erfið yfirferðar. Á hinn bóginn tætist gróður sömuleiðis upp við mikinn þurrk og jarðvegurinn bregst öðruvísi við en blautur. Merkilegt nokk tekur ofþornaður jarðvegur verr á móti vætu en jarðvegur við hefðbundið rakastig. Þess vegna er hættara við flóðum eftir þurrkatíð þó halda mætti að jörðin gleypti í sig vætu þegar hana vantar mest. En alvarlega vannærð manneskja byrjar ekki á að gleypa í sig veislumáltíð. Líkaminn ræður ekki við það. Það þarf að venja hann við. Þegar langþráð vökvun kemur loksins er hugurinn kannski ekki fær um að höndla hana. Fólk sem hefur ekki vanist því að upplifa umhyggju eða gæsku kunna ekki alltaf að taka á móti eða treysta.

    Svo eru sumir stígar beinlínis lagðir af ásetningi. Hannaðir. Samþykktir í nefnd. Jarðvegurinn er grafinn upp og malarundirlag lagt í skurðinn, jafnvel í nokkrum mismunandi lögum. Hann er svo þjappaður með vélum og í hann borin ný möl reglulega. Sumir stígar eru jafnvel hellulagðir eða malbikaðir, já og auðvitað akvegir. Fastsettir og óhagganlegir – rétt eins og sumar hugsanir sitja pikkfastar í hugum okkar. Vissulega mun náttúran vinna bug á því að endingu, en það kostar óhemju tíma, orku og þrautsegju. Ummerki um svoleiðis veg verða sennilega til staðar um alla eilífð. Eins eru ekki aðeins fótgangandi sem geta sett mark sitt á landslagið. Sé meira afli beitt, til dæmis ef farartækjum eða vinnuvélum, myndast greinileg för. Utanvegaakstur er sýnilegur í margar kynslóðir – rétt eins og það sem brýtur gegn velsæmd okkar, siðferði og mörkum. Sinubruni gæti átt sér stað þegar grasið hefur sölnað í þurrki eða meðfram hausti. Allar hugmyndir um lífið fuðraðar upp. Við ýktar aðstæður, sem eru kannski ekki svo ýktar á íslenskan mælikvarða, mætti ímynda sér að jarðhæringar hefðu áhrif á landslagið. Það gæti sigið, risið, gliðnað eða jafnvel runnið undir hraun. Ekkert fengist við ráðið. Áfall.

    En það vill svo til að í þessu gróðursæla landslagi við algengustu aðstæður, milt veðurfar, án utanvegaaksturs, jarðhræringa og þess háttar, er nokkuð einfalt að troða niður nýja stíga. Það kostar nákvæmlega jafn mikla vinnu og að troða niður gömlu stígana. En eftir því sem við eldumst höfum við að fleiru að huga en að tileinka okkur nýjar hugmyndir og nýja færni – auk þess sem að fyrir eru fullt af stígum sem skila okkur meira eða minna á leiðarenda og er mun auðveldara að fara um.

    Einfalt dæmi um nýja og gamla stíga úr eigin ranni eru söngtextar og ljóð. Ég hef alltaf átt mjög auðvelt með að læra texta utanbókar og þeir sitja jafnan kyrfilega fastir í hausnum á mér. En það er galli á gjöf Njarðar. Ef ég læri hluta textans rangt, kannski eitt orð eða eina setningu, þá er nánast borin von að breyta því. Sé ég leiðréttur tek ég því vel en þó eru allar líkur á því að ég fari áfram rangt með textann, til dæmis þegar ég söngla með útvarpinu eða syng hástöfum í gítarpartýi. Um leið og ég sleppi röngu línunni átta ég mig, en þá er það of seint. Þessir stígar liggja nánast samsíða en mér er miklu tamara að ferðast um hinn gamla. Best væri ef að gamli stígurinn hyrfi þegar sá nýi og samsíða væri troðinn niður. En það gerist ekki svo glatt. Þetta er eflaust af sama meiði og að sitja fastur í gömlum hugmyndum. Triggerast í tilteknum aðstæðum þó þær séu ólíkar þeim sem viðbrögðin eru ætluð.

    Það erfiðasta við að tileinka sér nýja þekkingu, eins og ég sagði, er ekki að tileinka sér nýja þekkingu – heldur að afleggja þá gömlu. Gleyma textanum sem ég lærði fyrst svo ég fari sjálfkrafa um nýjan stíg, án þess að þurfa að hugsa, sbr. seinustu færslu. En það gerist ekki. Þess vegna eigum við það til að bíta hlutina í okkur. Stígurinn er troðinn og honum fæst ekki haggað, jafnvel þó gild ástæða sé til. Við höfum í raun um tvennt að velja. Annað er að læra að feta nýja stíginn sama hvað tautar og raular og hætta að fara þann sem fyrir er. Í einhverjum tilfellum gróir yfir svoleiðis stíg, þ.e. nærliggjandi plöntur teygja sig yfir þá án þess að stígurinn sjálfur grói, svo hann hverfur sjónum þó í raun sé hann ennþá til staðar. Svo reynist fólki mis auðvelt að hætta að fara gamlar leiðir og það að stígurinn sé ennþá þarna býður alltaf upp á þá hættu að við föllum beinlínis í gamalt far. Hitt væri að græða stíginn upp. Uppræta hugmyndir og hugsanir svo stígurinn sé ekki fær aftur, en falli þess í stað inn í landslagið að nýju. Það er ekki ómögulegt – en það kostar þónokkuð framtak. Við áttum okkur á því að ekkert vex í stígunum því jarðvegurinn er svo þéttur að ekkert festir þar rætur. Vatn nær ekki djúpt ofan í jarðveginn, fræ ná ekki að spíra, það kostar plöntur meiri orku að vaxa inn í slíkan jarðveg en þann sem er lausari í sér og maðkar og skordýr grafa hann ekki auðveldlega í sundur. Best væri að tæta jarðveginn upp svo um hann losni að nýju. Pægja hann. Sveifla haka. Það gæti þurft að bera í hann og eftir aðstæðum sá. Í einhverju tilfellum er rétt að leyfa þeim gróðri sem fyrir er að taka smám saman yfir, en það fer eftir eðli málsins. Höfum við tíma til að bíða eftir því? Skapar þessi stígur hættu fyrir þau sem um hann fara, eða fólkið í kring um þau? Gæti maður freistast til að fara hann á meðan hann er enn ógróinn og þar með unnið gegn markmiðinu? Grær brotið skakkt ef það er ekki stífað? Ef um meiriháttar rask er að ræða þyrfti kannski að leita sérfræðiþekkingar. Kalla til landslagsarkitekta, líffræðinga, skógræktarfræðinga eða þess háttar. Kannski stórvirkar vinnuvélar. Eitthvað þyrfti að bisa ef um malbik er að ræða en allt er jú hægt. Í mörgum öðrum tilvikum er þetta þó sem betur fer nokkuð einfalt. Einfalt – en ekki auðvelt. Það þarf jú að ganga nýju stígana nógu oft til að þeir troðist jafn mikið niður og leiðirnar sem hafa verið gengnar áður. Eðlilega tekur því lengri tíma að temja sér nýjar venjur en þær sem hafa fylgt manni um allan aldur. En þar með er ekki öll sagan sögð.

    Landslagið er ekki bara gróið og slétt. Blessunarlega – en líka bölvanlega. Þetta slétta landslag táknar vitaskuld huga sem glímir ekki við (mikla) geðræna erfiðleika. Huga sem er fær um að mótast tiltölulega óhindrað. Ímyndum okkur nú aðrar aðstæður. Bratta, grýtta og illfæra fjallshlíð. Í þessari hlíð er ekki um margar leiðir að velja og ekki hlaupið að því að leggja stíga þvers og kruss. Í henni eru færri stígar og þeira falla inn í fálita og gróðursnauða hlíðina – ekki mjög sýnilegir nema vönu fólki og í besta falli torfær. Hluta hans þarf kannski að klífa og til þess þarf styrk. Jafnvel sérútbúnað. Aðstæður eru mjög krefjandi. Ferðalag um svona stíg útheimtir meiri orku en á sléttu landslagi. Einbeitingu. Kjark. Sumt fólk er betur í stakk búið til slíkra ferðalag en annað fær engu um það ráðið hvort það þarf að fara um þennan stíg eða ekki. Landslagið gæti einnig verið viðkvæmara og raskast án þess að það sé ætlunin, til dæmis þegar manni skrikar fótur. Veður geta líka verið vályndari til fjalla og svo hjálpar ekki að vera lofthrædd eða í slæmu formi. Ég er vissulega ekki að tala um öll fjöll. Þau eru flest falleg, tignarleg, geta veitt skjól og boðið ótrúlegar upplifanir. Þetta er bara einfalt dæmi til að teikna einfalda mynd.

    Við megum ekki við eins miklu við erfiðar aðstæður. Orkan sem fer í að ganga upp fjallið er meiri en færi í að valhoppa um undirlendið. Í fjallinu getur verið erfitt að finna skjól, en undir því má leggjast á grasbala og baða sig í sólinni. Þetta landslag er landslag þess sem á við geðræna erfiðleika að etja. Þunglyndi, geðhvörf, geðklofa, persónuleikaröskun eða annað. Hugur fólks sem glímir við alvarlegar geðraskanir er ekki gróðursælt og slétt landslag þar sem allar leiðir eru færar. Það sem væri öðru fólki minniháttar rask á undirlendi getur verið fólki með geðrænan vanda eins og utanvegarakstur í íslenskri náttúru. Þetta getur verið líf þar sem hvert minnsta skref gæti haft djúpar og langdregnar afleiðingar, svo hverju þeirra fylgir streita, óvissa og óöryggi.

    Gefum okkur að taugabrautir myndist við tiltölulega eðlilegar aðstæður. Stundum er gaman – stundum ekki. Stundum er maður hress – stundum óhress. Stundum kennir forráðafólk okkur beinlínis – stundum óbeint. Stundum gleðja þau mann, stundum skamma þau mann. Stundum á maður í kærleiksríkum samskiptum – stundum er maður að rífast. Þær geta myndast í píanótímum, á íþróttaæfingum, í afmælisveislu, á ferðalagi og þar fram eftir götunum. Þær snúast ýmist um að læra eitthvað nýtt eða iðka það sem maður hefur lært og taka lit af þeim aðstæðum sem þær verða til við. Í hvert skipti sem við upplifum eitthvað lærum við eitthvað. En hvað með óeðlilegar aðstæður? Hvað með að upplifa öfgafullar hugsanir sem maður ræður ekkert við? Myndast taugabrautir einnig við slíkar aðstæður? Ef ég upplifi þunglyndislotu og þær hugsanir sem þeim fylgja, er ég þá búinn að greiða veginn fyrir þeim þegar ég er í jafnvægi? Á það sama við um oflætislotu? Kvíðakast? Þráhyggju? Hef ég búið við afleiðingar þess án þess að hafa haft um það val eða gert mér grein fyrir því? Fundist það eðlilegt?

    Kannski mætti einnig tala um geðraskanir sem veður. Það er sannarlega í takti við það hvernig ég upplifi tilfinningar mínar. Ég á kannski leið um víðfeðmt og slétt landslagið – en það gengur ítrekað á með éljum. Svo léttir til. En skömmu seinna kemur hellidemba. Svo kemur aftur gott veður. Of gott. Sólin verður brennandi heit og allt skrælnar. Þó að landsvæðið sé greiðfært þá setur veðrið strik í reikninginn. Það má auðvitað búa sig undir mismunandi aðstæður, en það kostar meiri farangur að búast við hverju sem er – hröðum sveiflum úr nístingskulda yfir í steikjandi hita. Í hvert skipti sem þarf að skipta um útbúnað þarf að stoppa, taka hann upp og pakka hinum. Þetta er ekki bara þreytandi til lengdar, þetta verður slítandi. Vonlaust. Hvaða nafni sem fólk vill gefa sínum aðstæðum, sitja þær upplifanir sem verða til við þær í okkur þá stuttu stund sem lægir? Þeim skolar á land yfir stíg við sjávarsíðuna, eins og hverjum öðrum fjörugróðri. Eða hefur veðrið beinlínis rifið upp malbikaða göngustíga eins og er ekki óalgengt á Íslandi? Slíkt gerðist í vetur sem leið á Seltjarnarnesi. Það þurfti samhent átak til að hreinsa grjót af stígum og golfvellinum og gera við stíginn. Að sama skapi þarf hver og ein manneskja stuðning til að takast á við óveðrið innra með sér því þetta er svo stórt og mikið verkefni. Við verstu aðstæður getur þurft að gera við varnargarða, eigi þeir áfram að sinna hlutverki sínu.

    Margt af því sem ég hef upplifað má rekja til því hvernig taugabrautirnar í hausunum á mér hafa þróast. Spenningur, gleði, kæti, textaminni, tónelska, gæska, atorkusemi, hjálpsemi, vinsemd, skopskyn, fegurðarskyn og svo framvegis – en einnig óöryggi, höfnunartilfinning, sjálfs(ó)mynd, þörf á viðurkenningu, depurð og fleira. Sumt af þessu þjónar mér ekki í dag en þróaðist sem sjálfsbjargartól þegar ég var barn. Stígarnir liggja þarna enn og stundum villist ég inn á þá af gömlum vana. En stundum hrekst ég líka þangað undan veðri. Ekki vegna þess að þeir eru skjólsælir, heldur vegna þess að þeir eru kunnuglegir og ég rata þá miklu betur. Í sambland verður upplifunin ýktari – þunglyndið dýpra og oflætið ýktara.

    Rétt eins og það kostar sértækar aðferðir, sérhæfð verkfæri og stundum mikla sérþekkingu til að græða upp land, þarf aðferðir, verkfæri og þekkingu til að greiða úr taugabrautaflækjunni sem hefur myndast í hausnum á okkur. Ég hef áður minnst á þessi atriði. Sálfræðimeðferðin mín hefur hjálpað mér að vinna nýtt deiliskipulag. Skilja hvaða stíga ég þarf að afleggja og hvar má leggja nýja. Lyf, hugleiðsla, líkamsrækt, hollt mataræði, reglubundinn svefn, heilbrigt og kærleiksríkt umhverfi og þess háttar hjálpa til við að lægja á veðurofsanum – eða standast hann betur. Og svo þarf auðvitað tíma. Að endingu gróir yfir gömul spor svo það verður auðveldara að feta hin nýju. En eins og ég sagi þarf að leggja vinnu í það. Það gerist allavega ekki af sjálfu sér.

  • 7. Á sjálfstýringu

    Með greininguna undir hendinni fékk ég nýja sýn á lífið. Í baksýnisspeglinum allavega. Svo margt sem ég hafði upplifað var sett í nýtt samhengi og þó að það hafi haft ákveðnar áhyggjur af framtíðinni í för með sér, fylgdi því einnig viss léttir. Kannski væri hægt að koma í veg fyrir ýmiskonar upplifanir til frambúðar með því að nálgast lífið á nýjan hátt. Mig langaði því að horfa aðeins til baka og skoða þetta samhengi. Um þetta leyti heyrði ég tvær óskyldar umfjallanir um karlmenn og tilfinningar sem áttu eftir að marka þessi fyrstu skref. Annars vegar var það í útvarpsþáttaröð á Rás 1. Hver þáttur hafði ólík efnistök og þessi tiltekni þáttur fjallaði einmitt um tilfinningar. Þáttastjórnendur voru tveir vel fullorðnir karlmenn og til þáttarins buðu þeir viðmælanda – þriðja karlmanninum á svipuðu reki. Þetta varð mjög spaugilegt, ef ekki hjákátlegt, samtal en saman viðurkenndu þeir að þeir væru ekki alltaf í sambandi við tilfinningar sínar og að þær væru aldeilis ekki sýndar eða ræddar svo neinu næmi. Sérstaklega ekki meðal karlmanna. Stuttu seinna sá ég í sjónvarpsfréttum um það bil 13 ára gamla stráka segja nokkurnveginn það sama. Ég vissi svosem að þetta væri viðhorfið meðal eldri kynslóða en hitt kom mér meira á óvart. Þetta varð til þess að ég fór að skoða tilfinningar í nýju ljósi og einkum af hverju það getur verið svona erfitt að tala um þær. Mér var enda ljóst að þær höfðu ráðskast töluvert með mig í gegnum tíðina.

    Smám saman komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta er þó ekki allskostar rétt. Karlmenn eru í raun mjög duglegir að tala um tilfinningar. Bara afmarkaðar tilfinningar eins og hungur, þreytu, hitastig, þorsta, losta, sársauka og þess háttar. Til einföldunar skulum við kalla þær líkamlegar tilfinningar. Kannski er auðvelt að tala um þær því þær eru mjög almennar og aðgengilegar. Við upplifum þær öll að einhverju marki og deilum þeim jafnvel, eins og þegar við borðum saman. Sköpum yfir þeim nánd og góðar stundir. Kannski er einfalt að tala um þær því það er tiltölulega einfalt að vinna úr þeim. Borða, sofa, drekka, taka verkjalyf. Karlmenn tala meira að segja nokkuð opinskátt um þessar tilfinningar og aftur er hungur augljóst viðfangsefni. Því þarf jú að sinna nokkrum sinnum á dag, skipuleggja með tillitil til næringargildis, tíma, útgjalda og svo framvegis. En stundum gera þeir gott betur en bara að ræða það um það á hagnýtan hátt. Þeir gera úr því tilefni. Af viðhöfn – já og tilfinningu! Grillveislur, veitingahúsaferðir – karlmannleg eldamennska – skoðanir á hvað telst almennilegur matur og hvað ekki. Ekkert helvítis pasta eða gras. Eitthvað vegan kjaftæði. Lambakjöt! Steikur! Njóta þess að finna bragð af mat og drykk og tala mikið um það. Eins þykir sumum karlmannlegt að vera aldrei kalt – „eingöngu á bol“ – og tala stórkarlalega um það. Sumir stæra sig af því að þurfa ekki mikinn svefn (en eru samt alltaf eitthvað pirraðir) – og sumir tala fjálglega um hvílubrögð sín.

    Einu sinni, þegar þegar ég viðraði þessar hugleiðingar mínar var læknir í hópnum. Hann var snöggur til svars og sagði að þetta væru reyndar alls ekki tilfinningar. Þetta væri bara eðlileg líkamsstarfsemi. Grunnþarfir. Mér fannst áhugavert að fá þetta viðmót frá lækni. Fagaðila í virkni líkamans. Sæmilega ungum lækni meira að segja. Mér fannst þetta líka til marks um dæmigert viðhorf til tilfinninga. Ekki endilega á neikvæðan hátt – kannski bara frá þröngu sjónarhorni. Því þarna vil ég nefnilega greina aðeins á milli. Myndir eru jú skýrari eftir því sem upplausnin er hærri. Þörfin, sjáiði til, er að fá næringu. Þörfin er hvíld. Þörfin er viðunandi hitastig. Þörfin er að fjölga sér. Allt snýst þetta um halda starfsemi líkamans innan ákjósanlegra marka og tryggja afkomu. Hann vill bara lifa af og býr að mjög frumstæðri forritun til að ná því markmiði. En þörfin er tjáð með tilfinningu. Tilfinningar verða einskonar mælar á þörfina. Eftir því sem líkamann vantar meiri næringu, þeim mun sárara verður hungrið. Og svo framvegis. Rétt eins og hitamælir hækkar eða lækkar í samhengi við hitastig. Tilfinningar eru í raun til aflestrar.

    Á hinn bóginn eru tilfinningar sem er erfiðara að rekja og greiða úr. Depurð. Kvíði. Reiði. Sektarkennd. Ótti. Skömm. Öll upplifum við þær líka að einhverju leyti en samt hefur lenskan verið að ræða þær minna. Já eða ekkert. Það flækir málin svo enn frekar þó að það sé oft erfitt að koma auga á uppruna þessara tilfinninga, þá er stundum hægt að benda nákvæmlega á hvaðan þær koma. Það hefur flest fólk skilning á því að einhver upplifi depurð eftir stórar og erfiðar breytingar í lífinu, svo sem ástvinamissi, slys, veikindi og þess háttar. Það er heldur ekki skrítið að einhver fyllist kvíða við atvinnumissi og hafi áhyggjur af framtíðinni. Þá er auðvelt að sýna samkennd og gefa fólki eftir smá slaka. En svo er fólk sem bara alltaf dapurt. Alltaf í kvíðakasti. Þá er nú klárlega eitthvað að. Þarf það ekki bara að taka sig á? Gera eitthvað í sínum málum? En hvernig á að laga eitthvað þegar bilunin er ekki ljós? Stundum vaknar kvíðinn nefnilega án sjáanlegra orsaka. Eins eru sumir dagar bara erfiðari en aðrir og það er ekki auðvelt að koma auga á af hverju. Einhvernveginn ógildir það tilfinninguna, að hún eigi sér ekki augljósar rætur, og þá vill maður ekki tala mikið um það. Eins og hún eigi ekki tilvistarrétt og að maður sjálfur verðskuldi þess vegna ekki ekki umhyggju eða mildi. Og hvað ætti svosem að gera í því? Það er engin lausn í sjónmáli hvort eð er.

    Ég man eftir tiltölulega nýlegu atviki þegar kvíði var farinn að byggjast upp innra með mér. Þetta var eitt af þessum sjaldgæfu skiptum þar sem ég tók eftir því og gat fylgst með honum vaxa. Reynt að grípa inn í áður en hann næði yfirhöndinni, þó það sé sjaldnast þannig. Ég hafði orð á því við fjölskyldumeðlim sem svaraði að bragði: „En þú hefur ekkert til að vera kvíðinn yfir!“ Þetta var vissulega sagt af bjartsýni og gæsku – meining var að líf mitt væri í meginatriðum nokkuð gott – en hjálpaði mér ekkert í þeim ástæðum sem ég var. Ekki frekar en að segja manneskju sem er kalt að það sé nú bara frekar hlýtt. En stundum slær bara að manni hrollur, alveg óháð aðstæðum augnabliksins. Það kom mér mest á óvart að ég hafði ómeðvitað vænst óhlutbundins skilnings án gildismats á því sem ég var að upplifa. Þegar hann fékkst ekki sló það mig aðeins út af laginu. Samt áttaði ég mig alveg á góðmennskunni. Þess utan fannst mér ég hafa alveg heilt gallerí af kvíðavaldandi atriðum til að velja úr, sem viðkomandi þekkti ekki til hlítar. En þetta var ekki svoleiðis kvíði. Hann bara mætti. Óboðinn.

    Þessar óræðari tilfinningar vil ég kalla andlegar tilfinningar, til aðgreiningar frá þeim sem ég nefndi áður líkamlegar. Í grunninn eru þær eins og þær líkamlegu – til marks um eitthvað sem þarf að takast á við. Horfast í augu við. Lifa með. Það bara ekki eins auðvelt. Það er ekki hægt að vinna úr þeim á augabragði með því að gleypa í sig samloku, drekka vatn, fara í þykkari peysu eða losa um kynferðislega spennu.

    Líkamlegu tilfinningarnar, tilfinningarnar sem segja til um grunnþarfir okkar, koma frá frumheilanum – stundum (ranglega) kallaður skriðdýraheilinn. Þar býr frumstæða forritunin sem ég minntist á. Þetta er sá hluti heilans sem hefur fylgt mannfólki í gegnum alla þróun, frá því að prímatar þróuðust fyrst fyrir 55 m. árum, frá því að spendýr þróuðust fyrst fyrir um 200 m. árum og sennilega lengur. Hann er ástæðan fyrir því að við höfum lifað af þetta lengi enda grunnþarfir mannfólks eru jú nokkurnveginn þær sömu og annarra lífvera. Svo þessar þarfir og tilfinningar eru pikkfastar í hausnum á okkur. Andlegu tilfinningarnar hafa líka fylgt okkur lengi, að einhverju leyti. Ótti bjargar okkur frá fífldirfsku, hræðsla og stress halda okkur á tánum þegar við þurfum að vera vakandi – hvort sem er á flótta undan villidýri eða í sjávarháska. En eftir því sem heilinn hefur þróast – bæði hjá einstaklingnum en einnig tegundinni í heild – takast þessar tilfinningar á við ýmiskonar aukna hugræna starfsemi. Sjálfsmynd, sjálfsöryggi, sjálfstraust, sjálfið – allskonar sálfræðilegt. Því hefur verið haldið fram að þær hafi sennilega orðið til þess að við gátum einmitt forðað okkur frá villidýrum eða hættulegum aðstæðum – en hafa einhvernveginn þróast útí að geta ekki svarað meinlausum tölvupóstum án þess að lenda í kvíðaspíral. Það er í raun kerfisvilla þar sem gamalt forritunarmál og nýrra ná ekki að vinna saman. En ég veit samt svosem ekkert um þetta og þetta er ábyggilega ofureinföldun hjá mér. Ef ekki beinlínis rangt. En svona skil ég það sem ég hef kynnt mér og þessi mynd sem ég teikna hjálpar mér að ná utan um miklu flóknara viðfangsefni. Annars er ég mjög til í að vera leiðréttur. Yfirleitt. Held ég.

    Svo ef tilfinningar eru algjört grundvallaratriði í lífsbjargarviðleitni okkar, af hverju er það skammaryrði að vera tilfinninganæmur. Viðkvæmur. Að láta stjórnast af tilfinningum sínum í stað þess að láta rökhyggju ráða leið. Ef við horfum á stóru myndina, þá stjórnumst við einmitt öll af tilfinningum. Og sem betur fer. Til er fólk finnur ekki fyrir sársauka. Þetta skapar þeim eintóm vandræði og er í raun mjög hættulegt. Þau vita ekki hvenær þau reka sig í, brenna sig, skera sig, eða hvort þau hafa brotið bein og svo framvegis. Skaðinn er vissulega skeður engu að síður – marblettir, brunasár, skurðir og brotin bein – en villuboðin berast bara ekki. Og þessi boð eru mikilvæg til að takmarka skaðann og hlífa líkamanum svo hann megi sem best gróa. Það á ekki að stíga af fullum þunga í fótinn ef ökklinn hefur tognað. Líkaminn beinlínis sér til þess að það sé ekki gert með því að senda tilfinningaboð.

    Svo þessi stýring er af hinu góða. Að vissu leyti förum við svo á sjálfstýringu. Við bíðum ekki eftir því að verða glorhungruð – við reynum að koma í veg fyrir það með því að borða reglulega. Og ef við verðum svöng þá þurfum við ekki að hugsa okkur um – við vitum alveg hvernig á að bregðast við. Ef við finnum fyrir kulda eða hita þá grípum við til aðgerða án þess að velta því of mikið fyrir okkur. Það er á þessum forsendum sem ég held að við reynum það sama með andlegu tilfinningarnar. Viljum bara losna við kvíðann, skömmina, stressið og það allt með einföldum aðgerðum. Við reynum meira að segja að beita sömu aðferðum og við frumtilfinningarnar. Borða þær frá okkur. Drekkja þeim í áfengi. Hlaupa undan þeim. Hrista þær af okkur á dansgólfinu. Kannski vegna þess að það virkar. Allavega tímabundið. Við erum nefnilega vön því að þurfa að endurtaka lausnina, út frá því hvernig líkamlegu tilfininngarnar virka. Borða oft á dag, sofa á hverjum sólarhring og svo framvegis. Eðlilega finnst okkur ekkert að því að þurfa að endurtaka einföldu lausnirnar við flóknu vandamálunum reglulega. En flóknari vandamál þurfa líka flóknari lausnir, í bland. Svo að vissu leyti er sjálfstýringin gagnleg – að öðru leyti er hún til vansa.

    Hugleiðingar um sjálfstýringu leiddu huga minn að flugvélum. Auto pilot. Þó má einnig finna þær í öðrum farartækjum og næst okkur eru sennilega sjálfkeyrandi bílar. Ef þeir eru ekki sjálfstýrðir að öllu leyti, þá að sumu leyti. Þá er hægt að stilla á tiltekinn hraða, jafnvel þannig að þeir slái sjálfkrafa af með tilliti til bíla fyrir framan sig. Þeir grípa líka í stýrið út frá akreinamerkingum og stilla sig af út frá umferðarskiltum. Ýla þegar bakkað er óþarflega nálægt nærliggjandi hlutum og klosshemla ef þörf er talin á. Greina jafnvel fólk og farartæki í kringum sig og sýna það á skjá í bílnum til að fólk læri að treysta þeim. Sjálfstýring í flugvélum er öllu flóknari, enda flugvélar töluvert flóknari farartæki. Sennilega með flóknari tæknikerfum sem búin hafa verið til. Hún stýrir hraða, hæð, stefnu, halla og eldsneytisnotkun, og heldur flugvélinni mun stöðugri en manneskja gæti nokkurn tíma gert. Sérstaklega yfir lengri tíma, þegar þreyta og stöðnun flugmanna gæti gert vart við sig. Þannig kemur hún í veg fyrir mannleg mistök, sem eru sennilega bæði tíðari og alvarlegri í flóknum aðgerðum. Við erum ekki endilega traustari en tæknin, þó við viljum oft trúa því.

    Sjálfstýringin starfar þó ekki ein og sér. Hún sér aðeins um útreikninga út frá umfangsmiklu kerfi mæla og skynjara sem mega hvergi geiga. Þetta eru ekki aðeins hæðarmælar og hraðamælar, heldur heildarkerfi sem tekur líka mið af loftþrýstingi, umhverfishitastigi, hitastigi hreyfla, hitastigi farþegarýmis, eldsneytismagni, álagsdreifingu, halla flugvélarinnar, snúningshraða véla, titringi, stöðu stýriflapsa, veðurspám sem berast utan frá og ýmsu fleiru. Hver mæling skiptir máli. Mælarnir segja til um núverandi ástand og á þeim grundvelli bregst sjálfstýringin við ásamt því að spá fyrir um breytingar. Þetta er samtengt kerfi sem tekur ákvarðanir á svipstundu án þess að efast um þær. Jafnvel andartaks hik gæti reynst dýrkeypt. Ef mælingarnar eru réttar, þá virkar sjálfstýringin óaðfinnanlega. Ef eitthvað breytist í umhverfinu – loftþrýstingur, vindátt, hraði – þá bregst kerfið við. Stillir af. Leiðréttir. Flugmaðurinn þarf aðeins að grípa inn í ef mikið bjátar á. Þetta er snjallt. Rökrétt. Skynsamlegt.

    Farþegar hugsa sjaldnast um þetta, nema kannski rétt þegar kveikt er á sætisbeltaljósunum. Við sitjum kyrr, flettum í afþreyingarkerfinu, vinnum, lesum eða dottum og göngum út frá því að flugið sé öruggt. Án þess að velta því mikið fyrir okkur treystum við tölvukerfi fyrir því að komast óhult á leiðarenda. Fyrir lífum okkar. Rétt eins og í mörgum lestum eða skipum. Til að svo megi vera þarf sjálfstýringin að virka fullkomlega – og til þess þurfa allir mælar líka að virka. Ef einhverju skeikar, eða ef mælir bilar, bregst sjálfstýringin við þeim upplýsingum, jafnvel með alvarlegum afleiðingum. Það þarf kannski ekki nema einn mæli til að skekkja myndina smávegis til að senda af stað keðjuverkun. Spíral. Og það af fullri sannfæringu. Útreikningarnir eru nefnilega ekki alltaf vandamálið. Stundum eru það gögnin sem kerfið er að vinna með sem eru röng. Kerfið gæti þó verið búið umfremd (e. redundancy) sem getur gert ráð fyrir röngum mælingum. Ef mælir dettur úr sambandi og skilar engum gögnum er mjög líklegt að kerfið átti sig á því. Þetta skilst mér að sé kallað hörð bilun. En ef mælirinn skekkist bara agnarögn og skilar röngum gögnum – en trúanlegum – þá er ekki víst að kerfið átti sig á því. Þetta kallast víst mjúk bilun. Það eru semsagt ekki alltaf afgerandi atvik sem slá allt út af laginu. Örlítil skekkja gæti ekki skipt miklu máli í augnablikinu, en til langs tíma getur fleyið borið langt af leið. Jafnvel án þess að tekið sé eftir því fyrr en komið er í óefni. Þannig renna ástarsambönd gjarnan út í sandinn.

    Ég á áþreifanlegt dæmi um skekkju í mælum – þó líkamlegt frekar en andlegt. Fyrir vikið er kannski auðveldara að skilja það. Þegar ég slagaði hátt í þrettán ára fór ég í mikla aðgerð á baki, sökum hryggskekkju. Hún heppnaðist vel og ég finn lítið fyrir afleiðingum hennar í dag, öðrum en jákvæðum. Af og til fæ ég þó ýmsa verki – vöðvabólgu, álagsverki eða þreytu, svo dæmi séu tekin. Yfirleitt geri ég ekki mikið úr þeim og vinn á þeim. En stundum hef ég fengið gífurlega sára verki niður eftir öllu bakinu og alveg fram í fingurgóma. Einu sinni, sem unglingur, fáeinum árum eftir aðgerðina, leitaði ég mér læknisaðstoðar við þessu. Tengdi sársaukann enda við þetta stóra inngrip. Eftir stutta skoðun fékk ég uppáskrifað 600 mg. ibúfen sem ég átti að taka þrisvar á dag í 10 daga, án nánari skýringa. Þetta hafði tilætluð áhrif og ég hugsaði ekki um það meir. Nokkrum sinnum síðan hef ég fundið svipaðan verk og gert sömu tengingu. Sennilega er þetta bara svæsin vöðvabólga og til þess að forðast of mikla notkun verkjalyfja hef ég reynt sömu lausnir og við minni verkjum: að nudda hann í burtu, gera æfingar eða ýmislegt annað sem mér þótti líklegt til að lina sársaukann. Fyrir um tveimur árum upplifði ég mitt versta tilfelli svona verkja og þeir höfðu staðið yfir í nokkrar vikur þegar ég leitaði ráða hjá vini mínum, sem vill svo til að er sjúkraþjálfari. Hann spurði hann mig um einkenni og var fljótur að greina vandann. Þarna var ekki um vöðvabólgu að ræða heldur bólgur í svokölluðu taugaslíðri. Þá var slíður utan um taugar í hryggnum farið að þrýsta sér út á milli hálsliða sem olli álagi og bólgu. Hann útskýrði þetta fyrir mér og sýndi mér skýringarmyndir. Þar sem um mjög stóra taug er að ræða sem liggur niður úr hálsi, um allt bak og fram í fingurgóma – en bara öðru megin – fannst mér sem verkurinn væri á öllu þessu svæði, þegar vandamálið var í raun agnarsmá bólga aftan í hálslið. Lítil þúfa. Þarna er því um að ræða mjög skýrt dæmi um skekkju í mælum. Vissulega voru einkenni vöðvabólgu fyrir í bakinu á mér, en þarna var bara tvennt óskylt í gangi á sama tíma með svipuðum einkennum sem skekkti aflestur mælanna enn frekar. Vinur minn sagði mér að eina ráðið við þessu væri að taka bólgueyðandi lyf – sem rímaði við ráðleggingar læknisins tuttugu árum áður – og létta álagi á taugina eins og kostur væri með því að halla höfðinu í gagnstæða átt. En ég ætti alls ekki að gera æfingar. Þær myndu bara gera illt verra. Hefði læknirinn forðum gefið mér þessa skýringu hefði ég ef til vill lesið betur úr þessum aðstæðum í framtíðinni. Leiðrétt skekkjuna í mælunum. Þannig hef ég mögulega valdið mér sársauka þegar ég hefði getað látið mér líða betur. Mig skorti bara réttar upplýsingar og rétt sjónarhorn. Í þetta sinn varði bólgan lengur en ég hafði upplifað áður – tvo eða þrjá mánuði – svo ég varð sæmilega örvæntingafullur í að losna við verkinn. Það eina sem ég gat gert var að gleypa íbúfen en ég hafði steingleymt því hvaða áhrif það hefur á meltingarkerfið. Smám saman lagaðist bólgan en þá hafði maginn verið í hnút megnið af þessum tíma líka. Það lagaðist það eftir að verkurinn fór og ég hætti að taka íbúfen, en mig langaði bara að sýna fram á hvernig lausnir geta stundum líka verið til vandræða, ef maður gætir ekki að sér.

    En aftur að sjálfstýringunni. Rétt eins í flugvélum hugsar fólk ekki út í hverja eina og einustu ákvörðun sem við þurfum að taka eftir vilja og meðvitaðri, rökfastri hugsun. Það væri okkur einfaldlega um megn. Öll höfum við líka okkar eigin sjálfstýringu. Ekki þá sem stjórnar flugvélum, sjálfkeyrandi bílum eða rándýrum snekkjum, heldur líffræðilegri og tilfinningalegri sjálfstýringu sem heldur okkur gangandi í gegnum daginn. Mælarnir okkar eru tilfinningar – hungur, hitastig, líðan, orka, ótti, spenna, þreyta og streita. Sjálfstýringin sjálf er svo forrituð út frá uppeldi, efnafræði, umhverfi, áföllum, trú, fólki, boðefnum, skynjun, minni, fyrri reynslu, löngun… Hún okkar tekur ákvarðanir út frá því sem við skynjum í samhengi við það sem við höfum upplifað – og stýrir því sem við hugsum ekki mikið um. Ákvarðanir sem okkur finnast rökréttar. Óvéfengjanlegar. Eins og ég hef sagt í annarri færslu held ég að fólki finnist allt eðlilegt, á sínum forsendum. En líkt og í flugvél, þá byggjast rökrétt viðbrögð okkar á gögnum frá þessum innri mælum. Túlkun. Ef við förum að bregðast við röngum hæðarmælingum gæti verið hætta á að við brotlendum. Við gætum lesið aðstæður sem hættulegar þegar þær eru í raun öruggar. Og öfugt. Við sjáum ógn þar sem aðeins er óvissa sem má greiða úr. Við mistúlkum gögn og bregðumst við á tilhlýðandi hátt. Sjálfstýringin er kannski í grunninn forrituð til að vera góð við dýr og menn, skilningsrík, þolinmóð, hjálpsöm, atorkusöm, jákvæð og ljúf – en bregst ókvæða við röngum mælingum. Sýnir þveröfuga niðurstöðu Jafnvel þó reynt sé að tala um fyrir okkur hlustum við ekki á vandlætingar því við sjáum skýrt á okkar mælum að við erum á leið í rétta átt, þó hún sé í raun kolröng.

    Ég hef svo sannarlega glímt við bilaða mæla og flogið samvæmt því. Og brotlent. Ítrekað. Brotlendingarnar geta þó verið mis alvarlegar. Við skarpt kvíðakast er hún mjög harkaleg en ég sprett merkilega hratt upp aftur. Eiginlega bara samstundis – eins og ég hafi aldrei brotlent. Flugfélagið gerir lítið úr slíkum atvikum og heitir því að þetta gerist aldrei aftur. Við vægt, en langvarandi, kvíðakast brotlendi ég kannski ekki, en það er viðstöðulaus ókyrrð í loftinu því ég beinlínis elti óstöðugleikann. Þunglyndislotur koma oft hægar yfir svo það er engin eiginleg brotlending. Svolítið eins og ég lendi vélinni mjúklega, en á afviknum stað. Utan þjónustusvæðis. Og mér finnst ég ekki hafa nein ráð með að ná henni á loft aftur. Enda á ég það til að staldra þar lengi við. Samt er hún í raun ekki biluð – ég bara gleymi því hvernig á að fljúga. Það tekst að endingu en er alla jafna mjög hægt flugtak. Í örlyndi flýg ég hátt og hratt, út af radarnum og brotlendi svo skarpt. Örlyndinu fylgir jafnan skömm sem er erfitt að vinna úr svo brak vélarinnar liggur lengi á jörðinni og ég reyni að fela það. Breiða yfir brotlendinguna. Að endingu næ ég að tjasla henni saman og fá hana aftur á loft. En þjónustan um borð er mjög léleg í nokkurn tíma á eftir, salernin virka ekki og flugstjórinn er ekki alveg viss um hvert ferðinni sé heitið. Þegar svona sveiflur taka yfir verður mitt eina markmið að halda flugvélinni á lofti og til þess ég geri allt sem ég get, beiti jafnvel óheilbrigðum aðferðum. Svo lengi sem flugvélin er á lofti þá er allt í lagi. Áhrifin á mig eru eftir þessu. Þegar ég hef sprottið upp eftir kvíðakast er ég sprækur og mjög til í að skjala það undir fortíðinni. Áfram gakk. Ekkert að sjá hér og þetta á aldrei eftir að gerast aftur. Eftir þunglyndið hressist ég hægt en örugglega, en eftir örlyndið eltir skömmin mig. Ég margafsaka mig fyrir hegðun mína og ber þungan kross. Svo blandast þetta gjarnan saman, yfirleitt við kvíða – örlyndis og kvíðadúett, kvíðadans við athyglisbrest, kvíði og þráhyggja, þunglyndiskvíði. Það sama á þó ekki endilega við um farþegana í þessu flugi – foreldra, systkin, maka, vini, samstarfsfólk, kunningja og annað fólk. Þau brotlentu með mér og eru enn í sjokki þó ég sé drífi mig á loft. Þau eru ekkert tilbúin í næstu flugferð eftir skarpa kvíðadýfu. Þau voru heldur ekki með á dagskrá að stoppa þegar þunglyndið lenti vélinni einhversstaðar í myrkrinu. Þau vilja komast á áfangastað og gera eitthvað skemmtilegt. Og þegar örlyndið laskar alla þjónustu þá hætta farþegarnir að treysta flugfélaginu, vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið og vilja helst ekki fljúga í einhverjum heimasmíðuðum rellum. Sko því ég leysi í raun allt betur sjálfur – líka flugvélasmíð. Auðvitað eru þessi dæmi ekki svona einföld í raunveruleikanum – flest fólk sem ég þekki stendur með mér og öllum sínum nánustu. En þessar sveiflur hafa engu að síður áhrif sem ég hef sjaldnast kunnað að vinna úr með öðrum. Slíkt byggir yfirleitt upp ýmsar neikvæðar tilfinningar sem geta haft langvarandi áhrif á samband okkar og fólk verður kvekkt. Brennt barn forðast eldinn.

    Í samfélagi við annað fólk vandast málið svo enn frekar. Þá erum við ekki bara að lesa okkar eigin mæla heldur reynum líka að lesa mæla annarra og stilla okkar sjálfstýringu í samræmi við það. Við lesum í svipbrigði, raddblæ, líkamsstöðu, augnaráð, orða­val og smáatriði í hegðun – ekki bara til að skynja hvernig þeim líður, heldur líka til að aðlaga okkur. Halda aftur af okkur, taka meira pláss, breyta um stefnu, mæta, hörfa, grípa inn í, þegja. En það eru takmörk fyrir því hversu rétt við lesum. Oft reynum við að meta viðbrögð annarra út frá því hvernig við lesum á okkar eigin mæla, sem eru sjaldnast þær forsendur sem virka. Bæði eru mælar og sjálfstýringar hvers og eins ólík – og svo vitum við aldrei hvaða mælar eru bilaðir hjá öðrum. Á sama tíma reynum við að halda flugi en þessi stöðugi aflestur mæla getur þvælst fyrir. Í nánum samböndum verður þetta svo enn flóknara. Þar ætti fólk beinlínis að kenna hvert öðru á mælana sína. En til þess þurfa viðkomandi að kunna vel á sína mæla, sem er hægara sagt en gert. Svo má ekki gleyma öðru. Með allar þessar flugvélar af mismunandi stærðum og gerðum og sínum fullkomnu mælum erum við samt með her flugumferðarstjóra um allan heim til að gæta enn frekar að því að allt gangi að óskum. Mannleg íhlutun á sér ekki bara stað í flugstjórnarklefanum og við þurfum að eiga samfélag við annað fólk til að passa sem best upp á okkur. Og þrátt samt gerast slysin – og þegar þau gerast eru þau jafnan mjög alvarleg. Það undirstrikar bara hvað þetta er flókið.

    Það sem skiptir mestu máli í þessari samlíkingu er að sjálfstýring flugvéla er ekki kerfi sem er bara sett upp einu sinni og virkar svo til eilífðarnóns. Flugvélar undigagnast reglulegar skoðanir og strangt viðhald. Mælarnir eru prófaðir og kvarðaðir. Það er ekki merki um veikleika flugvélarinnar – það er lágmarksforsenda þess að hún megi fljúga. Að sama skapi fara bílar, hvort sem þeir eru sjálfkeyrandi eða ekki, í árlega skoðun, olíuskipti, dekkjaskipti og svo framvegis. Skip í slipp. Allt til að virka með tilskyldum árangri í ólíkum aðstæðum. Hvers vegna hefur það verið svo skömmustulegt að leita sér sálfræðihjálpar? Kukl að stunda hugleiðslu? Aumingjaskapur að losa sig undan eða hafna einhverskonar tilbúnum karlmennsulegum hugmyndum um hreysti, eins og að sofa lítið, vera aldrei kalt og svo framvegis. Ég er vissulega að tala út frá eigin reynslu af og glímu við þau viðhorf sem ég ólst upp við í æsku, úr ýmsum áttum, en það er engum blöðum um það að fletta að þau eru almenn. Má ekki bara líta á þetta sem eðlilegt og reglubundið viðhald? Er það ekki líka bara einfaldara? Viðhald er – aftur – ekki viðbragð við eða viðurkenning á bilun. Slíkt heitir viðgerð. Viðhald er forvörn gegn bilun. Það er eðlilegur rekstur og nauðsynlegt til að sjálfstýringin okkar haldi okkur á réttri leið. Sé sjófær. Til að tryggja að hún fari ekki með okkur í hringi eða á vegg. Og það er í raun miklu þægilegra að vera á sjálfstýringu en að þurfa að velta hverri einustu ákvörðun fyrir sér. Við þurfum bara að passa að sjálfstýringin virki sem skyldi.

    Ef hugur okkar, líkami og skynjun eru hálft eins flókin og sjálfstýring flugvéla – þó þau séu í raun mun flóknari en svo – í hverju eru okkar prófun, kvörðun, viðhald og reglubundið eftirlit þá fólgin? Hluti þess er vissulega nauðsynlegur partur af lífinu: Góður svefn, innihaldsrík næring, hæfileg líkamsrækt og örvun hugans. Fjölbreytni. Á misjöfnu þrífast börnin best. En þó þessi atriði séu nauðsynlegur hluti af lífinu er auðvelt að missa tökin á þeim – borða of mikið eða of lítið, hreyfa sig of mikið eða of lítið, sofa of mikið eða of lítið. Þannig verður það sem í hófi er eðlilegur hluti af lífinu notað til þess að þrauka (e. coping mechanism). Fólk fer að flýja erfiðar aðstæður með því að týna sér í óendanleika samfélagsmiðla, stanslausu sjónvarpsglápi, óhóflegri áfengisneyslu, því að ganga of hart gegn líkama sínum, yfirdrifinni nautn, aflátslausu áti. Sjálfur hef ég gerst sekur um þetta allt saman. Ekki svo að skilja að samfélagsmiðlar, sjónvarpsefni, áfengi, líkamsrækt, nautn og neysla séu í eðli sínu óholl. Þetta snýst allt um jafnvægi. Og ef að heilinn hefur þróast frá líkamlegum tilfinningum yfir í þær andlegu, til að takast á við flóknari hugmyndafræði en í öðrum tegundum, er þá ekki rétt að beita flóknara viðhaldi sem hefur líka þróast í áranna rás. Sálfræðimeðferð? Hugleiðslu? Einlægum og berskjölduðum samtölum án gildismats? Lyfjum, þegar þau eru nauðsynleg? Eru þetta ekki bara verkfæri til að stilla af okkar mæla?

    Þetta viðhald var það sem ég þurfti að læra og það var ekki auðvelt. Mér var ekki tamt að huga að mér. Ég var vanur að keyra mig áfram, sama hvað. Það flækir myndina aðeins að ég er mjög vinnusamur, orkumikill og skemmtilegar afleiðingar reikandi huga er að ég er hugmyndaríkur og sífellt í viðbragðsstöðu. Það sem gerði þetta kannski erfiðast var að þetta var ekki val – ég fór í þessa vinnu nauðbeygður og brotinn. Mér var hreinlega ekki stætt á að halda áfram lífinu eins og ég hafði fram til þessa. Mér fannst mjög erfitt að byrja hjá sálfræðingnum sem ég hef verið hjá undanfarin sjö ár. Samt er hann sá fimmti sem ég geng til um ævina, svo ætti ég ekki að vera vanur? Mér fannst líka skrítið að byrja að hugleiða, en ég varð að gera eitthvað. Ég var algjörlega mótfallinn lyfjum. En er ekki einmitt erfiðast að gera við bíla sem eru í sínu versta ástandi og hafa ekki fengið tilhlýðandi viðhald? Ef það er á annað borð hægt að bjarga þeim. Bara það að mæta til sálfræðingsins var eins og að viðurkenna skömmustulega að eitthvað væri að og það var erfitt að horfast í augu við það. Eitthvað óeðlilegt sem aldrei fyrr hefði litið dagsins ljós og annað fólk hefði aldrei upplifað. En það var allt í góðu. Ég ætlaði að laga það í hvelli. Eins og að fá mér að borða.

    Þetta sjálfsviðhald allt saman er dálítið eins og að fara í ræktina. Fyrsta vikan er mjög erfið. Næsta er sennilega erfiðari. Allavega ekki mikið léttari. Til að byrja með er gott að fá tilsögn. Smám saman verður það auðveldara. En það þýðir ekkert að koma sér í form og ætlast til þess að það tolli af sjálfu sér. Ef að fólk vill halda sér í formi – þá þarf það einmitt að halda sér í formi. Gera æfingarnar. Hafa augu með árangrinum. Setja sér markmið. Hið sama á við um hið andlega og hið líkamlega. Reglubundnar æfingar er það eina sem blívar. Sum hafa vanist á líkamlegar æfingar frá í æsku. Æft fótbolta, körfubolta, sund, tennis eða frjálsar íþróttir. Þau munu alltaf búa að því og þó þau missi úr til lengri eða skemmri tíma eru þau fljóta að ná sér á strik. Hin okkar – eins og ég – þurfa að hafa mun meira fyrir því. Önnur lærðu ung á hljóðfæri og geta gripið í það án þess að hafa snert það í mörg ár. Vissulega er líklegt að einhver færni og tækni glatist, en það er styttra í það en hjá þeim sem ekkert kunna. Nú finn ég, eftir alla mína hugarleikfimi, að ég á mun auðveldara með að stilla mig af. Ég er í mun betra andlegu formi en nokkru sinni áður. Ekki kannski toppformi, en það kemur. Og það er ekki þar með sagt að það klikki ekki af og til – stundum jafnvel með ýmiskonar gloríum – en ekki nándar nærri eins og áður. Og það eru allar líkur á því að þetta eigi bara eftir að batna. En ég kom mér ekki í stand á einni nóttu. Þvert á móti.

    Þessi viðkvæmni og tilfinningasemi, sem ég minnist á hér að ofan, ætti kannski frekar að líta á sem næmni. Það er stór kostur ef mælar eru næmir. Þeir gefa nákvæmari boð og það er auðveldara að treysta á svoleiðis mæla. Það er ekki skömmustulegt að búa yfir svoleiðis mælum – en viðbrögðin við mælingunum ættu kannski að vera skilgreind eða jafnvel æfð, til að þau séu markviss. Fari ekki úr böndunum. Ég man eftir því þegar ég varð óþolinmóður í æsku að því marki að mér var hastarlega sagt að anda. Það er gott ráð – en ég vissi ekki hvað það þýddi. Það er ekki hægt að kasta fólki í sundlaug og segja „syntu.“ Það þarf að læra það og þjálfa. Rétt eins og öndunaræfingar. Það mætti halda að það væri kjánalegt að æfa eitthvað sem maður gerir á sjálfstýringu allan daginn – en það ætti flest fólk að reyna það. Það er ótrúlega magnað hvað það gerir fyrir líkamann og líðanina að taka betur utan um öndunina. Uppfæra sjálfstýringuna. Sinna smá viðhaldi.

    Viðhald mitt felst í ýmsu. Daglegum núvitundarhugleiðslum, vikulegum sálfræðitímum, geðlyfjum, samtölum við fólkið mitt, hreyfingu, tónlist, heilaþrautum og fleiru. Í hugleiðslunni skanna ég líkamann til að kanna líðan mína og tem hugann með því að reyna að leiða hjá mér hugsanir, þó þær dynji á mér. Sálfræðitímarnir gefa mér rými til að rekja upp peysuna sem ég er að prjóna, finna hvar lykkjunni hefur brugðið og gera mér fært að halda áfram án þess að peysan rakni upp eða passi ekki. Geðlyfin eru eins og smurolía á bílvélina – án hennar skemmist vélin beinlínis. Nýlega tók ég að iðka hlaup sem gefa mér boðefnabúst og algjörlega nýja leið til að lesa líkamlega líðan mína. Tónlist, sviðslistir og aðrar listgreinar veita mér mikla huglæga fró. Mestu skipta samtöl við fólkið mitt. Þau eru mér alls ekki auðveld og í raun nýjasta verkfærið í kistunni minni. En betra er seint en aldrei.

    Eitt það gagnlegasta sem mér var kennt á minni vegferð – og kom úr mjög óvæntri átt – súmmerar þennan langa pistil vel upp og eru viðeigandi lokaorð: Tilfinningar eru alltaf raunverulegar. En þær eru ekki alltaf raunveruleiki.

  • 6. Greindur

    Þá er það komið á hreint. Nokkurnveginn. Ég fékk greininguna sem ég sóttist svo hart eftir, en – ekkert virtist breytt. Ekkert var í sjálfu sér öðruvísi. Þetta var svosem ekki óyggjandi greining. Það var dálítill vandræðagangur að fá úr þessu skorið og það er ekki eins og ég hafi fengið innrammað viðurkenningarskjal til staðfestingar. Útskriftarathöfn. Það hjálpar svo ekki að ég sit ekki mjög ofarlega á geðhvarfarófi svo það eru engin afgerandi einkenni sem há mér sem tækju af allan vafa. Sem er kannski kostur í sjálfu sér, að veikindin hamla mér ekki stórkostlega. En það er sömuleiðis ástæðan fyrir því að þau fóru óséð í tæp fjörutíu ár, sköpuðu mér samt mikinn barning og hlutu enga meðhöndlun. Svo er ég sæmilega fúnkerandi einstaklingur – allavega út á við. Hef áorkað ýmsu um ævina sem ég get verið stoltur af, sem aftur skyggir á veikindin – altso felur þau. Drífandi og áræðinn. Leiðandi. Nokkuð sjálfsöruggur. Jafnvel kokhraustur. Á bak við tjöldin gat að líta aðra mynd. Fyrst um sinn átti ég því mjög erfitt með að trúa greiningunni, eða treysta henni. Ég átti eftir að grafa lengur og fá meiri dýpt í þessa mynd. En það ekki eins og líf alkóhólistans verði einfalt og auðvelt daginn sem hann hættir að drekka. Þá fyrst hefst glíman fyrir alvöru.

    Fyrstu viðbrögð við greiningunni komu mér þó í opna skjöldu, svona þegar ég fór smám saman að sætta mig við hana. Þiggja hana. Ég hafði barist svo fyrir því að fá einhverja niðurstöðu – og heldur betur þurft að standa fyrir máli mínu – að þetta ferðalag hafði farið að snúast um hana eina. Ég hafði ekkert velt fyrir mér hvað tæki við þegar hún loksins fengist. En þarna skall það á mér. Er fólk með geðhvörf ekki geðsjúklingar? Þið vitið – steríótýpurnuar í hvítum sloppum, lokað inni á geðdeild og fær ekki að skera matinn sinn sjálft? Sveiflast á milli skapgerða eins og Jekyll og Hyde? Villuráfandi og svo gott sem talar tungum, vitandi hvorki í þennan heim né annan? Ég sá fyrir mér hálf froðufellandi mann í spennitreyju á miðri umferðareyju í íslenskri sumarnótt. Mjög dramatískt. En það var ekki ég. Eða var það? Hefði kannski átt að vera löngu búið að loka mig inni? Fyrstu viðbrögð mín voru ansi fordómafull. Ég vissi auðvitað vel að þetta var ekki satt og var fyllilega meðvitaður um að þetta voru fordómar í mér. En þetta kom mér samt á óvart og ég þurfti nokkurn tíma til að komast yfir þessar hugmyndir.

    Samhliða þessum fordómafullu viðbrögðum brást praktíska hliðin á mér öðruvísi við. Það dugði ekkert taut – nú var að bretta upp ermar. Mér varð ljóst að greiningin ein og sér var ekki einhverskonar bautasteinn. Hún var ekki áfangi út af fyrir sig sem ég hef náð og þyrfti ekki að gera meira. Hún er heldur ekki passi sem ég get framvísað sem leyfi til að hegða mér eins og mér hentar. Get-out-of-jail-free spjald. Einhvernveginn þurfti ég að átta mig á hvaða merkingu hún hafði fyrir mér, hvernig ég gæti beitt henni og haft gagn af henni. Ég vildi ekki láta hana skilgreina mig eða verða fjötra, eins og getur auðveldlega gerst. Þess í stað ákvað ég fljótlega að líta á hana sem landakort eða leiðarvísi til að vísa mér veginn um þennan nýja kafla í lífinu. Einkennin sem ég hafði lesið mér til um hjálpuðu mér að finna kort sem hentaði minni leið, fólk sem hafði kortlagt þetta landslag og gengið það gat veitt mér tilsögn og góð ráð. Með leiðarvísi og tilsögn í farteskinu þurfti ég þó að hafa sjálfan mig í huga. Ég þurfti að búa mig eins og mér hentaði, ekki eins og annað fólk sagði mér að gera. Og þegar á hólminn var komið var mitt að ganga þessa leið – að bera ábyrgð á minni líðan og mínum veikindum. Bæði gagnvart sjálfum mér og öðrum.

    Ég fann til ýmsan búnað, eins og ég hef áður minnst á og mun ræða frekar. Sumt hefur fylgt mér á leiðinni og annað ekki. En það var þó eitt sem greiningin gaf mér og ég hefði ekki fengið öðruvísi. Geðlyf. Þessar pillur sem ég hafði alla ævi verið svo mótfallinn stóð ég nú frammi fyrir að taka í fyrsta sinn – og jafnvel alla ævi. Þetta var mér alls ekki auðvelt. Þegar ég fékk fyrsta lyfjaglasið í hendurnar sat ég drykklanga stund og velti þessu nýja hlutskipti mínu fyrir mér. Væri ég að gefa upp hluta af sjálfum mér, eins og ég hafði lesið um í skáldsögum og heyrt af frásögnum annarra? Væri ég að deyfa mig og tapa gleðinni sem ég hafði svo oft upplifað? Yrði mér lífið litlaust og grátt? Leiðinlegt? Til hvers þá að tóra? Mótstaðan gegn geðlyfjum var heiftarlega rótföst. Væri aftur snúið? Yrði ég nokkurntíma samur. Myndi ég þurfa að taka geðlyf það sem eftir er ævinnar?

    Svo rann upp fyrir mér ljós. Ég hef um ævina þurft að taka allskonar lyf og hef aldrei verið mótfallinn þeim. Sýklalyf, magalyf, verkjalyf, ofnæmislyf, kvefmeðöl og svo framvegis. Fullt af fólki sem ég þekki hefur líka reitt sig á lyf og ég hugsa að ég verði alltaf hlynntur lyfjanotkun, undir handleiðslu sérfræðinga. Ég hef í reynd reitt mig töluvert á lyf og er nokkuð þakklátur fyrir þau. Sérstaklega ofnæmislyfin. Ég þarf að taka eina pillu, nefsprey og asthmapúst á hverjum degi, auk tilfallandi lyfja á álagspunktum – sem ég er rækilega minntur á þessa dagana þar sem ég er við störf í London og mig klæjar í augun allan sólarhringinn, til þess eins að geta andað eðlilega. Og það er nú frekar mikið undirstöðuatriði í lífinu, eins og ég hef sagt. En hvað ef – hvað ef ég lít á geðbrigði mín sem ofnæmi? Að það að upplifa oflætis- og þunglyndislotur sé eins og að upplifa ofnæmis- og asthmaköst? Að rétt eins og slímhimna bólgnar við visst áreiti bregðist aðrir hlutar líkamans, sem ég kann síður deili á, við með því að steypa mér í geðsveiflur? Að þær séu í raun ofnæmisviðbrögð – og að geðlyf séu bara ofnæmislyf? Öðruvísi ofnæmislyf.

    Þá hjálpaði það mér að hafa kynnt mér geðhvörf sæmilega. Þannig hafði ég, í gegnum lestur bóka og áhorf á heimildamyndir og -þætti, kynnst ýmsum lyfjum, hvaða áhrif þau höfðu á fólk og hvaða skammtastærðir var um að ræða. Mér var fengið lithium, eitt algengasta og elsta bipolar lyfið. Það mildar allar tilfinningar og í stórum skömmtum getur fólki liðið eins og yfir því liggi einhverskonar slikja eða grámi sem geri lífið dauft og leiðinlegt. Það er ekki skrítið, þegar fólk upplifir miklar tilfinningasveiflur og hefur tamið sér að lifa með þeim, að fólki finnist leiðinlegt að sigla lygnari sjó. Ég segi stundum að það sé eins og að hafa borðað indverskan mat alla ævi, með öllum sínum sterku kryddum í miklu magni og skipta svo alfarið yfir í ítalskan mat. Ítalskur matur er ekki bragðvondur eða leiðinlegur – hann er bara mildari og vinnur með annarskonar krydd, yfirleitt færri í einu og gætir annarskonar jafnvægis þeirra á milli. Ef maður ætti að skipta alfarið á úr einu í annað væri sennilega ráð að undirbúa það. Venja sig af sterka bragðinu en læra sömuleiðis að meta hið milda. Svo slær lithium einna helst á oflæti en minna á þunglyndi, þannig að þau sem það taka sitja kannski uppi með meiri drunga en jafnvægi. Síðast en ekki síst geta stórir skammtar af lithium haft áhrif skjaldkirtilinn. Hann getur orðið vanvirkur eða stækkað. Dregið getur úr framleiðslu hormóna sem getur valdið síþreytu, þyngdaraukninga, kulsækni, eða sjálfsofnæmi. Þess vegna þurfa þau sem taka lithium reglulega að láta mæla lithumþéttni í blóði – svo það er að ýmsu að huga. Þetta er semsagt ekki alveg eins einfalt og að taka ofnæmislyf. En undanfarin ár – ef ég hef þetta rétt eftir – hefur þó algengara að lithium sé gefið í smærri skömmtum en áður, því það þykir sýnt fram á að minni skammtar duga betur en áður var talið. Samkvæmt því sem ég hafði lesið mér til um var skammturinn sem mér var boðinn aðeins einn þriðji af því sem telja mætti lítinn skammt, svo mér fannst ég sæmilega óhultur.

    Þarna tók ég af skarið. Ég skyldi taka þessi lyf. Ég vissi vel að ég hafði þurft að prófa mismunandi lyf til að ná tökum á ofnæminu mínu svo kannski væri það hægt með geðlyfin líka. Munurinn er þó sá að það þarf að trappa þau upp og niður svo það er ekki hægt að skipta samdægurs, en engu að síður hafði ég náð að stýra hausnum í rétta átt. Og það var það sem mig skorti mest – hugarfar. En þarna var voru komnir vísar að mikilvægustu verkfærunum á þessum fyrstu skrefum mínum. Samlíkingar annars vegar – og að uppræta gamlar hugmyndir hinsvegar. Samlíkingar eru mér nokkuð tamar, hafandi starfað við listir í rúm tuttugu ár. Að uppræta gamlar hugmyndir er mun erfiðara en að taka bara töflur – og sennilega þess vegna mikilvægara. Ég nota gjarnan enska orðið “reframe” til að lýsa þessu. Að setja gamlar hugmyndir og gamla reynslu í nýtt samhengi til að breyta sjónarhorni mínu. Hægara sagt en gert.

    Fyrsti stóri bitinn í því var að átta mig á tilfinningum mínum og sálinni. Fram til þessa höfðu þær verið mér mjög framandi. Ekki að ég hafi ekki áttað mig á að ég hefði sálarlíf og tilfnningar – en ég kunni ekki á þeim deili. Jú, ég hafði verið í sálfræðimeðferð í um tvö ár og átt spretti með fjórum sálfræðingum áður, en samt fannst mér sálin óskiljanleg. Eitthvað sem stóð utan við hið líkamlega. Utan við mig. Skýrasta dæmið er kannski hvað mér fannst ekkert mál að taka á líkamlegri heilsu; fara í aðgerðir, taka lyf eða gera æfingar (þó ég hafi verið latur við það á yngri árum). Samt vildi ég ekki taka lyf við hinu geðræna – og það á þeim forsendum að það myndi hafa áhrif á geð mitt! Þegar ég hugsa um það í dag finnst mér þetta tvennt óaðskiljanlegt og mér finnst eiginlega furðulegt að ég hafi skilð svona á milli.

    Sennilega er það vegna þess hvernig geð mitt sveiflaðist. Eina stundina var allt svo erfitt og hina var allt svo frábært. Annað hvort var allt ómögulegt eða mér stóðu allar dyr opnar. Mér fannst ég ekki hafa neina stjórn á því og trúði því í raun ekki að það væri hægt. Ég man eftir að hafa minnst á það við fyrrverandi eiginkonu mína að ég væri „loksins búinn að fatta þetta.“ Að þegar mér liði vel og allt væri gaman þá ætti ég að njóta þess, því ég vissi að ég myndi fyrr eða síðar missa tökin á öllu saman og hrynja aftur niður. En í stað þess að láta það draga mig niður ætti ég bara að njóta þess að láta mig góssa. Svolítið eins og að stíga stóra öldu á brimbretti – án þess að ég hafi af því nokkra reynslu. Ég kæmi hvort eð er upp aftur og þá yrði aftur gaman. Gæti allt eins haft gaman á niðurleiðinni líka. Ég veit ekki hvort ég kom þessu svona frá mér, en þetta var allavega það sem ég hugsaði. Og ég get staðfest að þetta er viðskiptamódel sem gengur enganveginn upp. Þegar allt byrjar að hrynja taka örvænting og skelfing við – og loks depurð. Í þessu ástandi getur maður ekki svo glatt hreinlega ákveðið að vera glaður. Tilfinningarnar taka yfir og því kannski ekki skrítið að mér hafi fundist þær vera eitthvað sem stóðu utan við mig. Kannski eins og sníkjudýr.

    Í byrjun árs 2020 snerist lífið svo í höndunum á mér og hugurinn fór alveg úr böndunum, sem varð eiginlegt upphaf þessa ferðalags. Ég vissi að ég þyrfti að kyrra hann með öllum tiltækum ráðum. Meðal þess var að hringja í vin sem kom og beinlínis sat yfir mér. Deildi með mér rúmi á meðan það versta gekk yfir. Ég þorði ekki öðru. Annað ráð sneri meira inn á við. Skömmu fyrir áramótin hafði ég rekist á núvitundarhugleiðslu. Ég hafði verið í langflugi eftir annasama viku síða árs 2019 og þurfti nauðsynlega að sofa, áður en næsta strembna vika vika tæki við. Mér gekk erfiðlega að róa mig en hugsaði að það hlyti að vera einhverskonar prógramm í afþreyingarkerfi flugvélarinnar sem gæti hjálpað mér. Viti menn, þar fann ég Headspace, sem býður handleiðslu um hugleiðslu frá fjölmörgum sjónarhornum. Ég man að ég fylgdi æfingunum í fluginu en man ekkert hvort þær virkuðu. Aldrei grunaði mig að rétt rúmum mánuði seinna myndu þær eiga þátt í að bjarga lífi mínu.

    Ég hafði enga reynslu af hugleiðslu og hafði ekki mikla trú á slíku – en ástandið var mjög slæmt og eitthvað þurfti ég að reyna. Ég las mér lítillega til um hugmyndafræði Headspace og meðal þess sem það lofaði var að notendur myndu læra að ná stjórn á tilfinningum sínum. Sem fyrr fannst mér það bæði fjarstæðukennt og fáránlegt. Það er ekkert hægt að ná stjórn á tilfinningum sínum. Þær bara eru og þær bara gerast. Þær eru stórar og þær stjórna manni alveg. Þær hlaupa með mann í gönur. En þá áttaði ég mig á því að ég hef lært tungumál. Ég hef lært á píanó. Ég hef lært ýmislegt sem hefur með hugann að gera svo ef til vill væri ráð að gefa þessu séns. Ég sótti appið í símann og byrjaði á fyrstu hugleiðslunni.

    Til að byrja með fylgi ég grunnámskeiði Headspace. Það var um tíu æfingar sem allar hófust með stuttri teiknimynd til útskýringa. Þetta reyndist mér mjög gagnlegt svo ég hélt áfram. Hver hugleiðsla er á bilinu ein til tuttugu mínútur og það má stilla þær eftir því hvernig liggur á manni eða hvaða tíma maður hefur hverju sinni. Ein fylgdi annarri og smám saman hafði ég allt í einu hugleitt á hverjum degi í rúm tvö ár, stundum oftar en einu sinni á dag. Fyrst um sinn var þetta mjög erfitt, rétt eins og hvert skref á þessari vegferð, en hvert skipti gerði þetta einfaldara og auðveldara. Rétt eins og að mæta í ræktina og koma sér í form þjálfaði ég hugann til að takast á við hugsanir og tilfinningar á nýjan hátt, þveröfugt við það sem ég hafði haldið í upphafi. Fyrst um sinn er það mikil áreynsla, sárt og erfitt – með litlum sjáanlegum árangri. En dropinn holar steininn. Yfirleitt sinnti ég þeim á tíma sem hentaði mér en stundum á erfiðum stundum greip ég í þær til að lægja öldurnar. Síðan hef ég sinnt hugleiðslunni stopulla en hún er ennþá mikilvægur hluti af vellíðan minni og velferð. Þó að Hedspace henti mér eru til fleiri öpp, myndskeið á netinu, hugleiðslunámskeið og hugleiðslutímar í persónu og svo framvegis. Sumum hentar hugleiðsla svo alls ekki – en eins og allt annað snýst þetta um að finna það sem hentar manni.

    Þessi samanburður, að hafa talið mig ekki geta tamið hugann en smám saman lært að beina honum í viðráðanlegri farveg – sem ég hafði ekki velt fyrir mér fyrr en ég fór að skrifa þessa frásögn – finnst mér skýrt merki um breytt hugarfar. Ég reyni að forðast að tala um bata eða framfarir, því það er einföldun á flóknu viðfangsefni. Hverskyns tvíundakerfi til að leggja mat á persónur og aðstæður – gott/vont, rétt/rangt, venjulegt/óvenjulegt, sterkt/aumt, veikt/heilbrigðt, duglegt/latt, gott/vont, nei eða já/af eða á – er til þess fallið að búa til staðnaðar staðalímyndir og hjálpa sjaldnast umræðunni. Þess vegna vil ég tala um breytingu. En þessi breyting hefur ekki átt sér stað á einni nóttu. Hún hefur tekið langan tíma og er enn að eiga sér stað. Hvert skref er léttara en hið fyrra og þó mér hafi ekki fundist fyrstu skrefin skila miklu af sér tek ég stöðugt eftir breytingum lengra inn í þetta ferðalag. Og þó voru mestu breytingarnar mögulega í upphafi.

    Eins og ég sagði hér að ofan: þó að greining sé ástæða, þá er hún ekki afsökun. Það er enn mitt að þekkja sjálfan mig og bera ábyrgð á mínum einkennum. Rétt eins og ég þarf að taka lyf til að geta andað eðlilega, þá þarf ég að taka lyf til að halda geðsveiflum í skefjum. Lyf sem ég var svo mótfallinn en eru núna eðlilegur hluti af lífi mínu.

    Greiningin ein og sér var ekki endastöð. Hún var upphaf.

  • 5. Birnirnir þrír

    Þegar hér er komið við sögu er rétt að segja frá því að í tæp tvö ár hafði ég sótt vikulega tíma hjá breskum sálfræðingi. Það er þá fimmti sálfræðingurinn sem ég hitti um ævina í ítrekuðum tilraunum mínum við að ná tökum á tilverunni, en meira um það seinna. Þennan fimmta sálfræðing er þó kannski réttara að kalla þerapista. Hann hefur ekki háskólagráðu í sálfræði, eins og þeir íslenskir sálfræðingar sem ég hef kynnst, heldur er hann lærður í sáfræðimeðfeð (e. psychotherapy), rétt eins og margir sálfræðingar, geðlæknar og aðrir fagaðilar hafa til aukreitis við háskólamenntun sína. Þó er þó engum blöðum um það að fletta að hann hefur reynst mér best af þeim sálfræðingum sem ég hef leitað til. En mér finnst mikilvægt að draga þetta fram því það er grundvallarmunur á. Þerapisti hefur ekki lækningaleyfi og framkvæmir því hvorki greiningar né skrifar upp á lyf, en sálfræðingur getur það. Sum þeirra sem ég hef rætt upplifun mína við hafa nefnilega spurt hvers vegna þerapistinn hafi ekki komið auga á þetta mynstur í hegðun minni og sent mig í greiningu. Spurningin er góðra gjalda verð en þá bendi ég á tvennt. Annars vegar hefur þessum þerapista tekist að búa til öruggara og traustara umhverfi til samtals en ég hef átt með nokkurri annarri manneskju og undir hans leiðsögn hef ég tekið stórstógum framförum í átt að betri líðan. Stór partur af því að skapa þetta umhverfi er að taka aðeins við því sem ég hef að segja og vinna mjög varfærnislega með það. Allar tilraunir til að stýra mér í einhverja átt hefðu getað ógnað þessu umhverfi og sömuleiðis þessum árangri. Hitt er eftir að hafa hitt þennan þerapista í aðeins um fjóra mánuði nefndi ég að ýmislegt í líðan minni virtist svipa til geðhvarfa, eftir því sem ég best fengið séð við eftirgrennslan á netinu. Hann greip það á lofti og spurði hvort ég vildi að hann vísaði mér í greiningu. Ég afþakkaði. Það væri ekki eins og ég væri geðveikur.

    Rétt tæpum tveimur árum seinna stend ég aftur frammi fyrir þessum vangaveltum og get því ekki annað en tekið þeim alvarlega. Ég hringdi á heilsugæsluna mína og pantaði tíma hjá geðlækni. Mér var sagt að hann væri aðeins við einu sinni í viku og fyrst þyrfti ég að undirgangast mat hjá heimilislækni. Kunnuglegt stef.


    Hér rennur framvindan svolítið saman í eitt í höfðinu á mér. Ég er á kafi í verkefnum, að ganga í gegnum skilnað þar sem við búum þegar hvort í sínu landinu, hamast við að finna út úr geðheilsu minni og yfir vofir heimsfaraldur. En ég held nokkuð vel utan um dagskrána mína á dagatali, sem hjálpar mér að fá mynd á þetta ferli. Það hjálpaði mér einnig töluvert að skoða atburði aftur í tímann þegar ég þurfti að rekja líðan mína, kanna hana á eigin forsendum og ræða hana við geðlækna – svo ég mæli hiklaust með góðu dagbókarhaldi.

    Sléttri viku eftir streymið sem Mig stóð fyrir fékk ég tíma hjá heimilislækni. Þegar þangað kom greindi skilmerkilega frá þessum grun mínum. Já eða eins skilmerkilega og mér framast var unnt. Ég hafði ekki fengið mikinn tíma til að hugsa þetta og fannst mér ég enn ekki geta mátað mig fyllilega við öll einkennin sem ég minntist á í seinustu færslu. Hvað taldist oflæti og hvað var bara stemning og hressleiki? Hvað var þunglyndi – og var það í sjálfu sér óeðlilegt? Er ekki allt eðlilegt, eins og ég hef minnst á áður? Það sem ég sé í dag sem skýr einkenni geðhvarfa flugu mér ekki einu sinni í hug þá og í raun stamaði ég bara upp nokkrum brotum af þeirri mynd sem átti eftir að taka mig langan tíma að tína saman. Hún skráði þetta allt saman skilmerkilega niður, sagði mér svo að ég myndi fljótlega heyra um næstu skref. Nokkrum dögum síðar berst bréf frá geðlækninum. Fyrstu skellurinn. Hann hafnar hugmyndum mínum um að ég eigi við geðhvörf að stríða en óskar mér velfarnaðar. Takk. Mér hafði ekki tekist að sannfæra hann nægilega vel um að ég hakaði í nægilega mörg box. Nokkuð sleginn yfir að fá ekki einu sinni færi á að ræða við hann tek ég til eins af þeim ráðum sem ég kann best. Ég skrifa honum til baka. Bréfið finn ég ekki í fórum mínum, þó það sé einhversstaðar, en ég hugsa að mér hafi tekist að nurla saman aðeins fleiri dæmum til að renna stoðum undir þennan grun minn. Jú, alveg rétt. Það var þarna tiltekið dæmi sem ég gat nefnt sem eflaust hefur krafist þess að brugðist yrði við. Meira um það seinna.

    Í öllu falli fæ ég svarbréf og í þetta sinn úthlutar hann mér tíma. Hænuskref. En nú sækir faraldurinn fast að svo skömmu seinna ég fæ símtal frá geðlækninum sjálfum þar sem hann spyr mig hvort ég sé tilbúinn að eiga viðtalið í gegnum síma. Það hentar mér í sjálfu sér ágætlega því um miðjan mars, fáeinum dögum seinna, var ég á leið til Íslands að setja upp sýningu. Verkið hafði verið sett upp sumarið áður svo þetta var reyndar bara flutningur úr einu leikhúsi yfir í annað. Einfalt. Í aðdraganda verkefnisins ræddum við aðstandendur þess saman, í ljósi aðstæðna, og vorum sammála um að þó það þyrfti kannski að fresta um eina viku eða svo stæði þetta samt enn til og ég ætti samt að koma til landsins. Á sama tíma varð pabbi sextugur svo það var ærið tilefni til að láta sjá sig. Svo vildi ég jú auðvitað reyna að bjarga hjónabandinu og þá er nú kannski betra að vera á sama stað. Út frá verkefninu séð þyrfti kannski ekki að stoppa lengi á Íslandi svo mögulega næði ég tíma með geðlækninum í persónu, en faraldurinn bætti jú smá óvissu í spilin. Svo úr því að tíminn bauðst í síma og fyrr en ella þáði ég það. Mér lá á.

    Tveimur dögum eftir að ég kom til Íslands tók fyrsta samkomubann í heimsfaraldrinum gildi á Íslandi og ytri landamærum Schengen svæðisins var lokað. Grundvöllurinn fyrir rekstri flugfélaga var tímabundið brostinn og fólk um allan heim hvatt til að halda til síns heima hið snarasta, hefði það kost á. Heimsendastemningin í fluginu frá London til Íslands hafði verið áþreifanleg en þrátt fyrir allt átti ég ekki alveg von á þessu – eins ljóst og það lá í loftinu. Ég var orðinn strandaglópur á Íslandi og hafði enga hugmynd um hversu lengi. Sextugsafmælið hafði reyndar verið fellt niður áður en bannið tók gildi og varð þar með ein af fyrstu samkomunum sem urðu fyrir barðinu á faraldrinum. Ég tók stöðuna á vinum um allan heim til að vita um hagi þeirra og hvort þau kæmust til Íslands í tæka tíð – sum hinumegin á hnettinum. Hurðar skullu ansi nálægt hælum þessa dagana.

    Skömmu eftir hádegi, mánudaginn 30. mars, fæ ég símtal frá geðlækninum, þeim fyrsta í þessum kafla lífs míns. Áður en ég hann spyr mig um líðan mína eða heilsu finnst honum rétt að tjá mér, af nokkurri staðfestu, að hann geri ekki hefðbundnar greiningar og sé reyndar mótfallinn þeim. Strax í upphafi finnst mér ég vera að flytja mál fyrir dómi, vonandi að mér verði dæmt í hag. Ég segi honum það sem ég get í belg og biðu, nánast eins og ég sé að keppa um friðhelgi í raunveruleikasjónvarpsþætti og í lok samtalsins tilkynnir hann mér niðurstöðu sína. Hann geti ekki sagt að ég sé haldinn “Bipolar affective disorder type I” og hann telji að það sé ekkert frekar sem þurfi að gera fyrir mig. Ég eigi að halda áfram hjá mínum sálfræðingi og vinna úr mínum málum. Sé ég annars á höttunum eftir greiningu, sem hann taldi takmarkað gagn af, geti ég annað hvort fundið annan geðlækni – nú eða bara greint mig sjálfur, svona eins og honum heyrðist ég vera búinn að hvort eð er. Símtalið varði ekki í eina klukkustund.

    Of kaldur.


    Af öllum lágpunktum leiðarinnar lá þessi með þeim allra lægstu. Ég eygði loksins einhverja von um betri líðan en þarna var því slengt framan í mig að þetta væri nú bara vitleysa í mér. Mér leið skelfilega. En neyðin kennir og með örvæntinguna að vopni gafst ég ekki upp, heldur hafði samband við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og bað um tíma hjá geðlækni. Það var hið minnsta mál – en biðin var sex til tíu vikur. Ég man ekki hvort að í millitíðinni hafi ég verið settur í samband við, eða bent á að hafa samband við, eitt af geðheilsuteymum heilsugæslunnar. Þar fékk ég samtal við yndislegan geðhjúkrunarfræðing sem veitti mér mikinn stuðning og góð ráð. Yfir næstu vikur hafði ég samband nokkrum sinnum og alltaf veitti hún mér góðar viðtökur. Þetta var sennilega það sem hélt mér á róli þessa erfiðustu dagana.

    Á meðan ég beið eftir að tilvísunin gengi í gegn hélt ég áfram að leita eftir upplýsingum á netinu. Þá fann ég upplýsingar um íslenskan geðlækni sem taldi sig helsta sérfræðing landsins í Bipolar II sem hann talaði um að væri sennilega vangreint í stórum hluta þjóðarinnar. Ég hringdi og spurðist fyrir en afréð að panta ekki tíma strax. Bæði var ég enn viðkvæmur og auk þess kosta svona tímar sitt – en ég var náttúrulega nýlega atvinnulaus um óforséða framtíð. Nokkrum dögum seinna tók ég samt af skarið og bókaði tíma. Ég gat ekki beðið lengur. Einum mánuði, og viku betur, eftir símtalið við breska geðlækninn fékk ég viðtal hjá þessum íslenska sérfræðingi í geðhvörfum II. Hann spurði mig ýmissa spurninga og útlistaði fyrir mér greiningarferlið. Þetta yrði um fjórir tímar og fælu í sér samtöl og verkefni til að skera úr um hvað væri að angra mig. Það er þessi geðlæknir sem bendir mér á að fá afrit af sjúkraskýrslunum frá Landspítalanum, sem ég hef áður sagt frá.

    Strax í upphafi fannst mér þessi læknir þó nokkuð áfjáður í að greina mig með geðhvörf, á sínum forsendum. Í stað þess að hlusta á reynslu mína með (heilbrigðri) gagnrýni greip hann það sem ég sagði á lofti ef það passaði við hans skilgreiningu á geðhvörfum II. Mér fannst hann ýtinn, ágengur, hrokafullur og hranalegur í samskiptum en þetta var eina ráðið sem ég hafði í augnablikinu og lét mig því hafa það. Svo var hann mjög passasamur á tíma. Ég man ekki hvernig þetta útlagðist en fyrsti tíminn er lengri en allir tímar þar á eftir, þó þeir kosti það sama. Hvort fyrsti er 45-50 mínútur og tímarnir þar á eftir 30-40 mínútur – eitthvað svoleiðis. Það kom allavega ekki í ljós fyrr en í öðrum tíma og hafði ekki verið gert skýrt í upphafi ferlisins, en hann passaði rækilega upp á það. Strax í fyrsta tíma sagði hann mér að hluti af greiningarferlinu væri að taka lithium, nokkuð algengt lyf við geðhvörfum. Sem fyrr sagði ég frá andstöðu minni við geðlyf og spurði hvort það væri annað í boði. Hann sagði að ég gæti svosem sleppt þeim en það væri ekki hjálplegt fyrir greininguna. Eftir þennan fyrsta tíma fór ég því og leysti út geðlyf í fyrsta sinn. Þegar ég var kominn með lyfin í hendurnar sat ég inni í bíl og horfði á lyfjaglasið í höndunum á mér og leist ekki á blikuna. Í eina röndina velti ég þó fyrir mér hverju ég hefði að tapa. Þá rann upp fyrir mér ljós svo að endingu byrjaði ég á lyfjunum – en meira um það seinna.

    Rúmri viku seinna átti ég aftur tíma hjá geðlækni 2. Þá var ég mættur með sjúkraskýrslurnar sem við ræddum og það setti allt saman í nýtt samhengi. Þarna voru komnar sautján ára gamlar vísbendingar. Allt að því fornleifar. Svo spyr hann mig hvort ég finni mun á mér eftir að vera farinn að taka lyfin. Ég verð nokkuð hissa því lithium er sk. forðalyf, sem tekur tíma að byggjast upp í líkamanum og bjóst því ekki við neinum viðbrigðum fyrr en mörgum vikum seinna. Þá var ég enn ekki alveg með á hreinu hvað í fari mínu teldust einkenni og hvað teldist skapgerð – auk þess sem ég hafði tæplega haft tíma til að upplifa meiriháttar sveiflur á þessum stutta tíma. Ég var því ekki alveg viss um hvernig ég ætti að svara. Það er nauðsynlegt að muna að í þessu ferli öllu, sérstaklega á fyrstu vikum og mánuðum þess er ég mjög ringlaður og óöruggur. Það gekk svo margt á og mig vantaði umfram allt stuðning. Ekki geðlækni sem vildi ekki tala við mig og heldur ekki geðlækni sem var nánast búinn að krýna mig áður en ég settist í hásætið.

    Undarlegasta greiningartæki hans fannst mér vera ljósrit af blaðagrein sem hann hafði skrifað um geðhvörf II. Ég átti að strika undir allar fullyrðingar í greininni sem mér fannst eiga við mig og helst að bera hana undir einhvern nákominn mér sem bæði gæti vottað undirstrikanir mínar og mögulega bent á atriði sem mér höfðu yfirsést. Einhvernveginn hefði mér liðið betur ef innihald greinarinnar hefði verið sett fram sem einhverskonar hlutlaus spurningalisti sem væri beint að mér og minni líðan – frekar en ljósriti úr læknatímariti þar sem mér finnst geðlæknirinn fyrst og fremst vera að koma sjálfum sér á framfæri, innan um ýmsar auglýsingar og undir stórri ljósmynd af honum sjálfum. En ég fylgdi ferlinu og strikaði undir. Ég fór svo með greinina til fyrrverandi eiginkonu minnar sem hafði hana hjá sér í nokkra daga. Þegar við hittumst aftur var hún að mestu sammála undirstrikunum mínum en fannst hún ekki geta tekið undir þær allar. Þá benti hún á nokkur atriði sem ég hafði ekki strikað undir. Þar á meðal var setning um að fólk sem lifði með geðhvörfum II ætti oft erfitt með að taka ákvarðanir, væri jafnvel ákvarðanafælið en í besta falli óákveðið á ýmsa vegu. Án þess að hugsa svaraði ég í einlægni og af hreinskilni: „Já ég var ekki viss um hvort þetta ætti við mig.“

    Þó geðlæknirinn hafi haldið því fram í fyrsta tíma að ég væri nú sennilega skólabókardæmi um geðhvörf II fylgdi ég ferlinu þar til því lauk. Niðurstöður þess voru í fullu samræmi við sannfæringu hans svo ég úrskurðaður með geðhvörf II. En hvað svo? Eftir að hafa þurft að berjast við fyrri geðlækninn þurfti ég nánast að halda aftur af þessum seinni. Mér fannst ég engu nær. Ferlið var ekki til þess fallið að ég treysti því eða greiningunni og sérstaklega ekki þessum heimóttarlegu greiningaraðferðum.

    Of heitur.


    Eftir vinnu undanfarinna mánuða þóttist ég vissari en nokkru sinni um að ég hafi upplifað einkenni veikinda sem höfðu verið mér fjötur um fót alla ævi, án þess að fá nokkurn botn í það. Jæja, ég fékk svosem úr því skorið hjá seinasta geðlækni en ég var bara ekki tilbúinn að leggja traust mitt á það mat og enn sat ég eftir ráðvilltur. Hringir þá ekki síminn? Tilvísunin heilsugæslunnar til geðlæknis hafði þá skilað sér, þó ég hafi eiginlega verið búinn að gleyma henni, og mér er boðinn tími hjá þriðja geðlækninum – nú aðeins tveimur vikum eftir seinasta tímann hjá númer tvö. Ég ákveð að þiggja tímann þó ég sé hálf vonlaus eitthvað, en úr því þetta bauðst þá hafði ég svosem engu að tapa.

    Nokkuð fljótlega eftir að viðtalið hefst finn ég allt annað viðmót en hjá nokkrum öðrum geðlækni. Hann hlustaði á mig, sýndi mér nærgætni og hlýju og varpaði fram spurningum frekar en fullyrðingum. Þegar tímanum lauk áttaði ég mig á því að hann hafði staðið mun lengur en lög gerðu ráð fyrir. Hann beinlínis gaf mér tíma.

    Undir lok samtalsins ræddi hann aðeins við mig um geðhvörf og hvernig skilningur á þeim hefði breyst. Hann sagði að í stað þess að skipta geðhvörfum skarplega niður í tvo, þrjá eða fjóra flokka væru læknar miklu frekar farnir að tala um geðhvarfaróf. Sumt fólk situr neðarlega á rófinu og upplifir mild einkenni sem gæti verið erfitt að koma auga á, á meðan annað fólk situr ofarlega og upplifir mjög sterk einkenni sem hafa veruleg áhrif á lífsgæði. Hann sagði augljóst að ég hefði upplifað einkenni geðhvarfa – en ég þyrfti ekkert að kalla þau það. Það væri þó ráðlegt að halda áfram sálfræðimeðferð og lyfjameðferð. Þar sem lyfin væru nýtilkomin væri rétt að fylgjast með þeim svo hann bauð mér að koma aftur þegar lyfseðillinn tæmdist og ræða framhaldið.

    Akkúrat passlegur.


    Þó að þessi hluti ferðalags míns hafi tekið nokkra mánuði er það í raun frekar stuttur tími á heildina litið – bæði í mínu lífi og sem viðbragðstími þunglamalegs kerfis. En þegar heimili manns stendur í björtu báli þá langar mann ekki að sitja og bíða eftir slökkviliðinu. Hvert augnablik verður að eilífð. Þetta er langt frá því að vera auðvelt og kannski var ég heppinn með aðstæður og tímasetningu. Ég var á milli landa og gat leitað í tvö kerfi, ég hafði drifkraft og þrek, mín veikindi eru af þeim toga að það er vakning um þau, þau eru heldur ekki svo alvarleg að ég gæti ekki beðið og ég hafði fjárráð – því þetta kostar sannarlega sitt. Þetta er ekki öllum gefið. Í flestum tilvikum ímynda ég mér að fólki sé vísað á geðlækni og það ýmist hefur ekkert val eða er svo aðframkomið að það orkar ekki að máta mismunandi lækna. Eða bæði. Festist svo kannski hjá sama lækninum því það þorir ekki að skipta af ótta við að velkjast aftur um í kerfinu eða þykir fugl í hendi betri en tveir í skógi, sama hversu ræfilslegur sem hann er. Ég veit um fólk sem hefur verið ósátt með sína úthlutuðu geðlækna en ekki átt annarra kosta völ, einmitt þegar erfiðleikarnir eru mestir. Svolítið eins og maður sé að læra að synda þegar maður er að drukkna, eins og ég hef áður nefnt, eða leita á netinu að smart reykskynjara á meðan heimilið fuðrar upp. Ég hugsa að þetta séu mjög algengar aðstæður og ég velti fyrir mér hversu illa hefur farið fyrir mörgu fólki akkúrat á þessum krítísku stundum. Eflaust eru samt einhver sem hafa fundið sinn lækni í fyrsta kasti. Ég hélt allavega að þetta yrði einfaldara, kannski því að ég er að eðlisfari jákvæður, geng í verk og hespi hlutum jafnan af með ágætis árangri. En þetta er bara flókið og það þarf að taka með í reikninginn – og ekki síst væntingastjórnunina.

    Allar götur síðan hefur þriðji geðlæknirinn verið geðlæknirinn minn. Mér finnst hann henta mér best og hann hefur áfram reynst mér vel. Það þýðir samt ekki að hann sé fullkominn eða henti öllu fólki. Þvert á móti finnst mér þessi hluti sögunnar einmitt mikilvægur til að benda á að það krefst vinnu að finna þann stuðning sem hentar manni. Ég veit af fólki sem finnst geðlæknir 2 hafa reynst sér vel – og ég veit líka um fólk sem er ekki ánægt með geðlækni 3. Og þó mér hafi ekki líkað við geðlækni 2 kom hann samt með ýmsa punkta sem fylgja mér enn í dag. Fyrir rælni, á meðan ég var að rifja upp nafnið á geðlækni 1, rakst ég á síðu á netinu þar sem almenningi gefst kostur á að veita heilbrigðisstarfsfólki umsögn – og sá fær nú aldeilis að finna fyrir því. En jafnvel innan um harða gagnrýni mátti þó finna eina mjög jákvæða umsögn. Og þá má ekki gleyma móttökunum sem ég fékk hjá fyrstu tveimur geðlæknunum, sem ég hef þegar minnst á.

    Þetta er þó kannski ekki ósvipað öðrum alvarlegum veikindum. Það borgar sig að fá annað álit og það skiptir öllu að finna aðstoð sem er bæði hægt að treysta og líða vel með. Í sumum tilfellum þurfa samskiptahæfileikarnir kannski að víkja fyrir meðferðarhæfninni, en ekki fyrr en fólk hefur fengið samanburð – sé þess kostur.


    Þó að þessi kafli hafi fyrst og fremst átt að fjalla um hvað leit mín að greiningu var mikill vandræðagangur, átta ég mig á dálitlu þegar ég lít yfir farinn veg. Einu sinni sem oftar stend ég frammi fyrir því að ég hefði betur sótt meiri stuðning í fólkið mínu á þessum erfiðu stundum. Vissulega hafa þrautseigja, bjartsýni, von og þrjóska komið mér ansi langt, en það eru ekki ótæmandi lindir. Þegar þær þverr – sem gerist aftur og aftur í svona ferli – þá er nauðsynlegt að geta sótt utanaðkomandi styrk. Og besti styrkurinn liggur í öðru fólki sem axlar tímabundið með manni byrðarnar, á meðan maður safnar þreki til að bera þær aftur án hjálpar.

    Þess í stað gerði ég mér erfitt fyrir með stolti, skömm og beyglaðri sjálfsmynd. Mér fannst ég eiga að geta sjálfur. En þó maður geti sjálfur þá er það engin ástæða til að keyra sig út, því þaðan snýr maður ekki aftur svo glettilega. Þegar ég hefði mest þurft á henni að halda fannst mér það að biðja um hjálp frekar eins og að missa stjórn en sækja styrk. Það var ekki lausn – það var ógn við sjálfsmynd sem hafði verið mitt eina skjól.

    Eftir margra ára vegferð er enn að læra þetta. Kannski er ég jafnvel fyrst að byrja að læra þetta núna. Að biðja um hjálp. Að treysta. Að byggja tengsl. Að berskjalda mig fyrir fólkinu mínu en ekki síður sjálfum mér. Horfast blákalt í augu við sjálfan mig og fella grímuna. En það er ekki sjálfgefið að segja hlutina upphátt. Hvað þá að skrifa þá. Að birta þá. Að segja „svona er minn veruleiki, eins óþægilegur og mér finnst hann vera.“ En mig grunaði ekki hvílíkt vald það gæfi mér yfir minni eigin sögu. Það er auðmýkjandi, en því fylgir meiri umbreyting en mig hefði nokkurntíma grunað – og enn er af nógu að taka.

  • 4. Hakað í box

    Febrúar 2020. Laugardagskvöld. Ég hafði setið og hlustað á Mig vinkonu mína tala opinskátt um geðheilsu sína. Hún er greind með bipolar II (sjá nánar fyrir neðan) og er mikil baráttukona fyrir bættri geðheilsu. Hún tók þátt í árveknisátakinu “Time to talk” og streymdi þessu spjalli á facebook, aðeins nokkrum vikum áður en það varð mun algengara í heimsfaraldri. Til að byrja með hlustaði ég ekki með ýkja mikilli athygli, en eftir því sem leið á lagði ég allt annað frá mér. Þeim mun meira sem hún sagði fannst mér frásögnin eiga betur og betur við mig.

    Hér hefst vegferð mín fyrir alvöru. Eftir spjallið sat ég hljóður um stund og melti þessar upplýsingar. Gæti það verið? Ég hafði lengi litið á það sem svo að ég hefði alveg upplifað þunglyndi af og til, án þess að fá úr því skorið eða telja mig kllínískt þunglyndan. En kannski bjó meira að baki. Kannski var komin ástæða fyrir ótalmörgu í fortíðinni sem ég kunni ekki skil á, einkum líðan minni. Ég opnaði tölvuna til að sjá hvað fleira ég finndi en aldrei grunaði mig hvað ég ætti eftir að þurfa að læra margt. Mér átti eftir að líða eins og ég væri að læra að synda um leið og ég væri að drukkna.


    Það úir og grúir af ýmiskonar vefsíðum með allskonar upplýsingum. Ég kynntist fjölda nýrra orða og hugtaka. Ég kóperaði texta, setti upp í töflur og bar saman. Fletti upp bókum um efnið á netverslunum og að raða í körfu. Fann myndefni – viðtöl, þætti og heimildarmyndir. Frásagnir af frægu og fúnkerandi fólki, þó það sé með bipolar – sem mér finnst reyndar mjög sérstök framsetning. Fann instagram reikninga um geðheilsu og vellíðan (sem eru í bílförmum!). Þessi rannsóknarvinna varð allt að því manísk. Ég tók helling af þessu saman og sendi í tölvupósti á foreldra mína og nokkra vini. Ekki kannski til að biðja um hjálp – ég var hræddur, feiminn, stoltur og fullur af skömm. Ég skyldi bara reyna að laga þetta án þess að nokkur vissi og þá yrði allt betra. Ég hugsa bara að ég hafi verið að láta vita. Halda fólki fjarri. Kannski vildi ég beina athyglinni frá skilnaðinum sem ég var að ganga í gegnum og hafði enn ekki sagt neinum frá. Örvinglan mín var óneitanleg og þarna var kannski komin átylla.

    Mig langaði að ganga algjörlega úr skugga um að þetta væri raunin. Ég vildi vera þess fullviss að ég uppfyllti allar kröfur og fengi ábyggilega inngöngu í þetta samfélag. Kannski vildi ég ekki vera loddari. Kannski var þetta fyrsta upplifun mín af eigin fordómum í garð geðveikinda, ómeðvituð. Kannski vildi ég fá tíu og vera besti geðsjúklingurinn. Kannski skildi ég bara ekki neitt og vissi ekkert hvað var í gangi. Allt var svo óljóst og loðið. Hefði ég bara fótbrotnað hefði það ekki farið á milli mála, mér smellt í gips og brotið gróið á um sex vikum, eða þar um bil. Enginn vafi, bara lausnir. Í snatri.


    Á ensku heita þessi veikindi fullu nafni “Bipolar affective disorder” en á íslensku eru þau alla jafna kölluð geðhvarfasýki eða geðhvörf. Áður fyrr var fólk sagt „maníó depressívt“ eða upplifa „maníó depressjón“ – eitthvað í þá áttina – en sjálfum finnst mér orðið tvískautaröskun skemmtilegt. Ég nota flest heitin jafnt, nema maníó depressjón.

    Fólk með geðhvörf upplifir alvarlega sveiflukennda líðan sem m.a. felur í sér tímabil oflætis (maníu) og þunglyndis. Margt fólk á nokkuð „eðlileg“ tímabil á milli oflætis og þunglyndis sem geta varað frá nokkrum vikum upp í nokkur ár. Annað fólk sveiflast á milli þessa tveggja og siglir aldrei lygnan sjó. Hið seinna er talin alvarlegri útgáfa geðhvarfa, enda líklegri til að skerða lífsgæði fólks verulega og hamla þeim þátttöku í samfélaginu. Samkvæmt því sem ég hef kynnt mér hefur skilningur fagfólks á bipolar breyst umtalsvert á undanförnum 10-20 árum svo upplýsingar geta verið misvísandi, sem einfaldaði leit mína aldeilis ekki. Hér fyrir neðan má finna tengla á ýmsar greinar sem hafa reynst mér gagnlegar, en ég ætla að reyna að draga þær saman í eitthvað bitastætt, aðallega til að sýna fram á hvaða veg ég þurfti að ganga til að finna útúr mínum málum.


    Fyrstu heimildir um geðhvörf má rekja aftur til 460-370 f.Kr. þegar Hippókrates lýsti þessum tveimur andstæðu skapgerðum. Þunglyndið kallaði hann melankólíu. Öðrum grískum lækni, Aretaeus frá Cappadocia – sem var uppi á fyrstu öld e.Kr., er ætlaður heiðurinn af því að rekja þessar skapgerðir til heilans. Plató (428-348 f.Kr.) lýsti oflæti á tvo vegu – annars vegar af völdum líkamlegra þátta, hinsvegar af völdum guðlegrar íhlutunar eða innblásturs. Það var hinsvegar ekki fyrr en um 1850 að franskur geðlæknir, Jean-Pierre Falret (1794-1870) tengdi þetta tvennt saman sem skyld einkenni sem fólk gæti upplifað með hléum. Á svipuðum tíma lýsti annar franskur geð- og taugasjúkdómalæknir, Jules Baillarger, samskonar veikindum en án hléa. Fleiri geðlæknar, m.a. í Þýskalandi, lýstu samskonar veikindum sem var á endanum gefið heitið oflætis og þunglyndis vitfirring (e. manic-depressive insanity).

    Uppúr 1950 settu bandarískir geðlæknar saman fyrstu handbókina um geðsjúkdóma, sem er nokkurskonar höfuðrit geðlækna um heim allan – en þó er það ekki algilt. Bókin ber heitið Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders en er í daglegu talið kölluð DSM. Í henni voru geðhvörf flokkuð í þrennt: þunglyndi, oflæti og annað. Hringrás þunglyndis og oflætis féll undir „annað.“ Önnur útgáfa bókarinnar kemur út 1968 og þá var heiti veikindanna breytt úr oflætis-þunglyndis vitfirringu yfir í oflætis-þunglyndis veikindi. Það var ekki fyrr en í þriðju útgáfu, 1980, að geðhvörfum er lýst sem slíkum. Í henni var í fyrsta skipti settur fram sérflokkur um lyndisraskanir (e. mood disorders). Það er því ljóst að þessi veikindi hafa þvælst nokkuð um og því ekki skrítið að skilningur fólks sé hist og her. Þegar þetta er skrifað er nýjasta útgáfan DSM-5, útgefin 2022.

    Í dag eru geðhvörf flokkuð í fernt:

    1. Geðhvörf I, þegar einstaklingur hefur upplifað allavega eitt tilfelli oflætis sem varir í að minnsta kosti sjö daga. Þunglyndi kann eða kann ekki að hafa átt sér stað.
    2. Geðhvörf II, þegar einstaklingur hefur upplifað þunglyndislotur með einhverskonar oflæti inni á milli, en ekki af fullum krafti (þ.e. minna oflæti eða sk. hypomania). Gjarnan lýst sem vægari útgáfu geðhvarfa, fyrst kynnt til sögunnar í DSM-4 1994. Enn er tekist á um hvort þetta sé sértæk greining, hluti af geðhvarfarófi eða sé yfirhöfuð til.
    3. Hringhygli (e. cyclothemia), þegar einstaklingur upplifir ör skipti milli örlyndis og þunglyndis í að minnsta kosti tvö ár, með hléum sem vara ekki engur en átta vikur.
    4. Óskilgreind geðhvörf, þegar einstaklingur mætir ekki neinu af ofangreindu en hefur upplifað umtalsverða örvun skaps/lyndis.

    Til að hljóta greiningu, samkvæmt DSM-5, þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

    Geðhvörf I

    • Að minnsta kosti eitt tilvik oflætis. 
Það má fylgja í kjölfar eða vera undanfari minna oflætis (hypomaniu) eða þunglyndislotu, en þess er ekki þörf.

    Geðhvörf II

    • Að minnsta kosti eitt tilvik minna oflætis (hypomaniu)
    • Að minnsta kosti eitt tilvik alvarlegs þunglyndis
    • Ekkert tilvik oflætis. Verði oflætis af fullum þunga vart telst greiningin Geðhvörf I

    Hringhygli (cyclothemia)

    • Hýpómanísk einkenni sem vara í a.m.k. tvö ár (án þess að teljast full hýpómanía)
    • Einkenni þunglyndis sem vara í a.m.k. tvö ár (án þess að teljast alvarlegt þunglyndi)
    • Einkennin þurfa að vera til staðar a.m.k. helming ofangreinds tíma og skal hlé þeirra á milli aldrei vera meira en tveir mánuðir.
    • Engin tilvik maníu, hýpómaníu eða alvarlegs þunglyndis
    • Veldur neyð eða hömlun

    Óskilgreind geðhvörf

    • Einkenni undir greiningarmörkum, þ.e.
      • Skammvinn hýpómanía og þunglyndi
      • Hýpómanía án undangengins þunglyndis
      • Ónóg lengd eða fjöldi einkenna til að uppfylla öll skilyrði

    Eins er stundum talað um blönduð einkenni, þ.e. að fólk upplifi einkenni þunglyndis og örlyndis samtímis. Slíkt þykir sterkt greiningarmerki BP-II.

    En hvað telst þunglyndi og hvað telst örlyndi? Er maður ekki alla jafna mishress? Leikur stundum á als oddi en vill hafa sig hægan aðra daga? Til að skýra þessi hugtök hefur örlyndi og þunglyndi verið lýst nánar. Athugið að þessi samantekt mín er aðeins til viðmiðunar og hvorki tæmandi né fagleg. Teljirðu þig, eða eitthvert sem þú þekkir, upplifa eitthvað af því sem ég nefni skaltu umsvifalaust hafa samband við fagfólk.

    Þunglyndi
    Til þunglyndis teljast m.a. eftirfarandi einkenni. Ég man ekki nákvæmlega hvernig það liggur en til að hljóta greiningu (aftur, samkvæmt DSM) þarf lágmarksfjöldi einkenna að vera til staðar um lágmarks tíma. Hvort það eru a.m.k. fimm einkenni í a.m.k. tvær vikur, eða eitthvað svoleiðis.

    • depurð, uppnám eða grátgirni
    • sektarkennd og örvænting
    • sjálfshatur
    • doði
    • óróleiki
    • kvíði
    • spenna
    • þreyta eða sljóvgun
    • svartsýni
    • áhugaleysi um hversdagslega hluti
    • tómleikakennd
    • sjálfsvígshugsanir

    Eins gæti fólk upplifað að það

    • geti ekki einbeitt sér eða munað hluti
    • geti ekki sofið eða vakni snemma
    • sofi öllum stundum
    • komist ekki fram úr rúminu
    • hafi enga matarlyst

    Oflæti (manía og hýpómanía)

    Oflæti, einnig þekkt sem örlyndi, er geðrænt atferlisheilkenni sem er skilgreint sem ástand óeðlilega aukinnar örvunar, tilfinninga og orkustigs. Í oflætislotu upplifir einstaklingur ört breytilegar tilfinningar og skap. Þótt oflæti sé oft hugsað sem „spegilmynd“ af þunglyndi, getur hækkað skap bæði valdið vanlíðan og vellíðan. Þegar oflætið magnast getur pirringur orðið áberandi og leitt til kvíða eða reiði.

    Hýpómanía er viðvarandi ástand hækkaðs eða pirraðs skaps sem er vægara en oflæti en getur engu að síður haft veruleg áhrif á lífsgæði og leitt til varanlegra afleiðinga, þar á meðal gáleysislegrar eyðslu, skaðlegra samskipta og lélegrar dómgreindar. Hýpómaníulotur sem tengjast BP-II verða að vara í að minnsta kosti fjóra daga. Forskeytið hypo þýðir „minna en“ og er andstæðan við forskeytið hyper – sem þýðir „meira en.“

    Oflætislotur geta valdið því að fólk upplifi:

    • mikla hamingju, gleði eða jafnvel yfirþyrmandi gleði
    • mikla orku
    • hækkaða sjálfsvirðingu og hækkað sjálfsmat – jafnvel mikilfengleika langt umfram annað fólk eða guðleika
    • fullt af frábærum nýjum hugmyndum og mikilvægum áætlunum, sem koma ört fram og jafnvel breytast ört – en eru sjaldnast framkvæmdar
    • pirring eða órólegheit
    • skertra svefnþörf – langar vökustundir
    • sjálfsvígshugsanir
    • kvíða
    • hækkaða kynhvöt (hypersexuality)
    • hratt og pressað tal
    • einbeitingarskort / eigi auðvelt með að truflast
    • að það langi/þurfi ekki að borða
    • áhættuhegðun; gerir hluti sem hafa skaðlegar afleiðingar – eins og að eyða miklum peningum, aka hættulega, drekka illa eða stunda áhættusamt kynlíf
    • athafnir úr karakter, svosem segi eða geri eitthvað sem það myndi annars ekki gera

    Svo ég endurorði líttillega af Vísindavefnum:

    Í hýpómaníu er oft erfitt að sjá að eitthvað sé að fólki; það kemur vel fyrir, hefur óbilandi sjálfstraust, er líflegt og skemmtilegt, frjótt í hugsun og virðist hafa endalausa orku. Aftur á móti verður það pirrað við minnsta mótlæti, ókyrrt og getur ekki haldið sig við efnið. Í maníukasti missir fólk svo stjórn á hugsun sinni og hegðun. Hugur fólks fer á fullt flug; það fær ýmsar ranghugmyndir um eigin getu, jafnvel ofskynjanir. Það sefur sjaldan, talar endalaust og fær allt konar háleitar hugmyndir sem það framkvæmir síðan yfirleitt ekki. Hvatastjórnun hverfur út í bláinn svo oflætissjúklingurinn gerir gjarnan eitthvað sem hann myndi aldrei gera undir venjulegum kringumstæðum, svo sem að eyða langt um efni fram, stunda hættulegt kynlíf eða neyta vímuefna.

    Gjarnan er talað um að beint á eftir oflætislotu fylgi þunglyndislota. Þá upplifir einstaklingurinn skömm vegna þess sem átti sér stað í oflætinu – hegðuninni, hugmyndunum, peningaeyðslunni, kynlífinu o.s.frv. Ég get ekki sagt til um með vissu hvort ég hafi alltaf lent í þunglyndislotu eftir hýpómaníulotu – en ég hef sannarlega upplifað skömm eftir að hafa verið full hress af og til. Oft kemur grátur eftir skellihlátur.

    Meginmunurinn á maníu og hýpómaníu er að í hýpómaníu upplifir einstaklingur ekki geðrof. Fari einstaklingur í geðrof telst lotan manía. Geðrof er ástand þar sem einstaklingur getur ekki greint á milli þess sem er raunverulegt og þess sem er ekki raunverulegt. Dæmi um geðrofseinkenni eru ranghugmyndir, ofskynjanir og óskipulagðar eða samhengislausar hugsanir eða tal. Geðrof er lýsing á ástandi eða einkennum einstaklings, frekar en geðsjúkdómur útaf fyrir sig, og það tengist ekki geðvillu (e. psychopathy), sem er persónuleikagerð sem einkennist af skertri samkennd og iðrun, ásamt djarfri, óheftri og sjálfmiðaðri hegðun. Þess má geta að það sem einu sinni var kallað siðblinda (e. sociopathy) fellur nú undir skilgreiningu geðvillu.

    Athugið að þunglyndis- og oflætislotur sem eru tilkomnar vegna lyfja- eða vímuefnaneyslu teljast ekki tengdar veikindunum geðhvörfum og eru því ekki gjaldgengar til greiningar.

    Samhliða veikindi/samkvillar (e. comorbid conditions) eru afar algeng hjá einstaklingum með BP-II. Í raun eru einstaklingar tvöfalt líklegri til að lifa með samhliða veikindum en ekki. Á meðal samhliða veikinda eru kvíði, átröskun, persónuleikaraskanir og vímuefnaneysla. Fyrir BP-II er íhaldssamasta matið á lífstíðartíðni áfengis- eða annarra vímuefnaneysluraskana 20%. Hjá vímuefnaneytendum með BP-II vara loturnar lengur og meðferðarheldni minnkar. Forrannsóknir benda til þess að samhliða vímuefnaneysla sé einnig tengd aukinni hættu á sjálfsvígshugsunum.


    Nákvæm orsök tvískautaröskunar er óþekkt, en talið er að hún sé sambland af erfðafræðilegum, líffræðilegum, sálfræðilegum og umhverfisþáttum.

    Erfðir:
    Tvískautaröskun er tiltölulega arfgeng, þó ekki þannig að allir afkomendur erfi hana eða að hún geri vart við sig í hverjum ættlið. En sé saga um geðhvörf í fjölskyldunni er það sterklega tekið til skoðunar í greiningarferlinu, upplifi aðrir blóðskyldir fjölskyldumeðlimir einkenni. Það bendir til vægis erfðafræðilegra þátta, en þó hefur ekkert eitt gen verið greint sem eina orsökin. Eins hafa rannsóknir á eineggja tvíburum sýnt að annar tvíburinn þrói ekki alltaf með sér geðhvörf þótt hinn tvíburinn sé með sjúkdóminn – svo þetta er ekki slétt og fellt.

    Boðefni heilans:
    Ójafnvægi í taugaboðefnum eins og serótóníni og noradrenalíni, sem stjórna skapi, getur átt þátt í þessu.

    Framheilaþroski:
    Framheilinn gegnir lykilhlutverki í ýmiskonar starfsemi, þar á meðal rökhugsun, rýmisgreind, minni, sjálfsstjórn, skipulagningu, ákvarðanatöku, dómgreind, óhlutbundinni (e. abstract) hugsun, persónuleika og tungumáli. Hann tekur einnig þátt í hreyfistjórnun og tjáningu almennt. Hann þroskast hægt á fyrstu árum ævinnar en þroskinn hefst svo fyrir alvöru samhliða kynþroska. Áður var talið að framheilinn væri fullþroskaður á aldrinum 16-18 ára, en nú til dags er jafnvel talað um að hann nái ekki fullum þroska fyrr en um 25 ára aldur. Þroskaskerðing eða skemmdir á framheila eru tengd ýmiskonar geðveikindum og stórar presónuleikabreytingar eru jafnan taldar til marks um framheilaskaða, t.d. af völdum höfuðhöggs, áfengis- og vímuefnaneyslu eða undirliggjandi ástæðna.

    Þá geta atburðir í lífi fólks, eða lífsstíll, ýmist kallað fram geðhvörf í fyrsta sinn eða kallað fram lotur, séu geðhvörf þegar undirliggjandi. Þar á meðal eru:

    Gikkir (e. triggers):
    Streituvaldandi atburðir, svo sem sambandsslit, húsnæðismissir, atvinnumissir, ástvinamissir, fjárhagserfiðleikar eða misnotkun.

    Neysla vímuefna:
    Áfengis- og vímuefnaneysla getur haft áhrif á upphaf og feril geðhvarfasýki, hugsanlega kallað fram eða aukið einkenni.

    Aðrir þættir:
    Svefntruflanir, ákveðnir sjúkdómar og jafnvel árstíðabundnar breytingar geta einnig stuðlað að þróun eða versnun einkenna. Á Íslandi er talið að bjartar sumarnætur auki tilfelli oflætis.

    Mikilvægt er að hafa í huga að þó þessir þættir séu taldir stuðla að tvískautaröskun, valda þeir henni ekki endilega. Nákvæmt samspil þessara þátta er mismunandi eftir einstaklingum, sem gerir það erfitt að benda á eina orsök.


    Þó að ég eigi stundum erfitt með að viðurkenna að ég hafi upplifað mörg einkennin sem ég lýsi hér að ofan, einkum því mér finnst ég ekki alltaf eiga greininguna skilið, þá get ég samt sagt að þegar ég upplifi einkenni þá mæta þau ekki gangrýnni hugsun. Enda er það talið greiningarmerki að fólk er ekki meðvitað um ástand sitt, einkum oflæti. Á þeim stundum því þykja mér gjörðir mínar fullkomlega eðlilegar og það getur tekið mig nokkurn tíma að átta mig á samhengi hlutanna eftir að sjatnar. Ætli þetta væru annars einkenni, ef maður gæti stoppað sig af? Það sem truflaði mig mest, í þessari leit minni, var að ég hef ekki hugmynd um hversu lengi ég upplifi einkenni hverju sinni. Voru það fjórir dagar? Kannski bara þrír og hálfur? Kannski bara brot úr degi, annan hvern dag. Kom þetta og fór? Kannski upplifði ég ástandið án þess að sýna einkennin eða faldi þau. Hver ætlar að dæma og segja til um hvort ég uppfylli skilyrði til greiningar eða ekki?

    Stutt frásögn sem ég fann á instagram gagnaðist mér nokkuð til að takast á við þessar hugsanir, hvort sem hún er sönn eða ekki:

    „Bróðir minn brosti öllum stundum, átti marga vini, var fyrirliði fótboltaliðsins í skólanum, hélt uppi stuðinu í partýum og átti frábæra kærustu. Samt féll hann fyrir eigin hendi.“

    Það er ekki allt klippt og skorið. Þessi frásögn minnti mig á samstarfskonu mína, frá því í seinasta pistli, sem horfði á mig með aðdáun og spurði hvort ég væri bara aldrei leiður. Mitt allra nánasta fólk, þá einkum makar, eru helst þau sem hafa fengið að kynnast öðru.

    Það er áhugavert að sum einkenni falla undir báða flokka. Af minni reynslu get ég misst matarlyst af depurð eða doða, en þegar allt er á fullri ferð og orkan er mikil finnst mér ég ekki alltaf þurfa að borða. Svo á ég svosem líka tíma inni á milli þar sem ég vel að borða minna – en það er önnur saga. Svefnleysi sökum vonleysis eða kvíða, eða minnkuð svefnþörf vegna aukinnar orku tengi ég fast við, þó alla jafna sofi ég nokkuð vel. Ýmist fannst mér þessi einkenni, einkum einkenni BP-II, smellpassa við mig. Eða alls ekki. Ég var jafn sannfærður og ég var vonlaus um að þetta væri lausnin á öllum mínum vandamálum. En ég var í leit að lausn, helst töfralausn, og hamaðist við að haka í boxin svo ég væri nú einhvers virði.

    Fyrst um sinn fannst mér mjög þægilegt að hafa svona vel útlistuð greiningarmörk. Það veitti mér öryggistilfinningu og skýra stefnu. Svo lengi sem ég hakaði í boxin væri ég löggildur. En eins og ég sagði þá er þetta ekki svona einfalt og ég velktist mikið í vafa um hvað ætti við, hvað ætti ekki við, hversu lengi það ætti við, hvort ég væri bara að ímynda mér hlutina eða hvað. Þegar ég kafaði ofan í það var skýrleikinn ekkert eins mikill og mér fannst í fyrstu, sem enn bætti á ringulreiðina.

    Seinna í greiningarferlinu lærði ég svo mikilvæga lexíu, sem hefði verið gott átta sig á fyrr. Eins og í svo mörgu öðru eru svo ekki sömu greiningarkerfin á milli landa. DSM er mjög ítarleg handbók um greiningar, með mjög skilmerkilegum upplýsingum. Litið er til hennar í greiningarkerfum víða annarsstaðar í heiminum. En þetta er bandarísk handbók og upplýsingum úr henni þarf að taka með það í huga. Í Bandaríkjunum ríkir nefnilega nk. lögsóknarmenning eða ábyrgðarmenning (e. liability culture). Fólk beinlínis sætir færis á að lögsækja læknana sína. Þess vegna hafa þeir komið sér saman um ströng skilyrði. Bókin er belti og axlabönd. Samvinnan tryggir að einn læknir er í raun að vísa í sameiginlegt álit margra og er því ekki einn ábyrgur fyrir greiningunni. Ströngu skilyrðin tryggja að þau sem greinilega falla undir þau fá stimpilinn. Hún er ekki endilega skrifuð til að hjálpa fólki sem lifir með geðveikindum – heldur kannski frekar til að vernda læknana og því ætti að varast að taka henni sem heilögum kaleik. Þau sem passa svo kannski ekki eins greinilega undir hattinn eða upplifa vægari einkenni en DSM kveður á um eiga það til að verða utanveltu. Eins og ég. Upplýsingar um óskilgreind geðhvörf voru ekki mér ekki auðfundnar á þessum tíma og mér fannst ég þurfa að mæta öllum skilyrðum til að eiga séns í að þetta ætti við mig. Teljast fullgildur. Fá tíu.

    En hvað sem öllu leið, strax eftir helgi hringdi ég á heilsugæslustöðina og pantaði tíma hjá geðlækni.


    Hér má finna lista yfir þær helstu vefsíður sem ég leitaði mér upplýsinga á, fyrst um sinn. Lista yfir bækur, myndefni, samfélagsmiðla og annað mun ég birta seinna.

  • 3. A secret third thing

    Við fyrstu skref þessa verkefnis sem ég hafði ákveðið að takast á við fannst mér mjög flókið að átta mig á geðheilsu minni og geði almennt. Það sem maður elst upp við og hefur tamið sér finnst manni nefnilega eðlilegt svo það er erfitt að koma auga á það sem amar að. Maður venst því. Kannski ekki ósvipað því að keyra bíl sem fer smám saman að bila. Eftir nokkur ár þarf nokkrar tilraunir til að ræsa hann, olíuljósið logar stöðugt, það er ekki hægt að skipta í annan gír og skottið lokast ekki almennilega. En það er allt í lagi. Ég er búinn að læra á hann og get látið þetta ganga. Í raun er allt eðlileg, á absrakt máta ef út í það er farið. Til þess að átta mig á þessu öllu byrjaði ég því ósjálfrátt á að setja hlutina í samhengi sem ég skildi betur. Það var mér einhvernveginn náttúrulegt. Kannski ekki ósvipað því sem við gerum í leikhúsinu. Fyrstu líkindin sem ég dró voru með líkamlegri heilsu minni. Nokkuð sem átti eftir að reynast mjög gagnlegt í að hjálpa mér að takast á við andlega heilsu mína og ég mun vísa endurtekið í. Vakavörun (e. trigger warning): Þessi frásögn fjallar um hósta, hor og slím og dregst dálítið á langinn! En leyfið mér að teikna upp mynd sem leiðir að niðurstöðu í lokin – og svo fer ég að tala um meira djúsí stöff. Ég lofa.

    Síðan ég var barn hef ég átt í basli með ýmiskonar kvilla tengda kvefi. Lungun í mér, nefholið, slen og þess háttar. Ekki miklu basli – bara „smá“ asthma og ofnæmi. Aðallega bara vesen. Leiðindavesen. Ekki eitthvað sem tekur mig úr umferð heilu og hálfu dagana – þetta jafnar sig alltaf – en nóg til að draga úr mér, pirra mig og valda mér óþarfa álagi. Nú reyndar þegar ég horfi á stóru myndina sé ég að það hefur haft mun meiri áhrif á lífsgæði mín en ég myndi trúa, en hvert atvik útaf fyrir sig var bara, aftur – vesen. Þetta tímabil varði um það bil frá 10-27 ára aldurs, eða þar um bil. Síðan að vandinn var almennilega greindur og á honum tekið er vesenið nokkurnveginn úr sögunni og ég kvefast nú á við flest fólk.

    Eitthvert sumarið, á bilinu 2003-2005 c.a., tók ég mynd á Nokia 3200 spjallsímann minn sem kjarnar vesen mitt og vanlíðan af völdum kvefs. Myndina birti ég á gömlu bloggi eftir skemmtilegum krókaleiðum. Ég hafði tengt símanúmerið mitt við vefþjónustu sem var skráð inn á Blogspot síðuna mína (sem birtist á mínu eigin léni) svo ég gat sent mynd í mms skilaboðum sem varð sjálfkrafa að bloggfærslu. Mjög tæknivætt á þeim tíma, takk fyrir pent – en þetta er útúrdúr. Myndin sýnir tvær tegundir af nefspreyi (kvef og ofnæmis), tvennskonar astmalyf, augndropa, ofnæmistöflur, verkjalyf eða sýklalyf og eitthvað fleira. Ég veit ekki með tyggjópakkann. Til viðbótar hef ég eflaust haft til handagagns dágóðan skammt af snýtipappír. Myndin fékk titilinn „Góður nætursvefn.“

    „Góður nætursvefn, c.a. 2004.“

    Asthminn hefur fyrst og fremst valdið því að ég verð andstuttur þegar hans verður vart. Álag á lungun veldur bólgu í slímhimnu svo súrefnisupptaka minnkar. Við það eykst álagið enn á lungun sem aftur eykur bólgurnar í slímhimnunni svo úr verður vítahringur. Slímmyndun eykst, ég hósta eins og stórreykingamaður og það hryglir í mér lengi á eftir. Þegar verst lætur getur það tekið mig nokkra daga að jafna mig. Fyrst og fremst gerðist þetta við áreynslu, en ég átti það líka til að upplifa asthmaköst við snarpar hitabreytingar. Eitt slíkt kast átti ég á miðjum unglingsárum þegar við vorum nokkrir vinir saman í heimahús að kvöldi, snemma vors. Það var sæmilega hlýtt innandyra en kaldara úti þegar liðið var á kvöldið. Þar sem ég gekk áleiðis heim helltist yfir mig slíkt kast að ég afréð að snúa við og biðja um að mér yrði skutlað heim. Ég kom vart upp orði og mamman á heimilinu velti því upp hvort hún ætti frekar að fara með mig á sjúkrahús en heim. Ég stundi því upp að þetta væri nú allt í lagi en alla leiðina hef ég sennilega hljómað eins og ég væri dauðvona. En svo leið þetta hjá eins og allt annað. Á endanum hætti skröltið í miðstöðinni, þegar bíllinn var orðinn nógu heitur.

    Áreynsluasthminn kom aftur á móti mest í ljós í leikfimitímum í grunnskóla, sennilega því að utan þeirra forðaðist ég eins og heitan eldinn að reyna á mig svo ég þyrfti ekki að ganga í gegnum þessar raunir. Í einu, blessuðu píptestinu var ég svo kvalinn af verkjum í lungunum eftir meðal frammistöðu (ef það) að ég sneri mér að íþróttakennaranum til að reyna að tjá vanlíðan mína – en gat á endanum ekki annað en farið að grenja. Ég gleymi seint viðbrögðum hans, greyið mannsins, þar sem hann í örvinglan glennti upp augun, veifaði lófum með útglenntum fingrum að mér og sagði „Nei ekki skæla. Ekki skæla!“ Þekkingunni og skilningnum var ekki fyrir að fara, sem er þó ekki hans sök.

    Besta ráðið gegn viðvarandi asthma er að taka púst – stera í innöndunaralyfi sem vinna gegn þessum bólgum. Ég hef jafnan haft tvö púst – þetta fjólubláa (seretide) sem ég tek að staðaldri, tvisvar á dag, og þetta bláa (ventolin), sem ég tek eftir þörfum – þegar asthmans verður vart. Stærsta vandamálið mitt með þessi lyf var hinsvegar að ég lærði ekki almennilega á inntöku þeirra fyrr en hátt á þrítugsaldri. Það gat þýtt að ég tók þau ekki rétt svo þau höfðu engin áhrif, ég tók of lítið af þeim – nú eða of mikið.

    Dæmi um það gerðist eitt sumarkvöld á unglingsárum mínum, í sumarvinnunni í Búrfelli. Það var svalt sumarkvöld, við vorum nokkur í leikjum utandyra og lágum svo í einum hólnum. Þetta litla álag og kuldinn settist í lungun á mér, ullu asthmakasti svo ég tók púst. Kastið þráaðist við svo ég tók annað púst. Ekkert gerðist og líðan mín var ekki góð svo ég hélt áfram að pústa mig lengi vel. Jafnvel nokkur púst í einum rykk. Ég átti mest að taka tvö. Á endanum bar þetta árangur en þá vissi ég ekki að ég hafði tekið of stóran skammt af pústinu svo annarskonar vanlíðan tók við. Ég beinlínis skalf og mig verkjaði í marga klukkutíma á eftir, sem eru klassísk einkenni ofskömmtunar sterapústs. Bjargráðið varð böl.

    Svo er það ofnæmið. Sem barn var ég greindur með ofnæmi fyrir ryki, ýmiskonar frjókornum og loðnum dýrum, einkum köttum og hundum. Við þessum ofnæmum er til mýgrútur af ólyfseðilsskyldum lyfjum, svo það ætti að vera einfalt að halda þeim í skefjum. Ég hef þurft að reiða mig á ofnæmistöflur, nefsprey og augndropa en framanaf gekk mér mjög illa að finna rétta blöndu. Aftur, þá hafði ég ekki fengið góða tilsögn í notkun þessara lyfja. Stór hluti af vellíðan minni var því fólginn í að forðast ofnæmisvaldana. Rykið var (og er) reyndar erfitt að forðast í félagsheimilum og leikhúsum – stórum rýmum sem er ekki einfalt að halda tandurhreinum – og ég get ekki alltaf stillt mig um að klappa hundum og köttum. Bannsett frjókornin, sem ég hef mesta ofnæmið fyrir, var erfiðast að forðast þegar mest lét og jafnvel inni í miðjum stórborgum var ég stokkbólginn, stíflaður og pirraður. Suma dagana var eina ráðið að halda sig innandyra, daga þar sem flest fólk vill njóta veðurs og útivistar. Rigning er nefnilega guðsgjöf fyrir ofnæmispésa. Nema að henni lokinni. Þá eru allar plöntur frískar og æstar í að fjölga sér. Frjókornatímabil eru líka mismunandi eftir plöntum, svo í stað þess að taka þetta allt út í einum stuttum rykk dregst þetta á langinn yfir vorið og jafnvel fram á sumar. Að ég tali nú ekki um ef maður ferðast á mili Íslands og heitari landa, þar sem vorið byrjar fyrr. Þá getur maður fengið að upplifa það tvisvar.

    Vegna þessa var ég sífellt kvefaður, ofan á árstíðarbundnar og eðlilegar kvefpestir. Ég segi gjarnan að ég hafi kvefast á sex vikna fresti, fimm vikur í senn. Þetta hljóma eins og ýkjur, en þetta lætur nokkuð nærri lagi. Og þegar kvefinu í sjálfu sér lauk sat ég uppi með slím í lungum og nefholi lengi á eftir. Ég man eftir að hafa farið hringferð um landið að vetri með nokkrum félögum á að giska 2002 og hóstaði stanslaust allan tímann. En ég var vanur að keyra þennan bíl og vissi hvar best væri að lemja í húddið til að halda honum gangandi. Þetta var ekkert vandamál, bara eitthvað sem þurfti að lifa við. Mamma hafði raunverulegar áhyggjur af því að ég fengi lungnaþemu fyrir tvítugt.

    Ýmsar aðferðir hafa verið reyndar til að takast á við þessar afleiðingar kvefs og létta mér lífið. Á aldrinum 10-12 ára var allavega tvisvar skolað úr nefholinu á mér í aðgerð sem krafðist svæfingar, til að losna við slímið. Þær voru ekki framkvæmdar á Ísafirði, þar sem fjölskylda mín býr, svo ég þurfti að fara til Reykjavíkur. Eftir að slíkum aðgerðum var hætt fékk ég í staðinn stera í töfluformi þegar þurfti að hreinsa upp dreggjar kvefsins. Prednisolon, eða prednisone, tók ég af og til í átta til tíu daga – átta til tíu töflur á fyrsta degi og svo fækkað um eina á hverjum degi þar til kúrnum lauk. Það skipti engum togum, öndunarfærin hreinsuðust hratt af öllum skít – en áhrifin á skapið í mér voru ekkert grín. Ég varð eins og naut í flagi. Ég var bálreiður í um tvær vikur samfellt og leið algjörlega bölvanlega. Ég man eftir að hafa staðið við eldhúsvaskinn eitt kvöld og vaskað upp eftir kvöldmatinn, þegar að mér sótti svo gífurleg reiði að mig langaði að mölva hvern einasta disk og hvert einasta glas fyrir framan mig. Fleygja þeim í eldhúsveggina af afli. Öskra. Í augnabliks skýrleika gat ég staldrað við og spurt mig hvers vegna í ósköpunum ég væri svona svakalega reiður og mundi: „Ah! Alveg rétt – ég er á sterakúr.“ Samstundis rann mér reiðin eins og ekkert hefði í skorist. Diskarnir og glösin komust klakklaust frá.

    Jafnvel þó ég væri ekki á sterakúr gat þetta samt allt hlaupið í skapið á mér. Sífelldur kláði í andliti, stokkbólgin augu og lekandi tár, hellur fyrir eyrum, hálsbólga, nefrennsli, þurrt nef eftir ofnotkun snýtipappírs, slen, orkuleysi, lélegur svefn, vanmáttarkennd og löngun í að geta tekið þátt í lífinu gátu verið mér ofviða. Þið hafið kannski einhver upplifað þetta – en þið hin getið tæplega gert ykkur grein fyrir því hvað þetta er glatað, nokkra mánuði í senn á hverju ári. Þó að vetrinum fylgi oft kvef var sumarið mér ekkert fagnaðarefni. Svo leggst þetta saman við þær undirliggjandi ástæður sem þetta blogg er jú mest um, hvað líðanina varðar.

    En ég átti líka skrítnar og asnalegar leiðir til að kvefast. Eitt sumarið, á að giska milli 10 og 12 ára, vorum við fjölskyldan á ferðalagi um landið. Síðla dags komum við að sveitasundlaug til að skola af okkur ferðarykið. Þegar við runnum í hlað mótmælti ég þessum áformum og tilkynnti foreldrum mínum að ég ætti ekki að fara í sund – ég væri með ofnæmi fyrir klór og myndi bara kvefast. Þessi ekkisens vitleysa í drengnum, sem gerði hvað sem er til að koma sér undan minnstu hreyfingu og íþróttaiðkun, mætti litlum skilningi foreldranna sem beittu neitunarvaldi – svo ofaní fór ég. Degi eða tveimur seinna var ég kominn með bullandi kvef. Sem fyrr þýddi það langdregið ferli og leiðindi. Íbygginn svip föður míns man ég skýrt. Þetta þyrfti að kanna. Drengurinn var kannski ekki bara að plata. Upp frá þessu fékk ég vottorð í skólasund og hef eiginlega alveg forðast sundlaugar, þessar frábæru heilsulindir, síðan.

    Svo á tímabili hófst kvefið mitt með sýkingu í lungum. Þetta gerðist sérstaklega þegar ég var á þrítugsaldri. Yfirleitt gerðist það einu sinni á ári, á fyrstu mánuðum ársins, en stundum oftar. Eftir að hafa hóstað í dag eða tvo fór ég að skjálfa og var bæði heitt og kalt á sama tíma. Stundum fór ég strax að skjálfa án þess að hafa hóstað nokkuð. Klárt merki um sýkingu og eina leiðin til að losna við hana var að fara á sýklalyfjakúr. Ég man helst eftir þessu skeiði yfir um fimm ára tímabil í London og ég var svo gott sem með heilsugæslustöðina mína á hraðvali í símanum. Þegar þetta byrjaði skildi ég ekki alveg hvað var í gangi svo ég reyndi að bíða og láta þetta líða hjá. Það gerðist ekki svo í staðinn var ég bara lengur úr leik, að óþörfu. Með tímanum áttaði ég mig á einkennunum og hringdi stundum samdægurs heilsugæsluna, jafnvel aðeins fáum andartökum eftir að einkenanna varð vart. Það er vinnuregla í Bretlandi (og eflaust víðar) að gefa ekki sýklalyf nema að lokinni skoðun svo það þýddi ekkert að lýsa einkennum mínum í símann, þó ég reyndi. Jafnvel þó ég benti á sjúkrasögu mína, sem heilsugæslan hafði skráða hjá sér, skyldi ég mæta. Sem betur fer var hún ekki langt frá heimili mínu en alltaf þurfti ég að staulast af vanmætti og í hvert sinn tóku læknarnir undir greiningu mína. Þá átti ég eftir að staulast aðeins lengra í apótekið og aftur heim.

    Skrautlegast var í þessu öllu saman að ég gat tengt við kvef vatnsneyslu. Já – bara kranavatn eða vatn úr verslun. Ef ég drakk eðlilegt magn drykkjarvatns átti ég það til að finna fljótlega fyrir kvefeinkennum. Ég þornaði upp í hálsi, fann fyrir hálsbólgu sem fikraði sig upp í nefhol og degi eða tveimur seinna var ég stíflaður af kvefi. Þetta hljómar eins og algert vitleysa og vol – en á þessu er skýring sem ég kem að á eftir. Ég á mjög skýra minningu af æfingu fyrir nútímadansverk í London þar sem ég drakk vatn úr verslun og kvefið helltist mjög skarpt yfir mig. Það var mér til happs í þetta sinn að framleiðsla verksins var í höndum vinkonu minnar sem hefur dansinn að áhugamáli en er prófessor í læknisfræði við Harvard háskóla að aðalstarfi. Hún bjargaði mér eftirminnilega í þessu ferli. En úr því ég hafði þetta á tilfinningunni, galið sem mér fannst það, forðaðist ég að drekka vatn. Ávaxtasafar, mjólk, gosdrykkir – allir aðrir drykkir en vatn – höfðu ekki þessi áhrif. Þar með bættist vatn á listann yfir það sem ég forðaðist, ásamt hreyfingu, útiveru, hitabreytingum og sundlaugum. Ætli það sé nú?

    Til þess að takast á við þetta allt saman þurfti ég (og þarf) allskonar hækjur sem ég hef þegar minnst á. Tvennskonar (og stundum þrennskonar) asthmapúst, ofnæmisnefsprey, kvefnefsprey, kvefvarnarnefsprey, ofnæmistöflur, vítamín, sýklalyf, sterar, verkjalyf, hitastillandi og þar frameftir götunum. Fyrir utan áhrifin sem lyfin geta haft á líkamann, s.s. í tilfelli sýklalyfja. Það snerist hreinlega allt um að halda mér gangandi, að forðast skaðvaldana og þrauka, dag frá degi. Þó að olíuljósið logi, það sé skrölt í miðstöðinni og handbremsan virki ekki almennilega skal keyra þessa druslu. Munurinn er kannski sá að bílar undirgangast reglulega skoðun til að staðfesta að það sé óhætt að keyra þá.

    En er ég nú að segja? Jú – á um sautján ára tímabili í lífi mínu og á helstu mótunarárum mínum átti ég í sífelldu basli með frekar algenga og almenna grunnvirknivirkni í líkamanum sem flest okkar reiða sig á. Öndun. Aftur, ekki stórkostlega alvarleg veikindi sem fengu athygli færustu sérfræðinga og útheimtu meiriháttar inngrip – bara minniháttar vesen sem hafði tímabundin áhrif. Allt frekar algengt, engar langvinnar líkamlegar afleiðingar og ekkert ofboðslega áhugavert fyrir heimilis- og sérfræðilækna. Ég þurfti að þvælast um heilbrigðiskerfi tveggja landa um langt tímabil áður en ég gat farið að anda eðlilega. Og eins og ég segi hefur þetta vesen haft mun víðtækari áhrif á lífsgæði mín en ég hafði áttað mig á fyrr en ég set saman þessa stóru heildarmynd. En læknarnir eru ekki til þess að meðhöndla það. Ég þurfti að átta sig á því sjálfur. Nema ég gerði það ekki.

    Ég hafði heyrt að til væru meðferðir sem vinna á ofnæmi og útrýma því í eitt skipti fyrir öll. Afnæming, sem sum kalla. Hafandi fyrir löngu fengið nóg leitaði ég, um það bil 27 ára gamall, til heimilislæknis míns og bað um að fá að fara í svona meðferð. Ég fékk tilvísun á konunglega háls- nef og eyrnaspítalann í London þar sem ég var tekinn til skoðunar. Það ferli tók nokkra mánuði með endurteknum endurkomum og að endingu fékkst niðurstaða í beiðni mína. Henni var neitað. Þar sem ég hafði áður þurft að taka sterana sem ég nefni hér að ofan var talin töluverð áhætta að ég myndi ekki lifa afnæminguna af. Þó það hefði svosem bundið enda á ofnæmið.

    Læknirinn gat þó sagt mér annað. Auk þess að vera með asthma og ofnæmi glímdi ég við “secret third thing.” Ég væri með sk. allergic rhinitis, sem á íslensku ber hið aðlaðandi heiti þrálát nefslímubólga. Þetta er viðvarandi ástand þar sem slímhúðin í nefholi og kinnbeins- og ennisholum er viðkvæm fyrir bólgum og framleiðir meira magn slíms en er eðlilegt. Þetta slím er flestu fólki smurefni fyrir hálsinn. Það er í stöðugu rennsli og fæst fólk veitir því eftirtekt. En í mínu tilviki er offramleiðsla á þessu slími svo í stað þess að smyrja hálsinn bjó hann við stöðuga ertingu. Bakteríuflóran í hálsinum gat því auðveldlega farið úr skorðum, til dæmis með því að raska sýrustigi (drekka of mikið vatn) eða með efnum sem eiga ekki heima þar (klór). Útkoman varð sýking í hálsi sem breiddi úr sér upp í nefhol sem af sömu ástæðu viðhélt sér svo, þannig að illmögulegt var að losna við hana. Þið spyrjið kannski hvernig klórinn komst í öndunarfærin? Það er ekki eins og ég hafi drukkið sundlaugavatnið eða sprautað því inn um nefið á mér. Nei, en það er einhver leið á milli nefhols og augntófta, svo þegar ég fór í sund án sundgleraugna komst klór í kerfið. Ef ég fer með gleraugu er þetta ekki vandamál. Þó kitlar mig enn í nefið þegar ég anda að mér klórblönduðu lofti sundlauganna.

    Með þessa þrjá samverkandi þætti í huga var loks komin skýring á því hvers vegna ég kvefaðist svona oft og hvers vegna kvefin voru svona þrásetin. Þarna var loksins komið púslið sem vantaði. Svarið var að nota réttu lyfin og nota þau rétt. Það grátlegasta við þetta allt saman er að ég var að mestu að nota lyfin sem á endanum hafa unnið bug á þessu basli nú þegar, ég hafði bara ekki fengið almennilegar leiðbeiningar um hvernig ég ætti að beita þeim. Sérfræðilæknirinn sem hafði mig til meðhöndlunar lagði mér skýrar reglur. Ég skyldi skipta um ofnæmistöflur og taka þær daglega, árið um kring. Ofnæmisnefspreyið mitt skyldi ég líka taka tvisvar daglega. Beina því á sérstakan hátt inn um nefið. Það er sterasprey sem dregur úr stærð kirtla í nefholi sem valda þessari offramleiðslu. Áður fyrr var víst hægt að láta taka þá en það var ekki gert lengur. Asthmalyfin hafði ég fengið betri kennslu á fáeinum árum áður, þegar ég var staddur í York sem svaramaður í brúðkaupi vina minna. Kvöldið fyrir brúðkaupið þurfti guminn að fara með mig á heilsugæslu þar sem á mig var fest gríma og ég látinn anda að mér extra sterkum sterum í um hálftíma. Þegar ég hafði jafnað mig á kastinu spurði hjúkrunarfræðingurinn mig hvort ég notaði ekki asthmalyf. Ég sýndi henni hvernig ég tók þau og eftir það tók hún mig í kennslustund. Sagði mér hvernig ég ætti að beita þeim og útskýrði virkni þeirra fyrir mér.

    Um þremur til fimm vikum eftir þessar leiðbeiningar sérfræðilæknisins upplifði ég nokkuð sem ég mun seint gleyma. Ég var staddur á suðurbakka Thames á sólríkum sumardegi og ég gat dregið andann. Það sem meira var, ég fann loft flæða um nefholið þar sem ég hafði aldrei fundið það áður. Kaldan gust sem fyllti vitin og þandi út lungun. Áreynslulaust.

    Með tímanum (og hentugri lyfjablöndu) hefur dregið svo úr áhrifum asthma, ofnæmis og kvefs að það hamlar mér ekki nema örsjaldan í hversdeginum. Eins hef ég náð að finna hentuga blöndu lyfja til að hreinsa upp kvefið, sem þarfnast enn smá hjálpar. Þá er ég sífellt til í að prófa nýjar hálstöflur, nefsprey og hvaðeina til að vita hvort til séu enn betri lausnir. Vissulega er vesen að þurfa að drösla öllum þessum lyfjum með sér – en það er bliknar í samanburði við hitt. Mesta guðsgjöfin hefur falist í pseudoefidríni, sem er ólyfsseðilsskylt í Bretlandi en því miður ekki fáanlegt á Íslandi. Ofan á allt saman þarf ég því að birgja mig upp af lyfjum af og til.

    Sérfræðilæknirinn sagði m.a. að með svona stífri lyfjanotkun gæti mögulega dregið úr ofnæminu, nefslímubólgunni og jafnvel asthmanum. Ekki það, ef ég fæ flensu eða kvef, sem nú gerist á eðlilegum tímum frekar en í sífellu, getur jú tekið mig smá auka tíma að ná því úr lungunum í mér og vissulega klæjar mig enn í augun þegar hæst lætur á vorin. Leiðinlegustu áhrifin eru kannski að þó sjáanlegu einkennin séu ekki áberandi fylgir því samt ennþá þreyta og slen á meðan kerfið er í viðbragðsstöðu. Í Dijon í Frakklandi, þar sem ég sit og skrifa þetta, er vorið er vel á veg komið svo mig hefur klæjað í augun í heila viku. Kvefaðist meira að segja smá þegar ég skildi gluggann á hótelinu eftir opinn eina nótt. Álagið hefur verið kerfinu um megn. En mér sýnist kvefið vera að hörfa eftir aðeins einn dag og þetta er í heildina mun skárra.

    Þetta ferli hefur verið langdregið og leiðinlegt, ég hef þurft að tala við marga lækna, ég hef fengið misvísandi skilaboð, ég hef fengið mismunandi greiningar og ég hef þurft að leita margskonar ráða. Endurtekið reyndi ég að meðhöndla asthma og ofnæmi án þess að átta mig á að ég þyrfti að höndla eitthvað til viðbótar sem ég vissi ekki að amaði að. Nýverið var mér svo bent á að skoða afleiðingar langvarandi notkunar asthma- og ofnæmislyfja, sem mér hafði ekki dottið sjálfum í hug. Þær eru til staðar en ég var bara svo þakklátur að fá þessa lausn að ég gat ekki ímyndað mér að hún hefði slæmar afleiðingar.

    Gleymi ég að taka lyfin mín í nokkra daga fæ ég að finna fyrir því – sérstaklega ef kjöraðstæður eru fyrir hendi. En lífsgæði mín eru margfalt, margfalt meiri en áður. Það hljómar kannski undarlega að segja þetta – en ég get andað.

    Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta allt saman, sjáiði til, ekki svo ósvipað því sem ég hef upplifað í leit minni að betri geðheilsu.

  • 2. „Og hvað get ég gert fyrir þig?“

    Ég var sautján ára þegar ég gekk fyrst inn á geðdeild. Það var um sumar og þá var ég í hópi unglinga sem höfðu sumarvinnu hjá Landsvirkjun, í Búrfellsstöð í Þjórsárdal. Við vorum á bilinu þrjátíu til fimmtíu og gistum á svæðinu, á nokkurskonar heimavist. Aðra hvora viku unnum við mánudag til hádegis á föstudegi, en hina vikuna til fimmtudagskvölds. Rúta gekk frá Reykjavík og í gegnum Selfoss sem ferjaði okkur á milli. Þar sem nánasta fjölskylda mín býr á Ísafirði hafði ég aðsetur um helgar hjá ömmu minni og afa í Reykjavík. Í einni rútuferðinni spurði stelpa í hópnum, sem sá ekki í gegnum grímuna: „Ert þú bara alltaf glaður? Verðurðu aldrei leiður?“

    Sumarið áður var gróðurofnæmi mitt svo slæmt að ég gat varla á mér heilum tekið utandyra, svo þetta sumarið fékk ég eina starfið innandyra sem í boði var. Strax í upphafi sumarsins upplifði ég mikla vanlíðan, ef hún var þá ekki löngu búin að koma sér fyrir án þess að ég hafi veitt henni athygli. Ég kunni ekki deili á þessum tilfinningum þá en myndi í dag kalla þær alvarlegt og langvarandi kvíða- og þunglyndiskast. Í starfinu innandyra hafði ég aðgang að tölvu, sem annars voru ekki aðgengilegar okkur krökkunum – ef frá er talin ein af þessum gömlu, litríku iMac tölvum með túbuskjám sem einn strákurinn kom með með sér, en var auðvitað ekki nettengd. Fyrir rælni leitaði ég svara á netinu og rambaði á einhverskonar sjálfsmatspróf á íslensku, merkilegt nokk árið 2002. Ég svaraði samviskusamlega og niðurstöðurnar voru ótvíræðar. „Þú ert þunglyndur.“ Eða kannski stóð að það væri líklegt að ég væri þunglyndur eða hvernig sem það var orðað. Í öllu falli var að mér var sagt að ég yrði að leita mér hjálpar. Þessa vikuna var fimmtudagsvika svo það lá beint við. Á föstudagsmorgni leitaði ég mér hjálpar.

    Þann 21. júní 2002 gekk ég því inn á göngudeild geðdeildar. Kannski var það það eina sem mér datt í hug – kannski var það það eina sem var í boði fyrirvaralaust. Ég hafði ekki bókað tíma og ég hafði ekki fengið tilvísun. Ég bara mætti. Með árunum hef ég lært að meta ýmiskonar arkitektúr – þar á meðal húsnæði geðdeildar – en fyrir aðframkominn 17 ára strák, einan í heiminum á stað sem var umvafinn stigma og fordómum, virkaði hann yfirþyrmandi og þrúgandi. En kannski var allt bara yfirþyrmandi og þrúgandi í þessu ástandi hvort eð er. Meðferðis hafði ég bakpoka sem í voru útprentaðar niðurstöður prófsins á netinu. Þetta voru þung skref, en stór. Þessi heimsókn mín á geðdeild kom til tals þegar ég leitaði til geðlækna í greiningarferli mínu árið 2020. Einn geðlæknirinn benti mér á að fá útskrift úr sjúkraskýrslunum af geðdeild, sem ég og gerði. Á dagnótu þessa dags segir í reitnum aðkoma: bráðatilvik. Í reitnum fylgd stendur: á eigin vegum. Ég sagði engum hvert ég fór þennan morguninn.

    Þar sem ég átti ekki tíma beið ég nokkra stund eftir að röðin kæmi að mér. Ég var óöruggur innan um fólkið sem sat á biðstofunni með mér, flest eldri en ég og flest – ef ekki öll – karlmenn. Mér fannst ég hafa skipað mér í flokk með fólki sem ætti ekki upp á pallborðið hjá samfélaginu og nú yrði ekki aftur snúið. Loks sótti mig geðhjúkrunarfræðingur og það eru hennar nótur sem ég vísa í hér að ofan. Hennar hlutverk var fyrst og fremst að fá af mér einhverskonar mynd og meta næstu skref. Nótan hennar tekur fram helstu staðreyndir um mig og nokkra punkta um hvernig ég lýsi líðan minni. Hún afréð að vísa mér áfram til geðlæknis svo ég fór aftur fram og beið.

    Loks er ég kallaður inn til geðlæknis. Ég man aðeins örlítið eftir viðtalinu við geðhjúkrunarfræðinginn en viðtalið við þennan geðlækni er sem greypt í huga mér. Í minningunni er stofan ógurlega löng, eins og séð í gegnum gleiðlinsu – sem hún var auðvitað ekkert. Geðlæknirinn hafði skrifborð sitt við enda stofunnar og ég settist í stól upp við borð fyrir um miðja stofu. Bilið okkar á milli virkaði óralangt.

    „Og hvað get ég gert fyrir þig?“ spurði hún, allt að því yfirlætislega. Ég opnaði bakpokann, dró upp útprentaðar niðurstöður netprófsins og stamaði útúr mér „Ég… ég held að ég sé þunglyndur.“ Stór og mikil orð fyrir ungan og bugaðan mann. Það stóð ekki á svari hjá geðlækninum: „Já! Ertu búinn að greina sjálfan þig?“ Yfirlætið leyndi sér ekki í þetta sinn og ég vissi ekki hvað ég átti að segja. Það næsta sem ég man er að hún rétti mér lyfseðil með orðunum „Hérna. Taktu þetta“ og sendi mig svo öfugan út. Ég er nokkuð viss um að tíminn varði aðeins brot af þeim tíma sem ætlaður er í hverja heimsókn. Með lítinn skilning á ástandi mínu – og enn minni á því sem hafði þarna gerst – fannst mér ég hafa verið afgreiddur á færibandi. Að ekki hafi verið hlustað á mig og ég var enn ráðvilltari en áður.

    Meðal þess sem kom mér mest jafnvægi var að á þessum tíma var ég harðlega andvígur notkun geðlyfja. Eflaust var birtingarmyndum geðlyfja í dægurmenningu um að kenna. Sögur af fólki sem dofnar upp af lyfjanotkun og þráir ekkert meira en að hætta á þeim hræddu. Mér fannst eins og geðlyf væru síðasta sort og að það væru aðeins alvarlega veikir einstaklingar sem vissu hvorki í þennan heim né annan sem þyrftur á þeim að halda. Mér fannst sem ég ætti að geta lifað án hjálpartækja og borið ábyrgð á eigin hegðun og líðan. Í staðinn vildi ég einfaldlega fá einhverskonar samtalsmeðferð, stilla mig einhvernveginn af og var viss um að ég gæti staðið mig.

    Þessi dagur var eins bjartur og fagur og þeir gerast, en ekki innra með mér. Seinna sama dag, að ég held, varð ég samferða föðursystur minni sem átti erindi í Smáralind en á bílastæðinu fyrir utan brotna ég niður. Ekki á krúttlegan hátt þar sem allt er lítilsháttar ómögulegt og það þarf bara að taka utan um mig og hughreysta mig. Nei, ég brotna niður með í djúpstæðri reiði og vonleysi. Frænka mín blés verslunarferðina af, í kærleika. Hún sá að ég þarfnaðist hjálpar, þó að mér hafi fundist ég bara þurfa að þurrka tárinn og setja aftur á mig grímuna eftir að hafa misst hana um stundarsakir. Á einhvern hátt frétta foreldrar mínir á Ísafirði hvað hafði gerst. Kannski í gegnum frænku mína, en ég man ekki eftir að hafa sagt henni hvar ég hafði verið. Kannski vissu foreldrar mínir það ekki heldur á þessum tíma og ég ætla þeim það bara í minningunni. Hvað sem því líður hringir faðir mínn í mig og spyr mig einfaldlega „Viltu að ég komi suður?“ Skælandi (já eða sennilega hágrátandi) svara ég því játandi. Ég man ekki hvenær í tímalínunni þetta gerðist en í minningunni kastaði hann frá sér öllu í vinnunni og keyrði rakleiðis til Reykjavíkur.

    Pabbi beitti sér fyrir því að ég fengi einhvern botn í þessa meðhöndlun svo mánudaginn 24. júní, strax eftir helgi, fékk ég aftur tíma – í þetta sinn hjá yfirlækni geðdeildar. Pabbi fylgdi mér í viðtalið og aftur rek ég raunir mínar. Ég útskýri móttökurnar sem fyrri geðlæknir veitti mér og segist ósáttur við að hafa ekki fengið betri aðhlynningu. Ég var handviss um það að ég þyrfti ekki á lyfjum að halda og óskaði eftir að fá að komast að hjá sálfræðingi. Ég nefndi það ekki, en ég var staðfastur í því að geta borið ábyrgð á eigin líðan, tilfinningum og hegðun án allra aukaefna. Þetta samtal sem ég bað um átti einhvernveginn að gefa mér það en ég sá fyrir mér að lyfin myndu deyfa mig, taka af mér sjálfsákvörðunarrétt og þurrka út persónuleika minn. Eftir nokkuð spjall vísar hann mér áfram á samtalsmeðferð á geðdeild þangað til sumarstarfinu lyki. Það sem eftir lifði sumars voru því allar vikurnar mínar fimmtudagsvikur svo ég gæti sótt sálfræðitíma á föstudögum. Þetta var auðvitað opinberandi á sinn hátt – að það hafi verið vitað í hópnum að ég þyrfti að sækja sálfræðitíma á hverjum föstudegi. Eða ég held þau hafi vitað það, þó ég haldi að ég hafi ekki sagt frá því. Tímarnir fundust mér gagnlegir og sem líðan mín batnaði eftir því sem leið á, en meira um það seinna.

    Það setti þessa reynslu mína af geðdeild þó í nýtt samhengi að fá gögnin úr sjúkraskrá. Ég kann ekki alveg að lýsa hvað mér finnst um þau. Kannski endurspegla þau þekkingarleysi eða áhugaleysi – í versta falli lítilsvirðingu. Í þeim finnst mér kjarnast hvað það getur verið erfitt að finna úrlausn sinna mála eftir að maður hefur loksins safnað hugrekki til að leita hennar. Lestur þeirra kom mér verulega á óvart en fólki sem ég þekki og hefur reynslu af geðheilbrigðiskerfinu var ekki minnsta brugðið.

    Fyrsta dagnótan, sem kallað er, er nóta geðhjúkrunarfræðings sem ég minntist á hér að ofan. Hún er nokkuð blátt áfram og ekkert út á hana að setja. Næsta nóta ætti að vera nóta geðlæknisins sem ég hitti þar á eftir, sama dag – en hún er það ekki. Þess í stað kemur nóta frá yfirlækni geðdeildar, þremur dögum seinna, þar sem hann hefur m.a. orð á því að nótu fyrri geðlæknis vanti. Þriðja nóta er svo eftiráskrifuð nóta fyrri geðlæknis, dagsett þriðjudaginn 25. júní, sem er í nokkurri mótsögn við upplifun mína af þessum tíma. Nóturnar þar á eftir eru frá sálfræðimeðferðinni sem ég fékk þetta sumarið.

    Nokkur atriði í þessum nótum vöktu undrun mína – ef ekki reiði.

    Í nótu yfirlæknis geðdeildar, frá tímanum sem pabbi fylgdi mér í, segir til að byrja með „Kemur nú aftur ásamt föður sínum til að reka á eftir einhverjum aðgerðum í sínum málum. Hann hitti […] f. helgina en ég finn ekki hennar færslu.“ Gott og vel, skorinort en skrítið þó að finna ekki færsluna frá því fyrir helgi. Það er ekki eins og tíminn hafi farið svo fram úr að það hafi ekki gefist færi á að skrifa nótuna. Þar á eftir fylgir lýsing á líðan minni á þeim tíma, sem læknirinn telur helgast af persónuleika mínum. Eða eins og hann orðar það: „Hefur mikinn áhuga á leiklist og hefur greinilega mikla tilhneigingu til að dramatíséra [sic] lífið og eigin tilveru.“ Seinna í sömu nótu segir: „Kvartar á dramatískan hátt undan miklum skapsveiflum upp í hæstu hæðir og niður í dýpstu dali.“ Á eftir fylgir „Virkar á engan hátt þunglyndur á mig; en fullur af orku […].“ Þar höfum við það. Skapsveiflur upp í hæstu hæðir og niður í dýpstu dali sem ég kvarta undan á dramatískan hátt. En sennilega bara því ég hef áhuga á leiklist. Ég minni á að þetta er faglegt mat yfirlæknis geðdeildar. Eftir á að hyggja hefði ég haldið að einkennin hefðu átt að vera fagfólki augljós, allavega tilefni til að frekari athugana, en þess í stað voru þau hundsuð. Þótt ómerkileg. Stakkels leiklistarstrákurinn.

    Daginn eftir má finna nótu fyrri geðlæknis. Hún er nokkuð skilmerkilega skrifuð, greinir vel frá því sem ég hef að segja en bætir svosem engu við það sem nóta geðhjúkrunarfræðings hefur þegar sagt. Í raun eru þær merkilega samhljóða. Í niðurstöðu nótunnar segir svo „Lyf gætu ef til vill hjálpað eitthvað en fyrst og fremst þarf hann á sálfræðimeðferð að halda.“ Nótunni lýkur svo með orðunum „Ræðum um mögulega lyfjameðferð en Friðþjófi líst ekki sérlega vel á það. Meðferðaraðili hans hér á göngudeild getur haft samband við lækni hér síðar ef þurfa þykir.“ Við skulum muna að eftir þennan tíma hafði mér ekki verið fenginn neinn meðferðaraðili.

    Þessi frásögn er í hrópandi mótsögn við upplifun mína þar sem ég fékk ekkert samtal, þó ég hafi mögulega stunið því upp að ég vildi síður taka lyf þegar mér var réttur lyfseðillinn. Mér virðist sem þessi nóta hafi í besta falli verið skrifuð eftir á og í versta falli skálduð, eftir að ég ítrekaði hjálparbeiðnina með liðsauka og farið var að spyrjast fyrir um gögnin. Eftir að fékk meðhöndlun sem virðist frekar ætluð kerfinu en sjúklingnum. Sennilega hefði ég þurft lyf fyrr á ævinni en þá hefði ég kannski gagnast að eiga samtal um þau. Ekki fá þeim slengt framan í mig. Svo er hitt, að það ekkert víst að þau lyf sem þarna var skrifað upp á hefðu gagnast mér því enn átti heilmargt eftir að gerast sem myndi betur greina geðslag mitt. Ég hef m.a. lært að þunglyndislyf geta haft alvarleg áhrif á fólk með tvískautaröskun, virkjað oflæti og því varðað gáleysi að ávísa slíkum lyfjum.

    Auðvitað kemur ýmislegt til að ég fékk þessar móttökur. Mannekla, undirfjármögnun, sumarleyfi, eftirspurn eftir þjónustunni, mismunun á milli alvarlegra sjúkdóma og þeirra sem læknum þykja kannski ekki eins spennandi, fordómar samfélags og einstaklinga, e.t.v. hvaða áhrif þau hafa á þjónustuveitendur og fleira. Samkvæmt því sem ég hef lesið hefur skilningur geðlækna á geðhvörfum einnig vaxið umtalsvert á undanförnum árum – langt umfram það sem áður var. Vafalaust væri öðruvísi tekið á móti nákvæmlega sama tilfelli í dag. Innviðir eru aðrir. En hverjar sem ástæðurnar eru þá breyta þær ekki upplifun minni. Ég þurfti að taka á öllu mínu til að leita mér hjálpar og í stað þess að fá hana fannst mér ég þurfa að berjast. Slíkt er ekki hvetjandi, drífandi eða hughreystandi heldur þvert á móti. Kannski er eðlilegt að þurfa að pönkast dálítið til að fá það sem maður þarf á að halda, sérstaklega þegar um flókin mál er að ræða í stóru kerfi, hvers kyns sem vandamálið kann að vera. Kannski er þetta einmitt það sem fólk með flókin veikindi af öllum toga þarf að glíma við. En í djúpu þunglyndi eða öðrum alvarlegum veikindum, þegar maður á erfitt með hversdagslegustu athafnir, er ekki mikið pönk í manni. Ég þurfti aðhlynningu – ekki andstöðu. Það sem eftir lifði sumars sótti ég sálfræðitímana sem ég mun ræða seinna, í stærra samhengi.

    Ekki má lesa svo í þessa frásögn að ég leggist gegn því að fólk leiti til geðlækna eða geðdeildar. Það getur verið mikilvægt og oft nauðsynlegt. Margt hefur breyst til batnaðar en svo er líka vert að hafa hugfast maður passar endilega ekki við hvern sem er. Sjálfur þurfti ég að leita víðatil að finna út úr mínum málum frá 2020. Þetta er bara mín upplifun á þessum tíma og hluti af því sem ég hef þurft að ganga í gegnum til að finna út úr vanlíðan minni. Skref sem hefur átt þátt í að móta mig og hluti af þeirri sögu sem ég segi.

    Þar sem ég hugsa til baka og skrifa mína frásögn átta ég mig þó á hversu erfitt mér var að opna mig um líðan mína og leita hjálpar í nærumhverfi mínu – ef ekki óhugsandi. Mér fannst ég eiga að geta staðið á eigin fótum, haft stjórn á skapi mínu og skammaðist mín fyrir að þurfa hjálp. Mér fannst þetta veikur blettur sem myndi fylgja mér og fólk myndi nýta sér gegn mér. Kannski vildi ég ekki vera byrði. Í öllu falli vildi ég ekki að neinn vissi. En þegar allt kom til alls er það fólkið mitt sem stóð með mér og hefur haldið áfram að gera það.

    Þessi leyndarhyggja mín hefur aldeilis snúist við, til hins betra. Mikilvægasta lexían í þessu öllu saman hefur einmitt verið að leita eftir stuðningi og að það er ekki ráðlegt að leggja einn upp í svona ferðalag. Og sama hvar maður er staddur er aldrei of seint að biðja um stuðning. Best er auðvitað að fylkja í kring um sig smávegis liði. Fólk hefur misjafnt fram að færa og er mis aflögufært á mismunandi tímum. Þannig mæðir líka minna á hverjum og einum. Eins getum við boðið aðstoð. Deilt reynslu. Við eigum ekki að keyra okkur í þrot við að aðstoða fólk – við verðum að setja súrefnisgrímuna á okkur fyrst, áður en við aðstoðum annað fólk. Og við eigum ekki halda að við björgum einum eða neinum – en við getum kannski skipst á að bjarga einu og einu augnabliki.

    En þetta er alltsaman líka flókið. Á vissan hátt opnaði ég mig því það stóð ekki steinn yfir steini lengur og ég átti ekki annað eftir. Og þó ég reyndi að opna mig um allt gat ég bara opnað mig um sumt við suma. Seinna, meira að segja þegar flest var brostið í kring um mig og ég hélt ég væri orðinn flinkur í að opna mig og leita stuðnings, hélt ég dauðahaldi í þá ögn sem eftir var. Kannski er það eðlilegt – að passa upp á það litla sem maður á. Reyna að halda í einhverja ímynd og hugmynd um sjálfsvirðingu sem er kannski bara til í manns eigin höfði, í stað þess að byggja upp að nýju og eiga sína sögu.

    Upplifun mín er þó ekkert einsdæmi. Það er mörgum mjög erfitt að biðja um hjálp og fólk bíður oft fram í rauðan dauðann. Það á ekki bara við andleg veikindi heldur er vel þekkt hvað t.d. eldri kynslóðir og karlmenn veigra sér við að leita sér hjálpar með mjög margt. Spyrja til vegar, sinna viðhaldi, ráða fram úr hagnýtum málum og svo framvegis. Jafnvel þó að það sé mun einfaldara, ódýrara og árangursvænna. Gæti jafnvel verið lífsbjörg. Á sama tíma þykir sjálfsagðasta mál að fá hjálp við sumum veikindum. Fótbrotinn einstaklingur gengur ekki einn og óstuddur inn á bráðamóttöku. Handleggsbrotinn einstaklingur keyrir ekki langt af sjálfsdáðum. Fólk með blæðandi sár á ekki að hreyfa sig heldur að fá aðhlynningu annarra með hraði. Við þurfum öll aðstoð og því fyrr sem hún berst – þeim mun fyrr sem við biðjum um hana og þiggjum hana – þeim mun fyrr náum við tökum á því sem bjátar á. Opið samtal og samstaða um geðheilsu er ekki síður samfélaginu öllu til góða. Myndar nokkurskonar samfélagslegt ónæmi sem er t.d. mikilvægt þegar maður þarf að ræða mis góðar móttökur hjá fagaðilum. Vissulega þurfum við þó líka að gera þetta á okkar forsendum og sumt upp á eigin spýtur. Sumt skiljum við ekki sama hvað aðrir útskýra fyrir okkur. Sumt þarf að upplifa til að átta sig á því. Þetta er jafnvægislist.

    Stundum getur annað fólk samt líka þvælst fyrir. Sum þola ekki að sjá önnur þjást og þurfa að leysa það eins hratt og hægt er – fyrir sjálf sig, án þess að hugsa út í þarfir þess sem þjáist. Annað fólk er lausnamiðað og snöggt að koma auga á þá beinustu leið sem hentar þeim, án þess að átta sig á að leiðin sem þau sjá fyrir sér hentar ekki endilega þeim sem þau ætla sér að leiða. Verða jafnvel pirruð þegar þau ætla að arka af stað og skilja ekki af hverju fólkið sem það er að reyna að hjálpa fylgir ekki í humátt á eftir. Enn önnur hafa ekki lært eða ræktað þá hæfileika sem þarf til að takast á við það sem fyrir liggur – hafa kannski ekki alist upp í umhverfi sem viðurkennir vanlíðan og vinnur með hana – og geta því ekki gefið af sér. Skammast sín kannski, eru feimin eða finna finna til vanmáttar. Forðast að horfast í augu við erfiðleikana. Ég hugsa að það sé mögulega algengast.

    Kannski er svo erfitt að átta sig á hvaða hjálpar er þörf fyrr en ferðalagið hefst eða er komið áleiðis. Og kannski finnst hún svo ekki hjá manns nánustu. Flest sambönd geta verið jafn strið og þau eru góð, erfið sem þau eru dásamleg – hvort sem er innan fjölskyldu, milli vina, við maka eða önnur. Kannski fæst svo hjálp en hún breytist með tímanum eftir því sem ferðinni vindur fram og fólk þroskast. Þá getur maður þurft að leita á önnur mið og því geta fylgt allskonar tilfinningar. Kannski berst hjálpin óvænt og úr óvæntri átt, þó ég myndi frekar mæla með að fólk taki af skarið en bíði í von og óvon. Kannski hafa erfiðleikar brennt einhverjar brýr og stuðningurinn fæst ekki frá vinum, fjölskyldu, maka eða vinnustað fyrst um sinn. En það eru önnur ráð. Það má leita til fagaðila, í hjálparsíma, til samtaka eða þess háttar. Stundum getur verið gott að tala við ókunnuga, gefa sig að fólki sem hefur tekið þátt í umræðunni fyrir opnum tjöldum. Svo er ekki sjálfgefið að leita sér hjálpar eða biðja um stuðning – nú eða veita. Það eru hæfileikar sem þarf að læra, rækta og viðhalda. En það er sannarlega eitt mikilvægasta verkfærið, í mínum huga.

    Þó svona barátta sé sjaldnast þrautalaus óska ég engu að þurfa að upplifa svona mótlæti. Það er þó ekki alltaf einfalt að bjóða fram aðstoð. Hún á ekki alltaf við og getur geigað. Stundum er svo jafnvel nóg að vita af fólki sem er til staðar án þess að á það reyni. Engu að síður vil ég reyna mitt besta og „pay it forward.“ Því geri þessi orð geðlæknisins að mínum og segi, við hvert það sem þarf, þó án alls yfirlætis: „Hvað get ég gert fyrir þig?“ og hvet öll þau sem treysta sér til þess að gera það sama.

  • 1. Smitrakning

    Árið 2020 reyndist mörgum erfitt. Heimsfaraldur setti flest það sem hægt var úr skorðum og hafði m.a. geigvænleg áhrif á starfsgrein mína – sviðslistir – á heimsvísu. En sjaldan er ein báran stök. Auk þess að missa lífsviðurværið gekk ég í gegnum skilnað og missti þar það sem mér var kærast. Um sama leyti komst svo að því að fleira amaði að í mínu lífi. Þetta tvennt síðasta er óneitanlega tengt.

    Allt gerðist þetta á fyrstu mánuðum ársins. Í upphafi þess var ég við uppsetningu á tveimur leikritum í leiklistarskóla í Bretlandi og meðfram framgangi verkefnanna fylgdist með framgangi veirunnar frá Kína og vestureftir. Undir lok árs 2019 hafði ég óafvitandi næstum átt leið um lendur hennar, þegar ég vann við uppfærslu í Kína og hafði næstum farið til Wuhan að skoða leikhús sem ég hafði átt þátt í að hanna. Örlögin gripu í taumana og þess í stað fór ég annað, einnig í tengslum við hönnun á öðru leikhúsi. Þrátt fyrir að fylgjast með faraldrinum færast nær gerði ég mér ekki grein fyrir áhrifunum sem hann átti eftir að hafa. Það hvernig ég var ómeðvitaður um veikina þegar ég var í Kína og stóru myndina seinna meir er lýsandi fyrir það sem ég átti eftir að læra um sjálfan mig.

    Að verkefninu í Bretlandi loknu stóð til að verkefni á Íslandi tæki við, svo þangað hélt ég, grunlaus um hvaða verkefni beið mín. Veiran varð aftur nokkurnvegin samferða mér svo ég hafði aðeins verið á Íslandi í fáeina daga þegar lokað var fyrir samgöngur milli Íslands og Bretlands – og svo til um allan heim. Þannig varð ég orðinn afturreka frá heimili mínu ofan á að hafa tapað vinnunni og hjónabandinu. Farið var að sjónvarpa upplýsingafundum almannavarna daglega. Læknar, sérfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk hömuðust við að taka, greina, skrá og rekja sýni. Óvissan í samfélaginu var alger. Á sama tíma og við glímdum sem samfélag við þessar ytri aðstæður ríkti samskonar ástand innra með mér. Óvissa. Spenna. Ringulreið. Á sama tíma sat ég nefnilega við nokkurskonar smitrakningu á sjálfum mér.

    Mig hafði svosem tekið að gruna að það væri ekki allt með felldu. Sennilega hafði ég verið veikur um langt skeið, líklega alla ævi. En þar sem þessi hugsanlegu veikindi voru ekki þess eðlis að hægt væri að mynda þau, rækta af þeim sýni eða mæla hita þurfti ég að leggjast í talsverða vinnu við að finna út úr þeim og læra um þau. Læra á þau. Um hálfu ári eftir að þessi grunur kviknaði var ég svo greindur með geðhvarfasýki 2 (Geðhvörf 2, Bipolar II, Bipolar affective disorder type 2). Já og reyndar ekki. Jú og kannski.

    Ef þetta síðasta hljómar dálítið ruglingslega er það vegna þess að það er það. Þessi smitrakning mín var langt og flókið ferðalag, og úrvinnslan ennfremur. Því svipar kannski til þess sem gerist í epískum ævintýrum. Ég þurfti að ráða í óræða texta, leita uppi dulspekinga, uppgötva leyndardóma og hérumbil berjast við dreka. Í ferlinu ræddi ég einmitt við þrjá geðlækna sem hver um sig hafði sitt að segja – og þeir eru þá samtals orðnir fimm geðlæknarnir sem ég hef talað við um ævina til viðbótar við allavega fimm sálfræðinga, nokkra geðhjúkrunarfræðinga og svo heimilislækna. Allt nokkurskonar seiðkarlar, vatnadísir, álfar og aðrir vættir í mínu ævintýri.

    Til viðbótar við allt þetta fagfólk las ég það árið einar átta bækur um geðhvörf (ofan á álíka margar um sambönd og hjónabönd), horfði á bilinu fimm til átta heimildamyndir og -þætti, hlustaði á þónokkur hlaðvörp og las og hlustaði á viðtöl í blöðum, sjónvarpi og útvarpi. Mikilvægast mér í þessu öllu voru þó sögur og frásagnir fólks sem hefur sjálft glímt við geðhvörf og aðra erfiðleika. Fólk sem hefur opnað sig og auðmýkt sig, hvort sem er í bókum, heimildamyndum, blaðagreinum eða öðru, frammi fyrir því að vera ekki alltaf við stjórnvölinn. Sérstklega dýrmætt var mér að ræða í persónu við fólk sem ég þekki og hefur þurft að kljást við geðslag sitt og eins fólk sem ég hef verið samferða í lífinu sem ég held að ástand mitt hafi bitnað á, án þess að nokkurt okkar hafi skilið af hverju. Fjölskylda, vinir, kennarar, samstarfsfólk og þess háttar. Vinnan hefur ekki stoppað síðan. Bæst hefur við sálfræðitíma, bókalestur, heimildamyndir, hlaðvörp og samtöl.

    För mín hófst einmitt með persónulegri frásögn annarar manneskju, svo þetta form er mér bæði kært og mikilvægt. Á meðan ég var við störf í leiklistarskólanum sem ég minntist á hér að ofan fór fram einn af fjölmörgum árveknisdögum um allskonar málefni. Þessi er haldinn af bresku geðræktarsamtökunum Mind og ber heitið Time to talk. Eins og heitið gefur til kynna eru einstaklingar hvattir til að nýta daginn í að tala um líðan sína og geðheilsu. Ein þeirra sem nýtti daginn var Mig Walsh, vinkona mín, samstarfskona og aðalkennari ljósadeildar leiklistarskólans. Hún er greind með Bipolar 2 og hefur talað mjög opinskátt um sína glímu í mörg ár – nokkurskonar geðræktarhetja í tæknigreinum bresks leikhúss. Til að sýna henni stuðning og nemendum hennar sem ég var að vinna með að umræða af þessu tagi er eðlileg ákvað ég að stilla inn á spjallið hennar þetta kvöld, sem hún hélt í beinni útsendingu á Facebook. Mér lá samt ekkert á. Mér seinkaði á heimleiðinni, fékk mér kvöldmat og spjallið hafði ábyggilega verið í gangi í hálftíma eða klukkutíma þegar ég loksins stilli inn á það í símanum. Ég hélt jafnvel að ég hefði misst af því. En svo var ekki svo ég lét það malla á meðan ég braut saman þvott og snikkaði til heimavið. Inni á milli skaut ég til hennar spurningum, mest til að sýna virka þátttöku í umræðunni, en líka af persónulegum áhuga. Ég var vel meðvitaður um að ég ætti sjálfur við ýmislegt að etja þó ég hefði ekki nafn yfir það eða hefði séð nokkurt munstur í því. Í besta falli leit ég á sem svo að ég hefði glímt við þunglyndi á unglingsárum, en af eðlilegum ástæðum. Hormónum. Gelgjunni. Sem afleiðingar lyfjanotkunar eftir stóra aðgerð á baki sem ég fór í 12 ára gamall. En það væri nú aldeilis að baki. Hún lýsti upplifun sinni og til að byrja með hljómaði hún kunnuglega. Áfram heldur spjallið og hún lýsir viðmóti sem hún fékk þegar hún leitaði sér hjálpar. Aftur tengdi ég, en samt ekki. Enn heldur spjallið áfram og smám saman hrannast upp allskyns sögur sem hefðu allt eins geta verið sögur af sjálfum mér. Ég staldra við, læt þvottinn eiga sig og hlusta af athygli. Það skyldi þó ekki vera?

    Ég hef lagt allt hvað ég get á mig til að reyna að átta mig á þessu ástandi mínu – og ekki af ástæðulausu. Úrræðaleysið í geðheilbrigðismálum er töluvert, jafnvel þó það fari óðum batnandi, auk þess sem við þurfum öll að bera ábyrgð á heilsu okkar. Bættan árangur í geðheilbrigðismálum má einmitt einkum þakka þessu fólki sem opnar sig af hreinskilni um sína líðan og tekur á henni af alvöru, þ.e. þau sem eru fær um það því sumum hamla veikindi meira en svo. Þeim mun frekar að við opnum okkur, þau sem eru til þess bær. Ég fæ þessu fólki seint fullþakkað en get þó lagt mín lóð á vogarskálarnar með því að segja brot af minni sögu. Þetta blogg er mín saga, um mín veikindi. Ég kýs að kalla það mypolar. Ég fékk svo misvísandi upplýsingar frá mismunandi fólki, það er svo margt sem er einstaklingsbundið við bipolar og svo líður mér ekki alltaf eins og ég „sé nógu veikur“ til að það eigi við mig eða „eigi það skilið“ að fá að nota þessa greiningu, að mér þykir þetta heiti viðeigandi.

    Það er ekki síst þess vegna sem ég afréð snemma í mínum bata að skrifa um mína reynslu. Sú persónulega reynsla annarra sem ég fékk að kynnast var, sem fyrr segir, eitt það mikilvægasta í leit minni að betra lífi. Meðal þess sem ég hef lesið á henni er að maður eigi að læknast með látum svo aðrir þurfi ekki að þjást í hljóði. Upplýsingar og frásagnir gagnast fólki svo mismikið. Sumum henta fræðibækur, öðrum leiknir sjónvarpsþættir og þar fram eftir götunum. Sjálfum mér hefur gagnast best að viða að mér upplýsingum og innsýn úr mörgum ólíkum áttum. Þess vegna vona ég að mín upplifun geti lýst einhverjum á sinni leið.

    Þessi skrif eru þó ekki í fyrsta skipti sem ég tala opinskátt um veikindi mín. Á þessari vegferð hef ég talað við fjölskyldu, vini, kunningja, samstarfsfólk, nemendur, starfsfólk og jafnvel ókunnuga – fyrir utan auðvitað sálfræðinginn minn og geðlækna.

    Fyrst um sinn fannst mér gífurlega erfitt að opna mig en eins og með hverja aðra þjálfun verður það auðveldara í hvert sinn. Þess utan hef ég almennt talað fyrir bættri geðheilsu – jafnvel löngu áður en ég kafaði almennilega í mína eigin. Einn lauslega tengdur kunningi kom að máli við mig og þakkaði mér fyrir að ljá máls á þessu „á vinnustaðnum“ (ef svo má segja um starfvettvang þar sem flestir eru sjálfstætt starfandi einyrkjar). Konan hans hafði gengið í gegnum erfiða tíma sem höfðu áhrif á hann og honum fannst hann ekki geta snúið sér neitt. Umræðan sem ég opnaði var honum hvatning.

    Fyrst um sinn ætlaði ég bara að tilkynna mínum nánustu um ástandið á mér, varpa kannski einhverju ljósi á fortíðina, útskýra einkenni og viðbrögð en láta svo þar við sitja. Í sumum tilvikum urðu þetta drykklangar kvöldstundir og jafnvel nokkur kvöld. Ég viðurkenni reyndar að í sumum tilvikum var ákafinn kannski full mikill; ég talaði af elju, deildi fjölmörgum færslum um vellíðan á samfélagsmiðlum og svo framvegis – en fékk blessunarlega ábendingar um það og dró úr. Að endingu allavega. Úr þessu hefur svo komið að þau sem ég hef talað við hafa smám saman opnað sig á móti. Tengsl mín við fjölskyldu, vini og fólkið mitt allt hafa dýpkað. Fjölskyldan mín hefur reynst mér ótrúlega vel. Sumir vinir mínir voru hikandi í fyrstu samtölum en fóru svo sjálfir að brydda upp á þeim. Þegar ég spurði einn vin hvort að þetta væri nokkuð orðið of mikið svaraði hann neitandi. „Þú ert sá eini okkar sem ert eitthvað að vinna í þessu“ og átti við að ég væri sinn helsti aðgangur að heimi sjálfsvinnu. Starfsmanneskja mín sagði að vinnustaðurinn sem ég rek væri besti vinnustaður sem viðkomandi hefði unnið á, hvers umhverfi ég tel mig hafa skapað með hliðsjón af minni sjálfsvinnu. Samskipti og meðlíðan er mér mun opnari heimur en áður. Ánægjulegast hefur verið að margir karlkyns vinir mínir hafa galopnað sig í veröld þar sem það hefur í besta falli þótt feimnismál en mun oftar mætt fordómum. Nú nýlega leitaði ég á náðir vina minna og bjó til bandalag, svo við getum hringst á þegar við lendum í krísu. Vissulega er það ég sem hef þurft mest á því að halda en þó ekki eingöngu. Þetta hefur reynst ein besta hugmynd sem ég hef fengið. Loks má nefna það sem klifað er á en virðist seint ætla að bíta. Andleg heilsa karlmanna hefur löngum verið bágborin og skýrasta dæmið um það er að sjálfsvíg eru helsta dánarorsök karlmanna á bilinu 20-35, eða þar um bil, á heimsvísu.

    Með allt að ofansögðu í huga; þess vegna segi ég frá.