MyPolar

Beggja skauta byr

9. Eðlilegt ástand

Það voru einkum þrjár ástæður fyrir því að ég hlustaði á Mig vinkonu mína tala um sína reynslu af geðhvörfum. Í fyrsta lagi vildi ég sýna henni stuðning, í öðru lagi vildi ég sýna nemendum hennar sem ég var að vinna með á þessum tíma að það væri mikilvægt að tala um geðheilbrigði – og svo vissi ég sem var, að ég hefði lifað við slæma geðheilsu síðan snemma á unglingsárum. Þarna hafði ég þegar verið hjá sálfræðingi í tæp tvö ár til að reyna að takast á við hana, en ekki að eigin frumkvæði. Ég var vanur að lifa á þennan hátt og hélt bara að svona væri lífið, að fljúga eftir gölluðum mælum – feta kræklótta stigu. En um marga ára skeið hafði fyrrverandi eiginkona mín nefnt við mig að ég ætti nú sennilega að ræða við einhvern. Að endingu fór hegðun mín út fyrir öll þolmörk svo mér var beinlínis gert að leita mér hjálpar. Það var á einhverjum erfiðasta tíma lífs míns og eitt það erfiðasta sem ég hef gert um ævina – en jafnframt það besta sem hefur hent mig.

Nú færi ég mig úr því að tala um hugmyndafræði; það hvernig ég þurfti að nálgast hugmyndir mínar um lífið á nýjan hátt til að koma hausnum í nýjan gír til að takast á við það sem hafði fylgt mér alla ævi, og tala um það sem hann þurftir að takast á við. Mína eigin reynslu af lífinu með einkennum sem hafa kastað mér til og frá; veitt mér orku, hugmyndaauðgi, áræðni og ýmislegt jákvætt – en sömuleiðis kostað mig gleði, gæðastundir, fjármuni og hamingjuna, oftar en einu sinni. Sum þessara einkenna eru fyrirferðarmeiri en önnur, sum eru mér erfiðari en önnur, sum hafa meiri áhrif á umhverfi mitt og fólkið í kring um mig en önnur og þar fram eftir götunum. Eftirleiðis verða þessi skrif mín persónulegri og sennilega eins berskjölduð og þau geta orðið. Eins og ég treysti mér til allavega. Ekki bara í þessari færslu, heldur öll skrif héðan í frá. Ég er sannarlega til í að ræða þetta allt saman í persónu og þykir það orðið lítið mál – svo ekki vera feimin við að nálgast mig eða ræða við mig, eins og nokkur hafa þegar gert. Til þess er leikurinn beinlínis gerður. En ég bið um nærgætni og virðingu, kannski einmitt helst þegar ég er ekki hluti af samtalinu. Athugið að ég mun ræða um erfið málefni. Í þessari færslu ræði ég sjálfsvígshugsanir, svo nálgist skrifin af varkárni héðan af. Kannski eru þetta viðfangsefni sem þú veist að hafa áhrif á þig, kannski veistu ekki að þau munu hafa áhrif á þig fyrr en að lestrinum loknum.

Mér var ungum ljóst að ég glímdi við þunglyndi. Það gerði fyrst vart við sig þegar ég var um þrettán ára aldur. Ég hafði farið í stóra og mikla aðgerð á baki vegna hryggskekkju, þar sem bakið á mér var rist upp, hryggurinn réttur af og tveir málmteinar skrúfaðir fastir við hann til að halda honum beinum. Ég man ekki hvort aðgerðin tók sex klukkustundir og ég óx um fjóra sentimetra, eða hvort hún tók fjóra tíma og ég óx um sex sentimetra – en ég gleymi því aldrei þegar ég stóð upp, degi eða tveimur seinna, að munurinn var augljós. Ég var óneitanlega hávaxnari. Eftir aðgerðina lá ég á barnaspítala Hringsins í tvær vikur svo hægt væri að fylgjast með mér og veita mér endurhæfingu. Ég þurfti að glíma við ýmislegt sem ég reiknaði ekki með. Í nokkra mánuði á eftir gat ég til dæmis ekki hnerrað. Líkaminn fór af stað, dró djúpt andann, en hætti alltaf við á seinustu stundu. Þegar líkaminn loksins treysti sér aftur til þess að hnerra skildi ég afhverju hann beið svona lengi. Við hnerra þenst brjóstholið hægt út og herpist svo hratt saman til að þrýsta loftinu út úr líkamanum. Þetta tók í alla vöðva og alla nýja íhluti, og var eitt það sársaukafyllsta sem ég hef upplifað. En ákvörðunin var ekki meðvituð – líkaminn tók hana af sjálfsdáðum svo ég einfaldlega gat ekki hnerrað þó ég reyndi. Skýrt dæmi um hvernig sum virkni er ekki beinlínis á manns eigin höndum.

Almennt er litið á það sem svo að geðhvörf geri vart við sig um 25 ára aldur, en þó allt niður í 15 og upp í 50. Mögulega fyrr – einkum ef einstaklingur upplifir áfall eða mikið inngrip í lífinu. En þá eru batahorfur taldar síðri.

Á spítalanum var ég þátttakandi í tilraun þar sem sjúklingar fengu tækifæri til að verkjastilla sjálfa sig. Ég var tengdur við morfíndælu og hafði hjá mér hnapp sem skammtaði mér morfín þegar ég þrýsti á hann. Þetta var þó ekki opinn bar; dælan takmarkaði magnið hverju sinni og lágmarks tími þurfti að líða á milli skammta, svo ég gat ekki skammtað mér endalaust sama hversu oft ég þrýsti á hnappinn. Hluti af tilrauninni var einmitt að fylgjast með því hversu oft sjúklingur biður um verkjastillingu, til að meta ástand hans. Það er nefnilega auðveldara að ýta á takka en að biðja manneskju um verkjastillingu. Þá þarf maður að viðurkenna fyrir einhverjum að manni líði illa. Hugsa ég. En ég var logandi hræddur við þessa dælu. Ég hafði heyrt um morfín úr skáldsögum og sjónvarpsþáttum, vissi að það væri mjög ávanabindandi og lægi beina leið til glötunar. Enda kom á daginn að ég skammtaði mér mun minna morfín en læknar og hjúkrunarfræðingar höfðu gert ráð fyrir. En mér varð líka flökurt af því, svo kannski spilaði það inn í. Ofan í morfínið fékk ég samt ýmsa aðra verkjastillandi kokteila í töfluformi. Ég á skýra minningu um að liggja í sjúkrarúminu, upplifa mikla sælu og finnast ég svífa.

Eftir sjúkrahúsleguna lá leiðin heim til Ísafjarðar. Ég átti að halda mig heima við í sex vikur til viðbótar, áður en ég færi aftur í skólann. Það hefur þá verið undir lok janúar, ef mér reiknast rétt til. Fljótlega upp úr þessu öllu fór að bera á mikilli vanlíðan hjá mér. Mér finnst samt eins og hún hafi verið þarna áður. Kannski var ég bara önugt barn. Erfiður. Ég man allavega að ég var frekar fúll og kaldhæðinn á spítalanum, eins og mátti búast við af mér á þeim tíma. Kannski ekki skrítið svona snemma á unglingsárunum, en það var eitthvað þarna á undan. Ég átti félagslega erfitt uppdráttar í skóla. Tala gjarnan um að ég hafi orðið fyrir einelti en við þessi skrif átta ég mig á öðru. Ég upplifði bæði vináttu og mótlæti á víxl frá sama fólkinu. Fólk sem voru vinir mínir en líka einhvernveginn andstæðingar. Oft var mjög gaman – en oft fékk ég að finna fyrir því. Sem ruglar mögulega meira í manni. Kannski var þetta samt ekki einelti, heldur bara hegðun barna. Leið til að tjá gremju eða ögra. Kannski tók ég þessu bara einstaklega illa af því að mælarnir mínir voru vanstilltir og ég var fastur á stígum sem hentuðu ekki aðstæðum. Hefði getað svarað öðruvísi eða tekið þessu með ró. Kannski átti ég þátt í að búa til þessar aðstæður. Hvað sem því leið fannst mér ég ekki alltaf eiga samleið með jafnöldrum mínum. Fannst ég einangraður. Utangarðs. Þetta snarsnerist við á unglingsárunum en upplifun mín frá því sem áður var sat eftir. Stíganir voru troðnir svo ég sá heiminn oft í þessu samhengi. Að ég væri velkominn en á sama tíma óvelkominn. Skemmtilegur en óþolandi. Félagsskapur – eða vinur – Schrödingers. Enn í dag eimir af þessu ef þannig blæs; óöryggi í samskiptum við mitt nánasta fólk, viðbúinn því að vera útskúfað. Hafnað. Þessir félagslegu þættir fannst mér vera ein ástæða fyrir vanlíðan minni. Önnur ástæða fyrir þessum drunga var auðvitað aðgerðin. Já eða öllu heldur öll verkjalyfin. Ég dró þá ályktun, þrettán ára gamall, að ég væri í fráhvörfum. Og með þessar ástæður var hægt að stemma vanlíðanina af. Hún átti sér skýringar og myndi því sennilegra lagast eftir því sem aðstæður myndu breytast. Hún var því eðlileg. Svona væri lífið bara.

En hún lagaðist ekkert. Hún var alltumlykjandi. Mér leið líkamlega illa og einangraði mig. Grét sárt og mikið. Eftir því sem leið á vorið var ég aðframkominn og dag nokkurn þegar ég kom heim úr skóla ákvað ég að þessu yrði að ljúka. Æskuheimili mitt er á þriðju hæð í blokk svo það lá beinast við. Ég sótti eldhúskoll, setti hann niður upp við svalahandriðið og steig upp á hann. Þar stóð ég um stund, svo sár og aumur, ímyndaði mér að lenda á stéttinni fyrir neðan. Velti því fyrir mér hvort það dygði til. En að lokum varð eitthvað til þess að ég kom niður af kollinum aftur. Þetta ástand, þessi upplifun, hafði mikil áhrif á mig og í dæmigerðu unglingarifrildi við móður mína slengdi ég því framan í hana að ég vildi enda líf mitt. Sem hendi væri veifað var ég sendur í minn fyrsta sálfræðitíma. Sálfræðingurinn var skólasálfræðingur Grunnskólans á Ísafirði og mamma fylgdi mér, allavega í fyrsta tímann. Í þessum tíma lærði ég nokkuð sem ég hafði ekki vitað áður, en hálfbróðir mömmu hafði svipt sig lífi sex árum áður svo ekki aðeins hafði hún miklar áhyggjur af mér, heldur hafði einnig upplifað áfall af þessum meiði. Ég man ekki hvað tímarnir urðu margir, en mér fannst þeir ekki gagnlegir. Kannski var ég ekki móttækilegur fyrir meðferð á þessum tíma, hvort sem er sökum aldurs eða ástands, eða kannski náðum við sálfræðingurinn bara ekki saman. Sálfræðingar eru eins og elskhugar. Suma smellur maður saman við – en stundum væri betur heima setið.

Þegar leið á unglingsárin hélt sársaukinn áfram. Þá tengdi ég hann einmitt aldursskeiðinu. Hormónasveiflunum sem við höfðum verið vöruð við í kynfræðslu í sjötta bekk. Aftur mátti stemma hann af. Eflaust tengjum við flest við angist frá þeim tíma sem var svo eðlileg um stundarsakir, en mörgu okkar fjarlæg minning í dag. Getum hlegið að. Svo aftur var þetta eðlilegt ástand og myndi líða hjá. En áfram hélt það. Á þrítugsaldrinum, í bakkalár- og meistarnámi, og sjálfstætt starfandi eftir það, hélt ég áfram að sveiflast. Ég reyndi að halda sjó en vanlíðanin spanaðist reglulega upp í mér þangað til ég gat ekki meir. Mjög títt endaði ég hágrátandi á eldhúsgólfinu heima hjá mér, sannfærður um gagnsleysi mitt, hvað ég væri mikill ónytjungur, hvað öllum væri illa við mig. Eða öllu heldur – sama um mig. Eðlilega. Hvernig ég myndi aldrei áorka neinu í lífinu, hvað ég hataði sjálfan mig. Hvað ég vildi ekki lifa. Hver einasta fruma í líkamanum var þanin og kramin á sama tíma. Sársaukinn tilfinnanlegur um allan líkamann. Ef einhverjir stígar voru malbikaðir í mínu landi urðu það þeir og það hefur kostað óhemju vinnu að rífa þá. Á þessu tímabili var ég hættur að hugsa um ástæður fyrir líðaninni. Bara orðinn vanur henni. Þetta ástand gat varað undir klukkustund, en vanalega í nokkrar. Að því loknu stóð ég upp aftur og leið eins og ekkert hefði í skorist. Dustaði af mér rykið, þurrkaði augun og horið og hélt brattur áfram með lífið. Eftir sat fyrrverandi eiginkona mín, eflaust úrvinda af tilfinningalegu álagi. Ofhleðslu. Ef ekki í losti. Alltaf hvatti hún mig af einlægni og umhyggju til að leita mér hjálpar. Alltaf svaraði ég því til að þetta væri allt í lagi. Mér liði betur núna og þetta myndi sennilega ekkert gerast aftur. Sem ég endurtók – aftur og aftur.

Ég man ekki hversu langan aðdraganda fyrstu sjálfsvígshugsanir mínar höfðu en allar götur síðan hef ég upplifað þær títt, en þó mis alvarlegar. Þar til nýlega allavega, því þær eru að mestu liðnar hjá – að því er virðist. Er á meðan er. Eins og með annað fannst mér þær bara eðlilegur hluti af lífinu. Þær voru gjarnan tengdar hæð, rétt eins og þessi fyrsta tilraun. Fyrsta atrenna. Eftir skóla var ég stundum samferða mömmu heim úr vinnunni, þegar hún starfaði í mötuneyti Stjórnsýsluhússins á Ísafirði. Mötuneytið er á fjórðu hæð hússins en í gegnum húsið er stórt op á milli hæða til að hleypa dagsbirtunni um allt hús. Á jarðhæð stendur stór gosbrunnur í formi skúlptúrs úr steini og teygir sig allavega vel upp á aðra hæð. Hæsti hluti hans er í laginu eins og ílangur þríhyrningur. Risastór hurðarstoppari upp á rönd. Ógjarnan stóð ég við handrið þessa ops á meðan ég beið eftir mömmu og gat mér til um árangurinn af því að henda mér fram yfir það og lenda á bakinu á gosbrunninum. Með stálið í bakinu. Ég hef staðið á öðrum svölum um ævina og hugsað um að ljúka þessu lífi. Sviðsturnar leikhúsa eru á bilinu 15-30 metra háir og inni í þeim ýmiskonar tæknihæðir með handriði. Af og til fer hugurinn með mig út á ystu nöf og þá grípur um mig tilfinning sem ég þarf að fjarlægjast. En tilfinningin sér líka um það sjálf. Einhverskonar þversögn sem ég kann ekki að skýra. Eitt sárasta skiptið var í Mílanó, á tískuviku, þar sem ég gisti á fimmtu hæð í fjölbýlishúsi og átti einstaklega erfitt um langt skeið. Aftur fann ég mig standandi úti á svölum, upp við handriðið, horfandi niður. Samt langar mig alveg gífurlega í teygjustökk, fallhlífastökk, svifflug og þess háttar – án þess að hugsa mér neitt illt. Bara af spenningi og forvitni. Ég hef einnig ímyndað mér bílslys – einkum þegar ég er við stýrið, velt því fyrir mér að beita eggvopni og víða erlendis er í raun ósköp lítið mál að henda sér fyrir lest eða jarðlest. Tekur í raun aðeins eitt skref á réttum tíma. Kannski er það af sama meiði og að henda sér fram af svölum eða úr annarri hæð. Þetta voru hugsanir og tilfinningar sem ég bar með mér hvert sem ég fór, í handfarangri.

Þegar ég hugsa um það getur eiginlega ekki verið að ég hafi ekki upplifað vanlíðan lengi. Það er mjög ólíklegt að ég fari beint í sjálfsvígsham fáeinum mánuðum eftir að ég merki þunglyndi. Og þó, kannski er það bara einmtitt meinið. Kannski var það einmitt svona svart og sogaði mig hratt niður. En þunglyndi mitt hefur birst á fleiri vegu. Ég hef upplifað doða, æsing, örgvæntingu. Man eftir að vera á leið heim úr skóla eða vinnu í London en lagt leið mína um skranverslun og reynt að sannfæra mig um að kaupa eitthvað. Þar stóð ég svo bara, dofinn. Ég veit ekki hversu lengi – mögulega upp undir klukkutíma, starandi í einhverjar hillur. Á sama tíma hef ég setið í bíl fyrir utan heimili mitt og veigrað mér við því að stíga út úr honum. Áræðni og ákveðni ég gat bara ekki afborið veröldina. Kannski taldi ég mér trú um að orsök vanlíðunarinnar væri innan veggja heimilisins, þegar hún var í raun aðeins innra með mér. Ég man líka eftir að hafa sett hljóðan eftir rifrildi við fyrrverandi eiginkonu mína. Ekki þannig að ég ætlaði að beita þögninni sem valdatæki – hljóðri meðferð (e. silent treatement). Ég kom einfaldlega ekki upp orði í nokkra daga.

Sumarið sem ég hlaut greininguna varði ég miklum tíma með bróður mínum og fjölskyldu hans. Þau gáfu mér mikið rými til að ræða og vinna úr lífi mínu í nýju ljósi, svo úr varð að við ræddum sennilega allt sem hægt var að ræða. Meðal þess var arfgengni geðhvarfa, en við bræðurnir erum gjörólíkir. Hann er mun rólyndari en ég, yfirleitt í miklu tilfinningalegu jafnvægi og hugsar nokkuð skýrt. Það eru mun meiri læti í mér, ég glími við meiri tilfinningasveiflur, er fyrirferðarmeiri og að mér sækja hugsanir úr öllum áttum í einu. Hann tekur eftir föðurfjölskyldu okkar, ég eftir móðurfjölskyldunni. Skýrt og greinilega. Það var samt ekki eins og ég slengdi öllu gallerýinu framan í þau – ég þurfti að vinna upp kjark. Að endingu gat ég talað um sjálfsvígshugsanir mínar. Mig minnir að ég hafi haft að því smá aðdraganda og lauk frásögninni á því að segja að ég hefði glímt við sjálfsvígshugsanir mestan hluta ævinnar, þarna sirka 37 ára gamall. Viðbrögðum hans gleymi ég aldrei. Hvorki fyrr né síðar hef ég séð nokkra aðra manneskju missa andlitið eins stórfenglega. Þessar fregnir fengu augljóslega á hanna og í örstutt augnablik sat hann svona líka opinmynntur og með augun glennt. Hann er ekki smávaxinn maður, yfir tveir metrar á hæð, en þetta stóra, góðlega andlit varð allavega tveimur númerum stærra. Hakan náði langleiðina niður á gólf. „Ha!? Hefurðu upplifað sjálfsvígshugsanir?“ sagði hann áhyggjufullur. Samstundis sýndi ég eiginlega nákvæmlega sömu viðbrögð: „Ha!? Hefur þú ekki upplifað sjálfsvígshugsanir?“ Svo eðlilegar þykja mér þær að ég á erfitt með að ímynda mér að þær sæki ekki á flest fólk nokkuð reglulega.

Í færslunni um greiningarferlið mitt talaði ég um skilyrðin sem þarf að uppfylla til að hljóta greiningu. Skilyrði sem mér fannst ég ekki uppfylla, sérstaklega ekki tímamörk. Ólíkt því hvernig þunglyndi er gjarnan lýst hef ég aldrei misst dag úr vinnu, alltaf komist fram úr rúminu, sjaldan misst matarlyst, verið sljór, áhugalaus eða upplifað önnur einkenni þunglyndis í að minnsta kosti tvær vikur samfleytt. Yfirleitt upplifi ég þessi einkenni í snörpum, skörpum dýfum. Þegar ég les aftur yfir listann og hef leitt hugann betur að ferlinu sé ég að ég hef kannski horft fram hjá ákveðnum atriðum, eða hef ekki áttað mig á samhenginu. Ekki skilið að ákveðin hegðun hefur verið tengd geðheilsu minni – heldur bara fundist hún eðlileg. Segin saga. Ég átta mig einnig á því að nálgun mín á geðrænt sjálfsmat mitt var mögulega gölluð. Fyrir utan að ég vildi náttúrulega stíga á pall í öllum keppnisgreinum – þó að skýrt sé tekið fram að aðeins þurfi að mæta hluta greiningarviðmiðanna – var ég að reyna að greina þunglyndi annarsvegar og oflæti hinsvegar. Þessu ætlaði ég svo að púsla svo saman í geðhvörf. En þunglyndi birtist mögulega aðeins öðruvísi í fólki með tvískautaröskun en fólki sem glímir eingöngu við þunglyndi og því þarf að lesa greiningarviðmið bipolar frekar en aðskildra atriða. Svo má ekki gleyma blönduðum lotum (e. mixed episodes), síkvikum sveiflum (e. rapid cycling) eða hringhygli (e. cyclothemia). Reyndar kalla greiningarviðmið geðhvarfa eftir sömu greiningarviðmiðum þunglyndis sýnist mér. En svo er þetta aftur persónubundið. Hvílíka völundarhúsið.

Ég fer oft með fólki í leikhús sem hefur ekki formlega leikhúsmenntun að baki. Þegar ég spyr þau að sýningu lokinni hvað þeim fannst rekja þau skoðanir sínar fyrir mér en af einhverskonar óöryggi klykkja gjarnan út með orðunum „en ég er svosem ekki sérfræðingur.“ Svar mitt við því er alltaf „já en þú ert áhorfandi og átt ekki að þurfa að vera sérfræðingur.“ Samt finnst mér ég þurfa að vera hafa allt á hreinu til jafns við langskólagengna fagaðila til að eiga rétt á heilbrigðisþjónustu. Dirfast að ónáða þessa lærðu meistara. Mögulega vegna þeirra viðbragða sem ég hef fengið frá fagfólki og lýsi í fyrri færslum. Og þó er það öllu alvarlegra ástand en hvernig léleg uppfærsla á lélegum söngleik lagðist í einn tiltekinn áhorfanda.

Ég las mér til um möguleg veikindi mín til að hafa einhverja stoð fyrir grun mínum. Til að geta leitað mér hjálpar á vandvirkan hátt. En eftir því sem vitneskja mín um geðhvörf óx jókst einmitt efi minn um að ég væri gjaldgengur í klúbbinn, eins og ég hef áður sagt. Einhverskonar Dunning-Kruger loddaraheilkenni. Ég skoðaði þessi einkenni sem ég hef talið upp og mátaði mig við þau. Í upphafi fannst mér margt ekki eiga við og það tók mig nokkurn tíma að átta mig á hvernig sértækari einkenni taka á sig mynd þó að einkennum sé lýst á frekar almennan hátt. Stutt frásögn sem hjálpaði mér að átta mig á því var ung kona sem sagði frá bróður sínum. Hann var afburða námsmaður, fyrirliði í íþróttaliði í skólans, vinamargur, hjálpsamur, leiðtogi og sífellt glaður. Fyrirmynd. Samt fyrirfór hann sér. Hann þjáðist augljóslega án þess að hafa sýnt þess hefðbundin merki. Hvort sem frásögnin er sönn eða ekki tengi ég við hana. Þetta varð mér áminning í hvert skipti sem ég efaðist um gildi upplifana minna og er það enn í dag.

Hér fyrir neðan eru greiningarviðmið DSM-5 fyrir alvarlegu þunglyndi, eftir því sem ég best fæ séð og viðvaningslega þýtt. Þessi upptalning er ekki mikilvæg frásögninni. Þið getið skimað yfir þessa hana eða jafnvel skautað fram hjá. En ég læt hana fljóta með í heild sinni fyrir þau sem hún gæti gagnast.

  • Fimm (eða fleiri) af eftirfarandi einkennum hafa verið til staðar á sama tveggja vikna tímabili og tákna breytingu frá fyrri virkni; að minnsta kosti eitt af einkennunum er annað hvort (1) depurð eða (2) áhugaleysi eða ánægjuleysi. Athugið: Ekki skal telja með einkenni sem greinilega má rekja til annars sjúkdóms.
    • Þunglyndur stærstan hluta dagsins, næstum alla daga samkvæmt huglægri umsögn (t.d. líður illa, er tómur, vonlaus) eða athugasemdum annarra (t.d. grátandi eða virðist gráta)
    • Marktækt minnkaður áhugi eða ánægja af öllum, eða næstum öllum athöfnum stærstan hluta dagsins, næstum alla daga (samkvæmt huglægri frásögn eða athugun)
    • Marktækt þyngdartap eða þyngdaraukning (breyting um meira en 5% af líkamsþyngd á mánuði), eða minnkuð eða aukin matarlyst næstum alla daga
    • Svefnleysi eða of mikill svefn næstum alla daga
    • Hughreyfilegur æsingur eða hughreyfiþroskahefti (e. psychomotor agitation or retardation) næstum alla daga (sem aðrir sjá, ekki aðeins huglægar tilfinningar um eirðarleysi eða að viðkomandi sé hægur)
    • Þreyta eða orkutap næstum alla daga
    • Tilfinningar um vera einskis virði eða óhófleg eða óviðeigandi sektarkennd (sem getur verið ranghugmynd) næstum alla daga (ekki bara sjálfsávítur eða sektarkennd vegna veikinda).
    • Minnkuð geta til að hugsa eða einbeita sér, eða óákveðni, næstum daglega (annað hvort samkvæmt huglægri frásögn eða eins og aðrir hafa séð)
    • Endurteknar hugsanir um dauðann (ekki bara ótti við að deyja), endurteknar sjálfsvígshugsanir án áætluna, sjálfsvígstilraun eða áætlun um sjálfsvíg.
  • Einkennin valda klínískt marktækri vanlíðan eða skerðingu á félagslegri, atvinnutengdri eða annarri mikilvægri virkni.
  • Lotuna má ekki rekja til lífeðlisfræðilegra áhrifa lyfja eða vímuefna, eða annarra heilsutengdra orsaka.
  • Þunglyndislotan er ekki betur útskýrð með geðklofa, geðhvarfaklofa (e. schitzoaffective disorder), geðklofalíkri röskun eða öðru tilgreindu og ótilgreindu geðklofarófi, og öðrum geðrofssjúkdómum.
  • Manía eða hýpómanía hafa aldrei átt sér stað (þó ekki ef einkenni sem líkjast þeim stafa af notkun ávanabindandi efna eða má rekja til áhrifa af völdum annarra veikinda).

Ég vona að ég fari rétt með. Þetta er umfangsmikið og tyrft mál. Hughreyfiþroskahefti? Kannski á maður að segja hömlun. Íðorðabankinn hjálpar aðeins að vissu marki. Þessi listi er langur og flókinn, og á sínum myrkustu stundum er maður ekki best í stakk búinn til að fara í kalt og hlutlaust mat á lífinu. Maður er bara að hugsa um að lifa af. Svo hjálpar auðvitað ekki að flestar upplýsingar eru settar fram sem gátlisti. Það er vissulega aðgengilegt form upplýsinga, en aftur eins og kröfur sem þarf að uppfylla. Kannski finnst mér það vegna þess að ég hef lengi verið ferladrifinn – mjög hrifinn af skilvirkni, framvindu og hönnuðum ferlum sem leiða til árangurs. Að hluta til hugsa ég að það megi rekja til skólakerfisins. Ég þarf að hoppa í gegnum eina gjörð til að komast á næsta stig. Þar tekur við önnur gjörð og svoleiðis er það í fjórtán ár, að minnsta kosti, fyrir þau okkar sem hófu grunnskólagöngu sex ára og fóru beint í fjögurra ára menntaskólanám á sínum tíma. Svo heldur þetta vissulega áfram á öðrum skólastigum. Til að allt gangi sem best er öruggast að mæta sem flestum skilyrðum. Það er skilgreindasta leiðin til að halda áfram í gegnum lífið. Eða kannski skilyrtasta. Þannig hlýtur maður einnig mesta viðurkenningu. Valíderingu. Hitt er kannski líklegra, að skilgreindir ferlar, reglur, fastmótaðar hefðir og skýr mörk séu mér öruggt skjól. Að það sé stuðningsnet sem ég þurfti á að halda þegar tilfinningarnar og skynjun á umhverfi mínu er öfgafull og síbreytileg. Hækjur til að styðja sig við. Mastur til að binda sig við á meðan skútan velkist um eins og korktappi í stormi og ólgusjó.

Síðasliðinn vetur leitaði ég til Píeta samtakanna í fyrsta skipti, í kjölfar eins af erfiðustu tímabilum lífs míns. Ég fjalla nánar um þetta tímabil í öðrum pistli, en þetta var áhugaverð framvinda. Ég hef lengi tekið virkan þátt í ýmsum árveknisátökum um bætta geðheilsu, einkum á samfélagsmiðlum. Ég deili færslum og sögum frá öðrum notendum, hvort sem það eru fagaðilar, samtök eða einstaklingar sem vilja bæta hana. Viljað leggja mín lóð á vogarskálarnar. Haustin eru nokkuð þétt pökkuð, einkum með þeim tveimur stærstu: Alþjóðadegi sjálfsvígsforvarna (e. World Suicide Prevention Day – WSPD) 10. september í ár og Alþjóða geðheilbrigðisdeginum (w. World Mental Health Day – WMHD) 10. október í ár. Í gegnum WSPD deildi ég færslum á instagram og facebook sögunum mínum, enda raunverulega annt um málefnið. Á sama tíma skalf ég af vanlíðan og ef ég var ekki grátandi þá barðist ég við að halda aftur af tárunum. Allan heila daginn. Ég deildi færslum erlendis frá með símanúmerum, netföngum og tenglum þeirra landa – og tók svo saman ýmiskonar úrræði og símanúmer á Íslandi í eina færsluna. Það var ekki fyrr en daginn eftir, þegar ég var enn í hnút, að ég áttaði mig á því að ég ætti kannski að fara að eigin ráðum. Mér sem er svo annt um að opna umræðuna og koma úrræðum á framfæri fyrir annað fólk flaug ekki einu sinni í hug að ég ætti sjálfur að hafa samband. Sennilega, eins og ég held áfram að klifa á, því mér fannst þetta bara eðlilegt ástand. Þetta væri ekki gilt (e. valid). Myndi líða hjá.

Umhyggjan frá starfsfólki samtakanna var ljós um leið og svarað var í símann. Ég hef sjaldan átt eins hlý og nærgætin samtöl eins og við þetta fólk, hvort sem var í símann eða í persónu. Ég óskaði eftir aðstoð og eftir innihalds- og stuðningsríkt samtal var mér sagt að haft yrði samband eins fljótt og auðið er. Einhverju síðan þurfti ég reyndar að ganga á eftir þeim, en mér finnst það helst til marks um þörfina á þjónustunni og hversu takmarkað er hægt að veita hana þrátt fyrir allan vilja þeirra sem það gera. Ég fékk að endingu boð í einstaklingsviðtal, um einum og hálfum mánuði eftir að ég hringdi fyrst. Ég vissi að ég yrði að bíða en vitneskjan um að ég fengi viðtal hélt mér gangandi. Þegar í viðtalið var komið fannst mér ég enn einu sinni þurfa að sanna mig. Mæta kröfum. Sýna ferilsskrána. Að mér liði nógu illa, væri nógu illt og væri nógu mikil alvara með að vilja binda enda á líf mitt til þess að það væri hægt að bjóða mér aðstoð – ekki síst því samkeppnin er hörð á svona mettuðum markaði. Aftur var mér svo boðið í einstaklingsviðtal, tveimur vikum seinna og að því loknu var mér boðið í svokallaða DAM (e. DBT – dialectical behavioural therapy) hópmeðferð. Þarna hafði ég verið í einstaklingsmeðferð í fjölda ára og hafði svosem vitneskju um hópmeðferðir en samt óaði mér við tilhugsuninni. Að sitja í hópi ókunnugra og deila því sem ég hafði varla getað sagt nokkurri lifandi manneskju frá í gegnum ævina. Hugmyndin er þó einmitt sú – að segja frá, að mynda samfélag sem deilir hugsunum sem maður hélt að maður sæti einn uppi með.

Meðferðin reyndist mér mikið gæfuspor og hópurinn var dásamlegur. Eflaust hjálpaði mér að hafa verið í gagnlegri sálfræðimeðferð, á lyfjum og vinna gagngert í mínum málum. En það ætti þó ekki að þurfa svo ekki láta það stoppa þig í að hafa samband. Hvert okkar hafði auðvitað sína sögu að segja og við vorum ótrúlega dugleg að styðja við hvert annað með opnum huga og gæsku að leiðarljósi. Við vorum á öllum aldri og mörg búin að reyna ýmislegt til að takast á við hugsanir okkar. Sum okkar deildu gömlum hugmyndum og aðrar nýjar urðu til. Við hittumst vikulega, tvo tíma í senn, fyrst í húsnæði Píeta samtakanna en þegar leið á reyndust þau illa farin af myglu og óheilnæm – eins og augljóslega hafði verið lögð mikil natni við að gera þau falleg og hlý til móttöku fólks á sínum erfiðustu stundum. Ég tek þetta og biðina fram til þess að þörf samtakanna á fjárstuðningi sé ljós. Þau eru algjörlega ofhlaðin. Eins og fólkið sem þarf á þjónustu þeirra að halda. Á vefsíðu Píeta má finna leiðir til að styrkja samtökin eða versla af þeim. Þú gætir gert margt vitlausara við peninginn þinn.

Eitt dæmi um það sem ég lærði hjá Píeta samtökunum var um flótta eða árásarviðbrögð (e. fight or flight response). Ekki svo að skilja að ég hafi ekki vitað um þau. Hugmyndafræðilega hef ég lengi vitað um fight, flight, freeze or fawn – eða árásarviðbrögð, flóttaviðbrögð, frostviðbrögð eða – hin nýjustu – þóknunarviðbrögð – það að vilja þóknast í öllum aðstæðum til að lægja öldurnar. Stöðva áreitið með meðvirkni. Þetta eru fjögur helstu viðbrögð einstaklinga við streitu og áreiti og koma fram þegar líkaminn skynjar ógn eða hættu, hvers eðlis sem hún er. Oft held ég að mælarnir séy vanstillitir – að það sé í raun ekki hættuástand þó að mér líði þannig. Ég hafði bara aldrei mátað mig við þessi viðbrögð. Þegar ég var yngri hugsa ég að ég hafi miklu oftar beitt árásarviðbrögðum, en í seinni tíð frýs ég mun oftar en ég hefði reiknað með. En þetta er ekki blátt áfram. Mismunandi aðstæður geta kallað á mismunandi viðbrögð hjá manni sjálfum og þau eru jafnvel mismunandi eftir því hver á í hlut. Enn frekar ruglar mig að ég stend mjög fast á fótunum í mínu starfi. Get svarað flóknum og erfiðum spurningum án mikillar umhugsunar, hvort sem þær eru listrænar eða tæknilegar. Ég bregst hratt og af festu við áskorunum. Rökræði við leikstjóra og meðhönnuði um dramatúrgíu undir tímapressu, útskýri erfiðar en nauðsynlegar breytingar fyrir tækniteyminu eða sný teymi arkitekta og rafmagnsverkfræðinga á sveif með mér við hönnun stórra leikhúsa. Og það án þess að vera aggressívur – jafnvel bara með sjarma og glettni. En frostviðbrögðin koma fram í mínum allra nánustu samböndum, sem má sennilega telja á fingrum annarrar handar. Svo hef ég ekki litið á viðbrögð mín sem frost, heldur sem rými sem ég vil gefa fólki til að segja sína skoðun. Rými sem ég þarf að taka mér til að melta samtalið. Viljað svara af nærgætni. En það virðist kannski vera áhugaleysi. Uppgjöf. Jafnvel útspil. Af því fjölmarga sem ég tek með mér úr þessu ferli með Píeta samtökunum er þessi skilningur á streituviðbrögðum líkamans eitt það dýrmætasta.

Í gegnum tíðina hef ég gjarnan heyrt fólk tala óvarlega um sjálfsvíg, sjálfsvígstilraunir og fólk með sjálfsvígshugsanir. Sum segja að það sé eigingjarnt að binda endi á líf sitt og skilja aðstandendur eftir með sorg í hjarta og að þau sem geri tilraunir til sjálfsvígs séu „bara að kalla á hjálp.“ Það ætti samt að vera dagljóst að ekkert leikur sér að eldinum á þennan hátt, í hálfkæringi. Slíkt er í besta falli skilningsleysi en í versta falli fyrirlitning. Fólk á þessum stað í lífinu sér ekki út úr myrkrinu og telur sig ekki eiga annarra kosta völ. Í raun eru sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir mjög skiljanleg viðbrögð, ef út í það er farið. Líkaminn gerir jú hvað sem þarf til að koma sér undan óþægindum og sársauka. Ef þig klæjar, þá klórarðu þér yfirleitt án umhugsunar. Það tekur örstutt augnablik. Ef þú brennir þig á höndinni eða rekur tærnar eða höfuðið í kippirðu þeim að þér, aftur án umhugsunar. Hlúir að þeim. Höndina flýtirðu þér að setja í kalt vatn. Tekur um tærnar eða höfuðið. Nuddar eða strýkur, eins og til að dreifa sársaukanum. Dæsir eða jafnvel bölvar. Allt til að miðla sársaukanum og vernda líkamann. En hvað gerir hann þegar það er ekki hægt að klóra þessar tilfinningar í burtu, eða kippa að sér útlimum? Þegar maður er gegndrepa af sársauka, hvernig hann svosem birtist? Kannski sér líkaminn bara eina leið út – þegar allar taugar eru þandar út fyrir mörk sín er eina ráðið mögulega að binda endi á allar tilfinningar. En kannski koma upp villuboð við þessar aðstæður. Líkaminn er gerður til að lifa sem lengst af og þar sem hann vill verja sig með því að binda endi á líf sitt, vill hann líka verja sig gegn því að deyja. Í sumum tilvikum allavega. Í öðrum ber sársaukinn fólk ofurliði.

Eftir að hafa fundist sjálfvígshugsanir ósköp eðlilegur hluti lífsins, eins og ég hef margoft sagt – og tekið gagnrýninni hikstalaust, því auðvitað er ég sjálfselskur og hef rangt fyrir mér – þá lít ég þetta sjónarhorn nú öðrum augum. Fólk sem líður þessar vítiskvalir og lifir engu að síður af eru hetjur. Það krefst ógurlegra krafta að berjast við sjálfsvígshugsanir og í þessu ástandi er fólki yfirleitt ekki sjálfrátt. Ekki ganga út frá því að það hafi ekki hugsað um allar hliðar málsins á einhverri stundu – sennilega hefur það ofhugsað þær – en á sama tíma geti ekki afborið neina hugsun þegar það er sem rist upp af sársauka. Ég man allavega ekki til þess að ég hafi nokkurntíma hugsað rökrétt í þessu ástandi, vegið eða metið kosti og galla. Aðeins viljað hætta að þjást.

Ef þú eða eitthvert sem þú þekkir upplifir sjálfsvígshugsanir skal tafarlaust leita hjálpar. Þetta er mjög mikilvægt og á að vera óumsemjanlegt. Þetta eru hugsanir sem einstaklingurinn ræður ekki við og ekki hugmyndir sem á að veita hæfilegt rými eins og stjórnmálaskoðunum eða smekk. Þær þarf að grípa umsvifalaust. Mér var einu sinni sagt að leita mér hjálpar ef ég upplifði sjálfsvígshugsanir, en mér fannst þær auðvitað svo eðlilegar að ég eiginlega tók ekki mark á þessum ráðum. Ekki viljandi, heldur bara meðtók þau ekki. Kom þau ekki í hug á ögurstundu. Hugsaðu þig aftur um – og einu sinni enn – ef það ert þú sjálft sem upplifir þær og þú mögulega getur. Ekki hika ef þú heyrir af þeim frá öðrum. Það að leita sér hjálpar er ekki skömmustulegt. Líttu frekar á það sem að kveikja á vasaljósi þegar rafmagnið fer.

Athugið að eftirfarandi upplýsingar eru eins réttar og framast er unnt þegar þessi færsla er birt. Ef upplýsingum er ábótavant skal haft samband við neyðarlínu.

  • Neyðarlínan – sími 112. Allar upplýsingar segja að í neyðartilvikum eigi að hringja í neyðarlínu, en ég á erfitt með að átta mig á hvenær sjálfsvígshætta er ekki neyðartilvik. Að mínu viti ætti það alltaf og undantekningalaust að vera fyrsta viðbragð. Þetta er lífsspursmál. Viðkomandi er fast í brennandi húsi – ekki að fást við smá skeinu sem jafnar sig.
  • Bráðamóttaka geðþjónustu Landspítala við Hringbraut – sími 543 1000
    • Bráðamóttaka geðþjónustu er staðsett á fyrstu hæð í geðdeildarbyggingunni við Hringbraut og er opin kl. 12:00-19:00 virka daga og kl. 13:00-17:00 á frídögum. Utan þess tíma er hún staðsett á bráðamóttökunni í Fossvogi.
    • Bráðamóttaka barna- og unglingageðdeildar (BUGl) – Ekki er opin bráðamóttaka á BUGL heldur þarf alltaf að hringja í afgreiðslu í síma 543 4300 milli kl. 08:00 og 16:00 virka daga. Utan dagvinnutíma er bent á bráðamóttöku barna á Barnaspítala Hringsins og bráðamóttökuna í Fossvogi. Bráðateymi BUGL er staðsett við Dalbraut 12, 105 Reykjavík. Gengið er inn frá bílastæði Dalbrautarmegin.
    • Almenn bráðamótttaka í Fossvogi er opin allan sólarhringinn
    • Almenn bráðamóttaka barna er á jarðhæð Barnaspítala Hringsins, opin allan sólarhringinn
  • Bráðamóttaka geðsviðs Sjúkrahússins á Akureyri – sími 463 0202
    • Sími alla virka daga frá kl. 8 til 12 – 463 0202. Legudeild geðdeildar SAk veitir sólarhrings- og dagþjónustu. Í forgangi eru bráðveikir sjúklingar með geðrofseinkenni og í sjálfsvígshættu. Legudeild – gengið er inn um inngang B.
  • Hjálparsími Rauði krossins 1717 – sími 1717 (opið allan sólarhringinn)
  • Netspjall 1717.is (opið allan sólarhringinn)
  • Píeta samtökin – sími 552 2218 (opið allan sólarhringinn)
  • Bergið headspace – fyrir ungt fólk að 25 ára aldri (opið 09:00-17:00 nema á frídögum. Nánari upplýsingar á heimasíðu.)
  • Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins – sími 1700 (opið allan sólarhringinn)
  • Netspjall Heilsuveru (opið 08:00-22:00)
  • Sorgarmiðstöð – fyrir þau sem misst hafa ástvin (opið fyrir skrifstofusíma þriðjudaga og fimmtudaga 09:00-12:00, nema yfir frídaga. Nánari upplýsingar á vefsíðu.)
  • Heilsugæslustöðvar um allt land

Það er góðra gjalda vert að geta leitað sér hjálpar á elleftu stundu, en ég hvet þau sem glíma við erfið og óstjórnleg geðbrigði, sem og aðstandendur þeirra, að leggja áherslu á forvarnir. Einhverntíma þegar þú ert í jafnvægi skaltu vera heiðarlegt við sjálft þig og eiga samtal við eitthvert sem þú treystir. Segðu frá því að þú glímir öðru hvoru við sjálfsvígshugsanir og að þú viljir fá stuðning þegar óviðrið geisar. Ekki dramatísk viðbrögð, heldur yfirveguð. Það gerir það miklu einfaldara að fást við þær þegar þær bresta á. Bara eins og að segja frá því að þú gætir fengið svo slæmt asthmakast að þú getir ekki tjáð þig – en þá vantar þig helst bláa pústið og nærð kannski að benda á hvar þú geymir það. Þú vilt ekki þurfa að hringja í slökkviliðið og bíða eftir þeim á meðan húsið þitt brennur. Þú vilt að húsið sé byggt úr eldtefjandi efnum, setja upp reykskynjara, hafa slökkvitæki og eldvarnarteppi við höndina. Geta tekist á við staðbundinn eld áður en hann breiðir úr sér og gleypir allt í sínum vegi. Ég veit samt að það er ekki auðvelt og ekki eitthvað sem fólk á að áfellast sig fyrir – það getur verið ógvænlegt að slökkva eld þó lítill sé. En förum saman á eldvarnarnámskeið. Skyndihjálparnámsekið. Ef þú vilt máttu hafa samband við mig og æfa samtalið með mér áður en þú talar við fólkið þitt. Kannski þarftu að byrja á einum vin áður en þú talar við annan og vinna þig þannig að þínu nánasta fólki. Það þurfti ég allavega. Þannig öðlastu líka smám saman yfirráð yfir þínum veruleika – þinni sögu – svo að það verður auðveldara að eiga við.

Í öllu falli hef ég lært að góðu stundir lífsins eru meira virði en flótti frá þeim sársaukafullu og vona að hvert ykkar sem kljáist við viðlíka hugsanir komist á sama stað, hversu löng og ströng sem sú leið er. Hún er margfaldlega þess virði og mun auðveldari en þig gæti grunað ef þú færð með þér meðreiðarsveina.

Athugasemdir

Færðu inn athugasemd