MyPolar

Beggja skauta byr

8. Landgræðslan

Það erfiðasta við að tileinka sér nýja þekkingu er ekki að tileinka sér nýja þekkingu.

Ég las nýlega yfir seinustu færslu og hugsaði með mér að þetta væru nú kannski frekar almennar hugleiðingar sem ég setti þar fram. Einfaldar viðlíkingar sem flest fólk gæti búið sér til og sett í samhengi. En við upphaf þessa ferðalags var mér hreinlega um megn að ná utan um tilfinningalíf mitt. Ég man ekki nákvæmlega hvernig það er orðað, en í samnefndu öndvegisriti síðdramatísks leikhúss (e. post dramatic theatre) talar höfundurinn, Hans-Thies Lehman, um það hvernig mannshugurinn nær aðeins utan um hugmyndir og hugtök að vissu marki. Séu þær yfirgengilegar að stærð er fólki illmögulegt að ná utan um þær. Mig minnir að hann taki dæmi um dýr af ímyndaðri stærð – hundruði metra að lengd. Stórar tölur eru annað dæmi um þetta flest fólk hefur ekki auðveldlega tilfinningu fyrir muninum á einni milljón og einum milljarði. Til að setja það í samhengi eru milljón sekúndur um ellefu og hálfur dagur, á meðan milljarður sekúndna eru 31,7 ár.

Svona leið mér með tilfinningar mínar. Þær voru stærri og meiri en ég gat skilið og þær ráðskuðust með mig. Ég var beinlínis farinn að sjá þær fyrir mér utan við líkama minn og leit á sem svo að sálin væri hreinlega af einhverjum öðrum meiði en líkamlegum. Einhverskonar óræð orka. Og þó held ég að ég sé nú ekkert ofboðslega illa að mér. Einu sinni var mér bent á að þetta gæti verið hættuleg hugsun; að án þess að gera mér grein fyrir því liti ég á það sem svo að ég væri ekki ábyrgur fyrir þeim. Það vel athugað og hefur gefið mér margt að hugsa um, en að sama skapi held ég og vona að ég hafi reynt að halda eins fast utan um þær og ég gat. Svo þessar viðlíkingar hafa verið mér nauðsynlegar. Þær hafa verið lítil skref til að venja mig við nýjar hugmyndir og hafa með tímanum gert mér fært að takast á við aðrar, stærri, flóknari og enn nytsamari hugmyndir. Þær eru grunnurinn að bættri líðan minni, þó ég hugsi kannski ekki mikið um þær nú til dags.

Svo áttaði ég mig á því að það eru aðrar ástæður fyrir því að ég tala almennt. Annars vegar er ég að undirbyggja stærra samhengi, leiða frásögnina þaðan sem hún hófst og þangað sem hún er komin. Hinsvegar er það einmitt hvert frásögnin mun fara. Ég vil vera opinskár í þessari frásögn en það er ekki auðvelt að tala um það sem hefur valdið manni svona miklum erfiðleikum og svona miklum sársauka. Ég er að taka tillhlaup. Safna kjarki. Hreinskilni með atrennu.

Stundum getur verið best að koma sér beint að efninu – en sum ferðalög eru löng og í því felst ávöxturinn sem þau bera.


Eitt af því sem ég lærði um, snemma í þessu ferli, eru taugabrautir (e. neural pathways). Í grunninn eru þær líffræðilegt ferli þess hvernig líkaminn tengir saman taugar í heilanum til að auðvelda gagnaflutning um hann eftir þeim leiðum sem við kjósum að þjálfa. Í leikhúsbransanum myndi tæknifólk sennilega kalla þetta patch – það hvernig rafmagns- og gagnalagnir (harðvíraðar og stafrænar) liggja á milli tækja í leikhúsinu, eftir flóknum en um leið gífurlega sérsníðanlegum leiðum (eftir þörfum) til að tengja saman ólík kerfi (ljós, hljóð, mynd, svið o.þ.h.) með fjölmörgum ólíkum gagnasamskiptareglum og þjóna verkefnum í eins víðu samhengi og kostur er. Taugabrautir eru í raun grunnurinn því hvernig við lærum og munum. Hvernig við búum til rökrásir, ef fólk er á rafeindafræðilegum nótum. Þessi nálgun er mjög rökræn og líffræðileg, þvert á það hvernig ég lýsi fyrri hugmyndum mínum hér að ofan. Ég man ekki hvað varð til þess að lærdómur um taugabrautir urðu hluti af þessu ferli, en það skipti sköpum. Það hjálpaði gríðarlega að skilja hvernig tilfinningar og skynjun ferðast um líkamann og losa mig undan þessari hugmynd að þær væru utanaðkomandi, sem rímar nokkurnveginn við að sem ég hef áður sagt um leið mína að hugleiðslu. Ég held ég hafi áður sagt að hafi átt erfitt með að bera saman núverandi hugmyndir um lífið og þær sem ég bý að núna, eftir þessa miklu sjálfsvinnu. E það er einmitt tilfellið hér svo það er ljóst að vinnan hefur borið árangur. Ég á mjög erfitt með að sætta þessi ólíku viðhorf og finnst mjög skrítið að ég hafi hugsað svona. En svona er þetta víst – æfingin skapar meistarann. Eftir ýmiskonar lestur og samtöl við sálfræðinginn minn og geðlækninn minn – og mikil heilabrot – náði ég smám saman utan um þessa nálgun. Rétt eins og það að þjálfa vöðva líkamans breytir uppbyggingu þeirra breytist samsetning taugabrauta í heilanum beinlínis eftir því sem heilanum er beitt. Ætli ég hafi ekki einmitt staðið í umfangsmiklum skipulagsbreytingum á taugabrautum á þessum tíma?

Til varð enn ein viðlíkingin sem hjálpaði mér að átta mig. Hugsaðu þér víðfeðmt og nokkuð slétt landslag, gróið svo langt sem augað eygir. Þetta er algjörlega ósnert land. Á því eru engin merki um mannaferðir og um það liggja ekki vegir, stígar eða slóðar. Þú þarf að leggja leið þína í gegnum þetta landslag en þú þekkir það ekki og veist ekki hvaða leið er best að fara til að komast á áfangastað. Í raun veistu heldur ekki hver áfangastaðurinn er. Þú arkar af stað – kannski af áræðni, kannski af varfærni – og að endingu kemstu á leiðarenda. Kannski fórstu beint af augum, kannski fórstu óþarfa krókaleið. Á bakaleiðinni fetarðu mögulega í sömu för eða prófar kannski aðra leið. Kannski af ævintýragirni – kannski því þú ratar ekki sömu leið til baka. Þeim mun oftar sem þú ferð um landið lærirðu að þekkja það og finnur að endingu leið sem hentar þér. Sneiðir hjá fyrirstöðum, finnur kannski náttúruleg för og svo framvegis. Eftir fyrstu ferðina er varla að sjá merki um umferð en því oftar sem sama leiðin er gengin treðst niður slóði. Gróðurinn tætist smám saman upp og jarðvegurinn þéttist svo með tímanum grær ekkert þar því ekkert nær að skjóta þar rótum. Til þess þarf jarðvegurinn að vera lausari í sér. Það myndast stígur.

Þeim mun oftar sem sama leiðin er farin, þeim mun greiðfærari verður hún og augljósari. Þetta landslag er hugurinn. Það sem við iðkum verður beinlínis að stíg í huga okkar. Eðli málsins samkvæmt myndast fyrstu stígarnir í æsku. Í fyrsta lagi er landslagið ósnert, í öðru lagi er heilinn hvað deigastur á þeim tíma, einkum framheilinn, en sömuleiðis skilja fyrstu skrefin jafnan eftir sig dýpstu sporin. Kannski af þessum ástæðum. Þegar mótun heilans er lokið, við um tuttugu og fimm ára aldur, kemur svo oft á daginn að stígarnir sem barnið lagði eru ekki endilega hentugustu leiðirnar fyrir hinn fullorðna einstakling – ekki síst því hinn fullorðni einstaklingur hefur líkamlega og andlega færni umfram barnið. Kannski voru stígarnir mótaðir við beina kennslu, kannski í leik, kannski í gleði eða kannski af ótta við eitthvað sem viðkomandi ímyndaði sér – nú eða upplifði. Sem gefur að skilja eru elstu stígarnir þeir þéttustu og fjölförnustu. Við þekkjum þá best og eftir atvikum veljum við þá í flestum tilfellum langoftast. En við ferðumst auðvitað ekki ein um þetta land. Til að byrja með – og lengi framanaf – erum við í fylgd fullorðinna. Þau leiða okkur um og passa upp á okkur hvað þau best geta. Þekkja þetta tiltekna land ekki að ráði, en hafa ferðast um önnur lönd og geta bent okkur á ýmislegt (mis)gagnlegt. Seinna meir erum við meðal annars í fylgd með vinum, öðrum fjölskyldumeðlimum og vinnufélögum. Það er ekki að ástæðulausu sem það er kallað samferðafólk. Lífið er hópferð og við deilum þessum stígum saman. Í mörgum tilfellum er auðveldara að fylgja hópnum. Því fylgir minna vesen, minni mótstaða og svo er hópurinn kannski með áætlun sem leyfir ekki útúrdúra eða krókaleiðir. Einhver fara sínar eigin leiðir. en það kostar úthald, þor og þrautsegju – enda mætir það oft ýmiskonar mótstöðu. Oftast er það þó vel þess virði.

Einn af mikilvægustu lífsbjargareiginlegum manneskjunnar er einmitt að læra með því að herma eftir öðru fólki, einkum á unga aldri. Tiltölulega nýlega (uppúr 1980/1990, þó við dræmar undirtektir vísindasamfélagsins þangað til snemma 2000) hafa kennsl verið borin á sérstakar taugafrumur sem hafa með þessa færni að gera, sk. spegiltaugafrumur (e. mirror neurons, eigin þýðing – https://en.wikipedia.org/wiki/Mirror_neuron). Þessi eiginleiki er sérstaklega mikilvæg þegar kemur að ýmiskonar grunnfærni, sérstaklega máltöku og þar með samskiptum og tjáningu. Undir það fellur einnig hvernig við orðum hugsanir fyrir okkur sjálfum og þar af leiðandi hvernig við leggjum okkar stíga og á hvaða forsendum. Það læra börn sem fyrir þeim er haft. En það sem við öpum upp eftir öðrum er ekkert víst að henti okkur sjálfum. Eins er allt eins líklegt að fólkið sem við hermum eftir – einkum foreldrar og forráðafólk – hafi sína þekkingu af því að herma eftir sínu forráðafólki. Ég nefndi að fullorðið fólk reynis að passa upp á börn hvað best það getur, en það þýðir ekki að það sé alltaf svo gott. Fólk hefur aðeins úr því veganesti að spila sem það hefur fengið. Þetta er samt ekki allt svo galið. Sumt er í raun mjög nytsamlegt. Ýmislegt má kalla fjölskylduvenjur eða hefðir. Annað er „eins og við höfum alltaf gert í þessari fjölskyldu.“ Það er í grunninn ekkert að því – en það er heldur ekki heilbrigt að fylgja tilteknu hegðunarmynstri án þess að rýna í það. Ef það er góðra gjalda verð ætti það að standast skoðun – sem er þó auðvitað huglæg. Þannig, kynslóð fram af kynslóð, hafa óhentugar brautir myndast, ásamt hentugum, í hugum alls fólks. Við sitjum að einhverju leyti föst í gömlum förum án þess að hafa fengið miklu um þau ráðið. Það tekur tíma og töluverða endurspeglun að átta sig á því hvað hentar ekki og svo kostar gífurlega vinnu við að finna útúr því hvað það er sem okkur sjálf langar svo til að gera.

Hér er ég kannski farinn að tala um það sem ég myndi kalla sálrænt, í stað þess sem er geðrænt. Öll höfum við sálarlíf og til einföldunar mætti segja að við höfum mögulega öll sömu forsendur til þess. Geðheilsan er svo kannski mismunandi í grunninn. Það má kannski líkja því við að ganga upprétt. Langstærstur hluti mannkyns hefur færni til að ganga á fótunum – en alls ekki við öll. Það geta verið undirliggjandi ástæður eins og erfðafrávik, sem veldur lömun, vanþroska í fótum eða öðru. Það getur líka verið að fæturnir virki fullkomlega, en annarskonar frávik valda því að þeir nýtast ekki sem skyldi. Sum okkar geta aldrei gengið á meðan önnur geta það, þó með talsvert meiri fyrirhöfn en þau sem fæðast án fyrirstöðu. Eins geta slys átt sér stað, sem hamla göngu tímabundið eða til frambúðar, óviðbúið. Á vaxtarskeiði ungmenna getur verið erfitt að kunna fótum sínum forráð þar sem líkaminn lengist hratt og títt – og ójafnt. Á sama tíma lífsins eiga sér einnig stað breytingar í heilaþroska, hormónabúskap og öðru sem hefur mikil áhrif á geðslagið. Nú, ef að manneskja með einhverskonar hreyfihömlun fær stuðning, þjálfun og stoðtæki getur vel verið að hún geti gengið með mun minni fyrirhöfn en fólk með samskonar hreyfihömlun sem nýtur ekki stuðnings. Eins getur vanræksla orðið til þess að börn þroskist ekki eins og það hefði annars burði til. Á sama hátt getur gott sálrænt atlæti haft uppbyggileg áhrif á geðheilsu – og öfugt. Þetta er mikil jafnvægislist en það er hætt við að fólk hugsi ekki út í það. Geri það besta sem þau geta, en aðeins á þeim grunni sem það er reist.

Mismunandi aðstæður hafa svo áhrif á stígana. Þegar rignir blotnar jarðvegurinn svo sumur gróður hefur minni festu og tætist við minni fyrirhöfn. Blautur jarðvegur fyrirliggjandi stíga þéttist líka meira en þurr, augljós fótspor eða hjólför myndast en drullan getur verið erfið yfirferðar. Á hinn bóginn tætist gróður sömuleiðis upp við mikinn þurrk og jarðvegurinn bregst öðruvísi við en blautur. Merkilegt nokk tekur ofþornaður jarðvegur verr á móti vætu en jarðvegur við hefðbundið rakastig. Þess vegna er hættara við flóðum eftir þurrkatíð þó halda mætti að jörðin gleypti í sig vætu þegar hana vantar mest. En alvarlega vannærð manneskja byrjar ekki á að gleypa í sig veislumáltíð. Líkaminn ræður ekki við það. Það þarf að venja hann við. Þegar langþráð vökvun kemur loksins er hugurinn kannski ekki fær um að höndla hana. Fólk sem hefur ekki vanist því að upplifa umhyggju eða gæsku kunna ekki alltaf að taka á móti eða treysta.

Svo eru sumir stígar beinlínis lagðir af ásetningi. Hannaðir. Samþykktir í nefnd. Jarðvegurinn er grafinn upp og malarundirlag lagt í skurðinn, jafnvel í nokkrum mismunandi lögum. Hann er svo þjappaður með vélum og í hann borin ný möl reglulega. Sumir stígar eru jafnvel hellulagðir eða malbikaðir, já og auðvitað akvegir. Fastsettir og óhagganlegir – rétt eins og sumar hugsanir sitja pikkfastar í hugum okkar. Vissulega mun náttúran vinna bug á því að endingu, en það kostar óhemju tíma, orku og þrautsegju. Ummerki um svoleiðis veg verða sennilega til staðar um alla eilífð. Eins eru ekki aðeins fótgangandi sem geta sett mark sitt á landslagið. Sé meira afli beitt, til dæmis ef farartækjum eða vinnuvélum, myndast greinileg för. Utanvegaakstur er sýnilegur í margar kynslóðir – rétt eins og það sem brýtur gegn velsæmd okkar, siðferði og mörkum. Sinubruni gæti átt sér stað þegar grasið hefur sölnað í þurrki eða meðfram hausti. Allar hugmyndir um lífið fuðraðar upp. Við ýktar aðstæður, sem eru kannski ekki svo ýktar á íslenskan mælikvarða, mætti ímynda sér að jarðhæringar hefðu áhrif á landslagið. Það gæti sigið, risið, gliðnað eða jafnvel runnið undir hraun. Ekkert fengist við ráðið. Áfall.

En það vill svo til að í þessu gróðursæla landslagi við algengustu aðstæður, milt veðurfar, án utanvegaaksturs, jarðhræringa og þess háttar, er nokkuð einfalt að troða niður nýja stíga. Það kostar nákvæmlega jafn mikla vinnu og að troða niður gömlu stígana. En eftir því sem við eldumst höfum við að fleiru að huga en að tileinka okkur nýjar hugmyndir og nýja færni – auk þess sem að fyrir eru fullt af stígum sem skila okkur meira eða minna á leiðarenda og er mun auðveldara að fara um.

Einfalt dæmi um nýja og gamla stíga úr eigin ranni eru söngtextar og ljóð. Ég hef alltaf átt mjög auðvelt með að læra texta utanbókar og þeir sitja jafnan kyrfilega fastir í hausnum á mér. En það er galli á gjöf Njarðar. Ef ég læri hluta textans rangt, kannski eitt orð eða eina setningu, þá er nánast borin von að breyta því. Sé ég leiðréttur tek ég því vel en þó eru allar líkur á því að ég fari áfram rangt með textann, til dæmis þegar ég söngla með útvarpinu eða syng hástöfum í gítarpartýi. Um leið og ég sleppi röngu línunni átta ég mig, en þá er það of seint. Þessir stígar liggja nánast samsíða en mér er miklu tamara að ferðast um hinn gamla. Best væri ef að gamli stígurinn hyrfi þegar sá nýi og samsíða væri troðinn niður. En það gerist ekki svo glatt. Þetta er eflaust af sama meiði og að sitja fastur í gömlum hugmyndum. Triggerast í tilteknum aðstæðum þó þær séu ólíkar þeim sem viðbrögðin eru ætluð.

Það erfiðasta við að tileinka sér nýja þekkingu, eins og ég sagði, er ekki að tileinka sér nýja þekkingu – heldur að afleggja þá gömlu. Gleyma textanum sem ég lærði fyrst svo ég fari sjálfkrafa um nýjan stíg, án þess að þurfa að hugsa, sbr. seinustu færslu. En það gerist ekki. Þess vegna eigum við það til að bíta hlutina í okkur. Stígurinn er troðinn og honum fæst ekki haggað, jafnvel þó gild ástæða sé til. Við höfum í raun um tvennt að velja. Annað er að læra að feta nýja stíginn sama hvað tautar og raular og hætta að fara þann sem fyrir er. Í einhverjum tilfellum gróir yfir svoleiðis stíg, þ.e. nærliggjandi plöntur teygja sig yfir þá án þess að stígurinn sjálfur grói, svo hann hverfur sjónum þó í raun sé hann ennþá til staðar. Svo reynist fólki mis auðvelt að hætta að fara gamlar leiðir og það að stígurinn sé ennþá þarna býður alltaf upp á þá hættu að við föllum beinlínis í gamalt far. Hitt væri að græða stíginn upp. Uppræta hugmyndir og hugsanir svo stígurinn sé ekki fær aftur, en falli þess í stað inn í landslagið að nýju. Það er ekki ómögulegt – en það kostar þónokkuð framtak. Við áttum okkur á því að ekkert vex í stígunum því jarðvegurinn er svo þéttur að ekkert festir þar rætur. Vatn nær ekki djúpt ofan í jarðveginn, fræ ná ekki að spíra, það kostar plöntur meiri orku að vaxa inn í slíkan jarðveg en þann sem er lausari í sér og maðkar og skordýr grafa hann ekki auðveldlega í sundur. Best væri að tæta jarðveginn upp svo um hann losni að nýju. Pægja hann. Sveifla haka. Það gæti þurft að bera í hann og eftir aðstæðum sá. Í einhverju tilfellum er rétt að leyfa þeim gróðri sem fyrir er að taka smám saman yfir, en það fer eftir eðli málsins. Höfum við tíma til að bíða eftir því? Skapar þessi stígur hættu fyrir þau sem um hann fara, eða fólkið í kring um þau? Gæti maður freistast til að fara hann á meðan hann er enn ógróinn og þar með unnið gegn markmiðinu? Grær brotið skakkt ef það er ekki stífað? Ef um meiriháttar rask er að ræða þyrfti kannski að leita sérfræðiþekkingar. Kalla til landslagsarkitekta, líffræðinga, skógræktarfræðinga eða þess háttar. Kannski stórvirkar vinnuvélar. Eitthvað þyrfti að bisa ef um malbik er að ræða en allt er jú hægt. Í mörgum öðrum tilvikum er þetta þó sem betur fer nokkuð einfalt. Einfalt – en ekki auðvelt. Það þarf jú að ganga nýju stígana nógu oft til að þeir troðist jafn mikið niður og leiðirnar sem hafa verið gengnar áður. Eðlilega tekur því lengri tíma að temja sér nýjar venjur en þær sem hafa fylgt manni um allan aldur. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Landslagið er ekki bara gróið og slétt. Blessunarlega – en líka bölvanlega. Þetta slétta landslag táknar vitaskuld huga sem glímir ekki við (mikla) geðræna erfiðleika. Huga sem er fær um að mótast tiltölulega óhindrað. Ímyndum okkur nú aðrar aðstæður. Bratta, grýtta og illfæra fjallshlíð. Í þessari hlíð er ekki um margar leiðir að velja og ekki hlaupið að því að leggja stíga þvers og kruss. Í henni eru færri stígar og þeira falla inn í fálita og gróðursnauða hlíðina – ekki mjög sýnilegir nema vönu fólki og í besta falli torfær. Hluta hans þarf kannski að klífa og til þess þarf styrk. Jafnvel sérútbúnað. Aðstæður eru mjög krefjandi. Ferðalag um svona stíg útheimtir meiri orku en á sléttu landslagi. Einbeitingu. Kjark. Sumt fólk er betur í stakk búið til slíkra ferðalag en annað fær engu um það ráðið hvort það þarf að fara um þennan stíg eða ekki. Landslagið gæti einnig verið viðkvæmara og raskast án þess að það sé ætlunin, til dæmis þegar manni skrikar fótur. Veður geta líka verið vályndari til fjalla og svo hjálpar ekki að vera lofthrædd eða í slæmu formi. Ég er vissulega ekki að tala um öll fjöll. Þau eru flest falleg, tignarleg, geta veitt skjól og boðið ótrúlegar upplifanir. Þetta er bara einfalt dæmi til að teikna einfalda mynd.

Við megum ekki við eins miklu við erfiðar aðstæður. Orkan sem fer í að ganga upp fjallið er meiri en færi í að valhoppa um undirlendið. Í fjallinu getur verið erfitt að finna skjól, en undir því má leggjast á grasbala og baða sig í sólinni. Þetta landslag er landslag þess sem á við geðræna erfiðleika að etja. Þunglyndi, geðhvörf, geðklofa, persónuleikaröskun eða annað. Hugur fólks sem glímir við alvarlegar geðraskanir er ekki gróðursælt og slétt landslag þar sem allar leiðir eru færar. Það sem væri öðru fólki minniháttar rask á undirlendi getur verið fólki með geðrænan vanda eins og utanvegarakstur í íslenskri náttúru. Þetta getur verið líf þar sem hvert minnsta skref gæti haft djúpar og langdregnar afleiðingar, svo hverju þeirra fylgir streita, óvissa og óöryggi.

Gefum okkur að taugabrautir myndist við tiltölulega eðlilegar aðstæður. Stundum er gaman – stundum ekki. Stundum er maður hress – stundum óhress. Stundum kennir forráðafólk okkur beinlínis – stundum óbeint. Stundum gleðja þau mann, stundum skamma þau mann. Stundum á maður í kærleiksríkum samskiptum – stundum er maður að rífast. Þær geta myndast í píanótímum, á íþróttaæfingum, í afmælisveislu, á ferðalagi og þar fram eftir götunum. Þær snúast ýmist um að læra eitthvað nýtt eða iðka það sem maður hefur lært og taka lit af þeim aðstæðum sem þær verða til við. Í hvert skipti sem við upplifum eitthvað lærum við eitthvað. En hvað með óeðlilegar aðstæður? Hvað með að upplifa öfgafullar hugsanir sem maður ræður ekkert við? Myndast taugabrautir einnig við slíkar aðstæður? Ef ég upplifi þunglyndislotu og þær hugsanir sem þeim fylgja, er ég þá búinn að greiða veginn fyrir þeim þegar ég er í jafnvægi? Á það sama við um oflætislotu? Kvíðakast? Þráhyggju? Hef ég búið við afleiðingar þess án þess að hafa haft um það val eða gert mér grein fyrir því? Fundist það eðlilegt?

Kannski mætti einnig tala um geðraskanir sem veður. Það er sannarlega í takti við það hvernig ég upplifi tilfinningar mínar. Ég á kannski leið um víðfeðmt og slétt landslagið – en það gengur ítrekað á með éljum. Svo léttir til. En skömmu seinna kemur hellidemba. Svo kemur aftur gott veður. Of gott. Sólin verður brennandi heit og allt skrælnar. Þó að landsvæðið sé greiðfært þá setur veðrið strik í reikninginn. Það má auðvitað búa sig undir mismunandi aðstæður, en það kostar meiri farangur að búast við hverju sem er – hröðum sveiflum úr nístingskulda yfir í steikjandi hita. Í hvert skipti sem þarf að skipta um útbúnað þarf að stoppa, taka hann upp og pakka hinum. Þetta er ekki bara þreytandi til lengdar, þetta verður slítandi. Vonlaust. Hvaða nafni sem fólk vill gefa sínum aðstæðum, sitja þær upplifanir sem verða til við þær í okkur þá stuttu stund sem lægir? Þeim skolar á land yfir stíg við sjávarsíðuna, eins og hverjum öðrum fjörugróðri. Eða hefur veðrið beinlínis rifið upp malbikaða göngustíga eins og er ekki óalgengt á Íslandi? Slíkt gerðist í vetur sem leið á Seltjarnarnesi. Það þurfti samhent átak til að hreinsa grjót af stígum og golfvellinum og gera við stíginn. Að sama skapi þarf hver og ein manneskja stuðning til að takast á við óveðrið innra með sér því þetta er svo stórt og mikið verkefni. Við verstu aðstæður getur þurft að gera við varnargarða, eigi þeir áfram að sinna hlutverki sínu.

Margt af því sem ég hef upplifað má rekja til því hvernig taugabrautirnar í hausunum á mér hafa þróast. Spenningur, gleði, kæti, textaminni, tónelska, gæska, atorkusemi, hjálpsemi, vinsemd, skopskyn, fegurðarskyn og svo framvegis – en einnig óöryggi, höfnunartilfinning, sjálfs(ó)mynd, þörf á viðurkenningu, depurð og fleira. Sumt af þessu þjónar mér ekki í dag en þróaðist sem sjálfsbjargartól þegar ég var barn. Stígarnir liggja þarna enn og stundum villist ég inn á þá af gömlum vana. En stundum hrekst ég líka þangað undan veðri. Ekki vegna þess að þeir eru skjólsælir, heldur vegna þess að þeir eru kunnuglegir og ég rata þá miklu betur. Í sambland verður upplifunin ýktari – þunglyndið dýpra og oflætið ýktara.

Rétt eins og það kostar sértækar aðferðir, sérhæfð verkfæri og stundum mikla sérþekkingu til að græða upp land, þarf aðferðir, verkfæri og þekkingu til að greiða úr taugabrautaflækjunni sem hefur myndast í hausnum á okkur. Ég hef áður minnst á þessi atriði. Sálfræðimeðferðin mín hefur hjálpað mér að vinna nýtt deiliskipulag. Skilja hvaða stíga ég þarf að afleggja og hvar má leggja nýja. Lyf, hugleiðsla, líkamsrækt, hollt mataræði, reglubundinn svefn, heilbrigt og kærleiksríkt umhverfi og þess háttar hjálpa til við að lægja á veðurofsanum – eða standast hann betur. Og svo þarf auðvitað tíma. Að endingu gróir yfir gömul spor svo það verður auðveldara að feta hin nýju. En eins og ég sagi þarf að leggja vinnu í það. Það gerist allavega ekki af sjálfu sér.

Athugasemdir

Færðu inn athugasemd