MyPolar

Beggja skauta byr

7. Á sjálfstýringu

Með greininguna undir hendinni fékk ég nýja sýn á lífið. Í baksýnisspeglinum allavega. Svo margt sem ég hafði upplifað var sett í nýtt samhengi og þó að það hafi haft ákveðnar áhyggjur af framtíðinni í för með sér, fylgdi því einnig viss léttir. Kannski væri hægt að koma í veg fyrir ýmiskonar upplifanir til frambúðar með því að nálgast lífið á nýjan hátt. Mig langaði því að horfa aðeins til baka og skoða þetta samhengi. Um þetta leyti heyrði ég tvær óskyldar umfjallanir um karlmenn og tilfinningar sem áttu eftir að marka þessi fyrstu skref. Annars vegar var það í útvarpsþáttaröð á Rás 1. Hver þáttur hafði ólík efnistök og þessi tiltekni þáttur fjallaði einmitt um tilfinningar. Þáttastjórnendur voru tveir vel fullorðnir karlmenn og til þáttarins buðu þeir viðmælanda – þriðja karlmanninum á svipuðu reki. Þetta varð mjög spaugilegt, ef ekki hjákátlegt, samtal en saman viðurkenndu þeir að þeir væru ekki alltaf í sambandi við tilfinningar sínar og að þær væru aldeilis ekki sýndar eða ræddar svo neinu næmi. Sérstaklega ekki meðal karlmanna. Stuttu seinna sá ég í sjónvarpsfréttum um það bil 13 ára gamla stráka segja nokkurnveginn það sama. Ég vissi svosem að þetta væri viðhorfið meðal eldri kynslóða en hitt kom mér meira á óvart. Þetta varð til þess að ég fór að skoða tilfinningar í nýju ljósi og einkum af hverju það getur verið svona erfitt að tala um þær. Mér var enda ljóst að þær höfðu ráðskast töluvert með mig í gegnum tíðina.

Smám saman komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta er þó ekki allskostar rétt. Karlmenn eru í raun mjög duglegir að tala um tilfinningar. Bara afmarkaðar tilfinningar eins og hungur, þreytu, hitastig, þorsta, losta, sársauka og þess háttar. Til einföldunar skulum við kalla þær líkamlegar tilfinningar. Kannski er auðvelt að tala um þær því þær eru mjög almennar og aðgengilegar. Við upplifum þær öll að einhverju marki og deilum þeim jafnvel, eins og þegar við borðum saman. Sköpum yfir þeim nánd og góðar stundir. Kannski er einfalt að tala um þær því það er tiltölulega einfalt að vinna úr þeim. Borða, sofa, drekka, taka verkjalyf. Karlmenn tala meira að segja nokkuð opinskátt um þessar tilfinningar og aftur er hungur augljóst viðfangsefni. Því þarf jú að sinna nokkrum sinnum á dag, skipuleggja með tillitil til næringargildis, tíma, útgjalda og svo framvegis. En stundum gera þeir gott betur en bara að ræða það um það á hagnýtan hátt. Þeir gera úr því tilefni. Af viðhöfn – já og tilfinningu! Grillveislur, veitingahúsaferðir – karlmannleg eldamennska – skoðanir á hvað telst almennilegur matur og hvað ekki. Ekkert helvítis pasta eða gras. Eitthvað vegan kjaftæði. Lambakjöt! Steikur! Njóta þess að finna bragð af mat og drykk og tala mikið um það. Eins þykir sumum karlmannlegt að vera aldrei kalt – „eingöngu á bol“ – og tala stórkarlalega um það. Sumir stæra sig af því að þurfa ekki mikinn svefn (en eru samt alltaf eitthvað pirraðir) – og sumir tala fjálglega um hvílubrögð sín.

Einu sinni, þegar þegar ég viðraði þessar hugleiðingar mínar var læknir í hópnum. Hann var snöggur til svars og sagði að þetta væru reyndar alls ekki tilfinningar. Þetta væri bara eðlileg líkamsstarfsemi. Grunnþarfir. Mér fannst áhugavert að fá þetta viðmót frá lækni. Fagaðila í virkni líkamans. Sæmilega ungum lækni meira að segja. Mér fannst þetta líka til marks um dæmigert viðhorf til tilfinninga. Ekki endilega á neikvæðan hátt – kannski bara frá þröngu sjónarhorni. Því þarna vil ég nefnilega greina aðeins á milli. Myndir eru jú skýrari eftir því sem upplausnin er hærri. Þörfin, sjáiði til, er að fá næringu. Þörfin er hvíld. Þörfin er viðunandi hitastig. Þörfin er að fjölga sér. Allt snýst þetta um halda starfsemi líkamans innan ákjósanlegra marka og tryggja afkomu. Hann vill bara lifa af og býr að mjög frumstæðri forritun til að ná því markmiði. En þörfin er tjáð með tilfinningu. Tilfinningar verða einskonar mælar á þörfina. Eftir því sem líkamann vantar meiri næringu, þeim mun sárara verður hungrið. Og svo framvegis. Rétt eins og hitamælir hækkar eða lækkar í samhengi við hitastig. Tilfinningar eru í raun til aflestrar.

Á hinn bóginn eru tilfinningar sem er erfiðara að rekja og greiða úr. Depurð. Kvíði. Reiði. Sektarkennd. Ótti. Skömm. Öll upplifum við þær líka að einhverju leyti en samt hefur lenskan verið að ræða þær minna. Já eða ekkert. Það flækir málin svo enn frekar þó að það sé oft erfitt að koma auga á uppruna þessara tilfinninga, þá er stundum hægt að benda nákvæmlega á hvaðan þær koma. Það hefur flest fólk skilning á því að einhver upplifi depurð eftir stórar og erfiðar breytingar í lífinu, svo sem ástvinamissi, slys, veikindi og þess háttar. Það er heldur ekki skrítið að einhver fyllist kvíða við atvinnumissi og hafi áhyggjur af framtíðinni. Þá er auðvelt að sýna samkennd og gefa fólki eftir smá slaka. En svo er fólk sem bara alltaf dapurt. Alltaf í kvíðakasti. Þá er nú klárlega eitthvað að. Þarf það ekki bara að taka sig á? Gera eitthvað í sínum málum? En hvernig á að laga eitthvað þegar bilunin er ekki ljós? Stundum vaknar kvíðinn nefnilega án sjáanlegra orsaka. Eins eru sumir dagar bara erfiðari en aðrir og það er ekki auðvelt að koma auga á af hverju. Einhvernveginn ógildir það tilfinninguna, að hún eigi sér ekki augljósar rætur, og þá vill maður ekki tala mikið um það. Eins og hún eigi ekki tilvistarrétt og að maður sjálfur verðskuldi þess vegna ekki ekki umhyggju eða mildi. Og hvað ætti svosem að gera í því? Það er engin lausn í sjónmáli hvort eð er.

Ég man eftir tiltölulega nýlegu atviki þegar kvíði var farinn að byggjast upp innra með mér. Þetta var eitt af þessum sjaldgæfu skiptum þar sem ég tók eftir því og gat fylgst með honum vaxa. Reynt að grípa inn í áður en hann næði yfirhöndinni, þó það sé sjaldnast þannig. Ég hafði orð á því við fjölskyldumeðlim sem svaraði að bragði: „En þú hefur ekkert til að vera kvíðinn yfir!“ Þetta var vissulega sagt af bjartsýni og gæsku – meining var að líf mitt væri í meginatriðum nokkuð gott – en hjálpaði mér ekkert í þeim ástæðum sem ég var. Ekki frekar en að segja manneskju sem er kalt að það sé nú bara frekar hlýtt. En stundum slær bara að manni hrollur, alveg óháð aðstæðum augnabliksins. Það kom mér mest á óvart að ég hafði ómeðvitað vænst óhlutbundins skilnings án gildismats á því sem ég var að upplifa. Þegar hann fékkst ekki sló það mig aðeins út af laginu. Samt áttaði ég mig alveg á góðmennskunni. Þess utan fannst mér ég hafa alveg heilt gallerí af kvíðavaldandi atriðum til að velja úr, sem viðkomandi þekkti ekki til hlítar. En þetta var ekki svoleiðis kvíði. Hann bara mætti. Óboðinn.

Þessar óræðari tilfinningar vil ég kalla andlegar tilfinningar, til aðgreiningar frá þeim sem ég nefndi áður líkamlegar. Í grunninn eru þær eins og þær líkamlegu – til marks um eitthvað sem þarf að takast á við. Horfast í augu við. Lifa með. Það bara ekki eins auðvelt. Það er ekki hægt að vinna úr þeim á augabragði með því að gleypa í sig samloku, drekka vatn, fara í þykkari peysu eða losa um kynferðislega spennu.

Líkamlegu tilfinningarnar, tilfinningarnar sem segja til um grunnþarfir okkar, koma frá frumheilanum – stundum (ranglega) kallaður skriðdýraheilinn. Þar býr frumstæða forritunin sem ég minntist á. Þetta er sá hluti heilans sem hefur fylgt mannfólki í gegnum alla þróun, frá því að prímatar þróuðust fyrst fyrir 55 m. árum, frá því að spendýr þróuðust fyrst fyrir um 200 m. árum og sennilega lengur. Hann er ástæðan fyrir því að við höfum lifað af þetta lengi enda grunnþarfir mannfólks eru jú nokkurnveginn þær sömu og annarra lífvera. Svo þessar þarfir og tilfinningar eru pikkfastar í hausnum á okkur. Andlegu tilfinningarnar hafa líka fylgt okkur lengi, að einhverju leyti. Ótti bjargar okkur frá fífldirfsku, hræðsla og stress halda okkur á tánum þegar við þurfum að vera vakandi – hvort sem er á flótta undan villidýri eða í sjávarháska. En eftir því sem heilinn hefur þróast – bæði hjá einstaklingnum en einnig tegundinni í heild – takast þessar tilfinningar á við ýmiskonar aukna hugræna starfsemi. Sjálfsmynd, sjálfsöryggi, sjálfstraust, sjálfið – allskonar sálfræðilegt. Því hefur verið haldið fram að þær hafi sennilega orðið til þess að við gátum einmitt forðað okkur frá villidýrum eða hættulegum aðstæðum – en hafa einhvernveginn þróast útí að geta ekki svarað meinlausum tölvupóstum án þess að lenda í kvíðaspíral. Það er í raun kerfisvilla þar sem gamalt forritunarmál og nýrra ná ekki að vinna saman. En ég veit samt svosem ekkert um þetta og þetta er ábyggilega ofureinföldun hjá mér. Ef ekki beinlínis rangt. En svona skil ég það sem ég hef kynnt mér og þessi mynd sem ég teikna hjálpar mér að ná utan um miklu flóknara viðfangsefni. Annars er ég mjög til í að vera leiðréttur. Yfirleitt. Held ég.

Svo ef tilfinningar eru algjört grundvallaratriði í lífsbjargarviðleitni okkar, af hverju er það skammaryrði að vera tilfinninganæmur. Viðkvæmur. Að láta stjórnast af tilfinningum sínum í stað þess að láta rökhyggju ráða leið. Ef við horfum á stóru myndina, þá stjórnumst við einmitt öll af tilfinningum. Og sem betur fer. Til er fólk finnur ekki fyrir sársauka. Þetta skapar þeim eintóm vandræði og er í raun mjög hættulegt. Þau vita ekki hvenær þau reka sig í, brenna sig, skera sig, eða hvort þau hafa brotið bein og svo framvegis. Skaðinn er vissulega skeður engu að síður – marblettir, brunasár, skurðir og brotin bein – en villuboðin berast bara ekki. Og þessi boð eru mikilvæg til að takmarka skaðann og hlífa líkamanum svo hann megi sem best gróa. Það á ekki að stíga af fullum þunga í fótinn ef ökklinn hefur tognað. Líkaminn beinlínis sér til þess að það sé ekki gert með því að senda tilfinningaboð.

Svo þessi stýring er af hinu góða. Að vissu leyti förum við svo á sjálfstýringu. Við bíðum ekki eftir því að verða glorhungruð – við reynum að koma í veg fyrir það með því að borða reglulega. Og ef við verðum svöng þá þurfum við ekki að hugsa okkur um – við vitum alveg hvernig á að bregðast við. Ef við finnum fyrir kulda eða hita þá grípum við til aðgerða án þess að velta því of mikið fyrir okkur. Það er á þessum forsendum sem ég held að við reynum það sama með andlegu tilfinningarnar. Viljum bara losna við kvíðann, skömmina, stressið og það allt með einföldum aðgerðum. Við reynum meira að segja að beita sömu aðferðum og við frumtilfinningarnar. Borða þær frá okkur. Drekkja þeim í áfengi. Hlaupa undan þeim. Hrista þær af okkur á dansgólfinu. Kannski vegna þess að það virkar. Allavega tímabundið. Við erum nefnilega vön því að þurfa að endurtaka lausnina, út frá því hvernig líkamlegu tilfininngarnar virka. Borða oft á dag, sofa á hverjum sólarhring og svo framvegis. Eðlilega finnst okkur ekkert að því að þurfa að endurtaka einföldu lausnirnar við flóknu vandamálunum reglulega. En flóknari vandamál þurfa líka flóknari lausnir, í bland. Svo að vissu leyti er sjálfstýringin gagnleg – að öðru leyti er hún til vansa.

Hugleiðingar um sjálfstýringu leiddu huga minn að flugvélum. Auto pilot. Þó má einnig finna þær í öðrum farartækjum og næst okkur eru sennilega sjálfkeyrandi bílar. Ef þeir eru ekki sjálfstýrðir að öllu leyti, þá að sumu leyti. Þá er hægt að stilla á tiltekinn hraða, jafnvel þannig að þeir slái sjálfkrafa af með tilliti til bíla fyrir framan sig. Þeir grípa líka í stýrið út frá akreinamerkingum og stilla sig af út frá umferðarskiltum. Ýla þegar bakkað er óþarflega nálægt nærliggjandi hlutum og klosshemla ef þörf er talin á. Greina jafnvel fólk og farartæki í kringum sig og sýna það á skjá í bílnum til að fólk læri að treysta þeim. Sjálfstýring í flugvélum er öllu flóknari, enda flugvélar töluvert flóknari farartæki. Sennilega með flóknari tæknikerfum sem búin hafa verið til. Hún stýrir hraða, hæð, stefnu, halla og eldsneytisnotkun, og heldur flugvélinni mun stöðugri en manneskja gæti nokkurn tíma gert. Sérstaklega yfir lengri tíma, þegar þreyta og stöðnun flugmanna gæti gert vart við sig. Þannig kemur hún í veg fyrir mannleg mistök, sem eru sennilega bæði tíðari og alvarlegri í flóknum aðgerðum. Við erum ekki endilega traustari en tæknin, þó við viljum oft trúa því.

Sjálfstýringin starfar þó ekki ein og sér. Hún sér aðeins um útreikninga út frá umfangsmiklu kerfi mæla og skynjara sem mega hvergi geiga. Þetta eru ekki aðeins hæðarmælar og hraðamælar, heldur heildarkerfi sem tekur líka mið af loftþrýstingi, umhverfishitastigi, hitastigi hreyfla, hitastigi farþegarýmis, eldsneytismagni, álagsdreifingu, halla flugvélarinnar, snúningshraða véla, titringi, stöðu stýriflapsa, veðurspám sem berast utan frá og ýmsu fleiru. Hver mæling skiptir máli. Mælarnir segja til um núverandi ástand og á þeim grundvelli bregst sjálfstýringin við ásamt því að spá fyrir um breytingar. Þetta er samtengt kerfi sem tekur ákvarðanir á svipstundu án þess að efast um þær. Jafnvel andartaks hik gæti reynst dýrkeypt. Ef mælingarnar eru réttar, þá virkar sjálfstýringin óaðfinnanlega. Ef eitthvað breytist í umhverfinu – loftþrýstingur, vindátt, hraði – þá bregst kerfið við. Stillir af. Leiðréttir. Flugmaðurinn þarf aðeins að grípa inn í ef mikið bjátar á. Þetta er snjallt. Rökrétt. Skynsamlegt.

Farþegar hugsa sjaldnast um þetta, nema kannski rétt þegar kveikt er á sætisbeltaljósunum. Við sitjum kyrr, flettum í afþreyingarkerfinu, vinnum, lesum eða dottum og göngum út frá því að flugið sé öruggt. Án þess að velta því mikið fyrir okkur treystum við tölvukerfi fyrir því að komast óhult á leiðarenda. Fyrir lífum okkar. Rétt eins og í mörgum lestum eða skipum. Til að svo megi vera þarf sjálfstýringin að virka fullkomlega – og til þess þurfa allir mælar líka að virka. Ef einhverju skeikar, eða ef mælir bilar, bregst sjálfstýringin við þeim upplýsingum, jafnvel með alvarlegum afleiðingum. Það þarf kannski ekki nema einn mæli til að skekkja myndina smávegis til að senda af stað keðjuverkun. Spíral. Og það af fullri sannfæringu. Útreikningarnir eru nefnilega ekki alltaf vandamálið. Stundum eru það gögnin sem kerfið er að vinna með sem eru röng. Kerfið gæti þó verið búið umfremd (e. redundancy) sem getur gert ráð fyrir röngum mælingum. Ef mælir dettur úr sambandi og skilar engum gögnum er mjög líklegt að kerfið átti sig á því. Þetta skilst mér að sé kallað hörð bilun. En ef mælirinn skekkist bara agnarögn og skilar röngum gögnum – en trúanlegum – þá er ekki víst að kerfið átti sig á því. Þetta kallast víst mjúk bilun. Það eru semsagt ekki alltaf afgerandi atvik sem slá allt út af laginu. Örlítil skekkja gæti ekki skipt miklu máli í augnablikinu, en til langs tíma getur fleyið borið langt af leið. Jafnvel án þess að tekið sé eftir því fyrr en komið er í óefni. Þannig renna ástarsambönd gjarnan út í sandinn.

Ég á áþreifanlegt dæmi um skekkju í mælum – þó líkamlegt frekar en andlegt. Fyrir vikið er kannski auðveldara að skilja það. Þegar ég slagaði hátt í þrettán ára fór ég í mikla aðgerð á baki, sökum hryggskekkju. Hún heppnaðist vel og ég finn lítið fyrir afleiðingum hennar í dag, öðrum en jákvæðum. Af og til fæ ég þó ýmsa verki – vöðvabólgu, álagsverki eða þreytu, svo dæmi séu tekin. Yfirleitt geri ég ekki mikið úr þeim og vinn á þeim. En stundum hef ég fengið gífurlega sára verki niður eftir öllu bakinu og alveg fram í fingurgóma. Einu sinni, sem unglingur, fáeinum árum eftir aðgerðina, leitaði ég mér læknisaðstoðar við þessu. Tengdi sársaukann enda við þetta stóra inngrip. Eftir stutta skoðun fékk ég uppáskrifað 600 mg. ibúfen sem ég átti að taka þrisvar á dag í 10 daga, án nánari skýringa. Þetta hafði tilætluð áhrif og ég hugsaði ekki um það meir. Nokkrum sinnum síðan hef ég fundið svipaðan verk og gert sömu tengingu. Sennilega er þetta bara svæsin vöðvabólga og til þess að forðast of mikla notkun verkjalyfja hef ég reynt sömu lausnir og við minni verkjum: að nudda hann í burtu, gera æfingar eða ýmislegt annað sem mér þótti líklegt til að lina sársaukann. Fyrir um tveimur árum upplifði ég mitt versta tilfelli svona verkja og þeir höfðu staðið yfir í nokkrar vikur þegar ég leitaði ráða hjá vini mínum, sem vill svo til að er sjúkraþjálfari. Hann spurði hann mig um einkenni og var fljótur að greina vandann. Þarna var ekki um vöðvabólgu að ræða heldur bólgur í svokölluðu taugaslíðri. Þá var slíður utan um taugar í hryggnum farið að þrýsta sér út á milli hálsliða sem olli álagi og bólgu. Hann útskýrði þetta fyrir mér og sýndi mér skýringarmyndir. Þar sem um mjög stóra taug er að ræða sem liggur niður úr hálsi, um allt bak og fram í fingurgóma – en bara öðru megin – fannst mér sem verkurinn væri á öllu þessu svæði, þegar vandamálið var í raun agnarsmá bólga aftan í hálslið. Lítil þúfa. Þarna er því um að ræða mjög skýrt dæmi um skekkju í mælum. Vissulega voru einkenni vöðvabólgu fyrir í bakinu á mér, en þarna var bara tvennt óskylt í gangi á sama tíma með svipuðum einkennum sem skekkti aflestur mælanna enn frekar. Vinur minn sagði mér að eina ráðið við þessu væri að taka bólgueyðandi lyf – sem rímaði við ráðleggingar læknisins tuttugu árum áður – og létta álagi á taugina eins og kostur væri með því að halla höfðinu í gagnstæða átt. En ég ætti alls ekki að gera æfingar. Þær myndu bara gera illt verra. Hefði læknirinn forðum gefið mér þessa skýringu hefði ég ef til vill lesið betur úr þessum aðstæðum í framtíðinni. Leiðrétt skekkjuna í mælunum. Þannig hef ég mögulega valdið mér sársauka þegar ég hefði getað látið mér líða betur. Mig skorti bara réttar upplýsingar og rétt sjónarhorn. Í þetta sinn varði bólgan lengur en ég hafði upplifað áður – tvo eða þrjá mánuði – svo ég varð sæmilega örvæntingafullur í að losna við verkinn. Það eina sem ég gat gert var að gleypa íbúfen en ég hafði steingleymt því hvaða áhrif það hefur á meltingarkerfið. Smám saman lagaðist bólgan en þá hafði maginn verið í hnút megnið af þessum tíma líka. Það lagaðist það eftir að verkurinn fór og ég hætti að taka íbúfen, en mig langaði bara að sýna fram á hvernig lausnir geta stundum líka verið til vandræða, ef maður gætir ekki að sér.

En aftur að sjálfstýringunni. Rétt eins í flugvélum hugsar fólk ekki út í hverja eina og einustu ákvörðun sem við þurfum að taka eftir vilja og meðvitaðri, rökfastri hugsun. Það væri okkur einfaldlega um megn. Öll höfum við líka okkar eigin sjálfstýringu. Ekki þá sem stjórnar flugvélum, sjálfkeyrandi bílum eða rándýrum snekkjum, heldur líffræðilegri og tilfinningalegri sjálfstýringu sem heldur okkur gangandi í gegnum daginn. Mælarnir okkar eru tilfinningar – hungur, hitastig, líðan, orka, ótti, spenna, þreyta og streita. Sjálfstýringin sjálf er svo forrituð út frá uppeldi, efnafræði, umhverfi, áföllum, trú, fólki, boðefnum, skynjun, minni, fyrri reynslu, löngun… Hún okkar tekur ákvarðanir út frá því sem við skynjum í samhengi við það sem við höfum upplifað – og stýrir því sem við hugsum ekki mikið um. Ákvarðanir sem okkur finnast rökréttar. Óvéfengjanlegar. Eins og ég hef sagt í annarri færslu held ég að fólki finnist allt eðlilegt, á sínum forsendum. En líkt og í flugvél, þá byggjast rökrétt viðbrögð okkar á gögnum frá þessum innri mælum. Túlkun. Ef við förum að bregðast við röngum hæðarmælingum gæti verið hætta á að við brotlendum. Við gætum lesið aðstæður sem hættulegar þegar þær eru í raun öruggar. Og öfugt. Við sjáum ógn þar sem aðeins er óvissa sem má greiða úr. Við mistúlkum gögn og bregðumst við á tilhlýðandi hátt. Sjálfstýringin er kannski í grunninn forrituð til að vera góð við dýr og menn, skilningsrík, þolinmóð, hjálpsöm, atorkusöm, jákvæð og ljúf – en bregst ókvæða við röngum mælingum. Sýnir þveröfuga niðurstöðu Jafnvel þó reynt sé að tala um fyrir okkur hlustum við ekki á vandlætingar því við sjáum skýrt á okkar mælum að við erum á leið í rétta átt, þó hún sé í raun kolröng.

Ég hef svo sannarlega glímt við bilaða mæla og flogið samvæmt því. Og brotlent. Ítrekað. Brotlendingarnar geta þó verið mis alvarlegar. Við skarpt kvíðakast er hún mjög harkaleg en ég sprett merkilega hratt upp aftur. Eiginlega bara samstundis – eins og ég hafi aldrei brotlent. Flugfélagið gerir lítið úr slíkum atvikum og heitir því að þetta gerist aldrei aftur. Við vægt, en langvarandi, kvíðakast brotlendi ég kannski ekki, en það er viðstöðulaus ókyrrð í loftinu því ég beinlínis elti óstöðugleikann. Þunglyndislotur koma oft hægar yfir svo það er engin eiginleg brotlending. Svolítið eins og ég lendi vélinni mjúklega, en á afviknum stað. Utan þjónustusvæðis. Og mér finnst ég ekki hafa nein ráð með að ná henni á loft aftur. Enda á ég það til að staldra þar lengi við. Samt er hún í raun ekki biluð – ég bara gleymi því hvernig á að fljúga. Það tekst að endingu en er alla jafna mjög hægt flugtak. Í örlyndi flýg ég hátt og hratt, út af radarnum og brotlendi svo skarpt. Örlyndinu fylgir jafnan skömm sem er erfitt að vinna úr svo brak vélarinnar liggur lengi á jörðinni og ég reyni að fela það. Breiða yfir brotlendinguna. Að endingu næ ég að tjasla henni saman og fá hana aftur á loft. En þjónustan um borð er mjög léleg í nokkurn tíma á eftir, salernin virka ekki og flugstjórinn er ekki alveg viss um hvert ferðinni sé heitið. Þegar svona sveiflur taka yfir verður mitt eina markmið að halda flugvélinni á lofti og til þess ég geri allt sem ég get, beiti jafnvel óheilbrigðum aðferðum. Svo lengi sem flugvélin er á lofti þá er allt í lagi. Áhrifin á mig eru eftir þessu. Þegar ég hef sprottið upp eftir kvíðakast er ég sprækur og mjög til í að skjala það undir fortíðinni. Áfram gakk. Ekkert að sjá hér og þetta á aldrei eftir að gerast aftur. Eftir þunglyndið hressist ég hægt en örugglega, en eftir örlyndið eltir skömmin mig. Ég margafsaka mig fyrir hegðun mína og ber þungan kross. Svo blandast þetta gjarnan saman, yfirleitt við kvíða – örlyndis og kvíðadúett, kvíðadans við athyglisbrest, kvíði og þráhyggja, þunglyndiskvíði. Það sama á þó ekki endilega við um farþegana í þessu flugi – foreldra, systkin, maka, vini, samstarfsfólk, kunningja og annað fólk. Þau brotlentu með mér og eru enn í sjokki þó ég sé drífi mig á loft. Þau eru ekkert tilbúin í næstu flugferð eftir skarpa kvíðadýfu. Þau voru heldur ekki með á dagskrá að stoppa þegar þunglyndið lenti vélinni einhversstaðar í myrkrinu. Þau vilja komast á áfangastað og gera eitthvað skemmtilegt. Og þegar örlyndið laskar alla þjónustu þá hætta farþegarnir að treysta flugfélaginu, vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið og vilja helst ekki fljúga í einhverjum heimasmíðuðum rellum. Sko því ég leysi í raun allt betur sjálfur – líka flugvélasmíð. Auðvitað eru þessi dæmi ekki svona einföld í raunveruleikanum – flest fólk sem ég þekki stendur með mér og öllum sínum nánustu. En þessar sveiflur hafa engu að síður áhrif sem ég hef sjaldnast kunnað að vinna úr með öðrum. Slíkt byggir yfirleitt upp ýmsar neikvæðar tilfinningar sem geta haft langvarandi áhrif á samband okkar og fólk verður kvekkt. Brennt barn forðast eldinn.

Í samfélagi við annað fólk vandast málið svo enn frekar. Þá erum við ekki bara að lesa okkar eigin mæla heldur reynum líka að lesa mæla annarra og stilla okkar sjálfstýringu í samræmi við það. Við lesum í svipbrigði, raddblæ, líkamsstöðu, augnaráð, orða­val og smáatriði í hegðun – ekki bara til að skynja hvernig þeim líður, heldur líka til að aðlaga okkur. Halda aftur af okkur, taka meira pláss, breyta um stefnu, mæta, hörfa, grípa inn í, þegja. En það eru takmörk fyrir því hversu rétt við lesum. Oft reynum við að meta viðbrögð annarra út frá því hvernig við lesum á okkar eigin mæla, sem eru sjaldnast þær forsendur sem virka. Bæði eru mælar og sjálfstýringar hvers og eins ólík – og svo vitum við aldrei hvaða mælar eru bilaðir hjá öðrum. Á sama tíma reynum við að halda flugi en þessi stöðugi aflestur mæla getur þvælst fyrir. Í nánum samböndum verður þetta svo enn flóknara. Þar ætti fólk beinlínis að kenna hvert öðru á mælana sína. En til þess þurfa viðkomandi að kunna vel á sína mæla, sem er hægara sagt en gert. Svo má ekki gleyma öðru. Með allar þessar flugvélar af mismunandi stærðum og gerðum og sínum fullkomnu mælum erum við samt með her flugumferðarstjóra um allan heim til að gæta enn frekar að því að allt gangi að óskum. Mannleg íhlutun á sér ekki bara stað í flugstjórnarklefanum og við þurfum að eiga samfélag við annað fólk til að passa sem best upp á okkur. Og þrátt samt gerast slysin – og þegar þau gerast eru þau jafnan mjög alvarleg. Það undirstrikar bara hvað þetta er flókið.

Það sem skiptir mestu máli í þessari samlíkingu er að sjálfstýring flugvéla er ekki kerfi sem er bara sett upp einu sinni og virkar svo til eilífðarnóns. Flugvélar undigagnast reglulegar skoðanir og strangt viðhald. Mælarnir eru prófaðir og kvarðaðir. Það er ekki merki um veikleika flugvélarinnar – það er lágmarksforsenda þess að hún megi fljúga. Að sama skapi fara bílar, hvort sem þeir eru sjálfkeyrandi eða ekki, í árlega skoðun, olíuskipti, dekkjaskipti og svo framvegis. Skip í slipp. Allt til að virka með tilskyldum árangri í ólíkum aðstæðum. Hvers vegna hefur það verið svo skömmustulegt að leita sér sálfræðihjálpar? Kukl að stunda hugleiðslu? Aumingjaskapur að losa sig undan eða hafna einhverskonar tilbúnum karlmennsulegum hugmyndum um hreysti, eins og að sofa lítið, vera aldrei kalt og svo framvegis. Ég er vissulega að tala út frá eigin reynslu af og glímu við þau viðhorf sem ég ólst upp við í æsku, úr ýmsum áttum, en það er engum blöðum um það að fletta að þau eru almenn. Má ekki bara líta á þetta sem eðlilegt og reglubundið viðhald? Er það ekki líka bara einfaldara? Viðhald er – aftur – ekki viðbragð við eða viðurkenning á bilun. Slíkt heitir viðgerð. Viðhald er forvörn gegn bilun. Það er eðlilegur rekstur og nauðsynlegt til að sjálfstýringin okkar haldi okkur á réttri leið. Sé sjófær. Til að tryggja að hún fari ekki með okkur í hringi eða á vegg. Og það er í raun miklu þægilegra að vera á sjálfstýringu en að þurfa að velta hverri einustu ákvörðun fyrir sér. Við þurfum bara að passa að sjálfstýringin virki sem skyldi.

Ef hugur okkar, líkami og skynjun eru hálft eins flókin og sjálfstýring flugvéla – þó þau séu í raun mun flóknari en svo – í hverju eru okkar prófun, kvörðun, viðhald og reglubundið eftirlit þá fólgin? Hluti þess er vissulega nauðsynlegur partur af lífinu: Góður svefn, innihaldsrík næring, hæfileg líkamsrækt og örvun hugans. Fjölbreytni. Á misjöfnu þrífast börnin best. En þó þessi atriði séu nauðsynlegur hluti af lífinu er auðvelt að missa tökin á þeim – borða of mikið eða of lítið, hreyfa sig of mikið eða of lítið, sofa of mikið eða of lítið. Þannig verður það sem í hófi er eðlilegur hluti af lífinu notað til þess að þrauka (e. coping mechanism). Fólk fer að flýja erfiðar aðstæður með því að týna sér í óendanleika samfélagsmiðla, stanslausu sjónvarpsglápi, óhóflegri áfengisneyslu, því að ganga of hart gegn líkama sínum, yfirdrifinni nautn, aflátslausu áti. Sjálfur hef ég gerst sekur um þetta allt saman. Ekki svo að skilja að samfélagsmiðlar, sjónvarpsefni, áfengi, líkamsrækt, nautn og neysla séu í eðli sínu óholl. Þetta snýst allt um jafnvægi. Og ef að heilinn hefur þróast frá líkamlegum tilfinningum yfir í þær andlegu, til að takast á við flóknari hugmyndafræði en í öðrum tegundum, er þá ekki rétt að beita flóknara viðhaldi sem hefur líka þróast í áranna rás. Sálfræðimeðferð? Hugleiðslu? Einlægum og berskjölduðum samtölum án gildismats? Lyfjum, þegar þau eru nauðsynleg? Eru þetta ekki bara verkfæri til að stilla af okkar mæla?

Þetta viðhald var það sem ég þurfti að læra og það var ekki auðvelt. Mér var ekki tamt að huga að mér. Ég var vanur að keyra mig áfram, sama hvað. Það flækir myndina aðeins að ég er mjög vinnusamur, orkumikill og skemmtilegar afleiðingar reikandi huga er að ég er hugmyndaríkur og sífellt í viðbragðsstöðu. Það sem gerði þetta kannski erfiðast var að þetta var ekki val – ég fór í þessa vinnu nauðbeygður og brotinn. Mér var hreinlega ekki stætt á að halda áfram lífinu eins og ég hafði fram til þessa. Mér fannst mjög erfitt að byrja hjá sálfræðingnum sem ég hef verið hjá undanfarin sjö ár. Samt er hann sá fimmti sem ég geng til um ævina, svo ætti ég ekki að vera vanur? Mér fannst líka skrítið að byrja að hugleiða, en ég varð að gera eitthvað. Ég var algjörlega mótfallinn lyfjum. En er ekki einmitt erfiðast að gera við bíla sem eru í sínu versta ástandi og hafa ekki fengið tilhlýðandi viðhald? Ef það er á annað borð hægt að bjarga þeim. Bara það að mæta til sálfræðingsins var eins og að viðurkenna skömmustulega að eitthvað væri að og það var erfitt að horfast í augu við það. Eitthvað óeðlilegt sem aldrei fyrr hefði litið dagsins ljós og annað fólk hefði aldrei upplifað. En það var allt í góðu. Ég ætlaði að laga það í hvelli. Eins og að fá mér að borða.

Þetta sjálfsviðhald allt saman er dálítið eins og að fara í ræktina. Fyrsta vikan er mjög erfið. Næsta er sennilega erfiðari. Allavega ekki mikið léttari. Til að byrja með er gott að fá tilsögn. Smám saman verður það auðveldara. En það þýðir ekkert að koma sér í form og ætlast til þess að það tolli af sjálfu sér. Ef að fólk vill halda sér í formi – þá þarf það einmitt að halda sér í formi. Gera æfingarnar. Hafa augu með árangrinum. Setja sér markmið. Hið sama á við um hið andlega og hið líkamlega. Reglubundnar æfingar er það eina sem blívar. Sum hafa vanist á líkamlegar æfingar frá í æsku. Æft fótbolta, körfubolta, sund, tennis eða frjálsar íþróttir. Þau munu alltaf búa að því og þó þau missi úr til lengri eða skemmri tíma eru þau fljóta að ná sér á strik. Hin okkar – eins og ég – þurfa að hafa mun meira fyrir því. Önnur lærðu ung á hljóðfæri og geta gripið í það án þess að hafa snert það í mörg ár. Vissulega er líklegt að einhver færni og tækni glatist, en það er styttra í það en hjá þeim sem ekkert kunna. Nú finn ég, eftir alla mína hugarleikfimi, að ég á mun auðveldara með að stilla mig af. Ég er í mun betra andlegu formi en nokkru sinni áður. Ekki kannski toppformi, en það kemur. Og það er ekki þar með sagt að það klikki ekki af og til – stundum jafnvel með ýmiskonar gloríum – en ekki nándar nærri eins og áður. Og það eru allar líkur á því að þetta eigi bara eftir að batna. En ég kom mér ekki í stand á einni nóttu. Þvert á móti.

Þessi viðkvæmni og tilfinningasemi, sem ég minnist á hér að ofan, ætti kannski frekar að líta á sem næmni. Það er stór kostur ef mælar eru næmir. Þeir gefa nákvæmari boð og það er auðveldara að treysta á svoleiðis mæla. Það er ekki skömmustulegt að búa yfir svoleiðis mælum – en viðbrögðin við mælingunum ættu kannski að vera skilgreind eða jafnvel æfð, til að þau séu markviss. Fari ekki úr böndunum. Ég man eftir því þegar ég varð óþolinmóður í æsku að því marki að mér var hastarlega sagt að anda. Það er gott ráð – en ég vissi ekki hvað það þýddi. Það er ekki hægt að kasta fólki í sundlaug og segja „syntu.“ Það þarf að læra það og þjálfa. Rétt eins og öndunaræfingar. Það mætti halda að það væri kjánalegt að æfa eitthvað sem maður gerir á sjálfstýringu allan daginn – en það ætti flest fólk að reyna það. Það er ótrúlega magnað hvað það gerir fyrir líkamann og líðanina að taka betur utan um öndunina. Uppfæra sjálfstýringuna. Sinna smá viðhaldi.

Viðhald mitt felst í ýmsu. Daglegum núvitundarhugleiðslum, vikulegum sálfræðitímum, geðlyfjum, samtölum við fólkið mitt, hreyfingu, tónlist, heilaþrautum og fleiru. Í hugleiðslunni skanna ég líkamann til að kanna líðan mína og tem hugann með því að reyna að leiða hjá mér hugsanir, þó þær dynji á mér. Sálfræðitímarnir gefa mér rými til að rekja upp peysuna sem ég er að prjóna, finna hvar lykkjunni hefur brugðið og gera mér fært að halda áfram án þess að peysan rakni upp eða passi ekki. Geðlyfin eru eins og smurolía á bílvélina – án hennar skemmist vélin beinlínis. Nýlega tók ég að iðka hlaup sem gefa mér boðefnabúst og algjörlega nýja leið til að lesa líkamlega líðan mína. Tónlist, sviðslistir og aðrar listgreinar veita mér mikla huglæga fró. Mestu skipta samtöl við fólkið mitt. Þau eru mér alls ekki auðveld og í raun nýjasta verkfærið í kistunni minni. En betra er seint en aldrei.

Eitt það gagnlegasta sem mér var kennt á minni vegferð – og kom úr mjög óvæntri átt – súmmerar þennan langa pistil vel upp og eru viðeigandi lokaorð: Tilfinningar eru alltaf raunverulegar. En þær eru ekki alltaf raunveruleiki.

Athugasemdir

Færðu inn athugasemd