MyPolar

Beggja skauta byr

6. Greindur

Þá er það komið á hreint. Nokkurnveginn. Ég fékk greininguna sem ég sóttist svo hart eftir, en – ekkert virtist breytt. Ekkert var í sjálfu sér öðruvísi. Þetta var svosem ekki óyggjandi greining. Það var dálítill vandræðagangur að fá úr þessu skorið og það er ekki eins og ég hafi fengið innrammað viðurkenningarskjal til staðfestingar. Útskriftarathöfn. Það hjálpar svo ekki að ég sit ekki mjög ofarlega á geðhvarfarófi svo það eru engin afgerandi einkenni sem há mér sem tækju af allan vafa. Sem er kannski kostur í sjálfu sér, að veikindin hamla mér ekki stórkostlega. En það er sömuleiðis ástæðan fyrir því að þau fóru óséð í tæp fjörutíu ár, sköpuðu mér samt mikinn barning og hlutu enga meðhöndlun. Svo er ég sæmilega fúnkerandi einstaklingur – allavega út á við. Hef áorkað ýmsu um ævina sem ég get verið stoltur af, sem aftur skyggir á veikindin – altso felur þau. Drífandi og áræðinn. Leiðandi. Nokkuð sjálfsöruggur. Jafnvel kokhraustur. Á bak við tjöldin gat að líta aðra mynd. Fyrst um sinn átti ég því mjög erfitt með að trúa greiningunni, eða treysta henni. Ég átti eftir að grafa lengur og fá meiri dýpt í þessa mynd. En það ekki eins og líf alkóhólistans verði einfalt og auðvelt daginn sem hann hættir að drekka. Þá fyrst hefst glíman fyrir alvöru.

Fyrstu viðbrögð við greiningunni komu mér þó í opna skjöldu, svona þegar ég fór smám saman að sætta mig við hana. Þiggja hana. Ég hafði barist svo fyrir því að fá einhverja niðurstöðu – og heldur betur þurft að standa fyrir máli mínu – að þetta ferðalag hafði farið að snúast um hana eina. Ég hafði ekkert velt fyrir mér hvað tæki við þegar hún loksins fengist. En þarna skall það á mér. Er fólk með geðhvörf ekki geðsjúklingar? Þið vitið – steríótýpurnuar í hvítum sloppum, lokað inni á geðdeild og fær ekki að skera matinn sinn sjálft? Sveiflast á milli skapgerða eins og Jekyll og Hyde? Villuráfandi og svo gott sem talar tungum, vitandi hvorki í þennan heim né annan? Ég sá fyrir mér hálf froðufellandi mann í spennitreyju á miðri umferðareyju í íslenskri sumarnótt. Mjög dramatískt. En það var ekki ég. Eða var það? Hefði kannski átt að vera löngu búið að loka mig inni? Fyrstu viðbrögð mín voru ansi fordómafull. Ég vissi auðvitað vel að þetta var ekki satt og var fyllilega meðvitaður um að þetta voru fordómar í mér. En þetta kom mér samt á óvart og ég þurfti nokkurn tíma til að komast yfir þessar hugmyndir.

Samhliða þessum fordómafullu viðbrögðum brást praktíska hliðin á mér öðruvísi við. Það dugði ekkert taut – nú var að bretta upp ermar. Mér varð ljóst að greiningin ein og sér var ekki einhverskonar bautasteinn. Hún var ekki áfangi út af fyrir sig sem ég hef náð og þyrfti ekki að gera meira. Hún er heldur ekki passi sem ég get framvísað sem leyfi til að hegða mér eins og mér hentar. Get-out-of-jail-free spjald. Einhvernveginn þurfti ég að átta mig á hvaða merkingu hún hafði fyrir mér, hvernig ég gæti beitt henni og haft gagn af henni. Ég vildi ekki láta hana skilgreina mig eða verða fjötra, eins og getur auðveldlega gerst. Þess í stað ákvað ég fljótlega að líta á hana sem landakort eða leiðarvísi til að vísa mér veginn um þennan nýja kafla í lífinu. Einkennin sem ég hafði lesið mér til um hjálpuðu mér að finna kort sem hentaði minni leið, fólk sem hafði kortlagt þetta landslag og gengið það gat veitt mér tilsögn og góð ráð. Með leiðarvísi og tilsögn í farteskinu þurfti ég þó að hafa sjálfan mig í huga. Ég þurfti að búa mig eins og mér hentaði, ekki eins og annað fólk sagði mér að gera. Og þegar á hólminn var komið var mitt að ganga þessa leið – að bera ábyrgð á minni líðan og mínum veikindum. Bæði gagnvart sjálfum mér og öðrum.

Ég fann til ýmsan búnað, eins og ég hef áður minnst á og mun ræða frekar. Sumt hefur fylgt mér á leiðinni og annað ekki. En það var þó eitt sem greiningin gaf mér og ég hefði ekki fengið öðruvísi. Geðlyf. Þessar pillur sem ég hafði alla ævi verið svo mótfallinn stóð ég nú frammi fyrir að taka í fyrsta sinn – og jafnvel alla ævi. Þetta var mér alls ekki auðvelt. Þegar ég fékk fyrsta lyfjaglasið í hendurnar sat ég drykklanga stund og velti þessu nýja hlutskipti mínu fyrir mér. Væri ég að gefa upp hluta af sjálfum mér, eins og ég hafði lesið um í skáldsögum og heyrt af frásögnum annarra? Væri ég að deyfa mig og tapa gleðinni sem ég hafði svo oft upplifað? Yrði mér lífið litlaust og grátt? Leiðinlegt? Til hvers þá að tóra? Mótstaðan gegn geðlyfjum var heiftarlega rótföst. Væri aftur snúið? Yrði ég nokkurntíma samur. Myndi ég þurfa að taka geðlyf það sem eftir er ævinnar?

Svo rann upp fyrir mér ljós. Ég hef um ævina þurft að taka allskonar lyf og hef aldrei verið mótfallinn þeim. Sýklalyf, magalyf, verkjalyf, ofnæmislyf, kvefmeðöl og svo framvegis. Fullt af fólki sem ég þekki hefur líka reitt sig á lyf og ég hugsa að ég verði alltaf hlynntur lyfjanotkun, undir handleiðslu sérfræðinga. Ég hef í reynd reitt mig töluvert á lyf og er nokkuð þakklátur fyrir þau. Sérstaklega ofnæmislyfin. Ég þarf að taka eina pillu, nefsprey og asthmapúst á hverjum degi, auk tilfallandi lyfja á álagspunktum – sem ég er rækilega minntur á þessa dagana þar sem ég er við störf í London og mig klæjar í augun allan sólarhringinn, til þess eins að geta andað eðlilega. Og það er nú frekar mikið undirstöðuatriði í lífinu, eins og ég hef sagt. En hvað ef – hvað ef ég lít á geðbrigði mín sem ofnæmi? Að það að upplifa oflætis- og þunglyndislotur sé eins og að upplifa ofnæmis- og asthmaköst? Að rétt eins og slímhimna bólgnar við visst áreiti bregðist aðrir hlutar líkamans, sem ég kann síður deili á, við með því að steypa mér í geðsveiflur? Að þær séu í raun ofnæmisviðbrögð – og að geðlyf séu bara ofnæmislyf? Öðruvísi ofnæmislyf.

Þá hjálpaði það mér að hafa kynnt mér geðhvörf sæmilega. Þannig hafði ég, í gegnum lestur bóka og áhorf á heimildamyndir og -þætti, kynnst ýmsum lyfjum, hvaða áhrif þau höfðu á fólk og hvaða skammtastærðir var um að ræða. Mér var fengið lithium, eitt algengasta og elsta bipolar lyfið. Það mildar allar tilfinningar og í stórum skömmtum getur fólki liðið eins og yfir því liggi einhverskonar slikja eða grámi sem geri lífið dauft og leiðinlegt. Það er ekki skrítið, þegar fólk upplifir miklar tilfinningasveiflur og hefur tamið sér að lifa með þeim, að fólki finnist leiðinlegt að sigla lygnari sjó. Ég segi stundum að það sé eins og að hafa borðað indverskan mat alla ævi, með öllum sínum sterku kryddum í miklu magni og skipta svo alfarið yfir í ítalskan mat. Ítalskur matur er ekki bragðvondur eða leiðinlegur – hann er bara mildari og vinnur með annarskonar krydd, yfirleitt færri í einu og gætir annarskonar jafnvægis þeirra á milli. Ef maður ætti að skipta alfarið á úr einu í annað væri sennilega ráð að undirbúa það. Venja sig af sterka bragðinu en læra sömuleiðis að meta hið milda. Svo slær lithium einna helst á oflæti en minna á þunglyndi, þannig að þau sem það taka sitja kannski uppi með meiri drunga en jafnvægi. Síðast en ekki síst geta stórir skammtar af lithium haft áhrif skjaldkirtilinn. Hann getur orðið vanvirkur eða stækkað. Dregið getur úr framleiðslu hormóna sem getur valdið síþreytu, þyngdaraukninga, kulsækni, eða sjálfsofnæmi. Þess vegna þurfa þau sem taka lithium reglulega að láta mæla lithumþéttni í blóði – svo það er að ýmsu að huga. Þetta er semsagt ekki alveg eins einfalt og að taka ofnæmislyf. En undanfarin ár – ef ég hef þetta rétt eftir – hefur þó algengara að lithium sé gefið í smærri skömmtum en áður, því það þykir sýnt fram á að minni skammtar duga betur en áður var talið. Samkvæmt því sem ég hafði lesið mér til um var skammturinn sem mér var boðinn aðeins einn þriðji af því sem telja mætti lítinn skammt, svo mér fannst ég sæmilega óhultur.

Þarna tók ég af skarið. Ég skyldi taka þessi lyf. Ég vissi vel að ég hafði þurft að prófa mismunandi lyf til að ná tökum á ofnæminu mínu svo kannski væri það hægt með geðlyfin líka. Munurinn er þó sá að það þarf að trappa þau upp og niður svo það er ekki hægt að skipta samdægurs, en engu að síður hafði ég náð að stýra hausnum í rétta átt. Og það var það sem mig skorti mest – hugarfar. En þarna var voru komnir vísar að mikilvægustu verkfærunum á þessum fyrstu skrefum mínum. Samlíkingar annars vegar – og að uppræta gamlar hugmyndir hinsvegar. Samlíkingar eru mér nokkuð tamar, hafandi starfað við listir í rúm tuttugu ár. Að uppræta gamlar hugmyndir er mun erfiðara en að taka bara töflur – og sennilega þess vegna mikilvægara. Ég nota gjarnan enska orðið “reframe” til að lýsa þessu. Að setja gamlar hugmyndir og gamla reynslu í nýtt samhengi til að breyta sjónarhorni mínu. Hægara sagt en gert.

Fyrsti stóri bitinn í því var að átta mig á tilfinningum mínum og sálinni. Fram til þessa höfðu þær verið mér mjög framandi. Ekki að ég hafi ekki áttað mig á að ég hefði sálarlíf og tilfnningar – en ég kunni ekki á þeim deili. Jú, ég hafði verið í sálfræðimeðferð í um tvö ár og átt spretti með fjórum sálfræðingum áður, en samt fannst mér sálin óskiljanleg. Eitthvað sem stóð utan við hið líkamlega. Utan við mig. Skýrasta dæmið er kannski hvað mér fannst ekkert mál að taka á líkamlegri heilsu; fara í aðgerðir, taka lyf eða gera æfingar (þó ég hafi verið latur við það á yngri árum). Samt vildi ég ekki taka lyf við hinu geðræna – og það á þeim forsendum að það myndi hafa áhrif á geð mitt! Þegar ég hugsa um það í dag finnst mér þetta tvennt óaðskiljanlegt og mér finnst eiginlega furðulegt að ég hafi skilð svona á milli.

Sennilega er það vegna þess hvernig geð mitt sveiflaðist. Eina stundina var allt svo erfitt og hina var allt svo frábært. Annað hvort var allt ómögulegt eða mér stóðu allar dyr opnar. Mér fannst ég ekki hafa neina stjórn á því og trúði því í raun ekki að það væri hægt. Ég man eftir að hafa minnst á það við fyrrverandi eiginkonu mína að ég væri „loksins búinn að fatta þetta.“ Að þegar mér liði vel og allt væri gaman þá ætti ég að njóta þess, því ég vissi að ég myndi fyrr eða síðar missa tökin á öllu saman og hrynja aftur niður. En í stað þess að láta það draga mig niður ætti ég bara að njóta þess að láta mig góssa. Svolítið eins og að stíga stóra öldu á brimbretti – án þess að ég hafi af því nokkra reynslu. Ég kæmi hvort eð er upp aftur og þá yrði aftur gaman. Gæti allt eins haft gaman á niðurleiðinni líka. Ég veit ekki hvort ég kom þessu svona frá mér, en þetta var allavega það sem ég hugsaði. Og ég get staðfest að þetta er viðskiptamódel sem gengur enganveginn upp. Þegar allt byrjar að hrynja taka örvænting og skelfing við – og loks depurð. Í þessu ástandi getur maður ekki svo glatt hreinlega ákveðið að vera glaður. Tilfinningarnar taka yfir og því kannski ekki skrítið að mér hafi fundist þær vera eitthvað sem stóðu utan við mig. Kannski eins og sníkjudýr.

Í byrjun árs 2020 snerist lífið svo í höndunum á mér og hugurinn fór alveg úr böndunum, sem varð eiginlegt upphaf þessa ferðalags. Ég vissi að ég þyrfti að kyrra hann með öllum tiltækum ráðum. Meðal þess var að hringja í vin sem kom og beinlínis sat yfir mér. Deildi með mér rúmi á meðan það versta gekk yfir. Ég þorði ekki öðru. Annað ráð sneri meira inn á við. Skömmu fyrir áramótin hafði ég rekist á núvitundarhugleiðslu. Ég hafði verið í langflugi eftir annasama viku síða árs 2019 og þurfti nauðsynlega að sofa, áður en næsta strembna vika vika tæki við. Mér gekk erfiðlega að róa mig en hugsaði að það hlyti að vera einhverskonar prógramm í afþreyingarkerfi flugvélarinnar sem gæti hjálpað mér. Viti menn, þar fann ég Headspace, sem býður handleiðslu um hugleiðslu frá fjölmörgum sjónarhornum. Ég man að ég fylgdi æfingunum í fluginu en man ekkert hvort þær virkuðu. Aldrei grunaði mig að rétt rúmum mánuði seinna myndu þær eiga þátt í að bjarga lífi mínu.

Ég hafði enga reynslu af hugleiðslu og hafði ekki mikla trú á slíku – en ástandið var mjög slæmt og eitthvað þurfti ég að reyna. Ég las mér lítillega til um hugmyndafræði Headspace og meðal þess sem það lofaði var að notendur myndu læra að ná stjórn á tilfinningum sínum. Sem fyrr fannst mér það bæði fjarstæðukennt og fáránlegt. Það er ekkert hægt að ná stjórn á tilfinningum sínum. Þær bara eru og þær bara gerast. Þær eru stórar og þær stjórna manni alveg. Þær hlaupa með mann í gönur. En þá áttaði ég mig á því að ég hef lært tungumál. Ég hef lært á píanó. Ég hef lært ýmislegt sem hefur með hugann að gera svo ef til vill væri ráð að gefa þessu séns. Ég sótti appið í símann og byrjaði á fyrstu hugleiðslunni.

Til að byrja með fylgi ég grunnámskeiði Headspace. Það var um tíu æfingar sem allar hófust með stuttri teiknimynd til útskýringa. Þetta reyndist mér mjög gagnlegt svo ég hélt áfram. Hver hugleiðsla er á bilinu ein til tuttugu mínútur og það má stilla þær eftir því hvernig liggur á manni eða hvaða tíma maður hefur hverju sinni. Ein fylgdi annarri og smám saman hafði ég allt í einu hugleitt á hverjum degi í rúm tvö ár, stundum oftar en einu sinni á dag. Fyrst um sinn var þetta mjög erfitt, rétt eins og hvert skref á þessari vegferð, en hvert skipti gerði þetta einfaldara og auðveldara. Rétt eins og að mæta í ræktina og koma sér í form þjálfaði ég hugann til að takast á við hugsanir og tilfinningar á nýjan hátt, þveröfugt við það sem ég hafði haldið í upphafi. Fyrst um sinn er það mikil áreynsla, sárt og erfitt – með litlum sjáanlegum árangri. En dropinn holar steininn. Yfirleitt sinnti ég þeim á tíma sem hentaði mér en stundum á erfiðum stundum greip ég í þær til að lægja öldurnar. Síðan hef ég sinnt hugleiðslunni stopulla en hún er ennþá mikilvægur hluti af vellíðan minni og velferð. Þó að Hedspace henti mér eru til fleiri öpp, myndskeið á netinu, hugleiðslunámskeið og hugleiðslutímar í persónu og svo framvegis. Sumum hentar hugleiðsla svo alls ekki – en eins og allt annað snýst þetta um að finna það sem hentar manni.

Þessi samanburður, að hafa talið mig ekki geta tamið hugann en smám saman lært að beina honum í viðráðanlegri farveg – sem ég hafði ekki velt fyrir mér fyrr en ég fór að skrifa þessa frásögn – finnst mér skýrt merki um breytt hugarfar. Ég reyni að forðast að tala um bata eða framfarir, því það er einföldun á flóknu viðfangsefni. Hverskyns tvíundakerfi til að leggja mat á persónur og aðstæður – gott/vont, rétt/rangt, venjulegt/óvenjulegt, sterkt/aumt, veikt/heilbrigðt, duglegt/latt, gott/vont, nei eða já/af eða á – er til þess fallið að búa til staðnaðar staðalímyndir og hjálpa sjaldnast umræðunni. Þess vegna vil ég tala um breytingu. En þessi breyting hefur ekki átt sér stað á einni nóttu. Hún hefur tekið langan tíma og er enn að eiga sér stað. Hvert skref er léttara en hið fyrra og þó mér hafi ekki fundist fyrstu skrefin skila miklu af sér tek ég stöðugt eftir breytingum lengra inn í þetta ferðalag. Og þó voru mestu breytingarnar mögulega í upphafi.

Eins og ég sagði hér að ofan: þó að greining sé ástæða, þá er hún ekki afsökun. Það er enn mitt að þekkja sjálfan mig og bera ábyrgð á mínum einkennum. Rétt eins og ég þarf að taka lyf til að geta andað eðlilega, þá þarf ég að taka lyf til að halda geðsveiflum í skefjum. Lyf sem ég var svo mótfallinn en eru núna eðlilegur hluti af lífi mínu.

Greiningin ein og sér var ekki endastöð. Hún var upphaf.

Athugasemdir

Færðu inn athugasemd