MyPolar

Beggja skauta byr

5. Birnirnir þrír

Þegar hér er komið við sögu er rétt að segja frá því að í tæp tvö ár hafði ég sótt vikulega tíma hjá breskum sálfræðingi. Það er þá fimmti sálfræðingurinn sem ég hitti um ævina í ítrekuðum tilraunum mínum við að ná tökum á tilverunni, en meira um það seinna. Þennan fimmta sálfræðing er þó kannski réttara að kalla þerapista. Hann hefur ekki háskólagráðu í sálfræði, eins og þeir íslenskir sálfræðingar sem ég hef kynnst, heldur er hann lærður í sáfræðimeðfeð (e. psychotherapy), rétt eins og margir sálfræðingar, geðlæknar og aðrir fagaðilar hafa til aukreitis við háskólamenntun sína. Þó er þó engum blöðum um það að fletta að hann hefur reynst mér best af þeim sálfræðingum sem ég hef leitað til. En mér finnst mikilvægt að draga þetta fram því það er grundvallarmunur á. Þerapisti hefur ekki lækningaleyfi og framkvæmir því hvorki greiningar né skrifar upp á lyf, en sálfræðingur getur það. Sum þeirra sem ég hef rætt upplifun mína við hafa nefnilega spurt hvers vegna þerapistinn hafi ekki komið auga á þetta mynstur í hegðun minni og sent mig í greiningu. Spurningin er góðra gjalda verð en þá bendi ég á tvennt. Annars vegar hefur þessum þerapista tekist að búa til öruggara og traustara umhverfi til samtals en ég hef átt með nokkurri annarri manneskju og undir hans leiðsögn hef ég tekið stórstógum framförum í átt að betri líðan. Stór partur af því að skapa þetta umhverfi er að taka aðeins við því sem ég hef að segja og vinna mjög varfærnislega með það. Allar tilraunir til að stýra mér í einhverja átt hefðu getað ógnað þessu umhverfi og sömuleiðis þessum árangri. Hitt er eftir að hafa hitt þennan þerapista í aðeins um fjóra mánuði nefndi ég að ýmislegt í líðan minni virtist svipa til geðhvarfa, eftir því sem ég best fengið séð við eftirgrennslan á netinu. Hann greip það á lofti og spurði hvort ég vildi að hann vísaði mér í greiningu. Ég afþakkaði. Það væri ekki eins og ég væri geðveikur.

Rétt tæpum tveimur árum seinna stend ég aftur frammi fyrir þessum vangaveltum og get því ekki annað en tekið þeim alvarlega. Ég hringdi á heilsugæsluna mína og pantaði tíma hjá geðlækni. Mér var sagt að hann væri aðeins við einu sinni í viku og fyrst þyrfti ég að undirgangast mat hjá heimilislækni. Kunnuglegt stef.


Hér rennur framvindan svolítið saman í eitt í höfðinu á mér. Ég er á kafi í verkefnum, að ganga í gegnum skilnað þar sem við búum þegar hvort í sínu landinu, hamast við að finna út úr geðheilsu minni og yfir vofir heimsfaraldur. En ég held nokkuð vel utan um dagskrána mína á dagatali, sem hjálpar mér að fá mynd á þetta ferli. Það hjálpaði mér einnig töluvert að skoða atburði aftur í tímann þegar ég þurfti að rekja líðan mína, kanna hana á eigin forsendum og ræða hana við geðlækna – svo ég mæli hiklaust með góðu dagbókarhaldi.

Sléttri viku eftir streymið sem Mig stóð fyrir fékk ég tíma hjá heimilislækni. Þegar þangað kom greindi skilmerkilega frá þessum grun mínum. Já eða eins skilmerkilega og mér framast var unnt. Ég hafði ekki fengið mikinn tíma til að hugsa þetta og fannst mér ég enn ekki geta mátað mig fyllilega við öll einkennin sem ég minntist á í seinustu færslu. Hvað taldist oflæti og hvað var bara stemning og hressleiki? Hvað var þunglyndi – og var það í sjálfu sér óeðlilegt? Er ekki allt eðlilegt, eins og ég hef minnst á áður? Það sem ég sé í dag sem skýr einkenni geðhvarfa flugu mér ekki einu sinni í hug þá og í raun stamaði ég bara upp nokkrum brotum af þeirri mynd sem átti eftir að taka mig langan tíma að tína saman. Hún skráði þetta allt saman skilmerkilega niður, sagði mér svo að ég myndi fljótlega heyra um næstu skref. Nokkrum dögum síðar berst bréf frá geðlækninum. Fyrstu skellurinn. Hann hafnar hugmyndum mínum um að ég eigi við geðhvörf að stríða en óskar mér velfarnaðar. Takk. Mér hafði ekki tekist að sannfæra hann nægilega vel um að ég hakaði í nægilega mörg box. Nokkuð sleginn yfir að fá ekki einu sinni færi á að ræða við hann tek ég til eins af þeim ráðum sem ég kann best. Ég skrifa honum til baka. Bréfið finn ég ekki í fórum mínum, þó það sé einhversstaðar, en ég hugsa að mér hafi tekist að nurla saman aðeins fleiri dæmum til að renna stoðum undir þennan grun minn. Jú, alveg rétt. Það var þarna tiltekið dæmi sem ég gat nefnt sem eflaust hefur krafist þess að brugðist yrði við. Meira um það seinna.

Í öllu falli fæ ég svarbréf og í þetta sinn úthlutar hann mér tíma. Hænuskref. En nú sækir faraldurinn fast að svo skömmu seinna ég fæ símtal frá geðlækninum sjálfum þar sem hann spyr mig hvort ég sé tilbúinn að eiga viðtalið í gegnum síma. Það hentar mér í sjálfu sér ágætlega því um miðjan mars, fáeinum dögum seinna, var ég á leið til Íslands að setja upp sýningu. Verkið hafði verið sett upp sumarið áður svo þetta var reyndar bara flutningur úr einu leikhúsi yfir í annað. Einfalt. Í aðdraganda verkefnisins ræddum við aðstandendur þess saman, í ljósi aðstæðna, og vorum sammála um að þó það þyrfti kannski að fresta um eina viku eða svo stæði þetta samt enn til og ég ætti samt að koma til landsins. Á sama tíma varð pabbi sextugur svo það var ærið tilefni til að láta sjá sig. Svo vildi ég jú auðvitað reyna að bjarga hjónabandinu og þá er nú kannski betra að vera á sama stað. Út frá verkefninu séð þyrfti kannski ekki að stoppa lengi á Íslandi svo mögulega næði ég tíma með geðlækninum í persónu, en faraldurinn bætti jú smá óvissu í spilin. Svo úr því að tíminn bauðst í síma og fyrr en ella þáði ég það. Mér lá á.

Tveimur dögum eftir að ég kom til Íslands tók fyrsta samkomubann í heimsfaraldrinum gildi á Íslandi og ytri landamærum Schengen svæðisins var lokað. Grundvöllurinn fyrir rekstri flugfélaga var tímabundið brostinn og fólk um allan heim hvatt til að halda til síns heima hið snarasta, hefði það kost á. Heimsendastemningin í fluginu frá London til Íslands hafði verið áþreifanleg en þrátt fyrir allt átti ég ekki alveg von á þessu – eins ljóst og það lá í loftinu. Ég var orðinn strandaglópur á Íslandi og hafði enga hugmynd um hversu lengi. Sextugsafmælið hafði reyndar verið fellt niður áður en bannið tók gildi og varð þar með ein af fyrstu samkomunum sem urðu fyrir barðinu á faraldrinum. Ég tók stöðuna á vinum um allan heim til að vita um hagi þeirra og hvort þau kæmust til Íslands í tæka tíð – sum hinumegin á hnettinum. Hurðar skullu ansi nálægt hælum þessa dagana.

Skömmu eftir hádegi, mánudaginn 30. mars, fæ ég símtal frá geðlækninum, þeim fyrsta í þessum kafla lífs míns. Áður en ég hann spyr mig um líðan mína eða heilsu finnst honum rétt að tjá mér, af nokkurri staðfestu, að hann geri ekki hefðbundnar greiningar og sé reyndar mótfallinn þeim. Strax í upphafi finnst mér ég vera að flytja mál fyrir dómi, vonandi að mér verði dæmt í hag. Ég segi honum það sem ég get í belg og biðu, nánast eins og ég sé að keppa um friðhelgi í raunveruleikasjónvarpsþætti og í lok samtalsins tilkynnir hann mér niðurstöðu sína. Hann geti ekki sagt að ég sé haldinn “Bipolar affective disorder type I” og hann telji að það sé ekkert frekar sem þurfi að gera fyrir mig. Ég eigi að halda áfram hjá mínum sálfræðingi og vinna úr mínum málum. Sé ég annars á höttunum eftir greiningu, sem hann taldi takmarkað gagn af, geti ég annað hvort fundið annan geðlækni – nú eða bara greint mig sjálfur, svona eins og honum heyrðist ég vera búinn að hvort eð er. Símtalið varði ekki í eina klukkustund.

Of kaldur.


Af öllum lágpunktum leiðarinnar lá þessi með þeim allra lægstu. Ég eygði loksins einhverja von um betri líðan en þarna var því slengt framan í mig að þetta væri nú bara vitleysa í mér. Mér leið skelfilega. En neyðin kennir og með örvæntinguna að vopni gafst ég ekki upp, heldur hafði samband við heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og bað um tíma hjá geðlækni. Það var hið minnsta mál – en biðin var sex til tíu vikur. Ég man ekki hvort að í millitíðinni hafi ég verið settur í samband við, eða bent á að hafa samband við, eitt af geðheilsuteymum heilsugæslunnar. Þar fékk ég samtal við yndislegan geðhjúkrunarfræðing sem veitti mér mikinn stuðning og góð ráð. Yfir næstu vikur hafði ég samband nokkrum sinnum og alltaf veitti hún mér góðar viðtökur. Þetta var sennilega það sem hélt mér á róli þessa erfiðustu dagana.

Á meðan ég beið eftir að tilvísunin gengi í gegn hélt ég áfram að leita eftir upplýsingum á netinu. Þá fann ég upplýsingar um íslenskan geðlækni sem taldi sig helsta sérfræðing landsins í Bipolar II sem hann talaði um að væri sennilega vangreint í stórum hluta þjóðarinnar. Ég hringdi og spurðist fyrir en afréð að panta ekki tíma strax. Bæði var ég enn viðkvæmur og auk þess kosta svona tímar sitt – en ég var náttúrulega nýlega atvinnulaus um óforséða framtíð. Nokkrum dögum seinna tók ég samt af skarið og bókaði tíma. Ég gat ekki beðið lengur. Einum mánuði, og viku betur, eftir símtalið við breska geðlækninn fékk ég viðtal hjá þessum íslenska sérfræðingi í geðhvörfum II. Hann spurði mig ýmissa spurninga og útlistaði fyrir mér greiningarferlið. Þetta yrði um fjórir tímar og fælu í sér samtöl og verkefni til að skera úr um hvað væri að angra mig. Það er þessi geðlæknir sem bendir mér á að fá afrit af sjúkraskýrslunum frá Landspítalanum, sem ég hef áður sagt frá.

Strax í upphafi fannst mér þessi læknir þó nokkuð áfjáður í að greina mig með geðhvörf, á sínum forsendum. Í stað þess að hlusta á reynslu mína með (heilbrigðri) gagnrýni greip hann það sem ég sagði á lofti ef það passaði við hans skilgreiningu á geðhvörfum II. Mér fannst hann ýtinn, ágengur, hrokafullur og hranalegur í samskiptum en þetta var eina ráðið sem ég hafði í augnablikinu og lét mig því hafa það. Svo var hann mjög passasamur á tíma. Ég man ekki hvernig þetta útlagðist en fyrsti tíminn er lengri en allir tímar þar á eftir, þó þeir kosti það sama. Hvort fyrsti er 45-50 mínútur og tímarnir þar á eftir 30-40 mínútur – eitthvað svoleiðis. Það kom allavega ekki í ljós fyrr en í öðrum tíma og hafði ekki verið gert skýrt í upphafi ferlisins, en hann passaði rækilega upp á það. Strax í fyrsta tíma sagði hann mér að hluti af greiningarferlinu væri að taka lithium, nokkuð algengt lyf við geðhvörfum. Sem fyrr sagði ég frá andstöðu minni við geðlyf og spurði hvort það væri annað í boði. Hann sagði að ég gæti svosem sleppt þeim en það væri ekki hjálplegt fyrir greininguna. Eftir þennan fyrsta tíma fór ég því og leysti út geðlyf í fyrsta sinn. Þegar ég var kominn með lyfin í hendurnar sat ég inni í bíl og horfði á lyfjaglasið í höndunum á mér og leist ekki á blikuna. Í eina röndina velti ég þó fyrir mér hverju ég hefði að tapa. Þá rann upp fyrir mér ljós svo að endingu byrjaði ég á lyfjunum – en meira um það seinna.

Rúmri viku seinna átti ég aftur tíma hjá geðlækni 2. Þá var ég mættur með sjúkraskýrslurnar sem við ræddum og það setti allt saman í nýtt samhengi. Þarna voru komnar sautján ára gamlar vísbendingar. Allt að því fornleifar. Svo spyr hann mig hvort ég finni mun á mér eftir að vera farinn að taka lyfin. Ég verð nokkuð hissa því lithium er sk. forðalyf, sem tekur tíma að byggjast upp í líkamanum og bjóst því ekki við neinum viðbrigðum fyrr en mörgum vikum seinna. Þá var ég enn ekki alveg með á hreinu hvað í fari mínu teldust einkenni og hvað teldist skapgerð – auk þess sem ég hafði tæplega haft tíma til að upplifa meiriháttar sveiflur á þessum stutta tíma. Ég var því ekki alveg viss um hvernig ég ætti að svara. Það er nauðsynlegt að muna að í þessu ferli öllu, sérstaklega á fyrstu vikum og mánuðum þess er ég mjög ringlaður og óöruggur. Það gekk svo margt á og mig vantaði umfram allt stuðning. Ekki geðlækni sem vildi ekki tala við mig og heldur ekki geðlækni sem var nánast búinn að krýna mig áður en ég settist í hásætið.

Undarlegasta greiningartæki hans fannst mér vera ljósrit af blaðagrein sem hann hafði skrifað um geðhvörf II. Ég átti að strika undir allar fullyrðingar í greininni sem mér fannst eiga við mig og helst að bera hana undir einhvern nákominn mér sem bæði gæti vottað undirstrikanir mínar og mögulega bent á atriði sem mér höfðu yfirsést. Einhvernveginn hefði mér liðið betur ef innihald greinarinnar hefði verið sett fram sem einhverskonar hlutlaus spurningalisti sem væri beint að mér og minni líðan – frekar en ljósriti úr læknatímariti þar sem mér finnst geðlæknirinn fyrst og fremst vera að koma sjálfum sér á framfæri, innan um ýmsar auglýsingar og undir stórri ljósmynd af honum sjálfum. En ég fylgdi ferlinu og strikaði undir. Ég fór svo með greinina til fyrrverandi eiginkonu minnar sem hafði hana hjá sér í nokkra daga. Þegar við hittumst aftur var hún að mestu sammála undirstrikunum mínum en fannst hún ekki geta tekið undir þær allar. Þá benti hún á nokkur atriði sem ég hafði ekki strikað undir. Þar á meðal var setning um að fólk sem lifði með geðhvörfum II ætti oft erfitt með að taka ákvarðanir, væri jafnvel ákvarðanafælið en í besta falli óákveðið á ýmsa vegu. Án þess að hugsa svaraði ég í einlægni og af hreinskilni: „Já ég var ekki viss um hvort þetta ætti við mig.“

Þó geðlæknirinn hafi haldið því fram í fyrsta tíma að ég væri nú sennilega skólabókardæmi um geðhvörf II fylgdi ég ferlinu þar til því lauk. Niðurstöður þess voru í fullu samræmi við sannfæringu hans svo ég úrskurðaður með geðhvörf II. En hvað svo? Eftir að hafa þurft að berjast við fyrri geðlækninn þurfti ég nánast að halda aftur af þessum seinni. Mér fannst ég engu nær. Ferlið var ekki til þess fallið að ég treysti því eða greiningunni og sérstaklega ekki þessum heimóttarlegu greiningaraðferðum.

Of heitur.


Eftir vinnu undanfarinna mánuða þóttist ég vissari en nokkru sinni um að ég hafi upplifað einkenni veikinda sem höfðu verið mér fjötur um fót alla ævi, án þess að fá nokkurn botn í það. Jæja, ég fékk svosem úr því skorið hjá seinasta geðlækni en ég var bara ekki tilbúinn að leggja traust mitt á það mat og enn sat ég eftir ráðvilltur. Hringir þá ekki síminn? Tilvísunin heilsugæslunnar til geðlæknis hafði þá skilað sér, þó ég hafi eiginlega verið búinn að gleyma henni, og mér er boðinn tími hjá þriðja geðlækninum – nú aðeins tveimur vikum eftir seinasta tímann hjá númer tvö. Ég ákveð að þiggja tímann þó ég sé hálf vonlaus eitthvað, en úr því þetta bauðst þá hafði ég svosem engu að tapa.

Nokkuð fljótlega eftir að viðtalið hefst finn ég allt annað viðmót en hjá nokkrum öðrum geðlækni. Hann hlustaði á mig, sýndi mér nærgætni og hlýju og varpaði fram spurningum frekar en fullyrðingum. Þegar tímanum lauk áttaði ég mig á því að hann hafði staðið mun lengur en lög gerðu ráð fyrir. Hann beinlínis gaf mér tíma.

Undir lok samtalsins ræddi hann aðeins við mig um geðhvörf og hvernig skilningur á þeim hefði breyst. Hann sagði að í stað þess að skipta geðhvörfum skarplega niður í tvo, þrjá eða fjóra flokka væru læknar miklu frekar farnir að tala um geðhvarfaróf. Sumt fólk situr neðarlega á rófinu og upplifir mild einkenni sem gæti verið erfitt að koma auga á, á meðan annað fólk situr ofarlega og upplifir mjög sterk einkenni sem hafa veruleg áhrif á lífsgæði. Hann sagði augljóst að ég hefði upplifað einkenni geðhvarfa – en ég þyrfti ekkert að kalla þau það. Það væri þó ráðlegt að halda áfram sálfræðimeðferð og lyfjameðferð. Þar sem lyfin væru nýtilkomin væri rétt að fylgjast með þeim svo hann bauð mér að koma aftur þegar lyfseðillinn tæmdist og ræða framhaldið.

Akkúrat passlegur.


Þó að þessi hluti ferðalags míns hafi tekið nokkra mánuði er það í raun frekar stuttur tími á heildina litið – bæði í mínu lífi og sem viðbragðstími þunglamalegs kerfis. En þegar heimili manns stendur í björtu báli þá langar mann ekki að sitja og bíða eftir slökkviliðinu. Hvert augnablik verður að eilífð. Þetta er langt frá því að vera auðvelt og kannski var ég heppinn með aðstæður og tímasetningu. Ég var á milli landa og gat leitað í tvö kerfi, ég hafði drifkraft og þrek, mín veikindi eru af þeim toga að það er vakning um þau, þau eru heldur ekki svo alvarleg að ég gæti ekki beðið og ég hafði fjárráð – því þetta kostar sannarlega sitt. Þetta er ekki öllum gefið. Í flestum tilvikum ímynda ég mér að fólki sé vísað á geðlækni og það ýmist hefur ekkert val eða er svo aðframkomið að það orkar ekki að máta mismunandi lækna. Eða bæði. Festist svo kannski hjá sama lækninum því það þorir ekki að skipta af ótta við að velkjast aftur um í kerfinu eða þykir fugl í hendi betri en tveir í skógi, sama hversu ræfilslegur sem hann er. Ég veit um fólk sem hefur verið ósátt með sína úthlutuðu geðlækna en ekki átt annarra kosta völ, einmitt þegar erfiðleikarnir eru mestir. Svolítið eins og maður sé að læra að synda þegar maður er að drukkna, eins og ég hef áður nefnt, eða leita á netinu að smart reykskynjara á meðan heimilið fuðrar upp. Ég hugsa að þetta séu mjög algengar aðstæður og ég velti fyrir mér hversu illa hefur farið fyrir mörgu fólki akkúrat á þessum krítísku stundum. Eflaust eru samt einhver sem hafa fundið sinn lækni í fyrsta kasti. Ég hélt allavega að þetta yrði einfaldara, kannski því að ég er að eðlisfari jákvæður, geng í verk og hespi hlutum jafnan af með ágætis árangri. En þetta er bara flókið og það þarf að taka með í reikninginn – og ekki síst væntingastjórnunina.

Allar götur síðan hefur þriðji geðlæknirinn verið geðlæknirinn minn. Mér finnst hann henta mér best og hann hefur áfram reynst mér vel. Það þýðir samt ekki að hann sé fullkominn eða henti öllu fólki. Þvert á móti finnst mér þessi hluti sögunnar einmitt mikilvægur til að benda á að það krefst vinnu að finna þann stuðning sem hentar manni. Ég veit af fólki sem finnst geðlæknir 2 hafa reynst sér vel – og ég veit líka um fólk sem er ekki ánægt með geðlækni 3. Og þó mér hafi ekki líkað við geðlækni 2 kom hann samt með ýmsa punkta sem fylgja mér enn í dag. Fyrir rælni, á meðan ég var að rifja upp nafnið á geðlækni 1, rakst ég á síðu á netinu þar sem almenningi gefst kostur á að veita heilbrigðisstarfsfólki umsögn – og sá fær nú aldeilis að finna fyrir því. En jafnvel innan um harða gagnrýni mátti þó finna eina mjög jákvæða umsögn. Og þá má ekki gleyma móttökunum sem ég fékk hjá fyrstu tveimur geðlæknunum, sem ég hef þegar minnst á.

Þetta er þó kannski ekki ósvipað öðrum alvarlegum veikindum. Það borgar sig að fá annað álit og það skiptir öllu að finna aðstoð sem er bæði hægt að treysta og líða vel með. Í sumum tilfellum þurfa samskiptahæfileikarnir kannski að víkja fyrir meðferðarhæfninni, en ekki fyrr en fólk hefur fengið samanburð – sé þess kostur.


Þó að þessi kafli hafi fyrst og fremst átt að fjalla um hvað leit mín að greiningu var mikill vandræðagangur, átta ég mig á dálitlu þegar ég lít yfir farinn veg. Einu sinni sem oftar stend ég frammi fyrir því að ég hefði betur sótt meiri stuðning í fólkið mínu á þessum erfiðu stundum. Vissulega hafa þrautseigja, bjartsýni, von og þrjóska komið mér ansi langt, en það eru ekki ótæmandi lindir. Þegar þær þverr – sem gerist aftur og aftur í svona ferli – þá er nauðsynlegt að geta sótt utanaðkomandi styrk. Og besti styrkurinn liggur í öðru fólki sem axlar tímabundið með manni byrðarnar, á meðan maður safnar þreki til að bera þær aftur án hjálpar.

Þess í stað gerði ég mér erfitt fyrir með stolti, skömm og beyglaðri sjálfsmynd. Mér fannst ég eiga að geta sjálfur. En þó maður geti sjálfur þá er það engin ástæða til að keyra sig út, því þaðan snýr maður ekki aftur svo glettilega. Þegar ég hefði mest þurft á henni að halda fannst mér það að biðja um hjálp frekar eins og að missa stjórn en sækja styrk. Það var ekki lausn – það var ógn við sjálfsmynd sem hafði verið mitt eina skjól.

Eftir margra ára vegferð er enn að læra þetta. Kannski er ég jafnvel fyrst að byrja að læra þetta núna. Að biðja um hjálp. Að treysta. Að byggja tengsl. Að berskjalda mig fyrir fólkinu mínu en ekki síður sjálfum mér. Horfast blákalt í augu við sjálfan mig og fella grímuna. En það er ekki sjálfgefið að segja hlutina upphátt. Hvað þá að skrifa þá. Að birta þá. Að segja „svona er minn veruleiki, eins óþægilegur og mér finnst hann vera.“ En mig grunaði ekki hvílíkt vald það gæfi mér yfir minni eigin sögu. Það er auðmýkjandi, en því fylgir meiri umbreyting en mig hefði nokkurntíma grunað – og enn er af nógu að taka.

Athugasemdir

Færðu inn athugasemd