MyPolar

Beggja skauta byr

4. Hakað í box

Febrúar 2020. Laugardagskvöld. Ég hafði setið og hlustað á Mig vinkonu mína tala opinskátt um geðheilsu sína. Hún er greind með bipolar II (sjá nánar fyrir neðan) og er mikil baráttukona fyrir bættri geðheilsu. Hún tók þátt í árveknisátakinu “Time to talk” og streymdi þessu spjalli á facebook, aðeins nokkrum vikum áður en það varð mun algengara í heimsfaraldri. Til að byrja með hlustaði ég ekki með ýkja mikilli athygli, en eftir því sem leið á lagði ég allt annað frá mér. Þeim mun meira sem hún sagði fannst mér frásögnin eiga betur og betur við mig.

Hér hefst vegferð mín fyrir alvöru. Eftir spjallið sat ég hljóður um stund og melti þessar upplýsingar. Gæti það verið? Ég hafði lengi litið á það sem svo að ég hefði alveg upplifað þunglyndi af og til, án þess að fá úr því skorið eða telja mig kllínískt þunglyndan. En kannski bjó meira að baki. Kannski var komin ástæða fyrir ótalmörgu í fortíðinni sem ég kunni ekki skil á, einkum líðan minni. Ég opnaði tölvuna til að sjá hvað fleira ég finndi en aldrei grunaði mig hvað ég ætti eftir að þurfa að læra margt. Mér átti eftir að líða eins og ég væri að læra að synda um leið og ég væri að drukkna.


Það úir og grúir af ýmiskonar vefsíðum með allskonar upplýsingum. Ég kynntist fjölda nýrra orða og hugtaka. Ég kóperaði texta, setti upp í töflur og bar saman. Fletti upp bókum um efnið á netverslunum og að raða í körfu. Fann myndefni – viðtöl, þætti og heimildarmyndir. Frásagnir af frægu og fúnkerandi fólki, þó það sé með bipolar – sem mér finnst reyndar mjög sérstök framsetning. Fann instagram reikninga um geðheilsu og vellíðan (sem eru í bílförmum!). Þessi rannsóknarvinna varð allt að því manísk. Ég tók helling af þessu saman og sendi í tölvupósti á foreldra mína og nokkra vini. Ekki kannski til að biðja um hjálp – ég var hræddur, feiminn, stoltur og fullur af skömm. Ég skyldi bara reyna að laga þetta án þess að nokkur vissi og þá yrði allt betra. Ég hugsa bara að ég hafi verið að láta vita. Halda fólki fjarri. Kannski vildi ég beina athyglinni frá skilnaðinum sem ég var að ganga í gegnum og hafði enn ekki sagt neinum frá. Örvinglan mín var óneitanleg og þarna var kannski komin átylla.

Mig langaði að ganga algjörlega úr skugga um að þetta væri raunin. Ég vildi vera þess fullviss að ég uppfyllti allar kröfur og fengi ábyggilega inngöngu í þetta samfélag. Kannski vildi ég ekki vera loddari. Kannski var þetta fyrsta upplifun mín af eigin fordómum í garð geðveikinda, ómeðvituð. Kannski vildi ég fá tíu og vera besti geðsjúklingurinn. Kannski skildi ég bara ekki neitt og vissi ekkert hvað var í gangi. Allt var svo óljóst og loðið. Hefði ég bara fótbrotnað hefði það ekki farið á milli mála, mér smellt í gips og brotið gróið á um sex vikum, eða þar um bil. Enginn vafi, bara lausnir. Í snatri.


Á ensku heita þessi veikindi fullu nafni “Bipolar affective disorder” en á íslensku eru þau alla jafna kölluð geðhvarfasýki eða geðhvörf. Áður fyrr var fólk sagt „maníó depressívt“ eða upplifa „maníó depressjón“ – eitthvað í þá áttina – en sjálfum finnst mér orðið tvískautaröskun skemmtilegt. Ég nota flest heitin jafnt, nema maníó depressjón.

Fólk með geðhvörf upplifir alvarlega sveiflukennda líðan sem m.a. felur í sér tímabil oflætis (maníu) og þunglyndis. Margt fólk á nokkuð „eðlileg“ tímabil á milli oflætis og þunglyndis sem geta varað frá nokkrum vikum upp í nokkur ár. Annað fólk sveiflast á milli þessa tveggja og siglir aldrei lygnan sjó. Hið seinna er talin alvarlegri útgáfa geðhvarfa, enda líklegri til að skerða lífsgæði fólks verulega og hamla þeim þátttöku í samfélaginu. Samkvæmt því sem ég hef kynnt mér hefur skilningur fagfólks á bipolar breyst umtalsvert á undanförnum 10-20 árum svo upplýsingar geta verið misvísandi, sem einfaldaði leit mína aldeilis ekki. Hér fyrir neðan má finna tengla á ýmsar greinar sem hafa reynst mér gagnlegar, en ég ætla að reyna að draga þær saman í eitthvað bitastætt, aðallega til að sýna fram á hvaða veg ég þurfti að ganga til að finna útúr mínum málum.


Fyrstu heimildir um geðhvörf má rekja aftur til 460-370 f.Kr. þegar Hippókrates lýsti þessum tveimur andstæðu skapgerðum. Þunglyndið kallaði hann melankólíu. Öðrum grískum lækni, Aretaeus frá Cappadocia – sem var uppi á fyrstu öld e.Kr., er ætlaður heiðurinn af því að rekja þessar skapgerðir til heilans. Plató (428-348 f.Kr.) lýsti oflæti á tvo vegu – annars vegar af völdum líkamlegra þátta, hinsvegar af völdum guðlegrar íhlutunar eða innblásturs. Það var hinsvegar ekki fyrr en um 1850 að franskur geðlæknir, Jean-Pierre Falret (1794-1870) tengdi þetta tvennt saman sem skyld einkenni sem fólk gæti upplifað með hléum. Á svipuðum tíma lýsti annar franskur geð- og taugasjúkdómalæknir, Jules Baillarger, samskonar veikindum en án hléa. Fleiri geðlæknar, m.a. í Þýskalandi, lýstu samskonar veikindum sem var á endanum gefið heitið oflætis og þunglyndis vitfirring (e. manic-depressive insanity).

Uppúr 1950 settu bandarískir geðlæknar saman fyrstu handbókina um geðsjúkdóma, sem er nokkurskonar höfuðrit geðlækna um heim allan – en þó er það ekki algilt. Bókin ber heitið Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders en er í daglegu talið kölluð DSM. Í henni voru geðhvörf flokkuð í þrennt: þunglyndi, oflæti og annað. Hringrás þunglyndis og oflætis féll undir „annað.“ Önnur útgáfa bókarinnar kemur út 1968 og þá var heiti veikindanna breytt úr oflætis-þunglyndis vitfirringu yfir í oflætis-þunglyndis veikindi. Það var ekki fyrr en í þriðju útgáfu, 1980, að geðhvörfum er lýst sem slíkum. Í henni var í fyrsta skipti settur fram sérflokkur um lyndisraskanir (e. mood disorders). Það er því ljóst að þessi veikindi hafa þvælst nokkuð um og því ekki skrítið að skilningur fólks sé hist og her. Þegar þetta er skrifað er nýjasta útgáfan DSM-5, útgefin 2022.

Í dag eru geðhvörf flokkuð í fernt:

  1. Geðhvörf I, þegar einstaklingur hefur upplifað allavega eitt tilfelli oflætis sem varir í að minnsta kosti sjö daga. Þunglyndi kann eða kann ekki að hafa átt sér stað.
  2. Geðhvörf II, þegar einstaklingur hefur upplifað þunglyndislotur með einhverskonar oflæti inni á milli, en ekki af fullum krafti (þ.e. minna oflæti eða sk. hypomania). Gjarnan lýst sem vægari útgáfu geðhvarfa, fyrst kynnt til sögunnar í DSM-4 1994. Enn er tekist á um hvort þetta sé sértæk greining, hluti af geðhvarfarófi eða sé yfirhöfuð til.
  3. Hringhygli (e. cyclothemia), þegar einstaklingur upplifir ör skipti milli örlyndis og þunglyndis í að minnsta kosti tvö ár, með hléum sem vara ekki engur en átta vikur.
  4. Óskilgreind geðhvörf, þegar einstaklingur mætir ekki neinu af ofangreindu en hefur upplifað umtalsverða örvun skaps/lyndis.

Til að hljóta greiningu, samkvæmt DSM-5, þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

Geðhvörf I

  • Að minnsta kosti eitt tilvik oflætis. 
Það má fylgja í kjölfar eða vera undanfari minna oflætis (hypomaniu) eða þunglyndislotu, en þess er ekki þörf.

Geðhvörf II

  • Að minnsta kosti eitt tilvik minna oflætis (hypomaniu)
  • Að minnsta kosti eitt tilvik alvarlegs þunglyndis
  • Ekkert tilvik oflætis. Verði oflætis af fullum þunga vart telst greiningin Geðhvörf I

Hringhygli (cyclothemia)

  • Hýpómanísk einkenni sem vara í a.m.k. tvö ár (án þess að teljast full hýpómanía)
  • Einkenni þunglyndis sem vara í a.m.k. tvö ár (án þess að teljast alvarlegt þunglyndi)
  • Einkennin þurfa að vera til staðar a.m.k. helming ofangreinds tíma og skal hlé þeirra á milli aldrei vera meira en tveir mánuðir.
  • Engin tilvik maníu, hýpómaníu eða alvarlegs þunglyndis
  • Veldur neyð eða hömlun

Óskilgreind geðhvörf

  • Einkenni undir greiningarmörkum, þ.e.
    • Skammvinn hýpómanía og þunglyndi
    • Hýpómanía án undangengins þunglyndis
    • Ónóg lengd eða fjöldi einkenna til að uppfylla öll skilyrði

Eins er stundum talað um blönduð einkenni, þ.e. að fólk upplifi einkenni þunglyndis og örlyndis samtímis. Slíkt þykir sterkt greiningarmerki BP-II.

En hvað telst þunglyndi og hvað telst örlyndi? Er maður ekki alla jafna mishress? Leikur stundum á als oddi en vill hafa sig hægan aðra daga? Til að skýra þessi hugtök hefur örlyndi og þunglyndi verið lýst nánar. Athugið að þessi samantekt mín er aðeins til viðmiðunar og hvorki tæmandi né fagleg. Teljirðu þig, eða eitthvert sem þú þekkir, upplifa eitthvað af því sem ég nefni skaltu umsvifalaust hafa samband við fagfólk.

Þunglyndi
Til þunglyndis teljast m.a. eftirfarandi einkenni. Ég man ekki nákvæmlega hvernig það liggur en til að hljóta greiningu (aftur, samkvæmt DSM) þarf lágmarksfjöldi einkenna að vera til staðar um lágmarks tíma. Hvort það eru a.m.k. fimm einkenni í a.m.k. tvær vikur, eða eitthvað svoleiðis.

  • depurð, uppnám eða grátgirni
  • sektarkennd og örvænting
  • sjálfshatur
  • doði
  • óróleiki
  • kvíði
  • spenna
  • þreyta eða sljóvgun
  • svartsýni
  • áhugaleysi um hversdagslega hluti
  • tómleikakennd
  • sjálfsvígshugsanir

Eins gæti fólk upplifað að það

  • geti ekki einbeitt sér eða munað hluti
  • geti ekki sofið eða vakni snemma
  • sofi öllum stundum
  • komist ekki fram úr rúminu
  • hafi enga matarlyst

Oflæti (manía og hýpómanía)

Oflæti, einnig þekkt sem örlyndi, er geðrænt atferlisheilkenni sem er skilgreint sem ástand óeðlilega aukinnar örvunar, tilfinninga og orkustigs. Í oflætislotu upplifir einstaklingur ört breytilegar tilfinningar og skap. Þótt oflæti sé oft hugsað sem „spegilmynd“ af þunglyndi, getur hækkað skap bæði valdið vanlíðan og vellíðan. Þegar oflætið magnast getur pirringur orðið áberandi og leitt til kvíða eða reiði.

Hýpómanía er viðvarandi ástand hækkaðs eða pirraðs skaps sem er vægara en oflæti en getur engu að síður haft veruleg áhrif á lífsgæði og leitt til varanlegra afleiðinga, þar á meðal gáleysislegrar eyðslu, skaðlegra samskipta og lélegrar dómgreindar. Hýpómaníulotur sem tengjast BP-II verða að vara í að minnsta kosti fjóra daga. Forskeytið hypo þýðir „minna en“ og er andstæðan við forskeytið hyper – sem þýðir „meira en.“

Oflætislotur geta valdið því að fólk upplifi:

  • mikla hamingju, gleði eða jafnvel yfirþyrmandi gleði
  • mikla orku
  • hækkaða sjálfsvirðingu og hækkað sjálfsmat – jafnvel mikilfengleika langt umfram annað fólk eða guðleika
  • fullt af frábærum nýjum hugmyndum og mikilvægum áætlunum, sem koma ört fram og jafnvel breytast ört – en eru sjaldnast framkvæmdar
  • pirring eða órólegheit
  • skertra svefnþörf – langar vökustundir
  • sjálfsvígshugsanir
  • kvíða
  • hækkaða kynhvöt (hypersexuality)
  • hratt og pressað tal
  • einbeitingarskort / eigi auðvelt með að truflast
  • að það langi/þurfi ekki að borða
  • áhættuhegðun; gerir hluti sem hafa skaðlegar afleiðingar – eins og að eyða miklum peningum, aka hættulega, drekka illa eða stunda áhættusamt kynlíf
  • athafnir úr karakter, svosem segi eða geri eitthvað sem það myndi annars ekki gera

Svo ég endurorði líttillega af Vísindavefnum:

Í hýpómaníu er oft erfitt að sjá að eitthvað sé að fólki; það kemur vel fyrir, hefur óbilandi sjálfstraust, er líflegt og skemmtilegt, frjótt í hugsun og virðist hafa endalausa orku. Aftur á móti verður það pirrað við minnsta mótlæti, ókyrrt og getur ekki haldið sig við efnið. Í maníukasti missir fólk svo stjórn á hugsun sinni og hegðun. Hugur fólks fer á fullt flug; það fær ýmsar ranghugmyndir um eigin getu, jafnvel ofskynjanir. Það sefur sjaldan, talar endalaust og fær allt konar háleitar hugmyndir sem það framkvæmir síðan yfirleitt ekki. Hvatastjórnun hverfur út í bláinn svo oflætissjúklingurinn gerir gjarnan eitthvað sem hann myndi aldrei gera undir venjulegum kringumstæðum, svo sem að eyða langt um efni fram, stunda hættulegt kynlíf eða neyta vímuefna.

Gjarnan er talað um að beint á eftir oflætislotu fylgi þunglyndislota. Þá upplifir einstaklingurinn skömm vegna þess sem átti sér stað í oflætinu – hegðuninni, hugmyndunum, peningaeyðslunni, kynlífinu o.s.frv. Ég get ekki sagt til um með vissu hvort ég hafi alltaf lent í þunglyndislotu eftir hýpómaníulotu – en ég hef sannarlega upplifað skömm eftir að hafa verið full hress af og til. Oft kemur grátur eftir skellihlátur.

Meginmunurinn á maníu og hýpómaníu er að í hýpómaníu upplifir einstaklingur ekki geðrof. Fari einstaklingur í geðrof telst lotan manía. Geðrof er ástand þar sem einstaklingur getur ekki greint á milli þess sem er raunverulegt og þess sem er ekki raunverulegt. Dæmi um geðrofseinkenni eru ranghugmyndir, ofskynjanir og óskipulagðar eða samhengislausar hugsanir eða tal. Geðrof er lýsing á ástandi eða einkennum einstaklings, frekar en geðsjúkdómur útaf fyrir sig, og það tengist ekki geðvillu (e. psychopathy), sem er persónuleikagerð sem einkennist af skertri samkennd og iðrun, ásamt djarfri, óheftri og sjálfmiðaðri hegðun. Þess má geta að það sem einu sinni var kallað siðblinda (e. sociopathy) fellur nú undir skilgreiningu geðvillu.

Athugið að þunglyndis- og oflætislotur sem eru tilkomnar vegna lyfja- eða vímuefnaneyslu teljast ekki tengdar veikindunum geðhvörfum og eru því ekki gjaldgengar til greiningar.

Samhliða veikindi/samkvillar (e. comorbid conditions) eru afar algeng hjá einstaklingum með BP-II. Í raun eru einstaklingar tvöfalt líklegri til að lifa með samhliða veikindum en ekki. Á meðal samhliða veikinda eru kvíði, átröskun, persónuleikaraskanir og vímuefnaneysla. Fyrir BP-II er íhaldssamasta matið á lífstíðartíðni áfengis- eða annarra vímuefnaneysluraskana 20%. Hjá vímuefnaneytendum með BP-II vara loturnar lengur og meðferðarheldni minnkar. Forrannsóknir benda til þess að samhliða vímuefnaneysla sé einnig tengd aukinni hættu á sjálfsvígshugsunum.


Nákvæm orsök tvískautaröskunar er óþekkt, en talið er að hún sé sambland af erfðafræðilegum, líffræðilegum, sálfræðilegum og umhverfisþáttum.

Erfðir:
Tvískautaröskun er tiltölulega arfgeng, þó ekki þannig að allir afkomendur erfi hana eða að hún geri vart við sig í hverjum ættlið. En sé saga um geðhvörf í fjölskyldunni er það sterklega tekið til skoðunar í greiningarferlinu, upplifi aðrir blóðskyldir fjölskyldumeðlimir einkenni. Það bendir til vægis erfðafræðilegra þátta, en þó hefur ekkert eitt gen verið greint sem eina orsökin. Eins hafa rannsóknir á eineggja tvíburum sýnt að annar tvíburinn þrói ekki alltaf með sér geðhvörf þótt hinn tvíburinn sé með sjúkdóminn – svo þetta er ekki slétt og fellt.

Boðefni heilans:
Ójafnvægi í taugaboðefnum eins og serótóníni og noradrenalíni, sem stjórna skapi, getur átt þátt í þessu.

Framheilaþroski:
Framheilinn gegnir lykilhlutverki í ýmiskonar starfsemi, þar á meðal rökhugsun, rýmisgreind, minni, sjálfsstjórn, skipulagningu, ákvarðanatöku, dómgreind, óhlutbundinni (e. abstract) hugsun, persónuleika og tungumáli. Hann tekur einnig þátt í hreyfistjórnun og tjáningu almennt. Hann þroskast hægt á fyrstu árum ævinnar en þroskinn hefst svo fyrir alvöru samhliða kynþroska. Áður var talið að framheilinn væri fullþroskaður á aldrinum 16-18 ára, en nú til dags er jafnvel talað um að hann nái ekki fullum þroska fyrr en um 25 ára aldur. Þroskaskerðing eða skemmdir á framheila eru tengd ýmiskonar geðveikindum og stórar presónuleikabreytingar eru jafnan taldar til marks um framheilaskaða, t.d. af völdum höfuðhöggs, áfengis- og vímuefnaneyslu eða undirliggjandi ástæðna.

Þá geta atburðir í lífi fólks, eða lífsstíll, ýmist kallað fram geðhvörf í fyrsta sinn eða kallað fram lotur, séu geðhvörf þegar undirliggjandi. Þar á meðal eru:

Gikkir (e. triggers):
Streituvaldandi atburðir, svo sem sambandsslit, húsnæðismissir, atvinnumissir, ástvinamissir, fjárhagserfiðleikar eða misnotkun.

Neysla vímuefna:
Áfengis- og vímuefnaneysla getur haft áhrif á upphaf og feril geðhvarfasýki, hugsanlega kallað fram eða aukið einkenni.

Aðrir þættir:
Svefntruflanir, ákveðnir sjúkdómar og jafnvel árstíðabundnar breytingar geta einnig stuðlað að þróun eða versnun einkenna. Á Íslandi er talið að bjartar sumarnætur auki tilfelli oflætis.

Mikilvægt er að hafa í huga að þó þessir þættir séu taldir stuðla að tvískautaröskun, valda þeir henni ekki endilega. Nákvæmt samspil þessara þátta er mismunandi eftir einstaklingum, sem gerir það erfitt að benda á eina orsök.


Þó að ég eigi stundum erfitt með að viðurkenna að ég hafi upplifað mörg einkennin sem ég lýsi hér að ofan, einkum því mér finnst ég ekki alltaf eiga greininguna skilið, þá get ég samt sagt að þegar ég upplifi einkenni þá mæta þau ekki gangrýnni hugsun. Enda er það talið greiningarmerki að fólk er ekki meðvitað um ástand sitt, einkum oflæti. Á þeim stundum því þykja mér gjörðir mínar fullkomlega eðlilegar og það getur tekið mig nokkurn tíma að átta mig á samhengi hlutanna eftir að sjatnar. Ætli þetta væru annars einkenni, ef maður gæti stoppað sig af? Það sem truflaði mig mest, í þessari leit minni, var að ég hef ekki hugmynd um hversu lengi ég upplifi einkenni hverju sinni. Voru það fjórir dagar? Kannski bara þrír og hálfur? Kannski bara brot úr degi, annan hvern dag. Kom þetta og fór? Kannski upplifði ég ástandið án þess að sýna einkennin eða faldi þau. Hver ætlar að dæma og segja til um hvort ég uppfylli skilyrði til greiningar eða ekki?

Stutt frásögn sem ég fann á instagram gagnaðist mér nokkuð til að takast á við þessar hugsanir, hvort sem hún er sönn eða ekki:

„Bróðir minn brosti öllum stundum, átti marga vini, var fyrirliði fótboltaliðsins í skólanum, hélt uppi stuðinu í partýum og átti frábæra kærustu. Samt féll hann fyrir eigin hendi.“

Það er ekki allt klippt og skorið. Þessi frásögn minnti mig á samstarfskonu mína, frá því í seinasta pistli, sem horfði á mig með aðdáun og spurði hvort ég væri bara aldrei leiður. Mitt allra nánasta fólk, þá einkum makar, eru helst þau sem hafa fengið að kynnast öðru.

Það er áhugavert að sum einkenni falla undir báða flokka. Af minni reynslu get ég misst matarlyst af depurð eða doða, en þegar allt er á fullri ferð og orkan er mikil finnst mér ég ekki alltaf þurfa að borða. Svo á ég svosem líka tíma inni á milli þar sem ég vel að borða minna – en það er önnur saga. Svefnleysi sökum vonleysis eða kvíða, eða minnkuð svefnþörf vegna aukinnar orku tengi ég fast við, þó alla jafna sofi ég nokkuð vel. Ýmist fannst mér þessi einkenni, einkum einkenni BP-II, smellpassa við mig. Eða alls ekki. Ég var jafn sannfærður og ég var vonlaus um að þetta væri lausnin á öllum mínum vandamálum. En ég var í leit að lausn, helst töfralausn, og hamaðist við að haka í boxin svo ég væri nú einhvers virði.

Fyrst um sinn fannst mér mjög þægilegt að hafa svona vel útlistuð greiningarmörk. Það veitti mér öryggistilfinningu og skýra stefnu. Svo lengi sem ég hakaði í boxin væri ég löggildur. En eins og ég sagði þá er þetta ekki svona einfalt og ég velktist mikið í vafa um hvað ætti við, hvað ætti ekki við, hversu lengi það ætti við, hvort ég væri bara að ímynda mér hlutina eða hvað. Þegar ég kafaði ofan í það var skýrleikinn ekkert eins mikill og mér fannst í fyrstu, sem enn bætti á ringulreiðina.

Seinna í greiningarferlinu lærði ég svo mikilvæga lexíu, sem hefði verið gott átta sig á fyrr. Eins og í svo mörgu öðru eru svo ekki sömu greiningarkerfin á milli landa. DSM er mjög ítarleg handbók um greiningar, með mjög skilmerkilegum upplýsingum. Litið er til hennar í greiningarkerfum víða annarsstaðar í heiminum. En þetta er bandarísk handbók og upplýsingum úr henni þarf að taka með það í huga. Í Bandaríkjunum ríkir nefnilega nk. lögsóknarmenning eða ábyrgðarmenning (e. liability culture). Fólk beinlínis sætir færis á að lögsækja læknana sína. Þess vegna hafa þeir komið sér saman um ströng skilyrði. Bókin er belti og axlabönd. Samvinnan tryggir að einn læknir er í raun að vísa í sameiginlegt álit margra og er því ekki einn ábyrgur fyrir greiningunni. Ströngu skilyrðin tryggja að þau sem greinilega falla undir þau fá stimpilinn. Hún er ekki endilega skrifuð til að hjálpa fólki sem lifir með geðveikindum – heldur kannski frekar til að vernda læknana og því ætti að varast að taka henni sem heilögum kaleik. Þau sem passa svo kannski ekki eins greinilega undir hattinn eða upplifa vægari einkenni en DSM kveður á um eiga það til að verða utanveltu. Eins og ég. Upplýsingar um óskilgreind geðhvörf voru ekki mér ekki auðfundnar á þessum tíma og mér fannst ég þurfa að mæta öllum skilyrðum til að eiga séns í að þetta ætti við mig. Teljast fullgildur. Fá tíu.

En hvað sem öllu leið, strax eftir helgi hringdi ég á heilsugæslustöðina og pantaði tíma hjá geðlækni.


Hér má finna lista yfir þær helstu vefsíður sem ég leitaði mér upplýsinga á, fyrst um sinn. Lista yfir bækur, myndefni, samfélagsmiðla og annað mun ég birta seinna.

Athugasemdir

Færðu inn athugasemd