Við fyrstu skref þessa verkefnis sem ég hafði ákveðið að takast á við fannst mér mjög flókið að átta mig á geðheilsu minni og geði almennt. Það sem maður elst upp við og hefur tamið sér finnst manni nefnilega eðlilegt svo það er erfitt að koma auga á það sem amar að. Maður venst því. Kannski ekki ósvipað því að keyra bíl sem fer smám saman að bila. Eftir nokkur ár þarf nokkrar tilraunir til að ræsa hann, olíuljósið logar stöðugt, það er ekki hægt að skipta í annan gír og skottið lokast ekki almennilega. En það er allt í lagi. Ég er búinn að læra á hann og get látið þetta ganga. Í raun er allt eðlileg, á absrakt máta ef út í það er farið. Til þess að átta mig á þessu öllu byrjaði ég því ósjálfrátt á að setja hlutina í samhengi sem ég skildi betur. Það var mér einhvernveginn náttúrulegt. Kannski ekki ósvipað því sem við gerum í leikhúsinu. Fyrstu líkindin sem ég dró voru með líkamlegri heilsu minni. Nokkuð sem átti eftir að reynast mjög gagnlegt í að hjálpa mér að takast á við andlega heilsu mína og ég mun vísa endurtekið í. Vakavörun (e. trigger warning): Þessi frásögn fjallar um hósta, hor og slím og dregst dálítið á langinn! En leyfið mér að teikna upp mynd sem leiðir að niðurstöðu í lokin – og svo fer ég að tala um meira djúsí stöff. Ég lofa.
Síðan ég var barn hef ég átt í basli með ýmiskonar kvilla tengda kvefi. Lungun í mér, nefholið, slen og þess háttar. Ekki miklu basli – bara „smá“ asthma og ofnæmi. Aðallega bara vesen. Leiðindavesen. Ekki eitthvað sem tekur mig úr umferð heilu og hálfu dagana – þetta jafnar sig alltaf – en nóg til að draga úr mér, pirra mig og valda mér óþarfa álagi. Nú reyndar þegar ég horfi á stóru myndina sé ég að það hefur haft mun meiri áhrif á lífsgæði mín en ég myndi trúa, en hvert atvik útaf fyrir sig var bara, aftur – vesen. Þetta tímabil varði um það bil frá 10-27 ára aldurs, eða þar um bil. Síðan að vandinn var almennilega greindur og á honum tekið er vesenið nokkurnveginn úr sögunni og ég kvefast nú á við flest fólk.
Eitthvert sumarið, á bilinu 2003-2005 c.a., tók ég mynd á Nokia 3200 spjallsímann minn sem kjarnar vesen mitt og vanlíðan af völdum kvefs. Myndina birti ég á gömlu bloggi eftir skemmtilegum krókaleiðum. Ég hafði tengt símanúmerið mitt við vefþjónustu sem var skráð inn á Blogspot síðuna mína (sem birtist á mínu eigin léni) svo ég gat sent mynd í mms skilaboðum sem varð sjálfkrafa að bloggfærslu. Mjög tæknivætt á þeim tíma, takk fyrir pent – en þetta er útúrdúr. Myndin sýnir tvær tegundir af nefspreyi (kvef og ofnæmis), tvennskonar astmalyf, augndropa, ofnæmistöflur, verkjalyf eða sýklalyf og eitthvað fleira. Ég veit ekki með tyggjópakkann. Til viðbótar hef ég eflaust haft til handagagns dágóðan skammt af snýtipappír. Myndin fékk titilinn „Góður nætursvefn.“

Asthminn hefur fyrst og fremst valdið því að ég verð andstuttur þegar hans verður vart. Álag á lungun veldur bólgu í slímhimnu svo súrefnisupptaka minnkar. Við það eykst álagið enn á lungun sem aftur eykur bólgurnar í slímhimnunni svo úr verður vítahringur. Slímmyndun eykst, ég hósta eins og stórreykingamaður og það hryglir í mér lengi á eftir. Þegar verst lætur getur það tekið mig nokkra daga að jafna mig. Fyrst og fremst gerðist þetta við áreynslu, en ég átti það líka til að upplifa asthmaköst við snarpar hitabreytingar. Eitt slíkt kast átti ég á miðjum unglingsárum þegar við vorum nokkrir vinir saman í heimahús að kvöldi, snemma vors. Það var sæmilega hlýtt innandyra en kaldara úti þegar liðið var á kvöldið. Þar sem ég gekk áleiðis heim helltist yfir mig slíkt kast að ég afréð að snúa við og biðja um að mér yrði skutlað heim. Ég kom vart upp orði og mamman á heimilinu velti því upp hvort hún ætti frekar að fara með mig á sjúkrahús en heim. Ég stundi því upp að þetta væri nú allt í lagi en alla leiðina hef ég sennilega hljómað eins og ég væri dauðvona. En svo leið þetta hjá eins og allt annað. Á endanum hætti skröltið í miðstöðinni, þegar bíllinn var orðinn nógu heitur.
Áreynsluasthminn kom aftur á móti mest í ljós í leikfimitímum í grunnskóla, sennilega því að utan þeirra forðaðist ég eins og heitan eldinn að reyna á mig svo ég þyrfti ekki að ganga í gegnum þessar raunir. Í einu, blessuðu píptestinu var ég svo kvalinn af verkjum í lungunum eftir meðal frammistöðu (ef það) að ég sneri mér að íþróttakennaranum til að reyna að tjá vanlíðan mína – en gat á endanum ekki annað en farið að grenja. Ég gleymi seint viðbrögðum hans, greyið mannsins, þar sem hann í örvinglan glennti upp augun, veifaði lófum með útglenntum fingrum að mér og sagði „Nei ekki skæla. Ekki skæla!“ Þekkingunni og skilningnum var ekki fyrir að fara, sem er þó ekki hans sök.
Besta ráðið gegn viðvarandi asthma er að taka púst – stera í innöndunaralyfi sem vinna gegn þessum bólgum. Ég hef jafnan haft tvö púst – þetta fjólubláa (seretide) sem ég tek að staðaldri, tvisvar á dag, og þetta bláa (ventolin), sem ég tek eftir þörfum – þegar asthmans verður vart. Stærsta vandamálið mitt með þessi lyf var hinsvegar að ég lærði ekki almennilega á inntöku þeirra fyrr en hátt á þrítugsaldri. Það gat þýtt að ég tók þau ekki rétt svo þau höfðu engin áhrif, ég tók of lítið af þeim – nú eða of mikið.
Dæmi um það gerðist eitt sumarkvöld á unglingsárum mínum, í sumarvinnunni í Búrfelli. Það var svalt sumarkvöld, við vorum nokkur í leikjum utandyra og lágum svo í einum hólnum. Þetta litla álag og kuldinn settist í lungun á mér, ullu asthmakasti svo ég tók púst. Kastið þráaðist við svo ég tók annað púst. Ekkert gerðist og líðan mín var ekki góð svo ég hélt áfram að pústa mig lengi vel. Jafnvel nokkur púst í einum rykk. Ég átti mest að taka tvö. Á endanum bar þetta árangur en þá vissi ég ekki að ég hafði tekið of stóran skammt af pústinu svo annarskonar vanlíðan tók við. Ég beinlínis skalf og mig verkjaði í marga klukkutíma á eftir, sem eru klassísk einkenni ofskömmtunar sterapústs. Bjargráðið varð böl.
Svo er það ofnæmið. Sem barn var ég greindur með ofnæmi fyrir ryki, ýmiskonar frjókornum og loðnum dýrum, einkum köttum og hundum. Við þessum ofnæmum er til mýgrútur af ólyfseðilsskyldum lyfjum, svo það ætti að vera einfalt að halda þeim í skefjum. Ég hef þurft að reiða mig á ofnæmistöflur, nefsprey og augndropa en framanaf gekk mér mjög illa að finna rétta blöndu. Aftur, þá hafði ég ekki fengið góða tilsögn í notkun þessara lyfja. Stór hluti af vellíðan minni var því fólginn í að forðast ofnæmisvaldana. Rykið var (og er) reyndar erfitt að forðast í félagsheimilum og leikhúsum – stórum rýmum sem er ekki einfalt að halda tandurhreinum – og ég get ekki alltaf stillt mig um að klappa hundum og köttum. Bannsett frjókornin, sem ég hef mesta ofnæmið fyrir, var erfiðast að forðast þegar mest lét og jafnvel inni í miðjum stórborgum var ég stokkbólginn, stíflaður og pirraður. Suma dagana var eina ráðið að halda sig innandyra, daga þar sem flest fólk vill njóta veðurs og útivistar. Rigning er nefnilega guðsgjöf fyrir ofnæmispésa. Nema að henni lokinni. Þá eru allar plöntur frískar og æstar í að fjölga sér. Frjókornatímabil eru líka mismunandi eftir plöntum, svo í stað þess að taka þetta allt út í einum stuttum rykk dregst þetta á langinn yfir vorið og jafnvel fram á sumar. Að ég tali nú ekki um ef maður ferðast á mili Íslands og heitari landa, þar sem vorið byrjar fyrr. Þá getur maður fengið að upplifa það tvisvar.
Vegna þessa var ég sífellt kvefaður, ofan á árstíðarbundnar og eðlilegar kvefpestir. Ég segi gjarnan að ég hafi kvefast á sex vikna fresti, fimm vikur í senn. Þetta hljóma eins og ýkjur, en þetta lætur nokkuð nærri lagi. Og þegar kvefinu í sjálfu sér lauk sat ég uppi með slím í lungum og nefholi lengi á eftir. Ég man eftir að hafa farið hringferð um landið að vetri með nokkrum félögum á að giska 2002 og hóstaði stanslaust allan tímann. En ég var vanur að keyra þennan bíl og vissi hvar best væri að lemja í húddið til að halda honum gangandi. Þetta var ekkert vandamál, bara eitthvað sem þurfti að lifa við. Mamma hafði raunverulegar áhyggjur af því að ég fengi lungnaþemu fyrir tvítugt.
Ýmsar aðferðir hafa verið reyndar til að takast á við þessar afleiðingar kvefs og létta mér lífið. Á aldrinum 10-12 ára var allavega tvisvar skolað úr nefholinu á mér í aðgerð sem krafðist svæfingar, til að losna við slímið. Þær voru ekki framkvæmdar á Ísafirði, þar sem fjölskylda mín býr, svo ég þurfti að fara til Reykjavíkur. Eftir að slíkum aðgerðum var hætt fékk ég í staðinn stera í töfluformi þegar þurfti að hreinsa upp dreggjar kvefsins. Prednisolon, eða prednisone, tók ég af og til í átta til tíu daga – átta til tíu töflur á fyrsta degi og svo fækkað um eina á hverjum degi þar til kúrnum lauk. Það skipti engum togum, öndunarfærin hreinsuðust hratt af öllum skít – en áhrifin á skapið í mér voru ekkert grín. Ég varð eins og naut í flagi. Ég var bálreiður í um tvær vikur samfellt og leið algjörlega bölvanlega. Ég man eftir að hafa staðið við eldhúsvaskinn eitt kvöld og vaskað upp eftir kvöldmatinn, þegar að mér sótti svo gífurleg reiði að mig langaði að mölva hvern einasta disk og hvert einasta glas fyrir framan mig. Fleygja þeim í eldhúsveggina af afli. Öskra. Í augnabliks skýrleika gat ég staldrað við og spurt mig hvers vegna í ósköpunum ég væri svona svakalega reiður og mundi: „Ah! Alveg rétt – ég er á sterakúr.“ Samstundis rann mér reiðin eins og ekkert hefði í skorist. Diskarnir og glösin komust klakklaust frá.
Jafnvel þó ég væri ekki á sterakúr gat þetta samt allt hlaupið í skapið á mér. Sífelldur kláði í andliti, stokkbólgin augu og lekandi tár, hellur fyrir eyrum, hálsbólga, nefrennsli, þurrt nef eftir ofnotkun snýtipappírs, slen, orkuleysi, lélegur svefn, vanmáttarkennd og löngun í að geta tekið þátt í lífinu gátu verið mér ofviða. Þið hafið kannski einhver upplifað þetta – en þið hin getið tæplega gert ykkur grein fyrir því hvað þetta er glatað, nokkra mánuði í senn á hverju ári. Þó að vetrinum fylgi oft kvef var sumarið mér ekkert fagnaðarefni. Svo leggst þetta saman við þær undirliggjandi ástæður sem þetta blogg er jú mest um, hvað líðanina varðar.
En ég átti líka skrítnar og asnalegar leiðir til að kvefast. Eitt sumarið, á að giska milli 10 og 12 ára, vorum við fjölskyldan á ferðalagi um landið. Síðla dags komum við að sveitasundlaug til að skola af okkur ferðarykið. Þegar við runnum í hlað mótmælti ég þessum áformum og tilkynnti foreldrum mínum að ég ætti ekki að fara í sund – ég væri með ofnæmi fyrir klór og myndi bara kvefast. Þessi ekkisens vitleysa í drengnum, sem gerði hvað sem er til að koma sér undan minnstu hreyfingu og íþróttaiðkun, mætti litlum skilningi foreldranna sem beittu neitunarvaldi – svo ofaní fór ég. Degi eða tveimur seinna var ég kominn með bullandi kvef. Sem fyrr þýddi það langdregið ferli og leiðindi. Íbygginn svip föður míns man ég skýrt. Þetta þyrfti að kanna. Drengurinn var kannski ekki bara að plata. Upp frá þessu fékk ég vottorð í skólasund og hef eiginlega alveg forðast sundlaugar, þessar frábæru heilsulindir, síðan.
Svo á tímabili hófst kvefið mitt með sýkingu í lungum. Þetta gerðist sérstaklega þegar ég var á þrítugsaldri. Yfirleitt gerðist það einu sinni á ári, á fyrstu mánuðum ársins, en stundum oftar. Eftir að hafa hóstað í dag eða tvo fór ég að skjálfa og var bæði heitt og kalt á sama tíma. Stundum fór ég strax að skjálfa án þess að hafa hóstað nokkuð. Klárt merki um sýkingu og eina leiðin til að losna við hana var að fara á sýklalyfjakúr. Ég man helst eftir þessu skeiði yfir um fimm ára tímabil í London og ég var svo gott sem með heilsugæslustöðina mína á hraðvali í símanum. Þegar þetta byrjaði skildi ég ekki alveg hvað var í gangi svo ég reyndi að bíða og láta þetta líða hjá. Það gerðist ekki svo í staðinn var ég bara lengur úr leik, að óþörfu. Með tímanum áttaði ég mig á einkennunum og hringdi stundum samdægurs heilsugæsluna, jafnvel aðeins fáum andartökum eftir að einkenanna varð vart. Það er vinnuregla í Bretlandi (og eflaust víðar) að gefa ekki sýklalyf nema að lokinni skoðun svo það þýddi ekkert að lýsa einkennum mínum í símann, þó ég reyndi. Jafnvel þó ég benti á sjúkrasögu mína, sem heilsugæslan hafði skráða hjá sér, skyldi ég mæta. Sem betur fer var hún ekki langt frá heimili mínu en alltaf þurfti ég að staulast af vanmætti og í hvert sinn tóku læknarnir undir greiningu mína. Þá átti ég eftir að staulast aðeins lengra í apótekið og aftur heim.
Skrautlegast var í þessu öllu saman að ég gat tengt við kvef vatnsneyslu. Já – bara kranavatn eða vatn úr verslun. Ef ég drakk eðlilegt magn drykkjarvatns átti ég það til að finna fljótlega fyrir kvefeinkennum. Ég þornaði upp í hálsi, fann fyrir hálsbólgu sem fikraði sig upp í nefhol og degi eða tveimur seinna var ég stíflaður af kvefi. Þetta hljómar eins og algert vitleysa og vol – en á þessu er skýring sem ég kem að á eftir. Ég á mjög skýra minningu af æfingu fyrir nútímadansverk í London þar sem ég drakk vatn úr verslun og kvefið helltist mjög skarpt yfir mig. Það var mér til happs í þetta sinn að framleiðsla verksins var í höndum vinkonu minnar sem hefur dansinn að áhugamáli en er prófessor í læknisfræði við Harvard háskóla að aðalstarfi. Hún bjargaði mér eftirminnilega í þessu ferli. En úr því ég hafði þetta á tilfinningunni, galið sem mér fannst það, forðaðist ég að drekka vatn. Ávaxtasafar, mjólk, gosdrykkir – allir aðrir drykkir en vatn – höfðu ekki þessi áhrif. Þar með bættist vatn á listann yfir það sem ég forðaðist, ásamt hreyfingu, útiveru, hitabreytingum og sundlaugum. Ætli það sé nú?
Til þess að takast á við þetta allt saman þurfti ég (og þarf) allskonar hækjur sem ég hef þegar minnst á. Tvennskonar (og stundum þrennskonar) asthmapúst, ofnæmisnefsprey, kvefnefsprey, kvefvarnarnefsprey, ofnæmistöflur, vítamín, sýklalyf, sterar, verkjalyf, hitastillandi og þar frameftir götunum. Fyrir utan áhrifin sem lyfin geta haft á líkamann, s.s. í tilfelli sýklalyfja. Það snerist hreinlega allt um að halda mér gangandi, að forðast skaðvaldana og þrauka, dag frá degi. Þó að olíuljósið logi, það sé skrölt í miðstöðinni og handbremsan virki ekki almennilega skal keyra þessa druslu. Munurinn er kannski sá að bílar undirgangast reglulega skoðun til að staðfesta að það sé óhætt að keyra þá.
En er ég nú að segja? Jú – á um sautján ára tímabili í lífi mínu og á helstu mótunarárum mínum átti ég í sífelldu basli með frekar algenga og almenna grunnvirknivirkni í líkamanum sem flest okkar reiða sig á. Öndun. Aftur, ekki stórkostlega alvarleg veikindi sem fengu athygli færustu sérfræðinga og útheimtu meiriháttar inngrip – bara minniháttar vesen sem hafði tímabundin áhrif. Allt frekar algengt, engar langvinnar líkamlegar afleiðingar og ekkert ofboðslega áhugavert fyrir heimilis- og sérfræðilækna. Ég þurfti að þvælast um heilbrigðiskerfi tveggja landa um langt tímabil áður en ég gat farið að anda eðlilega. Og eins og ég segi hefur þetta vesen haft mun víðtækari áhrif á lífsgæði mín en ég hafði áttað mig á fyrr en ég set saman þessa stóru heildarmynd. En læknarnir eru ekki til þess að meðhöndla það. Ég þurfti að átta sig á því sjálfur. Nema ég gerði það ekki.
Ég hafði heyrt að til væru meðferðir sem vinna á ofnæmi og útrýma því í eitt skipti fyrir öll. Afnæming, sem sum kalla. Hafandi fyrir löngu fengið nóg leitaði ég, um það bil 27 ára gamall, til heimilislæknis míns og bað um að fá að fara í svona meðferð. Ég fékk tilvísun á konunglega háls- nef og eyrnaspítalann í London þar sem ég var tekinn til skoðunar. Það ferli tók nokkra mánuði með endurteknum endurkomum og að endingu fékkst niðurstaða í beiðni mína. Henni var neitað. Þar sem ég hafði áður þurft að taka sterana sem ég nefni hér að ofan var talin töluverð áhætta að ég myndi ekki lifa afnæminguna af. Þó það hefði svosem bundið enda á ofnæmið.
Læknirinn gat þó sagt mér annað. Auk þess að vera með asthma og ofnæmi glímdi ég við “secret third thing.” Ég væri með sk. allergic rhinitis, sem á íslensku ber hið aðlaðandi heiti þrálát nefslímubólga. Þetta er viðvarandi ástand þar sem slímhúðin í nefholi og kinnbeins- og ennisholum er viðkvæm fyrir bólgum og framleiðir meira magn slíms en er eðlilegt. Þetta slím er flestu fólki smurefni fyrir hálsinn. Það er í stöðugu rennsli og fæst fólk veitir því eftirtekt. En í mínu tilviki er offramleiðsla á þessu slími svo í stað þess að smyrja hálsinn bjó hann við stöðuga ertingu. Bakteríuflóran í hálsinum gat því auðveldlega farið úr skorðum, til dæmis með því að raska sýrustigi (drekka of mikið vatn) eða með efnum sem eiga ekki heima þar (klór). Útkoman varð sýking í hálsi sem breiddi úr sér upp í nefhol sem af sömu ástæðu viðhélt sér svo, þannig að illmögulegt var að losna við hana. Þið spyrjið kannski hvernig klórinn komst í öndunarfærin? Það er ekki eins og ég hafi drukkið sundlaugavatnið eða sprautað því inn um nefið á mér. Nei, en það er einhver leið á milli nefhols og augntófta, svo þegar ég fór í sund án sundgleraugna komst klór í kerfið. Ef ég fer með gleraugu er þetta ekki vandamál. Þó kitlar mig enn í nefið þegar ég anda að mér klórblönduðu lofti sundlauganna.
Með þessa þrjá samverkandi þætti í huga var loks komin skýring á því hvers vegna ég kvefaðist svona oft og hvers vegna kvefin voru svona þrásetin. Þarna var loksins komið púslið sem vantaði. Svarið var að nota réttu lyfin og nota þau rétt. Það grátlegasta við þetta allt saman er að ég var að mestu að nota lyfin sem á endanum hafa unnið bug á þessu basli nú þegar, ég hafði bara ekki fengið almennilegar leiðbeiningar um hvernig ég ætti að beita þeim. Sérfræðilæknirinn sem hafði mig til meðhöndlunar lagði mér skýrar reglur. Ég skyldi skipta um ofnæmistöflur og taka þær daglega, árið um kring. Ofnæmisnefspreyið mitt skyldi ég líka taka tvisvar daglega. Beina því á sérstakan hátt inn um nefið. Það er sterasprey sem dregur úr stærð kirtla í nefholi sem valda þessari offramleiðslu. Áður fyrr var víst hægt að láta taka þá en það var ekki gert lengur. Asthmalyfin hafði ég fengið betri kennslu á fáeinum árum áður, þegar ég var staddur í York sem svaramaður í brúðkaupi vina minna. Kvöldið fyrir brúðkaupið þurfti guminn að fara með mig á heilsugæslu þar sem á mig var fest gríma og ég látinn anda að mér extra sterkum sterum í um hálftíma. Þegar ég hafði jafnað mig á kastinu spurði hjúkrunarfræðingurinn mig hvort ég notaði ekki asthmalyf. Ég sýndi henni hvernig ég tók þau og eftir það tók hún mig í kennslustund. Sagði mér hvernig ég ætti að beita þeim og útskýrði virkni þeirra fyrir mér.
Um þremur til fimm vikum eftir þessar leiðbeiningar sérfræðilæknisins upplifði ég nokkuð sem ég mun seint gleyma. Ég var staddur á suðurbakka Thames á sólríkum sumardegi og ég gat dregið andann. Það sem meira var, ég fann loft flæða um nefholið þar sem ég hafði aldrei fundið það áður. Kaldan gust sem fyllti vitin og þandi út lungun. Áreynslulaust.
Með tímanum (og hentugri lyfjablöndu) hefur dregið svo úr áhrifum asthma, ofnæmis og kvefs að það hamlar mér ekki nema örsjaldan í hversdeginum. Eins hef ég náð að finna hentuga blöndu lyfja til að hreinsa upp kvefið, sem þarfnast enn smá hjálpar. Þá er ég sífellt til í að prófa nýjar hálstöflur, nefsprey og hvaðeina til að vita hvort til séu enn betri lausnir. Vissulega er vesen að þurfa að drösla öllum þessum lyfjum með sér – en það er bliknar í samanburði við hitt. Mesta guðsgjöfin hefur falist í pseudoefidríni, sem er ólyfsseðilsskylt í Bretlandi en því miður ekki fáanlegt á Íslandi. Ofan á allt saman þarf ég því að birgja mig upp af lyfjum af og til.
Sérfræðilæknirinn sagði m.a. að með svona stífri lyfjanotkun gæti mögulega dregið úr ofnæminu, nefslímubólgunni og jafnvel asthmanum. Ekki það, ef ég fæ flensu eða kvef, sem nú gerist á eðlilegum tímum frekar en í sífellu, getur jú tekið mig smá auka tíma að ná því úr lungunum í mér og vissulega klæjar mig enn í augun þegar hæst lætur á vorin. Leiðinlegustu áhrifin eru kannski að þó sjáanlegu einkennin séu ekki áberandi fylgir því samt ennþá þreyta og slen á meðan kerfið er í viðbragðsstöðu. Í Dijon í Frakklandi, þar sem ég sit og skrifa þetta, er vorið er vel á veg komið svo mig hefur klæjað í augun í heila viku. Kvefaðist meira að segja smá þegar ég skildi gluggann á hótelinu eftir opinn eina nótt. Álagið hefur verið kerfinu um megn. En mér sýnist kvefið vera að hörfa eftir aðeins einn dag og þetta er í heildina mun skárra.
Þetta ferli hefur verið langdregið og leiðinlegt, ég hef þurft að tala við marga lækna, ég hef fengið misvísandi skilaboð, ég hef fengið mismunandi greiningar og ég hef þurft að leita margskonar ráða. Endurtekið reyndi ég að meðhöndla asthma og ofnæmi án þess að átta mig á að ég þyrfti að höndla eitthvað til viðbótar sem ég vissi ekki að amaði að. Nýverið var mér svo bent á að skoða afleiðingar langvarandi notkunar asthma- og ofnæmislyfja, sem mér hafði ekki dottið sjálfum í hug. Þær eru til staðar en ég var bara svo þakklátur að fá þessa lausn að ég gat ekki ímyndað mér að hún hefði slæmar afleiðingar.
Gleymi ég að taka lyfin mín í nokkra daga fæ ég að finna fyrir því – sérstaklega ef kjöraðstæður eru fyrir hendi. En lífsgæði mín eru margfalt, margfalt meiri en áður. Það hljómar kannski undarlega að segja þetta – en ég get andað.
Þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta allt saman, sjáiði til, ekki svo ósvipað því sem ég hef upplifað í leit minni að betri geðheilsu.
Færðu inn athugasemd