Ég var sautján ára þegar ég gekk fyrst inn á geðdeild. Það var um sumar og þá var ég í hópi unglinga sem höfðu sumarvinnu hjá Landsvirkjun, í Búrfellsstöð í Þjórsárdal. Við vorum á bilinu þrjátíu til fimmtíu og gistum á svæðinu, á nokkurskonar heimavist. Aðra hvora viku unnum við mánudag til hádegis á föstudegi, en hina vikuna til fimmtudagskvölds. Rúta gekk frá Reykjavík og í gegnum Selfoss sem ferjaði okkur á milli. Þar sem nánasta fjölskylda mín býr á Ísafirði hafði ég aðsetur um helgar hjá ömmu minni og afa í Reykjavík. Í einni rútuferðinni spurði stelpa í hópnum, sem sá ekki í gegnum grímuna: „Ert þú bara alltaf glaður? Verðurðu aldrei leiður?“
Sumarið áður var gróðurofnæmi mitt svo slæmt að ég gat varla á mér heilum tekið utandyra, svo þetta sumarið fékk ég eina starfið innandyra sem í boði var. Strax í upphafi sumarsins upplifði ég mikla vanlíðan, ef hún var þá ekki löngu búin að koma sér fyrir án þess að ég hafi veitt henni athygli. Ég kunni ekki deili á þessum tilfinningum þá en myndi í dag kalla þær alvarlegt og langvarandi kvíða- og þunglyndiskast. Í starfinu innandyra hafði ég aðgang að tölvu, sem annars voru ekki aðgengilegar okkur krökkunum – ef frá er talin ein af þessum gömlu, litríku iMac tölvum með túbuskjám sem einn strákurinn kom með með sér, en var auðvitað ekki nettengd. Fyrir rælni leitaði ég svara á netinu og rambaði á einhverskonar sjálfsmatspróf á íslensku, merkilegt nokk árið 2002. Ég svaraði samviskusamlega og niðurstöðurnar voru ótvíræðar. „Þú ert þunglyndur.“ Eða kannski stóð að það væri líklegt að ég væri þunglyndur eða hvernig sem það var orðað. Í öllu falli var að mér var sagt að ég yrði að leita mér hjálpar. Þessa vikuna var fimmtudagsvika svo það lá beint við. Á föstudagsmorgni leitaði ég mér hjálpar.
Þann 21. júní 2002 gekk ég því inn á göngudeild geðdeildar. Kannski var það það eina sem mér datt í hug – kannski var það það eina sem var í boði fyrirvaralaust. Ég hafði ekki bókað tíma og ég hafði ekki fengið tilvísun. Ég bara mætti. Með árunum hef ég lært að meta ýmiskonar arkitektúr – þar á meðal húsnæði geðdeildar – en fyrir aðframkominn 17 ára strák, einan í heiminum á stað sem var umvafinn stigma og fordómum, virkaði hann yfirþyrmandi og þrúgandi. En kannski var allt bara yfirþyrmandi og þrúgandi í þessu ástandi hvort eð er. Meðferðis hafði ég bakpoka sem í voru útprentaðar niðurstöður prófsins á netinu. Þetta voru þung skref, en stór. Þessi heimsókn mín á geðdeild kom til tals þegar ég leitaði til geðlækna í greiningarferli mínu árið 2020. Einn geðlæknirinn benti mér á að fá útskrift úr sjúkraskýrslunum af geðdeild, sem ég og gerði. Á dagnótu þessa dags segir í reitnum aðkoma: bráðatilvik. Í reitnum fylgd stendur: á eigin vegum. Ég sagði engum hvert ég fór þennan morguninn.
Þar sem ég átti ekki tíma beið ég nokkra stund eftir að röðin kæmi að mér. Ég var óöruggur innan um fólkið sem sat á biðstofunni með mér, flest eldri en ég og flest – ef ekki öll – karlmenn. Mér fannst ég hafa skipað mér í flokk með fólki sem ætti ekki upp á pallborðið hjá samfélaginu og nú yrði ekki aftur snúið. Loks sótti mig geðhjúkrunarfræðingur og það eru hennar nótur sem ég vísa í hér að ofan. Hennar hlutverk var fyrst og fremst að fá af mér einhverskonar mynd og meta næstu skref. Nótan hennar tekur fram helstu staðreyndir um mig og nokkra punkta um hvernig ég lýsi líðan minni. Hún afréð að vísa mér áfram til geðlæknis svo ég fór aftur fram og beið.
Loks er ég kallaður inn til geðlæknis. Ég man aðeins örlítið eftir viðtalinu við geðhjúkrunarfræðinginn en viðtalið við þennan geðlækni er sem greypt í huga mér. Í minningunni er stofan ógurlega löng, eins og séð í gegnum gleiðlinsu – sem hún var auðvitað ekkert. Geðlæknirinn hafði skrifborð sitt við enda stofunnar og ég settist í stól upp við borð fyrir um miðja stofu. Bilið okkar á milli virkaði óralangt.
„Og hvað get ég gert fyrir þig?“ spurði hún, allt að því yfirlætislega. Ég opnaði bakpokann, dró upp útprentaðar niðurstöður netprófsins og stamaði útúr mér „Ég… ég held að ég sé þunglyndur.“ Stór og mikil orð fyrir ungan og bugaðan mann. Það stóð ekki á svari hjá geðlækninum: „Já! Ertu búinn að greina sjálfan þig?“ Yfirlætið leyndi sér ekki í þetta sinn og ég vissi ekki hvað ég átti að segja. Það næsta sem ég man er að hún rétti mér lyfseðil með orðunum „Hérna. Taktu þetta“ og sendi mig svo öfugan út. Ég er nokkuð viss um að tíminn varði aðeins brot af þeim tíma sem ætlaður er í hverja heimsókn. Með lítinn skilning á ástandi mínu – og enn minni á því sem hafði þarna gerst – fannst mér ég hafa verið afgreiddur á færibandi. Að ekki hafi verið hlustað á mig og ég var enn ráðvilltari en áður.
Meðal þess sem kom mér mest jafnvægi var að á þessum tíma var ég harðlega andvígur notkun geðlyfja. Eflaust var birtingarmyndum geðlyfja í dægurmenningu um að kenna. Sögur af fólki sem dofnar upp af lyfjanotkun og þráir ekkert meira en að hætta á þeim hræddu. Mér fannst eins og geðlyf væru síðasta sort og að það væru aðeins alvarlega veikir einstaklingar sem vissu hvorki í þennan heim né annan sem þyrftur á þeim að halda. Mér fannst sem ég ætti að geta lifað án hjálpartækja og borið ábyrgð á eigin hegðun og líðan. Í staðinn vildi ég einfaldlega fá einhverskonar samtalsmeðferð, stilla mig einhvernveginn af og var viss um að ég gæti staðið mig.
Þessi dagur var eins bjartur og fagur og þeir gerast, en ekki innra með mér. Seinna sama dag, að ég held, varð ég samferða föðursystur minni sem átti erindi í Smáralind en á bílastæðinu fyrir utan brotna ég niður. Ekki á krúttlegan hátt þar sem allt er lítilsháttar ómögulegt og það þarf bara að taka utan um mig og hughreysta mig. Nei, ég brotna niður með í djúpstæðri reiði og vonleysi. Frænka mín blés verslunarferðina af, í kærleika. Hún sá að ég þarfnaðist hjálpar, þó að mér hafi fundist ég bara þurfa að þurrka tárinn og setja aftur á mig grímuna eftir að hafa misst hana um stundarsakir. Á einhvern hátt frétta foreldrar mínir á Ísafirði hvað hafði gerst. Kannski í gegnum frænku mína, en ég man ekki eftir að hafa sagt henni hvar ég hafði verið. Kannski vissu foreldrar mínir það ekki heldur á þessum tíma og ég ætla þeim það bara í minningunni. Hvað sem því líður hringir faðir mínn í mig og spyr mig einfaldlega „Viltu að ég komi suður?“ Skælandi (já eða sennilega hágrátandi) svara ég því játandi. Ég man ekki hvenær í tímalínunni þetta gerðist en í minningunni kastaði hann frá sér öllu í vinnunni og keyrði rakleiðis til Reykjavíkur.
Pabbi beitti sér fyrir því að ég fengi einhvern botn í þessa meðhöndlun svo mánudaginn 24. júní, strax eftir helgi, fékk ég aftur tíma – í þetta sinn hjá yfirlækni geðdeildar. Pabbi fylgdi mér í viðtalið og aftur rek ég raunir mínar. Ég útskýri móttökurnar sem fyrri geðlæknir veitti mér og segist ósáttur við að hafa ekki fengið betri aðhlynningu. Ég var handviss um það að ég þyrfti ekki á lyfjum að halda og óskaði eftir að fá að komast að hjá sálfræðingi. Ég nefndi það ekki, en ég var staðfastur í því að geta borið ábyrgð á eigin líðan, tilfinningum og hegðun án allra aukaefna. Þetta samtal sem ég bað um átti einhvernveginn að gefa mér það en ég sá fyrir mér að lyfin myndu deyfa mig, taka af mér sjálfsákvörðunarrétt og þurrka út persónuleika minn. Eftir nokkuð spjall vísar hann mér áfram á samtalsmeðferð á geðdeild þangað til sumarstarfinu lyki. Það sem eftir lifði sumars voru því allar vikurnar mínar fimmtudagsvikur svo ég gæti sótt sálfræðitíma á föstudögum. Þetta var auðvitað opinberandi á sinn hátt – að það hafi verið vitað í hópnum að ég þyrfti að sækja sálfræðitíma á hverjum föstudegi. Eða ég held þau hafi vitað það, þó ég haldi að ég hafi ekki sagt frá því. Tímarnir fundust mér gagnlegir og sem líðan mín batnaði eftir því sem leið á, en meira um það seinna.
Það setti þessa reynslu mína af geðdeild þó í nýtt samhengi að fá gögnin úr sjúkraskrá. Ég kann ekki alveg að lýsa hvað mér finnst um þau. Kannski endurspegla þau þekkingarleysi eða áhugaleysi – í versta falli lítilsvirðingu. Í þeim finnst mér kjarnast hvað það getur verið erfitt að finna úrlausn sinna mála eftir að maður hefur loksins safnað hugrekki til að leita hennar. Lestur þeirra kom mér verulega á óvart en fólki sem ég þekki og hefur reynslu af geðheilbrigðiskerfinu var ekki minnsta brugðið.
Fyrsta dagnótan, sem kallað er, er nóta geðhjúkrunarfræðings sem ég minntist á hér að ofan. Hún er nokkuð blátt áfram og ekkert út á hana að setja. Næsta nóta ætti að vera nóta geðlæknisins sem ég hitti þar á eftir, sama dag – en hún er það ekki. Þess í stað kemur nóta frá yfirlækni geðdeildar, þremur dögum seinna, þar sem hann hefur m.a. orð á því að nótu fyrri geðlæknis vanti. Þriðja nóta er svo eftiráskrifuð nóta fyrri geðlæknis, dagsett þriðjudaginn 25. júní, sem er í nokkurri mótsögn við upplifun mína af þessum tíma. Nóturnar þar á eftir eru frá sálfræðimeðferðinni sem ég fékk þetta sumarið.
Nokkur atriði í þessum nótum vöktu undrun mína – ef ekki reiði.
Í nótu yfirlæknis geðdeildar, frá tímanum sem pabbi fylgdi mér í, segir til að byrja með „Kemur nú aftur ásamt föður sínum til að reka á eftir einhverjum aðgerðum í sínum málum. Hann hitti […] f. helgina en ég finn ekki hennar færslu.“ Gott og vel, skorinort en skrítið þó að finna ekki færsluna frá því fyrir helgi. Það er ekki eins og tíminn hafi farið svo fram úr að það hafi ekki gefist færi á að skrifa nótuna. Þar á eftir fylgir lýsing á líðan minni á þeim tíma, sem læknirinn telur helgast af persónuleika mínum. Eða eins og hann orðar það: „Hefur mikinn áhuga á leiklist og hefur greinilega mikla tilhneigingu til að dramatíséra [sic] lífið og eigin tilveru.“ Seinna í sömu nótu segir: „Kvartar á dramatískan hátt undan miklum skapsveiflum upp í hæstu hæðir og niður í dýpstu dali.“ Á eftir fylgir „Virkar á engan hátt þunglyndur á mig; en fullur af orku […].“ Þar höfum við það. Skapsveiflur upp í hæstu hæðir og niður í dýpstu dali sem ég kvarta undan á dramatískan hátt. En sennilega bara því ég hef áhuga á leiklist. Ég minni á að þetta er faglegt mat yfirlæknis geðdeildar. Eftir á að hyggja hefði ég haldið að einkennin hefðu átt að vera fagfólki augljós, allavega tilefni til að frekari athugana, en þess í stað voru þau hundsuð. Þótt ómerkileg. Stakkels leiklistarstrákurinn.
Daginn eftir má finna nótu fyrri geðlæknis. Hún er nokkuð skilmerkilega skrifuð, greinir vel frá því sem ég hef að segja en bætir svosem engu við það sem nóta geðhjúkrunarfræðings hefur þegar sagt. Í raun eru þær merkilega samhljóða. Í niðurstöðu nótunnar segir svo „Lyf gætu ef til vill hjálpað eitthvað en fyrst og fremst þarf hann á sálfræðimeðferð að halda.“ Nótunni lýkur svo með orðunum „Ræðum um mögulega lyfjameðferð en Friðþjófi líst ekki sérlega vel á það. Meðferðaraðili hans hér á göngudeild getur haft samband við lækni hér síðar ef þurfa þykir.“ Við skulum muna að eftir þennan tíma hafði mér ekki verið fenginn neinn meðferðaraðili.
Þessi frásögn er í hrópandi mótsögn við upplifun mína þar sem ég fékk ekkert samtal, þó ég hafi mögulega stunið því upp að ég vildi síður taka lyf þegar mér var réttur lyfseðillinn. Mér virðist sem þessi nóta hafi í besta falli verið skrifuð eftir á og í versta falli skálduð, eftir að ég ítrekaði hjálparbeiðnina með liðsauka og farið var að spyrjast fyrir um gögnin. Eftir að fékk meðhöndlun sem virðist frekar ætluð kerfinu en sjúklingnum. Sennilega hefði ég þurft lyf fyrr á ævinni en þá hefði ég kannski gagnast að eiga samtal um þau. Ekki fá þeim slengt framan í mig. Svo er hitt, að það ekkert víst að þau lyf sem þarna var skrifað upp á hefðu gagnast mér því enn átti heilmargt eftir að gerast sem myndi betur greina geðslag mitt. Ég hef m.a. lært að þunglyndislyf geta haft alvarleg áhrif á fólk með tvískautaröskun, virkjað oflæti og því varðað gáleysi að ávísa slíkum lyfjum.
Auðvitað kemur ýmislegt til að ég fékk þessar móttökur. Mannekla, undirfjármögnun, sumarleyfi, eftirspurn eftir þjónustunni, mismunun á milli alvarlegra sjúkdóma og þeirra sem læknum þykja kannski ekki eins spennandi, fordómar samfélags og einstaklinga, e.t.v. hvaða áhrif þau hafa á þjónustuveitendur og fleira. Samkvæmt því sem ég hef lesið hefur skilningur geðlækna á geðhvörfum einnig vaxið umtalsvert á undanförnum árum – langt umfram það sem áður var. Vafalaust væri öðruvísi tekið á móti nákvæmlega sama tilfelli í dag. Innviðir eru aðrir. En hverjar sem ástæðurnar eru þá breyta þær ekki upplifun minni. Ég þurfti að taka á öllu mínu til að leita mér hjálpar og í stað þess að fá hana fannst mér ég þurfa að berjast. Slíkt er ekki hvetjandi, drífandi eða hughreystandi heldur þvert á móti. Kannski er eðlilegt að þurfa að pönkast dálítið til að fá það sem maður þarf á að halda, sérstaklega þegar um flókin mál er að ræða í stóru kerfi, hvers kyns sem vandamálið kann að vera. Kannski er þetta einmitt það sem fólk með flókin veikindi af öllum toga þarf að glíma við. En í djúpu þunglyndi eða öðrum alvarlegum veikindum, þegar maður á erfitt með hversdagslegustu athafnir, er ekki mikið pönk í manni. Ég þurfti aðhlynningu – ekki andstöðu. Það sem eftir lifði sumars sótti ég sálfræðitímana sem ég mun ræða seinna, í stærra samhengi.
Ekki má lesa svo í þessa frásögn að ég leggist gegn því að fólk leiti til geðlækna eða geðdeildar. Það getur verið mikilvægt og oft nauðsynlegt. Margt hefur breyst til batnaðar en svo er líka vert að hafa hugfast maður passar endilega ekki við hvern sem er. Sjálfur þurfti ég að leita víðatil að finna út úr mínum málum frá 2020. Þetta er bara mín upplifun á þessum tíma og hluti af því sem ég hef þurft að ganga í gegnum til að finna út úr vanlíðan minni. Skref sem hefur átt þátt í að móta mig og hluti af þeirri sögu sem ég segi.
Þar sem ég hugsa til baka og skrifa mína frásögn átta ég mig þó á hversu erfitt mér var að opna mig um líðan mína og leita hjálpar í nærumhverfi mínu – ef ekki óhugsandi. Mér fannst ég eiga að geta staðið á eigin fótum, haft stjórn á skapi mínu og skammaðist mín fyrir að þurfa hjálp. Mér fannst þetta veikur blettur sem myndi fylgja mér og fólk myndi nýta sér gegn mér. Kannski vildi ég ekki vera byrði. Í öllu falli vildi ég ekki að neinn vissi. En þegar allt kom til alls er það fólkið mitt sem stóð með mér og hefur haldið áfram að gera það.
Þessi leyndarhyggja mín hefur aldeilis snúist við, til hins betra. Mikilvægasta lexían í þessu öllu saman hefur einmitt verið að leita eftir stuðningi og að það er ekki ráðlegt að leggja einn upp í svona ferðalag. Og sama hvar maður er staddur er aldrei of seint að biðja um stuðning. Best er auðvitað að fylkja í kring um sig smávegis liði. Fólk hefur misjafnt fram að færa og er mis aflögufært á mismunandi tímum. Þannig mæðir líka minna á hverjum og einum. Eins getum við boðið aðstoð. Deilt reynslu. Við eigum ekki að keyra okkur í þrot við að aðstoða fólk – við verðum að setja súrefnisgrímuna á okkur fyrst, áður en við aðstoðum annað fólk. Og við eigum ekki halda að við björgum einum eða neinum – en við getum kannski skipst á að bjarga einu og einu augnabliki.
En þetta er alltsaman líka flókið. Á vissan hátt opnaði ég mig því það stóð ekki steinn yfir steini lengur og ég átti ekki annað eftir. Og þó ég reyndi að opna mig um allt gat ég bara opnað mig um sumt við suma. Seinna, meira að segja þegar flest var brostið í kring um mig og ég hélt ég væri orðinn flinkur í að opna mig og leita stuðnings, hélt ég dauðahaldi í þá ögn sem eftir var. Kannski er það eðlilegt – að passa upp á það litla sem maður á. Reyna að halda í einhverja ímynd og hugmynd um sjálfsvirðingu sem er kannski bara til í manns eigin höfði, í stað þess að byggja upp að nýju og eiga sína sögu.
Upplifun mín er þó ekkert einsdæmi. Það er mörgum mjög erfitt að biðja um hjálp og fólk bíður oft fram í rauðan dauðann. Það á ekki bara við andleg veikindi heldur er vel þekkt hvað t.d. eldri kynslóðir og karlmenn veigra sér við að leita sér hjálpar með mjög margt. Spyrja til vegar, sinna viðhaldi, ráða fram úr hagnýtum málum og svo framvegis. Jafnvel þó að það sé mun einfaldara, ódýrara og árangursvænna. Gæti jafnvel verið lífsbjörg. Á sama tíma þykir sjálfsagðasta mál að fá hjálp við sumum veikindum. Fótbrotinn einstaklingur gengur ekki einn og óstuddur inn á bráðamóttöku. Handleggsbrotinn einstaklingur keyrir ekki langt af sjálfsdáðum. Fólk með blæðandi sár á ekki að hreyfa sig heldur að fá aðhlynningu annarra með hraði. Við þurfum öll aðstoð og því fyrr sem hún berst – þeim mun fyrr sem við biðjum um hana og þiggjum hana – þeim mun fyrr náum við tökum á því sem bjátar á. Opið samtal og samstaða um geðheilsu er ekki síður samfélaginu öllu til góða. Myndar nokkurskonar samfélagslegt ónæmi sem er t.d. mikilvægt þegar maður þarf að ræða mis góðar móttökur hjá fagaðilum. Vissulega þurfum við þó líka að gera þetta á okkar forsendum og sumt upp á eigin spýtur. Sumt skiljum við ekki sama hvað aðrir útskýra fyrir okkur. Sumt þarf að upplifa til að átta sig á því. Þetta er jafnvægislist.
Stundum getur annað fólk samt líka þvælst fyrir. Sum þola ekki að sjá önnur þjást og þurfa að leysa það eins hratt og hægt er – fyrir sjálf sig, án þess að hugsa út í þarfir þess sem þjáist. Annað fólk er lausnamiðað og snöggt að koma auga á þá beinustu leið sem hentar þeim, án þess að átta sig á að leiðin sem þau sjá fyrir sér hentar ekki endilega þeim sem þau ætla sér að leiða. Verða jafnvel pirruð þegar þau ætla að arka af stað og skilja ekki af hverju fólkið sem það er að reyna að hjálpa fylgir ekki í humátt á eftir. Enn önnur hafa ekki lært eða ræktað þá hæfileika sem þarf til að takast á við það sem fyrir liggur – hafa kannski ekki alist upp í umhverfi sem viðurkennir vanlíðan og vinnur með hana – og geta því ekki gefið af sér. Skammast sín kannski, eru feimin eða finna finna til vanmáttar. Forðast að horfast í augu við erfiðleikana. Ég hugsa að það sé mögulega algengast.
Kannski er svo erfitt að átta sig á hvaða hjálpar er þörf fyrr en ferðalagið hefst eða er komið áleiðis. Og kannski finnst hún svo ekki hjá manns nánustu. Flest sambönd geta verið jafn strið og þau eru góð, erfið sem þau eru dásamleg – hvort sem er innan fjölskyldu, milli vina, við maka eða önnur. Kannski fæst svo hjálp en hún breytist með tímanum eftir því sem ferðinni vindur fram og fólk þroskast. Þá getur maður þurft að leita á önnur mið og því geta fylgt allskonar tilfinningar. Kannski berst hjálpin óvænt og úr óvæntri átt, þó ég myndi frekar mæla með að fólk taki af skarið en bíði í von og óvon. Kannski hafa erfiðleikar brennt einhverjar brýr og stuðningurinn fæst ekki frá vinum, fjölskyldu, maka eða vinnustað fyrst um sinn. En það eru önnur ráð. Það má leita til fagaðila, í hjálparsíma, til samtaka eða þess háttar. Stundum getur verið gott að tala við ókunnuga, gefa sig að fólki sem hefur tekið þátt í umræðunni fyrir opnum tjöldum. Svo er ekki sjálfgefið að leita sér hjálpar eða biðja um stuðning – nú eða veita. Það eru hæfileikar sem þarf að læra, rækta og viðhalda. En það er sannarlega eitt mikilvægasta verkfærið, í mínum huga.
Þó svona barátta sé sjaldnast þrautalaus óska ég engu að þurfa að upplifa svona mótlæti. Það er þó ekki alltaf einfalt að bjóða fram aðstoð. Hún á ekki alltaf við og getur geigað. Stundum er svo jafnvel nóg að vita af fólki sem er til staðar án þess að á það reyni. Engu að síður vil ég reyna mitt besta og „pay it forward.“ Því geri þessi orð geðlæknisins að mínum og segi, við hvert það sem þarf, þó án alls yfirlætis: „Hvað get ég gert fyrir þig?“ og hvet öll þau sem treysta sér til þess að gera það sama.
Færðu inn athugasemd