MyPolar

Beggja skauta byr

1. Smitrakning

Árið 2020 reyndist mörgum erfitt. Heimsfaraldur setti flest það sem hægt var úr skorðum og hafði m.a. geigvænleg áhrif á starfsgrein mína – sviðslistir – á heimsvísu. En sjaldan er ein báran stök. Auk þess að missa lífsviðurværið gekk ég í gegnum skilnað og missti þar það sem mér var kærast. Um sama leyti komst svo að því að fleira amaði að í mínu lífi. Þetta tvennt síðasta er óneitanlega tengt.

Allt gerðist þetta á fyrstu mánuðum ársins. Í upphafi þess var ég við uppsetningu á tveimur leikritum í leiklistarskóla í Bretlandi og meðfram framgangi verkefnanna fylgdist með framgangi veirunnar frá Kína og vestureftir. Undir lok árs 2019 hafði ég óafvitandi næstum átt leið um lendur hennar, þegar ég vann við uppfærslu í Kína og hafði næstum farið til Wuhan að skoða leikhús sem ég hafði átt þátt í að hanna. Örlögin gripu í taumana og þess í stað fór ég annað, einnig í tengslum við hönnun á öðru leikhúsi. Þrátt fyrir að fylgjast með faraldrinum færast nær gerði ég mér ekki grein fyrir áhrifunum sem hann átti eftir að hafa. Það hvernig ég var ómeðvitaður um veikina þegar ég var í Kína og stóru myndina seinna meir er lýsandi fyrir það sem ég átti eftir að læra um sjálfan mig.

Að verkefninu í Bretlandi loknu stóð til að verkefni á Íslandi tæki við, svo þangað hélt ég, grunlaus um hvaða verkefni beið mín. Veiran varð aftur nokkurnvegin samferða mér svo ég hafði aðeins verið á Íslandi í fáeina daga þegar lokað var fyrir samgöngur milli Íslands og Bretlands – og svo til um allan heim. Þannig varð ég orðinn afturreka frá heimili mínu ofan á að hafa tapað vinnunni og hjónabandinu. Farið var að sjónvarpa upplýsingafundum almannavarna daglega. Læknar, sérfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk hömuðust við að taka, greina, skrá og rekja sýni. Óvissan í samfélaginu var alger. Á sama tíma og við glímdum sem samfélag við þessar ytri aðstæður ríkti samskonar ástand innra með mér. Óvissa. Spenna. Ringulreið. Á sama tíma sat ég nefnilega við nokkurskonar smitrakningu á sjálfum mér.

Mig hafði svosem tekið að gruna að það væri ekki allt með felldu. Sennilega hafði ég verið veikur um langt skeið, líklega alla ævi. En þar sem þessi hugsanlegu veikindi voru ekki þess eðlis að hægt væri að mynda þau, rækta af þeim sýni eða mæla hita þurfti ég að leggjast í talsverða vinnu við að finna út úr þeim og læra um þau. Læra á þau. Um hálfu ári eftir að þessi grunur kviknaði var ég svo greindur með geðhvarfasýki 2 (Geðhvörf 2, Bipolar II, Bipolar affective disorder type 2). Já og reyndar ekki. Jú og kannski.

Ef þetta síðasta hljómar dálítið ruglingslega er það vegna þess að það er það. Þessi smitrakning mín var langt og flókið ferðalag, og úrvinnslan ennfremur. Því svipar kannski til þess sem gerist í epískum ævintýrum. Ég þurfti að ráða í óræða texta, leita uppi dulspekinga, uppgötva leyndardóma og hérumbil berjast við dreka. Í ferlinu ræddi ég einmitt við þrjá geðlækna sem hver um sig hafði sitt að segja – og þeir eru þá samtals orðnir fimm geðlæknarnir sem ég hef talað við um ævina til viðbótar við allavega fimm sálfræðinga, nokkra geðhjúkrunarfræðinga og svo heimilislækna. Allt nokkurskonar seiðkarlar, vatnadísir, álfar og aðrir vættir í mínu ævintýri.

Til viðbótar við allt þetta fagfólk las ég það árið einar átta bækur um geðhvörf (ofan á álíka margar um sambönd og hjónabönd), horfði á bilinu fimm til átta heimildamyndir og -þætti, hlustaði á þónokkur hlaðvörp og las og hlustaði á viðtöl í blöðum, sjónvarpi og útvarpi. Mikilvægast mér í þessu öllu voru þó sögur og frásagnir fólks sem hefur sjálft glímt við geðhvörf og aðra erfiðleika. Fólk sem hefur opnað sig og auðmýkt sig, hvort sem er í bókum, heimildamyndum, blaðagreinum eða öðru, frammi fyrir því að vera ekki alltaf við stjórnvölinn. Sérstklega dýrmætt var mér að ræða í persónu við fólk sem ég þekki og hefur þurft að kljást við geðslag sitt og eins fólk sem ég hef verið samferða í lífinu sem ég held að ástand mitt hafi bitnað á, án þess að nokkurt okkar hafi skilið af hverju. Fjölskylda, vinir, kennarar, samstarfsfólk og þess háttar. Vinnan hefur ekki stoppað síðan. Bæst hefur við sálfræðitíma, bókalestur, heimildamyndir, hlaðvörp og samtöl.

För mín hófst einmitt með persónulegri frásögn annarar manneskju, svo þetta form er mér bæði kært og mikilvægt. Á meðan ég var við störf í leiklistarskólanum sem ég minntist á hér að ofan fór fram einn af fjölmörgum árveknisdögum um allskonar málefni. Þessi er haldinn af bresku geðræktarsamtökunum Mind og ber heitið Time to talk. Eins og heitið gefur til kynna eru einstaklingar hvattir til að nýta daginn í að tala um líðan sína og geðheilsu. Ein þeirra sem nýtti daginn var Mig Walsh, vinkona mín, samstarfskona og aðalkennari ljósadeildar leiklistarskólans. Hún er greind með Bipolar 2 og hefur talað mjög opinskátt um sína glímu í mörg ár – nokkurskonar geðræktarhetja í tæknigreinum bresks leikhúss. Til að sýna henni stuðning og nemendum hennar sem ég var að vinna með að umræða af þessu tagi er eðlileg ákvað ég að stilla inn á spjallið hennar þetta kvöld, sem hún hélt í beinni útsendingu á Facebook. Mér lá samt ekkert á. Mér seinkaði á heimleiðinni, fékk mér kvöldmat og spjallið hafði ábyggilega verið í gangi í hálftíma eða klukkutíma þegar ég loksins stilli inn á það í símanum. Ég hélt jafnvel að ég hefði misst af því. En svo var ekki svo ég lét það malla á meðan ég braut saman þvott og snikkaði til heimavið. Inni á milli skaut ég til hennar spurningum, mest til að sýna virka þátttöku í umræðunni, en líka af persónulegum áhuga. Ég var vel meðvitaður um að ég ætti sjálfur við ýmislegt að etja þó ég hefði ekki nafn yfir það eða hefði séð nokkurt munstur í því. Í besta falli leit ég á sem svo að ég hefði glímt við þunglyndi á unglingsárum, en af eðlilegum ástæðum. Hormónum. Gelgjunni. Sem afleiðingar lyfjanotkunar eftir stóra aðgerð á baki sem ég fór í 12 ára gamall. En það væri nú aldeilis að baki. Hún lýsti upplifun sinni og til að byrja með hljómaði hún kunnuglega. Áfram heldur spjallið og hún lýsir viðmóti sem hún fékk þegar hún leitaði sér hjálpar. Aftur tengdi ég, en samt ekki. Enn heldur spjallið áfram og smám saman hrannast upp allskyns sögur sem hefðu allt eins geta verið sögur af sjálfum mér. Ég staldra við, læt þvottinn eiga sig og hlusta af athygli. Það skyldi þó ekki vera?

Ég hef lagt allt hvað ég get á mig til að reyna að átta mig á þessu ástandi mínu – og ekki af ástæðulausu. Úrræðaleysið í geðheilbrigðismálum er töluvert, jafnvel þó það fari óðum batnandi, auk þess sem við þurfum öll að bera ábyrgð á heilsu okkar. Bættan árangur í geðheilbrigðismálum má einmitt einkum þakka þessu fólki sem opnar sig af hreinskilni um sína líðan og tekur á henni af alvöru, þ.e. þau sem eru fær um það því sumum hamla veikindi meira en svo. Þeim mun frekar að við opnum okkur, þau sem eru til þess bær. Ég fæ þessu fólki seint fullþakkað en get þó lagt mín lóð á vogarskálarnar með því að segja brot af minni sögu. Þetta blogg er mín saga, um mín veikindi. Ég kýs að kalla það mypolar. Ég fékk svo misvísandi upplýsingar frá mismunandi fólki, það er svo margt sem er einstaklingsbundið við bipolar og svo líður mér ekki alltaf eins og ég „sé nógu veikur“ til að það eigi við mig eða „eigi það skilið“ að fá að nota þessa greiningu, að mér þykir þetta heiti viðeigandi.

Það er ekki síst þess vegna sem ég afréð snemma í mínum bata að skrifa um mína reynslu. Sú persónulega reynsla annarra sem ég fékk að kynnast var, sem fyrr segir, eitt það mikilvægasta í leit minni að betra lífi. Meðal þess sem ég hef lesið á henni er að maður eigi að læknast með látum svo aðrir þurfi ekki að þjást í hljóði. Upplýsingar og frásagnir gagnast fólki svo mismikið. Sumum henta fræðibækur, öðrum leiknir sjónvarpsþættir og þar fram eftir götunum. Sjálfum mér hefur gagnast best að viða að mér upplýsingum og innsýn úr mörgum ólíkum áttum. Þess vegna vona ég að mín upplifun geti lýst einhverjum á sinni leið.

Þessi skrif eru þó ekki í fyrsta skipti sem ég tala opinskátt um veikindi mín. Á þessari vegferð hef ég talað við fjölskyldu, vini, kunningja, samstarfsfólk, nemendur, starfsfólk og jafnvel ókunnuga – fyrir utan auðvitað sálfræðinginn minn og geðlækna.

Fyrst um sinn fannst mér gífurlega erfitt að opna mig en eins og með hverja aðra þjálfun verður það auðveldara í hvert sinn. Þess utan hef ég almennt talað fyrir bættri geðheilsu – jafnvel löngu áður en ég kafaði almennilega í mína eigin. Einn lauslega tengdur kunningi kom að máli við mig og þakkaði mér fyrir að ljá máls á þessu „á vinnustaðnum“ (ef svo má segja um starfvettvang þar sem flestir eru sjálfstætt starfandi einyrkjar). Konan hans hafði gengið í gegnum erfiða tíma sem höfðu áhrif á hann og honum fannst hann ekki geta snúið sér neitt. Umræðan sem ég opnaði var honum hvatning.

Fyrst um sinn ætlaði ég bara að tilkynna mínum nánustu um ástandið á mér, varpa kannski einhverju ljósi á fortíðina, útskýra einkenni og viðbrögð en láta svo þar við sitja. Í sumum tilvikum urðu þetta drykklangar kvöldstundir og jafnvel nokkur kvöld. Ég viðurkenni reyndar að í sumum tilvikum var ákafinn kannski full mikill; ég talaði af elju, deildi fjölmörgum færslum um vellíðan á samfélagsmiðlum og svo framvegis – en fékk blessunarlega ábendingar um það og dró úr. Að endingu allavega. Úr þessu hefur svo komið að þau sem ég hef talað við hafa smám saman opnað sig á móti. Tengsl mín við fjölskyldu, vini og fólkið mitt allt hafa dýpkað. Fjölskyldan mín hefur reynst mér ótrúlega vel. Sumir vinir mínir voru hikandi í fyrstu samtölum en fóru svo sjálfir að brydda upp á þeim. Þegar ég spurði einn vin hvort að þetta væri nokkuð orðið of mikið svaraði hann neitandi. „Þú ert sá eini okkar sem ert eitthvað að vinna í þessu“ og átti við að ég væri sinn helsti aðgangur að heimi sjálfsvinnu. Starfsmanneskja mín sagði að vinnustaðurinn sem ég rek væri besti vinnustaður sem viðkomandi hefði unnið á, hvers umhverfi ég tel mig hafa skapað með hliðsjón af minni sjálfsvinnu. Samskipti og meðlíðan er mér mun opnari heimur en áður. Ánægjulegast hefur verið að margir karlkyns vinir mínir hafa galopnað sig í veröld þar sem það hefur í besta falli þótt feimnismál en mun oftar mætt fordómum. Nú nýlega leitaði ég á náðir vina minna og bjó til bandalag, svo við getum hringst á þegar við lendum í krísu. Vissulega er það ég sem hef þurft mest á því að halda en þó ekki eingöngu. Þetta hefur reynst ein besta hugmynd sem ég hef fengið. Loks má nefna það sem klifað er á en virðist seint ætla að bíta. Andleg heilsa karlmanna hefur löngum verið bágborin og skýrasta dæmið um það er að sjálfsvíg eru helsta dánarorsök karlmanna á bilinu 20-35, eða þar um bil, á heimsvísu.

Með allt að ofansögðu í huga; þess vegna segi ég frá.

Athugasemdir

Færðu inn athugasemd